Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 11:53:36 (3487)

2003-12-15 11:53:36# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[11:53]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Bara tiltölulega fá orð um málið. Við fórum nokkuð vel yfir það við 2. umr. en þá hafði komið fram að hv. starfandi formaður sjútvn. ætlaði að ræða þetta mál á milli umræðna í nefndinni. Við stóðum a.m.k. í þeirri meiningu, nefndarmenn, að það stæði til. Síðan fengum við þveröfug skilaboð fljótlega, að af því yrði ekkert. Ég tel það miður því að í þeim orðum hv. þingmanns var fólgið að farið yrði yfir þau atriði sem mest hefur verið gagnrýnt að ekki væru í frv., annars vegar að þeir bátar sem veiða með beitningatrektum eru ekki taldir þarna með og hins vegar er ekki tekið á málefnum dagabáta í frv.

Það hefur greinilega orðið ásteytingarsteinn milli stjórnarliða um þetta mál og ekki verið efni til þess á því stigi að ræða það áfram í sjútvn. Ég tel það miður og nú er svo komið að það frv. sem hér á að samþykkja er ekki stutt af neinum þeim aðilum sem hafa barist fyrir línuívilnun. Það stendur hins vegar ekki á yfirlýsingum frá þeim sem eru á móti henni og slíkar yfirlýsingar hafa komið úr öllum áttum.

Það eru fjölmargir gallar á því fyrirkomulagi sem menn hugsa sér að hafa þarna, og verstur gallinn er sá sem er fólginn í kapphlaupi sem á að efna til um þann þorsk sem á að vera í þessari ívilnun. Síðan er reyndar ákvæði um það að hæstv. sjútvrh. geti tekið upp sams konar viðmiðanir við hinar tvær tegundirnar. Það er alveg sérstakt umhugsunarefni af hverju, úr því að menn eru með línuívilnun á annað borð, þarf að setja hana í gegnum hv. Alþingi. Hvers vegna í ósköpunum eru bara þrjár tegundir þar inni? Tegundir eins og t.d. keila og langa eru ekki inni í þessu. Hefði verið einhver ofrausn að hafa þær með úr því að menn á annað borð fóru af stað með þetta?

Þegar þeir sem mest hafa barist fyrir því að koma á línu\-ívilnun snúast gegn þessari niðurstöðu sem liggur fyrir, eins og Landssamband smábátaeigenda, eru kannski ekki mörg rök orðin eftir í hv. Alþingi fyrir því að lemja málið í gegn. Síðan koma yfirlýsingar frá hv. starfandi formanni sjútvn. um að það eigi að halda áfram að vinna í málum sem ekki tókst að ná niðurstöðu um í nefndinni eða hjá ríkisstjórnarflokkunum fyrir þessa afgreiðslu. Hvað er þá eftir? Jú, það er eftir að menn geti farið að nýta sér línuívilnunina gagnvart öðrum tegundum en þorski fyrr á komandi ári en annars væri. Það er þá sá plús sem kemur út úr þessu frv.

Vonandi fer þetta ekki eins illa og mér finnst efni til að halda að geri. Það kemur auðvitað reynsla á það því að auðséð er að stjórnarliðar ætla sér að lemja þetta mál í gegn.

Einnig liggur fyrir ein brtt. frá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni og Jóni Bjarnasyni um að setja gólf í dagabáta. Það er auðvitað jákvætt að kippa ekki fótunum undan þeirri útgerð og það var einmitt rætt í nefndinni og við töldum að hv. starfandi formaður nefndarinnar ætlaði að taka á á milli umræðna en ekki verður af því og þess vegna verða greidd atkvæði um þessa brtt. núna. Ég er á því að það sé rétt að samþykkja að setja botn í dagabátakerfið. Menn þurfa að muna eftir því að á meðan engin nýliðun getur farið fram í sjávarbyggðum landsins eins og nú háttar til og hefur verið undanfarin mörg ár er það ábyrgðarhluti að kippa grundvellinum undan núverandi smábátaútgerð eins og verið er að gera með gildandi lögum þar sem veiðiréttur þeirra rýrnar um 10% á ári. Við munum því, samfylkingarmenn, styðja fyrri hluta þeirrar tillögu sem þarna er á ferðinni en í seinni hlutanum er gert ráð fyrir því að veiðiheimildir aukist eftir því sem hugsanlega væri bætt við veiðiheimildir í þorski í framtíðinni og við teljum ekki rétt að ganga svo langt núna að taka þá ákvörðun. Það er heldur engin ástæða til. Að mínu viti er ekkert sem bendir til þess að sá floti geti ekki unað bærilega við botn sem væri upp á 23 daga með því fyrirkomulagi sem hefur verið núna á undanförnum árum. Ég held að það sé rétt að láta reyna á það. Þetta eru í eðli sínu sóknarstýrðar veiðar og ef bætt verður við veiðiheimildir er það væntanlega vegna þess að það er meiri þorskur á miðunum og þessi floti mun þá veiða meira með þeim sóknartakmörkunum sem fyrir hendi eru. Þess vegna munum við sitja hjá við síðari hluta tillögunnar en greiða fyrri hluta hennar atkvæði okkar.