Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 12:30:04 (3493)

2003-12-15 12:30:04# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[12:30]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég minni hv. þm. á að hann hefur tekið þátt í fundi fleiri en einnar nefndar samtímis með fjölmörgum aðilum í mjög umdeildu máli einmitt vegna þess að talið var rétt að hagsmunaaðilar gætu skýrt sjónarmið sín fyrir nefndinni að öðrum hagsmunaaðilum áheyrandi, enda er það eðlilegt. Þeir hagsmunaaðilar sem hv. þm. er hér að vísa til að hafi ekki nýtt sér það boð sem þeir fengu um að gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins á fundi nefndarinnar hafa ekki verið feimnir við að gera grein fyrir afstöðu sinni á opinberum vettvangi. Þeir hafa ekki þurft að eiga einhver trúnaðarsamtöl við menn til að koma þeim skoðunum sínum á framfæri, enda er engin sérstök ástæða til þess að hagsmunaaðilar greini frá afstöðu sinni til máls í sérstökum trúnaði gagnvart öðrum hagsmunaaðilum. Þeir eiga auðvitað rétt á því eins og aðrir sem koma á fund þingnefnda að trúnaður sé um það sem þar fer fram innan dyra. En það er engin ástæða til þess að trúnaður ríki af þeirra hálfu um sjónarmið til máls gagnvart öðrum hagsmunaaðilum, þvert á móti. Það er ekki hlutverk einstakra hagsmunaaðila, jafnvel þó að þeir heiti LÍÚ, að ráða því hverjir sitji á fundum sjútvn. og geri grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst þessi málflutningur hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar fráleitur í þessu máli. Hann er hér ítrekað að reyna að vega að mér persónulega þegar hann veit að það sem að baki liggur eru illindi á milli einstakra manna innan LÍÚ og Landssambands smábátaeigenda ef marka má það sem fram hefur komið á opinberum vettvangi. En það kom ekki fram í nefndinni. Þeir sem gengu á dyr gerðu ekki grein fyrir því hvers vegna þeir gerðu það.