Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:27:08 (3443)

2003-12-13 15:27:08# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:27]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er orðið frekar dapurlegt að sjá hvað hv. þm. Pétur Blöndal er orðinn hlýðinn og undirgefinn samflokksmönnum sínum í seinni tíð því að sá straumur tímans sem sá sem hér stendur ræddi um var ekki verkalýðsforustan eða viðbrögð hennar. Straumur tímans sem hér var vísað til var þróunin í kjaramálum og í lífeyrissjóðunum á síðustu árum og áratugum sem hefur verið að mörgu leyti mjög farsæl og okkur hefur tekist að byggja upp mjög öfluga lífeyrissjóði. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið sérstakur talsmaður þess og talað gegn því að menn safni sífellt stærri skuldbindingum í gegnumstreymissjóðum og skuldsetji þannig komandi kynslóðir og mér finnst athyglisvert að hv. þm. Pétur Blöndal skuli ekki fjalla um það við umfjöllun þessa máls.