Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 13:35:12 (3396)

2003-12-13 13:35:12# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, StP
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Steinunn K. Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Það frv. sem nú er til umræðu hefur valdið hörðum viðbrögðum úti í samfélaginu en einnig á göngum Alþingis. Frá upphafi var afstaða mín ljós: Ég get ekki samvisku minnar vegna stutt þessar gífurlegu kjarabætur sem þingmenn, og sérstaklega ráðherrar í þessari ríkisstjórn, ætla að skammta sjálfum sér í skjóli myrkurs í svartasta skammdeginu rétt fyrir jólin. Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna embættismenn þjóðarinnar þurfa á sérkjörum að halda hvað varðar eftirlaunaréttindi, sérkjörum sem almenningi, kjósendum, er ekki ætlað að njóta. Þeim ellilífeyrisþegum sem unnið hafa á hinum almenna vinnumarkaði alla sína starfsævi, er gert að framfleyta sér með smánarlegum lífeyri í samanburði við það sem hér um ræðir, upphæðum sem aðeins er örsmátt brot af því sem embættismönnum verður greitt nái þetta frv. að verða að lögum í óbreyttri mynd.

Ég get ekki, herra forseti, annað en velt því fyrir mér hvers vegna þau lífeyriskjör sem öðrum landsmönnum eru búin séu ekki nægjanlega góð fyrir þá sem í þessum sal sitja og starfa. Séu lífeyrisréttindi annarra það lök að þau séu til að mynda ráðherrum ekki samboðin, er þá ekki rétt að bæta þau kjör þannig að allir megi sáttir við una? Er virkilega þörf á því að embættismenn safni í digra sjóði eftir að vinnudegi þeirra lýkur? Ég get ekki skilið hvers vegna þeir sem margföld laun verkamanna hafa á starfsævi sinni þurfi á enn meira fé að halda eftir að þeir setjast í helgan stein, herra forseti. Maður skyldi ætla að þeir sem um ræðir í þessu frv. ættu að hafa tök á því að leggja fyrir til elliáranna.

Komið hefur fram að fyrrv. þingmönnum og ráðherrum gangi illa að fá önnur störf eftir að þingsetu lýkur og að því sé brýnt að þeir geti hafið töku eftirlauna fyrr en almennt gerist. Ætla má að þeim 200 starfsmönnum Landspítalans sem nú standa frammi fyrir því að verða atvinnulausir muni einnig ganga illa að fá önnur störf. Nýlega var rúmlega 100 starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli sagt upp störfum og þeir missa lifibrauð sitt nú eftir áramótin. Síðustu mánuði höfum við fengið stöðugar fregnir af fiskvinnslufólki í þorpum úti á landi sem hefur verið að missa vinnuna. Þetta eru bara nokkur dæmi. Hvar á allt þetta fólk að fá vinnu? Til hvaða ráða getur þetta fólk gripið, fólk sem stefnir nú hraðbyri í atvinnuleysi, virðulegi forseti? Því er auðsvarað fyrir hönd þeirra sem ekki fá vinnu: Það fólk neyðist til að skrá sig atvinnulaust hjá vinnumiðlun og þiggja bætur, heilar 77.449 kr. á mánuði, þar til önnur störf bjóðast. Það væri kannski athugandi fyrir fyrrverandi þingmenn og ráðherra að kanna þann möguleika, herra forseti, eigi þeir í erfiðleikum með að finna önnur störf.

Á hinn bóginn sætir það furðu minni að fólk sem hefur þingreynslu skuli ekki vera eftirsóttara á vinnumarkaðnum en raun ber vitni. Þarna er á ferðinni fólk með dýrmæta reynslu, mikla innsýn í þjóðfélagsmál, fyrir utan að vera mjög frambærilegt, langflest a.m.k., vel máli farið og svo mætti lengi telja. Ég tel að þarna séu sóknarfæri fyrir mörg fyrirtæki í einkageiranum að finna bæði hæfa og dýrmæta starfskrafta sem vert væri að skoða nánar. Hér á landi er nánast litið á fyrrum þingmenn sem holdsveikir væru og það er með ólíkindum að þeir skuli ekki geta fundið sér störf á almennum vinnumarkaði en verða í staðinn nánast að sníkja út störf á vegum ríkisins meðal sinna gömlu kollega í pólitík, eins og langleiðina er viðurkennt í greinargerðinni sem fylgir þessu makalausa frv.

