Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 16:33:22 (3466)

2003-12-13 16:33:22# 130. lþ. 50.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EKG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[16:33]

Einar K. Guðfinnsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Frv. sem við erum að fara að greiða atkvæði um er afar skynsamleg málamiðlun í mjög umdeildu máli. Allt síðastliðið haust og reyndar síðasta sumar var því haldið fram af andstæðingum ríkisstjórnarflokkanna að við mundum heykjast á því að leggja fram frv. um línuívilnun og svíkja þetta loforð. Vitaskuld var það aldrei svo, heldur er það þannig að hér liggur frv. fyrir og við erum núna að fullnusta þau loforð sem við gáfum.

Þetta er skynsamleg málamiðlun og það er athyglisvert að stjórnarandstæðingar létu í veðri vaka í upphafi þessarar umræðu að þeir hygðust styðja línuívilnunina, styðja frv. um línuívilnun, en þegar til kastanna kom treystu þeir sér ekki til þess frekar en í öðrum umdeildum málum sem við erum einmitt að ræða í dag.