Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:32:58 (3354)

2003-12-13 11:32:58# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:32]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var að reyna að segja er þetta: Annars vegar er um að ræða bara bein útgjöld sem falla á ríkissjóð á næsta ári eða næstu árum, og þau eru mjög óveruleg vegna þess að það eru bæði plúsar og mínusar. Menn geta séð útgjöld upp á 3--6 millj. vegna tiltekinna atriða í frv. en síðar koma til frádráttar aðrir þættir sem leiða til lækkunar.

Hinn þátturinn, lífeyrisskuldbindingar sem falla til á löngu árabili, er ágiskunarefni. Lífeyrisskuldbindingarnar eru reyndar háðar mjög mörgum mismunandi forsendum. Við sáum það til að mynda þegar sveitarfélögin samþykktu kjarasamninga kennara. Það var ekki reiknað út fyrr en löngu seinna að vegna þeirra samninga féllu lífeyrisskuldbindingar á ríkið sem námu mörgum milljörðum króna í einu vetfangi. Ríkið var ekki kallað til vegna þeirra samninga. Hv. formaður allshn. hefur leitað eftir því að fá einhvers konar mat tryggingafræðinga í þessum efnum. Við skulum vona að það berist sem allra fyrst inn í umræðuna.