Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 12:05:57 (3374)

2003-12-13 12:05:57# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[12:05]

Þuríður Backman (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt að ég hefði tekið það alveg skýrt fram í upphafi að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs veitti þessu máli aldrei brautargengi. Það kom aldrei samþykkt frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það var vitað frá upphafi, við undirbúning þessa máls. Það er þó alveg ljóst að formaður þingflokks Vinstri grænna kom að því máli en ég ætla ekki og get ekki fyrir hans hönd rætt það á hvaða stigi hann skildi við málið. Þegar það kom fullbúið í mínar hendur þennan sama dag og það var kynnt í þingflokkunum var alveg ljóst að það yrði aldrei stuðningur við málið í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það var alveg ljóst enda kom enginn stuðningur frá þingflokksfundinum. Aftur á móti tók ég þá ákvörðun að vera meðflutningsmaður á þeim forsendum sem ég gerði sem fulltrúi í forsn. til að fá umfjöllun um málið í þinginu enda erum við að fjalla um það núna og höfum möguleika á að breyta því. Ég er hlynnt þeim kerfisbreytingum að færa lífeyrissjóðsgreiðslurnar og að koma þeim úr þeim sérsjóðum sem þeir voru í og færa lífeyrisréttindi alþingismanna vegna æðstu embættismanna þjóðarinnar undir einn hatt. Það vita þeir sem óskuðu eftir því að forsn. öll var með. Það var minn stuðningur við frv. en fyrirvari við aðra þætti.