Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:29:56 (3446)

2003-12-13 15:29:56# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:29]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Ég kem í ræðustól til þess að gera athugasemdir við þann málflutning sem fram kom hjá hv. þm. Helga Hjörvar. Hann byrjaði á því að fara yfir mikilvægi þess að fyrirhugaðar álagsgreiðslur til formanna stjórnmálaflokka sem sitja á þingi mætti ekki persónugera við þá aðila sem um teflir og fjallaði um hversu óheppilegt væri að stilla málum upp með þeim hætti. Lunginn í ræðu hans snerist hins vegar um það hvaða réttindi embætti forsrh. mundi ávinna sér og sá málflutningur snerist í rauninni, og það veit þingmaðurinn, fyrst og fremst að einni ákveðinni persónu þannig að þingmaðurinn var að mæla gegn því að umræðunni yrði hagað með tilteknum hætti en gerði það síðan sjálfur í hinu orðinu.