Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 14:36:29 (3426)

2003-12-13 14:36:29# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, LB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Fróðlegt hefur verið og eftirtektarvert að sitja í salnum í dag og hlýða á þá umræðu sem hér hefur farið fram. Við það kemur manni kannski í reynd ekki neitt á óvart að á sveimi í samfélaginu séu miklar ranghugmyndir um það frv. sem við ræðum. Og það er sá veruleiki sem er einfaldlega staðreynd, því miður, og e.t.v. er það sökum þess að þingið hefur ekki staðið sig í umræðunni. Þingið hefur ekki verið að ræða grundvallaratriði. Þingið hefur ekki verið að ræða hvers vegna þingmenn og ráðherrar eiga að hafa betri eftirlaunakjör en aðrir. Þingið hefur ekki verið að ræða þau grundvallaratriði, heldur hafa menn komið hér upp hver á fætur öðrum, æpt og gólað svik og annað í þeim dúr þar sem því miður málflutningur framsóknarmanna hefur verið þesslegur að ekki er einu sinni ástæða til að víkja að honum í umræðunni. Hann hefur verið svo skelfilegur.

Hingað hafa hv. þingmenn komið hver á fætur öðrum og lýst því yfir að samkomulag hafi náðst sem síðan hafi verið svikið. Enginn þessara hv. þm. var á vettvangi, enginn þeirra er aðili að þessu samkomulagi. Enginn þeirra hv. þm. veit nokkuð um hvað fram fór nema einhverjir hafi sagt þeim eitthvað. Af hverju taka menn svona stórt upp í sig? Af hverju dæma menn svona hart án þess að hafa í reynd nokkuð fyrir sér? Það er alveg með hreinum ólíkindum hvernig menn hafa hegðað sér og margir hverjir, virðulegi forseti, hafa að mínu viti frekar litið á þetta sem einhvers konar Morfís-keppni í stað þess að fjalla um málið. Ég held að tveir þingmenn sem ég hef hlýtt á, og hef þó setið hér í allan dag, hafi fjallað um og gert mjög vel grein fyrir afstöðu sinni. Það er hv. varaþm. Steingríms J. Sigfússonar, Hlynur Hallsson, og eins hv. þm. Steinunn Pétursdóttir sem gerði vel grein fyrir máli sínu. Aðrir hafa einnig gert það og ætla ég ekki að gera lítið úr því. En þau ræddu grundvallaratriðið og þau ræddu af hverju þau væru á móti þessu. En það hefur verið alveg skelfilegt að hlýða á marga hv. þingmenn.

Spurningin sem við stöndum kannski frammi fyrir er hvort það sé einfaldlega herkostnaðurinn af lýðræðinu að þurfa að greiða hv. þingmönnum og ráðherrum hærri eftirlaun en öðrum. Er það sökum þess að þegar menn gefa sig í störf eins og þessi taka menn afstöðu og eins og umræðan hefur verið eiga þeir oft og tíðum mjög erfitt um vik þegar þeir fara héðan út. Hv. þm. Steinunn Pétursdóttir fór einmitt ágætlega yfir þetta og benti réttilega á að víða annars staðar væri þetta öðruvísi. Það væri þannig að fyrrverandi hv. þingmenn væru margir hverjir mjög eftirsóttir í störf en svo er ekki hér. Kannski eru þetta viðbrögð við því að almenningsálitið er dálítið þannig að þeir sem hafa setið á Alþingi eru allt að því holdsveikir þegar kemur að því að fá vinnu í samfélaginu.

En það getur einnig verið spurning hvort þingmenn eigi bara ekki að standa eins og aðrir og njóta eftirlauna eins og aðrir og taka þá þátt í þeirri baráttu sem fram fer á vinnumarkaði. Í sjálfu sér hefur ekki mikil umræða farið fram um þetta sem er þó vitaskuld aðalatriðið, þ.e. hvers vegna þingmenn og ráðherrar eru með betri eftirlaunakjör en aðrir. Hver er forsendan fyrir því að þeir eru með slík kjör? Þetta er einmitt umræða sem hefði miklu frekar átt að fara fram heldur en þau ósköp sem margir stóðu fyrir.

