Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 16:17:23 (3456)

2003-12-13 16:17:23# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég styð frv. og efnisatriði þess þannig að svar mitt er alveg skýrt í þeim efnum.

Ég spyr aftur á móti hv. þm. Ögmund Jónasson: Ætlar hann að velja menn inn í embætti forsætisráðherra á næstu árum út frá þessu ákvæði? Hvaða menn eru það sem falla undir þá kategóríu í hans huga að þeir verðskuldi þessa reglu? Ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon yrði einhvern tíma forsætisráðherra, hvaða eftirlaun finnst honum eðlilegt að greiða honum?

Svona getur hv. þm. ekki talað. Það er alveg ljóst.

Ég vil beina annarri spurningu til þingmannsins: Finnst honum eðlilegt að Alþingi sé að greiða formanni BSRB laun? Finnst honum það eðlilegt? Hann hefur ákveðið af því að hann er bæði þingmaður og formaður BSRB að taka ekki laun sem formaður BSRB. Það er út af fyrir sig virðingarverð afstaða út frá ákveðnu sjónarmiði. En annað sjónarhorn á það mál er að með þessu er Alþingi að greiða honum laun og gera honum kleift að vera formaður BSRB.