Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 13:57:05 (3403)

2003-12-13 13:57:05# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði sérstaklega hvort hv. þm. væri þeirrar skoðunar að þetta ákvæði frv. um að gera embætti forsrh. jafnsett embætti forseta Íslands, nema að því leytinu að greiðslurnar væru helmingi lægri vegna þess að launin sem miðað er við eru helmingi hærri hjá forsetanum, væri eðlilegt. Telur hann eðlilegt eða óeðlilegt að færa þetta hlutfall til jafns við hlutfall forsetans? Svar hv. þingmanns var það að hann teldi að báðir ættu að greiða inn í lífeyrissjóði. Ég vil þá spyrja hv. þingmann hvort vænta megi við þessa umræðu eða þá við 3. umr. breytingartillagna í þá veru að hverfa frá þessu fyrirkomulagi líka hjá forseta Íslands eða hvort hv. þm. telur eðlilegt að þau mál séu einfaldlega ekki rædd í samhengi.