Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 11:44:41 (3482)

2003-12-15 11:44:41# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[11:44]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er verið að taka til lokaafgreiðslu frv. sem hefur fengið viðurnefnið línuívilnunarfrv. sem er þó algert sýndarfrv. hvað það varðar, því að taka á upp furðulega útfærslu af línuívilnun gegn því að skerða síðan heimildir til sértækra aðgerða í úthlutun byggðakvóta sem er þvert á gefin loforð. Við hv. þingmenn, sá sem hér stendur og hv. þm. Grétar Mar Jónsson, berum fram brtt. við lokaafgreiðslu frv. sem orðast svo, með leyfi forseta:

,,Við bætist ný grein er verði 1. gr., svohljóðandi:

2. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Leyfilegir sóknardagar hvers fiskveiðiárs verði aldrei færri en 23, og skal þeim fjölgað um einn fyrir hver 20 þúsund tonn leyfðs heildarþorskafla á fiskveiðiárinu umfram 230 þúsund tonn.``

Staðan er sú, virðulegi forseti, að í því frv. sem verið er að afgreiða á að færa til aflaheimildir innan bátaflotans en einn floti, smábátar sem eru á sóknardagakerfi, er gersamlega skilinn eftir útundan í þessari meðferð. Fyrir liggur gagnvart þeim að sóknardögum er stöðugt að fækka. Þeir voru 23 í fyrra og við fulla gildistöku laganna 1. september á næsta ári má búast við að þeir verði komnir í 18 að óbreyttu. Með þeim aðgerðum sem þar stefnir í er verið að stefna tilveru þess flota, smábátaflotans, í verulega tvísýnu og reyndar mjög alvarlega tvísýnu. Ég tel að taka hefði átt á málum þess flota um leið og tryggja honum eðlilegan rekstrargrundvöll líka því að fjölbreytt útgerðarmunstur er styrkur í sjávarútvegi.

Þess vegna leggjum við til, virðulegi forseti, þessa brtt. og óskum eftir að hún fái góðar undirtektir upp á að tryggja stöðu umrædds flota. Hv. varaformaður sjútvn. Kristinn H. Gunnarsson, sem er starfandi formaður, var einmitt með tilsvarandi tillögu í sjútvn. en þó ekki alveg fullkomlega eins og þessa. Því er ljóst að hv. þm. er ljós sá vandi sem steðjar að sóknardagabátakerfinu og því afar brýnt að á þeim sé tekið.

Ég vil leggja þetta fram. Það er rétt kannski í lokin af því að þingið er að fara í jólaleyfi að vekja athygli á því sem er að gerast í sjávarútveginum þar sem nú berast fréttir um að Brim, sem var fórnarlamb í þeim miklu uppstokkunum í einkavæðingu á Landsbankanum og síðan uppstokkun á fjármálamarkaðnum, á nú að bjóða til sölu samkvæmt fréttum. Þá vitum við að þær sjávarbyggðir sem eiga allt sitt undir þeim fyrirtækjum eiga allt sitt undir hvernig sú framvinda verður. Ég treysti því og skora á hæstv. ríkisstjórn að fylgast með, standa vörð um byggðirnar hvort sem það er Akranes, Skagaströnd, Akureyri eða hverjar þær byggðir sem núna eru undir í baráttunni um Brim. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að láta ekki gerast neitt í jólaleyfinu sem getur stefnt atvinnulífi, byggð og búsetu og sjávarútveginum vítt og breitt um landið í hættu en vissulega er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af þróun mála í sjávarútveginum.