Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 14:47:02 (3428)

2003-12-13 14:47:02# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Kannski er ekki miklu við þá umræðu að bæta sem fram hefur farið í dag. Ég held þó að hún hafi þjónað þeim tilgangi að skýra nokkuð um hvað þetta mál fjallar. En mig langar aðeins, sem einn af flutningsmönnum þessa frv., að víkja örfáum orðum að aðdragandanum sem ég held þó að almenn sátt sé orðin um í þessum þingsal, herra forseti. Hann er sá að það var fullt samkomulag milli formanna stjórnmálaflokkanna um að leggja þetta frv. fram.

Meðal þeirra var líka full sátt um að það yrðu fulltrúar flokkanna í forsætisnefnd sem stæðu að flutningi þessa frv. En sá flokkur sem ekki á fulltrúa í forsætisnefnd, þ.e. Frjálsl., átti að standa að því líka og þar af leiðandi bættist sá þingmaður við.

Ég spyr mig, þegar ítrekað hefur komið fram í umræðunni að þetta samkomulag hafi legið fyrir: Um hvað var samkomulagið? Var það bara um að frv. skyldi lagt fram? Samkomulagið hlýtur að hafa verið um efnisatriði þess. Þá hlýtur maður að spyrja: Hver eru þau meginefnisatriði sem frv. lýtur að?

Frv. lýtur í fyrsta lagi að því að samræma eftirlaun forsrh. við hæstaréttardómara og forseta lýðveldisins. Það er eitt af meginprinsippunum í þessu máli. Það er eitt af prinsippunum sem meiri hluti allshn. vildi standa við og var ekki tilbúinn að breyta. Okkur fannst rétt að það væri samræmi í kjörum þessara manna.

Annað prinsippið var 55 ára aldursmarkið. Mér heyrist sem hv. þm. í þessum sal séu almennt sammála um það líka. Ég vil taka undir orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar þegar hann sagði að hann vildi að forsætisráðherra sem setið hefði í átta ár gæti hætt með reisn. Ég vil líka að þingmenn geti horfið frá sínum störfum með reisn en þurfi ekki að vera eins og beiningamenn og líða fyrir að hafa setið á þingi og haft þar skoðanir. Ég held að um þessi efnisatriði hafi verið nokkuð góð sátt í allshn.

Það var líka nokkur sátt um það í allshn., sem hlýtur að hafa verið eitt af þeim efnisatriðum sem formenn stjórnmálaflokkanna voru sammála um þegar þeir samþykktu að leggja frv. fram, að formennirnir ættu að fá 50% álag á þingfararkaupið.

Þetta eru þrjú eða fjögur helstu efnisatriði frv. Samkomulagið hlýtur að hafa gengið út á það. 50% álag til formanna stjórnmálaflokkanna. Hvað er það svo sem stendur út af borðinu í allshn.? Það vekur furðu. Annars vegar benda fulltrúar Samf., sem setið hafa á löngum fundum með öðrum í nefndinni, á hvað það er í frv. sem þau geta ekki sætt sig við. Við förum yfir frv. lið fyrir lið og reynum að ná sátt um það. Eins og brtt. bera með sér var sátt um öll þau atriði, a.m.k. fjögur atriði af þeim fimm, sem brtt. ganga út á. Hvað stendur þá út af borðinu, þegar samkomulag formanna flokkanna er um þetta 50% álag? Það sem stendur út af borðinu, að mér skilst eftir þessa umræðu og af málflutningi samfylkingarþingmanna í allshn., er fyrst og fremst það að málið þurfi að bíða vegna þess að kostnaðargreining liggi ekki fyrir.

Nú hefur hv. formaður allshn. greint frá þeim útreikningum sem beðið var um og þar kemur í ljós að við erum að tala um 0--7%. Mig langar að minna á að á fundi allshn. kom þetta skýrt fram. Ég spurði sérstaklega fulltrúa frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hvort það væri fyrirsjáanlegt, miðað við að verið væri að skerða rétt til makalífeyris, að þetta mundi auka skuldbindingar ríkisins. Hann sagði nei. Það er ekki fyrirsjáanlegt að þær hækki neitt. Það erum við einmitt að fá staðfest núna. Þetta heyrðu fulltrúar Samf. í allshn. alveg eins og við hin. En eins og ég hélt fram í andsvari fyrr í dag þá get ég ekki séð að neinn efnislegur ágreiningur hafi verið um þetta frv. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði hér, að ég skil Samf. mætavel. Hún á alla mína samúð fyrir að vera ekki samstæðari og fyrir þann þrýsting sem hún varð fyrir úti í bæ sem varð til þess að hv. þingmenn Samf. þorðu ekki að taka afstöðu til þessa frv.

Því hefur verið haldið fram af einhverjum úr þessum ræðustól fyrr í dag að þingmenn Samf. séu á móti málinu. Ég ætla ekki að útiloka það að aðrir en hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson styðji þetta frv. áður en upp er staðið. En af því sem þingmenn Samf. í allshn. sögðu mátti merkja að þeir höfðu ekki allan þingflokkinn á bak við sig í málinu. Það útilokar hins vegar ekki að fleiri en hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson greiði atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni. Eins og ég sagði áðan þá ætla ég ekki að útiloka að svo sé.

Fyrst og fremst fagna ég þessari umræðu. Ég vona að eitthvað af henni skili sér út í samfélagið og hún hafi orðið til að leiðrétta þann geysilega misskilning sem orðið hefur. Það eru ekki margir dagar síðan við lásum fyrirsagnir í einhverjum af prentmiðlunum um að þingmenn væru að tryggja sér 50% launahækkun. Hvaða kjör eru þingmenn að tryggja sér með þessu frv.? Þeir eru að tryggja sér launalækkun. Laun þingmanna eru að lækka um 1%. Ég vona að það nái eyrum þeirra sem hæst hafa haft um þessar geysilegu kjarabætur þingmanna.

Ein ástæðan fyrir því, þegar ljóst var að sundrung ríkti um þetta frv. og stjórnarandstöðuflokkarnir ætluðu eða ætluðu ekki, það var ekki alveg ljóst með suma þeirra, að standa við að afgreiða málið úr nefndinni, að ég lagði allt kapp á það að þetta frv. yrði afgreitt og kæmi til umræðu í þingsal var að gefa kost á að leiðrétta hinn mikla misskilning á efni þess. Það var ekki nokkur ástæða til að láta það liggja í nefnd eins og einhvern glæp eða eitthvað sem þingmenn og þingið þyrftu að skammast sín fyrir. Í frv. voru ákveðin meginprinsipp sem allir höfðu verið sammála um þegar það var lagt fram og í því voru engar kjarabætur til þingmanna og eru engar kjarabætur til þingmanna. Lífeyrissjóðsprósenta okkar, iðgjaldið í lífeyrissjóðinn var hækkað og það er að hluta til til að standa undir heldur betri lífeyriskjörum en aðrir fá.

Ég ætla ekki að gagnrýna innra starf flokkanna á þingi, hvernig einstakir flokkar vinna og hvernig þeim er stjórnað. Ég ætla ekki að fara út í slíkt. Ég sat á fundum allshn. og er ekki til vitnis um hverjir komu að málum, utanaðkomandi, til að stýra eða ekki að stýra þessum flokkum. Það leit samt einhvern veginn þannig út að fleiri en einn formaður stýrðu Samf., einn á dagvakt og annar á næturvakt, neyðarvakt eða hvað það skal kalla.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni en mér gefst kannski tilefni til að bregðast við andsvörum.