Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:23:11 (3440)

2003-12-13 15:23:11# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef greint frá hefur það ekki verið tekið sérstaklega út og birtist ekki í þeim útreikningum sem nú liggja fyrir þinginu hver kostnaðurinn er vegna forsrh. og þess vegna held ég að það sé ekki rétt að draga neinar ályktanir umfram það sem ég sagði. Ég hef bara fengið það upplýst munnlega að það er innan við helmingur. Og hvort þingmaðurinn kýs að líta þannig á að það séu 110 millj. eða 70 millj. verður hann að eiga við sig.

Hér hefur einnig aðeins komið til tals að utan þings hafi menn verið að geta sér til um að kostnaðurinn gæti numið allt að 240 millj. og ég held að það sé þá ágætt fyrir þá aðila að kynna sér þessar niðurstöður sem birtast í útreikningunum og horfa þá til þess að í allra versta falli, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar vék að sem er bara svona fræðilegur möguleiki, aukast skuldbindingarnar um 211 millj. og ekki bara vegna starfandi forsrh. heldur vegna allra ráðherra sem ekki eru enn þá farnir á eftirlaun, allra þeirra ráðherra.