Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 11:52:30 (3486)

2003-12-15 11:52:30# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[11:52]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að þessi línuívilnun sem hér er verið að leggja til er veruleg sýndarmennska þar sem sá fiskur sem má færast til línubátanna samkvæmt þessari tillögu er kannski svipaður að magni og dagabátarnir missa á þremur árum með skerðingu á dögum. Það er allt og sumt. Stærð málsins er þessi. Auk þess er verið að skerða heildarheimildir til ráðstöfunar í sértækum aðgerðum eins og byggðakvótum.

Ég tel að það eigi að afgreiða málefni dagabátanna hér um leið og við afgreiðum málefni þessa flota sem siglir við hlið dagabátanna. Ég legg áherslu á að sú tillaga liggur fyrir. Verði hún ekki samþykkt, sem ég vona reyndar að verði, verður þetta eitt fyrsta mál sem við tökum fyrir og afgreiðum eftir jól.