Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 11:50:00 (3484)

2003-12-15 11:50:00# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[11:50]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna í sjálfu sér áhuga hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar á að taka á málefnum dagabátanna. Ég vek athygli á því að það kom skýrt fram í sjútvn. að sú staða sem þeir standa nú frammi fyrir stefnir tilveru þessa flota í hættu. Það að veiðidögum fækkar stöðugt þýðir að enn þá verra verður að halda rekstrargrundvelli fyrir þessa báta og sömuleiðis minnkar veðhæfni þeirra, bæði í rekstri og fasteignum, þannig að óöryggi þessa flota er gríðarlegt. Hver dagur og hver vika sem líður án þess að á málum þeirra sé tekið eykur á óöryggi þeirra og skerðir möguleika bæði til lengri og skemmri tíma. Þess vegna legg ég áherslu á það, virðulegi forseti, að okkur eigi ekkert að vera að vanbúnaði að taka afstöðu til þessa máls þegar í stað. Það liggur fyrir í þessari tillögu sem við flytjum, hv. þm. Grétar Mar Jónsson og sá sem hér talar. Tillagan er skýr, setjum gólf í sóknardagakerfi þannig að þeir verði ekki færri en a.m.k. 23.