Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 12:27:47 (3382)

2003-12-13 12:27:47# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[12:27]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. talaði um uppnám í Samf. og setti eitthvað út á vinnubrögð hennar. Það sem er alvarlegt í þessu máli eru vinnubrögð stjórnarmeirihlutans sem myndast í þessu máli og hvernig hann hélt á sínum málum í nefndinni. Það er alveg ljóst að málið var ekki kostnaðargreint sem er algjörlega óásættanlegt af hálfu Samf., hraðinn var þar slíkur að það kallaði á að menn vissu nánast ekki hvað þeir væru að samþykkja ef þeir ætluðu að keyra þetta núna í gegnum þingið. Þess vegna bað Samf. strax á fyrsta fundi allshn. um að málið yrði skoðað ítarlega enda er þetta grundvallaratriði sem við eigum að vanda okkur við. Síðan er rétt að taka fram að framlagning máls þýðir ekki að flm. fái svokallaða ,,blankó`` ávísun um málið. Hin eðlilega þingmeðferð er að málið fái umræðu í nefndinni og taki væntanlega breytingum sem flm. eru oftar en ekki flm. að.

Að lokum er rétt að það komi hérna fram að í nefndinni, allshn. sem ég sat í, gerði minni hlutinn fjölda athugasemda varðandi efnisatriði frv. Það voru gerðar athugasemdir um hvort þingmenn gætu fengið tvöfalt álag, um hvernig Kjaradómur ætti að koma að þessu og hvernig við ættum að haga þessu með iðgjaldið. En það er alveg ljóst að það voru tvö efnisatriði sem stjórnarmeirihlutinn, fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni sagði að það mundi brjóta á og það voru þau ákvæði sem snertu formann þeirra, Davíð Oddsson, hv. þm. og hæstv. forsrh. --- þeir sögðu að 80% reglu forsrh. og 55 ára reglu forsrh. yrði ekki haggað. Það er rétt í málinu og þeir sögðu að það mundi brotna á þessu. (KHG: ... forsrh. ...)