Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:37:59 (3360)

2003-12-13 11:37:59# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:37]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson telur að ég hafi sem formaður allshn. sýnt af mér mikla óbilgirni við afgreiðslu málsins í nefndinni. Þá vil ég bara draga það fram í hverju óbilgirni mín fólst að mati þingmannsins þannig að það sé þingheimi alveg ljóst. Hún fólst í því að leggja til að frv. færi úr nefndinni í því formi hvað álag til formanna stjórnmálaflokkanna snertir sem þingmaðurinn sjálfur lagði til í upphafi sem meðflutningsmaður frv. Hann hefur nú opinberlega greint frá því að hann hafi verið meðflutningsmaður á frv. sem hann var efnislega ósammála. Hvernig á maður síðan að koma hér upp og standa undir því að maður hafi sýnt af sér óbilgirni með því að halda þingmanninum að frv. eins og hann lagði það sjálfur fram? Ég verð að segja að maður stendur algerlega á gati gagnvart þessari umræðu og ég held að þetta skýri sig allt sjálft þegar menn kynna sér málið.