Herra forseti. Ég furða mig á því að hér á landi skuli fyrrverandi stjórnmálamenn ekki njóta dýrmætrar reynslu sinnar sem fulltrúar þjóðarinnar á hinu háa Alþingi þegar kemur að samkeppni um störf á hinum almenna vinnumarkaði. Mér er kunnugt um að á meðal nágranna okkar á Norðurlöndunum sé álitið eftirsóknarvert meðal fyrirtækja að njóta starfskrafta þeirra sem setið hafa á þingum viðkomandi þjóða. Fyrrverandi stjórnmálamenn eru taldir búa yfir einstakri reynslu og fyrirtæki sjá sér hag í að njóta starfskrafta þeirra og ráða, enda er það svo, herra forseti, að með réttu er oftast um mjög frambærilega einstaklinga að ræða sem búa yfir góðum hæfileikum. Og þeir búa einnig yfir reynslu og þekkingu.

Ég ítreka enn og aftur að forkólfar í íslensku atvinnulífi ættu í auknum mæli að beina, fordómalaust, sjónum sínum að þeim sem setið hafa og sitja á hinu háa Alþingi í leit sinni að góðum starfskröftum til framtíðar.

Herra forseti. Lagt er til í þessu frv. að hækka laun þeirra formanna stjórnmálaflokka sem ekki gegna ráðherraembætti um 50%, um tæpar 220 þús. kr. á mánuði, eða rúmlega 2,6 millj. kr. á ári. Þessar kjarabætur eru að mínu mati, herra forseti, fyrir neðan allt velsæmi. Krefjist launþegar örfárra prósentna launahækkana í kjaraviðræðum sínum er þeim sagt af forkólfum núverandi ríkisstjórnar og fólki á þeirra vegum að þá fari allt á annan endann. Mér þykir fróðlegt að ekki skuli vera útlit fyrir kollsteypur við þessar kjarabætur til valinna alþingismanna sem merkilegt nokk eru einnig formenn flokka sinna.

Því er ekki að leyna að formaður míns flokks, Guðjón A. Kristjánsson, mundi njóta góðs af þessari hækkun. Mín skoðun er hins vegar sú að með þessari tillögu sé Alþingi að hlutast til um innra starf flokks míns og tel ég það óeðlilegt. Eðlilegra þætti mér að hver og einn þingflokkur tæki ákvörðun um álagsgreiðslur til formanna sinna og stæði sjálfur straum af þeim kostnaði, eftir því sem efni og aðstæður leyfðu, í stað þess að lög væru sett um það á Alþingi að láta skattgreiðendur borga brúsann.

Það er ekki hlutverk Alþingis að launa forustufólki einstakra stjórnmálaafla. Miklu frekar ætti Alþingi að auka fjárframlög til stjórnmálaflokka og jafnframt skylda þá með lögum til að opinbera reikninga sína. Þá væri komið á þörfu aðhaldi gegn því að stjórnmálaflokkar létu þrönga hagsmunahópa eða fyrirtæki með annarleg markmið styðja sig með milljónagjöfum eins og grunur leikur á að eigi sér stað í dag. Opinberun bókhalds flokkanna mundi einnig leiða fyrir sjónir kjósenda hvort forustumenn þeirra nytu einhverra fríðinda, og þá hverra. Það er sjálfsögð krafa í opnu lýðræðisþjóðfélagi að stjórnmálaflokkar opinberi reikningsskil sín. Frjálsl. hefur gert þetta frá upphafi. Við höfum ekkert að fela, herra forseti, og við höfnum því að stjórnmálamenn geti umbunað sjálfum sér á kostnað skattborgaranna með jafnósvífnum hætti og stefnir í að raunin verði nú með þessu umdeilda frv. sem mér sýnist á öllu að verði að lögum innan fárra daga. Ég mun ekki greiða þessu frv. atkvæði mitt.