Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:50:59 (3372)

2003-12-13 11:50:59# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:50]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að skýra afstöðu mína til málsins í ljósi stöðu þess eins og það er nú og mæla fyrir brtt. sem ég flyt á sérstöku þskj.

Þegar verið er að gera breytingar á eftirlaunum æðstu embættismanna þjóðarinnar er eðlilegt að forsn. flytji slík mál. Til mín var því leitað sem fulltrúa í forsn. um meðflutning á frv. Um frv. sem lúta beint að þingmönnum sjálfum þarf að nást þverpólitísk samstaða. Því er eðlilegt að auk fulltrúa í forsn. hafi verið leitað til fulltrúa þess flokks sem ekki á sæti í forsn.

Ég er hlynnt því meginefni frv. að samræma og steypa í ein lög ákvæðum um lífeyris- og eftirlaunaréttindi æðstu handhafa löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds. Ákvæði um að opna þann möguleika að þeir sem hafi staðið mjög lengi í eldlínu stjórnmálanna geti farið nokkru fyrr á eftirlaun en áður hefur verið tel ég sömuleiðis skynsamlegt. Ég legg áherslu á að þar er aðeins verið að tala um tilvik sem eðli málsins samkvæmt eru sárafá.

Um það má hins vegar deila hvar setja eigi viðmiðunarmörk af þessu tagi, bæði hvað varðar aldur og upphæðir. Stuðningur minn við þetta frv. og meginefni þess veldur því að ég stend að flutningi þess með þremur öðrum félögum mínum úr forsn. og undir forustu forseta þingsins, Halldórs Blöndals. Með því að standa að flutningi málsins og sjá til þess að það komist til umfjöllunar á Alþingi var ég að leggja því lið að málið kæmist á dagskrá og fengi þinglega meðferð. Ég hafði hins vegar, eins og aðrir hv. þm., afar skamman tíma til að skoða einstök efnisatriði málsins og hafði reyndar strax fyrirvara á nokkrum þeirra. Það voru mér því mikil vonbrigði að ekki tókst í allshn. að ná samstöðu um afgreiðslu málsins og gera á frv. breytingar sem sættu menn betur við efni þess og lægði öldur í kringum málið.

Ég tek undir það efni í nál. meiri hluta hv. allshn. þar sem nefndin leggur jafnframt áherslu á að tekið verði til athugunar hvort gera skuli breytingar á lögum um Kjaradóm þannig að hann geti framvegis ákvarðað álag á þingfararkaup í stað þess að sú ákvörðun sé í höndum þingmanna sjálfra. Ég tek undir það álit meiri hluta allshn. að það sé eðlilegt að Kjaradómur ákveði samkvæmt gildandi lögum um þingfararkaup einnig kjör þingmanna í heild sinni. Undir þetta tek ég. Ég tel rétt að allir þeir þættir sem snúa að grunnlaunum og þá álagsgreiðslum séu á sömu hendi og það verði skoðað hvort ekki sé rétt að flytja þetta til Kjaradóms.

Ég tel einnig mikilvægt að það verði skoðað hvernig kjörum æðstu embættismanna annars staðar á Norðurlöndunum sé háttað og hvernig greiðslur til þeirra fari fram, ekki eingöngu að upphæðir séu bornar saman heldur hvaða fyrirkomulag sé á greiðslum til æðstu embættismanna annars staðar á Norðurlöndunum og að við tökum tillit til þess í okkar lagaumhverfi.

