Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:01:26 (3433)

2003-12-13 15:01:26# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Þegar sýnt þótti að þjóð þeirri sem bjó í því landi sem kallað var Lýðræðislega lýðveldið Þýskaland og ríkisstjórn þess ríkis kom ekki saman og sýnt þótti að þjóðin fengi ekki að skipta um ríkisstjórn lagði Bertolt Brecht það til að ríkisstjórnin skipti um þjóð. Þessi saga kemur upp í hugann þegar maður heyrir hv. þm. Einar Odd Kristjánsson og hv. þm. Jónínu Bjartmarz tala um almenning, um fjölmiðlana, um verkalýðsforingjana, að hugsanlega séu þessir þingmenn svo óánægðir með almenning og kjósendur í landinu að þeir ættu að skipta um þjóð, kannski fara á annað þing og leita sér að skárri þjóð.

Auðvitað segir í fréttum af þessum viðbrögðum að þetta séu almennar hækkanir. Þetta eru ekki hækkanir upp á 50% eins og má með einbeittum brotavilja skilja á fyrirsögn Fréttablaðsins frá því í fyrradag, hygg ég að það hafi verið. En þetta eru auðvitað miklar almennar launahækkanir til ráðherra, forseta þingsins og sérstaklega til forsrh. Eins og frv. leit út í byrjun eru þetta töluverðar hækkanir, 4% hækkun til þeirra 22 af 51 þingmanni sem eru jafnari en aðrir á Alþingi. Þannig var það. Samtals eru því sennilega 25 af 51 sem í upphaflegri gerð frv. áttu að hækka í beinum launum.

Það er kannski rétt að hv. þm. Jónína Bjartmarz geri okkur grein fyrir því hvað það var, herra forseti, sem kom þingmanninum og meiri hlutanum í nefnd þeirri sem hún sat í og fjallaði um þetta frv. til þess að lækka þessar kjarabætur frá 20% og aftur niður í 15%, kjarabætur sem menn þiggja ýmist sem einfalt álag eða sem tvöfalt álag og eru þar með orðnir 130% þingmenn á þinginu og ætluðu að hækka sig enn þá meira, upp í 140%.