Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 12:34:24 (3495)

2003-12-15 12:34:24# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, GMJ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[12:34]

Grétar Mar Jónsson:

Hæstv. þingforseti. Frv. sem við ræðum núna tekur ekki á dagabátum. Þess vegna höfum við lagt fram breytingartillögu við frv., sá sem hér stendur og hv. þm. Jón Bjarnason.

Það er nauðsynlegt að það komi botn hjá dagabátunum. Þá á að skilja eftir. Ég held að það sé það sem stendur alla vega í mínum huga út af í þessum breytingum núna og ég tel það nauðsynlegast að þeir fái ákveðna 23 daga í botn og við leggjum það til.

Það má segja um línuívilnunartillöguna sjálfa að þar er ekki höfð inni trekt. Notkun á trekt við að leggja línuna og að beita í gegnum trekt er ekki með.

Það er svo verra við þetta og kannski það versta að verið er að leggja af byggðakvóta upp á 3.000 tonn. Það er nánast verið að núllstilla þessa breytingu. Þakið í þorskinum upp á 3.300 tonn sem á að koma með línuívilnun er raunverulega tekið til baka með því að skerða byggðakvótana.

Það versta við frv. er sjálfsagt tegundatilfærslan. Þar er gefinn möguleiki á því að fara aftur upp í 5% af veiddum afla í þorskígildum talið og gefur það t.d. skipi sem veiðir 4.000 þorskígildistonn möguleika á því að leigja til sín 200 tonn af ýsu og breyta því í 400 tonn af karfa svona um það bil. Það mundi þýða, þ.e. ef 40 skip gerðu þetta mundu þetta verða kannski 16.000 tonn. Þeir sem nýttu sér þennan möguleika gætu breytt í 16.000 tonn af karfa og farið þar af leiðandi upp í 50% umfram það sem tillögur Hafrannsóknastofnunar segja um veiðar úr karfakvótanum. Þetta er því í raun alvarlegt og kannski það versta við frv. Að öðru leyti má segja að þetta sé ekki mikil breyting og kannski hafa sumir verið óþarflega hræddir vegna breytingarinnar.

En segja má að það sé kannski spaugilegt sem gerðist þegar við í sjútvn. fengum hagsmunaaðila á fund til okkar og LÍÚ fulltrúarnir gengu strax út. Þá fóru strax á eftir fulltrúar Sjómannasambandsins, Farmanna- og fiskimannasambandsins og Vélstjórafélagsins. Maður hefði nú haldið að þeir gætu rætt sín mál sjálfir eftir að LÍÚ var farið.

Allir sem komu á fund sjútvn. til að segja álit sitt á frv. voru á móti því og þegar Landssamband smábátaeigenda lýsti yfir afstöðu sinni þá spyr maður sig: Til hvers er verið að þessu?

Í mínum huga er þetta lítils háttar tilfærsla til þess að friða þingmenn af Vestfjörðum og bjarga raunverulega ríkisstjórninni frá þessu klúðri sem komið var upp. Svo verður auðvitað að vera en sýnir að það eru mikil vandamál á stjórnarheimilinu sem menn ætla ekki að komast almennilega frá.

Varðandi það sem gerðist í sjútvn. að mönnum hefði verið boðið öllum að koma saman þá veit ég ekki til þess að við höfum verið spurðir að því. Þetta var ákvörðun starfandi formanns nefndarinnar og við höfðum ekkert um það að segja, ekki fyrr en fyrrnefndir aðilar gengu af fundi nefndarinnar. Það var ekki orðið við ósk hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um að gera fundarhlé og reyna að bera klæði á vopnin þannig að menn gætu gefið álit sitt á þessu.

Ég hef miklu meiri áhyggjur af stöðu sjávarbyggða á Íslandi vegna fiskveiðistjórnarkerfisins sjálfs. Ég hef margsagt það og segi enn að það er það sem við þurfum að breyta og laga. Við þurfum að hætta með þetta gjafakvótakerfi. Við þurfum að ná til baka veiðiheimildunum. Við höfum afhent fáum útvöldum, stjórnvöld hafa afhent fáum útvöldum veiðiheimildir fyrir um 500 milljarða. Á því þurfum við að ná tangarhaldi aftur. Það er ekki hægt að sætta sig við að fáir útvaldir eigi allan fiskinn í sjónum og aðrir megi éta það sem úti frýs.