Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 16:16:05 (3455)

2003-12-13 16:16:05# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[16:16]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. ,,Heyr``, kalla framsóknarþingmennirnir sem brutu samning á öryrkjum og felldu tillögu frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði um 500 millj. kr. framlag til þess að staðið yrði við þennan samning. Framsfl. felldi þá tillögu.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson segir að sér finnist ógeðfellt að persónugera þetta mál. Síðan talar hann náttúrlega fyrst og fremst um persónur. Og það er ekkert óeðlilegt. Þetta snýst um persónur. Þetta snýst um ráðherra og þá einstaklinga sem gegna þessum störfum.

Það er t.d. staðreynd að gert er ráð fyrir því að hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, verði forsætisráðherra næsta haust. Finnst hv. þm. það eðlilegt að honum séu búin þau lífeyriskjör að eftir eitt ár í starfi fái hann 60% af forsætisráðherralaunum til æviloka? Við erum að tala um rúmlega hálfa milljón á mánuði. Við erum að tala um 540 þús. á mánuði sem hæstv. ráðherra, Halldór Ásgrímsson, mun fá. Finnst hv. þm. Framsfl. þetta vera eðlilegt og réttlátt eða fylgir hann bara skipunum (Forseti hringir.) í hlýðni.