Frú forseti. Ég hef því ákveðið að flytja brtt. við það atriði sem varðar álag á laun til forustumanna stjórnmálaflokkanna, þeirra sem ekki eru jafnframt ráðherrar. Meiri hlutinn leggur til að fallið verði frá hugmyndum um að hækka álagsgreiðslur til forustumanna fastanefnda úr 15% í 20% og tel ég það rétt. Varðandi þetta ákvæði í frv. tel ég að um of sé verið að auka launabilið milli þingmanna og því er ég mjög sátt við þessa brtt. Fyrir því eru vissulega rök að óeðlilegt geti talist að forustumenn stjórnarandstöðu á hverjum tíma, sem þetta atriði snýr yfirleitt fyrst og fremst að, fái ekki slíkt álag á laun þegar allstór hópur þingmanna og ráðherra fær slíkar kaupgreiðslur. Ég tel þó réttast að fallið verði frá þessum áformum að sinni og Kjaradómi verði falið að meta þetta atriði sérstaklega. Til vara flyt ég tillögu um að þetta álag verði lækkað til jafns við það sem formenn þingnefnda og formenn þingflokka og forsætisnefndarmenn fá samkvæmt gildandi lögum og gerð er tillaga um í brtt. meiri hluta allshn. að verði áfram. Ég tel mikið álitamál hvort slíkar álagsgreiðslur til formanna stjórnmálaflokkanna eigi að koma í gegnum þingið og hvort ekki sé rétt að skoða það mjög gaumgæfilega hvort slíkar greiðslur, við getum kallað það álagsgreiðslur, komi ekki sérstaklega í gegnum framlög til stjórnmálaflokkanna og að við eflum lýðræðið og lýðræðisumræðu í landinu og styrkjum stöðu formanna stjórnarandstöðuflokkanna með þeim hætti að auka framlög til stjórnmálaflokkanna og þannig efla það lýðræði sem við viljum búa við. Ég tel að þar megum við læra mikið af nágrannalöndum okkar og það sé að mörgu leyti til vansa hvernig búið hefur verið að stjórnarandstöðuflokkunum fram að þessu. Okkur ber að efla allt það sem lýtur að frjálsri umræðu og það gerist í gegnum stjórnarandstöðuflokkana á hverjum tíma. Ég tel því rétt, miðað við að ekki náðist um þetta samkomulag í allshn., að ég geri við frv. brtt. en ég tel rétt að skoða þetta vel og hafa til samanburðar það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum.

Frv. hefur bæði kosti og galla en ég met það svo að lífeyrissjóðsbreytingin vegi þyngra en aðrar breytingar sem fram koma í frv., bæði til lækkunar og hækkunar lífeyrisréttinda og eins hvað varðar álagsgreiðslur þingmanna. Á þeim forsendum var ég meðflm. forsn. en að sjálfsögðu á frv. að fá eðlilega þinglega meðferð og að unnið verði að því nú við 2. umr. að ná sátt um ýmsa þætti sem umdeildastir eru í frv.

Frú forseti. Það var alveg ljóst frá upphafi, frá því að ég fékk frv. fyrst í hendurnar, á miðvikudaginn var --- og það á við um aðra þingmenn í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs --- bæði hvað varðar undirbúning að frv. og eins eftir að málið kom inn til þingflokksins að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mundi aldrei standa að afgreiðslu frv. óbreyttu. Það var einnig ljóst að algjör andstaða var við frv. í okkar röðum þannig að það á ekki að koma neinum á óvart. Þingflokkurinn gaf aldrei fyrirheit um að styðja frv. í óbreyttri mynd, eða styðja frv. yfirleitt. Eins og ég lýsti í upphafi gerði ég þetta sem fulltrúi í forsn. og á þeirri forsendu sem ég lýsti hér áður.

Frv. er að nokkru leyti byggt á því fyrirkomulagi sem viðhaft er í nágrannalöndum okkar, þ.e. þeim löndum sem næst standa að stjórnmálahefðum og stjórnskipan. Ég tel að það sé ámælisvert að vinna ekki þverpólitískt að breytingum á kjörum æðstu embættismanna ríkisins og þá er ég að vísa til þess að ég tel þennan aðdraganda að frv. ámælisverðan. Sem þing eigum við að viðhafa þau vinnubrögð að geta skipað nefnd --- það má vera í upphafi kjörtímabils --- sem hefur það formlega hlutverk að skoða kaup og kjör. Hún getur unnið í fullum trúnaði en hún á ekki að skila af sér fyrr en nokkur sátt er orðin innan nefndarinnar og auðvitað á að gefa sér tíma í hinu hv. Alþingi til að fjalla svo um þær tillögur sem koma frá nefndinni. Hér á aldrei að vera nein launung á ferð. Allt á að vera opið og við eigum að vera menn til að taka þeirri gagnrýni sem fram kemur og gera þær breytingar ef þarf við vinnslu málsins. Auðvitað er best að öll ákvæði um kaup og kjör séu ekki í höndum þingsins. Þá er ég að tala um þessar álagsgreiðslur. Ég teldi best að þær væru í annarra höndum. Það þarf að gefa sér tíma til að fara yfir kostnað og samanburð á tillögum sambærilegra kjara annars staðar á Norðurlöndunum og skoða hvernig þessum málum er þar fyrir komið.

Frú forseti. Ég mun í samræmi við þá meginafstöðu sem ég hef hér lýst greiða hinni almennu kerfisbreytingu atkvæði, þ.e. styðja greinar 1--22 með þeirri undantekningu þó að ég mun sitja hjá við ákvæði 6. gr. Um þá grein hef ég haft fyrirvara frá upphafi. Afdrif brtt. minnar við 22. gr. munu svo ráða úrslitum um endanlega afstöðu mína til málsins.