Það er líka að koma fram sem við höfðum ekki áður, og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allshn., lagði fram og hafi hann þakkir fyrir það --- við fengum það hins vegar fram í allshn. að ekki væri hægt að leggja þessar tölur fram enda eru þær lagðar fram með miklum fyrirvara --- að það frv. sem við ræðum er fyrst og fremst ráðherrafrv. Verið er að auka mun milli þingmanna og ráðherra. Þetta er fyrst og fremst ráðherrafrv. Eru hv. þingmenn almennt þeirrar skoðunar að ástæða sé til að gera meiri mun á eftirlaunakjörum þingmanna og ráðherra? Og þá spyr maður einnig: Hvers vegna? Hvers vegna er nauðsynlegt að gera þennan mun? Ég held að nauðsynlegt væri, og við hefðum einmitt átt að nota tækifærið hér og nú, að ræða þessa hluti og gefa okkur tíma til þess. En þetta virkar dálítið á fólkið í landinu þannig að við séum að lauma þessu í gegn í skjóli nætur og það er ekki gott vegna þess að þetta er umræða sem þarf að fara fram. Þetta er umræða sem skiptir miklu máli fyrir lýðræðið, skiptir miklu máli fyrir stjórnmálin í landinu að þetta fari fram en alls ekki á þeim nótum sem hv. þingmenn Framsóknar hafa stundað hér, sem ég ætla ekki að víkja frekar að í máli mínu enda fyrir neðan öll velsæmismörk.

Við hljótum einnig að spyrja í þessu samhengi hvort ástæða sé til að menn hefðu rætt og gefið sér tóm til þess hversu lengi menn eiga að sitja í embætti. Ég held að það skipti líka miklu máli. Ef maður horfir á þá ríkisstjórn sem nú situr sem er alveg þorrin öllum hugmyndum og hugmyndafræði, þá er það spurning hvort eina forsendan fyrir setu hennar og samstarfs hennar sé sú að menn vilji halda í völdin valdanna vegna. Það er einnig mjög slæmt að menn komist ekki út úr starfi sínu ef menn vilja hætta.

Ég vil einnig lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að þeir sem hafa gegnt embætti forsrh. eigi að eiga möguleika á því að hætta með reisn. Það er skoðun mín. Ég tel að sá sem hefur gegnt embætti forsrh. í átta ár eigi að geta hætt með reisn. Það er klárlega skoðun mín. Ég held að Spaugstofan hafi tekið það ágætlega þegar hún setti það þannig upp að fjmrh. hefði verið rekinn úr starfi og hann mætti síðan þar sem hann var að gera grein fyrir sér á einhverri vinnumiðlun. Svarið var einfaldlega það að engin eftirspurn er eftir fjármálaráðherrum í vinnu.

Ég held, virðulegi forseti, að þó að þetta hafi verið sett upp með þessum hætti þá sé mikill sannleikur í þessu og þetta eigi ekki síður við um forsrh. Það er erfitt fyrir forsrh. við svipaðar eða sambærilegar aðstæður að ganga út. Ég segi einnig: Maður sem hefur gefið sig í vinnu fyrir þjóðina og menn geta haft hvaða skoðun sem er á því, viljum við sjá slíka menn ganga um, sækjandi um störf eða er það kannski lausnin hjá okkur að við mundum hóta þjóðinni því að fjölga sendiráðum svo við getum komið fleirum fyrir? (Gripið fram í: Formanni ...) Ég held að hv. þingmenn þekki það allir að þetta hefur verið gert og hefur ekkert verið bundið við neina tiltekna flokka. Þetta er í raun og veru það sem ég tel að umræðan hefði átt að snúast um, hefði átt að vera kjarni málsins. Það er sú umræða sem hefði átt að fara fram hér og við hefðum átt að vera óhrædd að taka hana. En því miður hafa menn valið þá leið að keyra þetta í gegn og gefið sér lítinn tíma til að ræða þau atriði sem eru kjarnaatriði sem hafa gert það að verkum að miklar ranghugmyndir eru á sveimi í samfélaginu um um hvað þetta mál snýst.

Því vil ég segja, virðulegi forseti, ég held að þessi umræða sé þörf, hún sé mjög mikilvæg og ég harma að þingið hafi ekki staðið sig í því að taka þá umræðu á þeim forsendum sem ég tel að hún hefði átt að fara fram á.