Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 11:03:30 (9347)

2004-05-28 11:03:30# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, KÓ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[11:03]

Kjartan Ólafsson:

Frú forseti. Við erum hér að ræða lagasetningu varðandi raforkumál og ýmislegt hefur komið fram í umræðunni í morgun. Það eru efasemdir ýmissa þingmanna um lagasetninguna í heild sinni, einkum og sér í lagi eru stjórnarandstæðingar með efasemdir. Í sjálfu sér er ekki neitt sérstakt við það, þeir vilja gjarnan fara rólega í lagasetningu og eru fælnir við að taka frumkvæði. Það er það sem þarf að gera í þessum málum sem og öðrum, að það verður að fara í þessi mál. Við höfum heyrt frá til að mynda Noregi, þar sem svipuð lagasetning fór í gegn, að þar hafa orðið heilmiklar endurskoðanir og lagfæringar á lögum og það er enginn vafi að við munum eiga eftir að sjá þessa lagasetningu í sölum Alþingis eitthvað á næstu árum og það eingöngu til að bæta málið.

Hér eru ýmis álitamál, eðli málsins samkvæmt, sem hefur verið tekið á og farið yfir. Einn þáttur er sá sem menn hafa nefnt ,,sokkinn kostnað`` í flutningsvirkjunum --- í flutningskerfinu, sem á nú að setja sem sérstakt fyrirtæki. Það má til sanns vegar færa að það sé sokkinn kostnaður sem svo er kallaður í því kerfi, en ég vil, frú forseti, benda á það sérstaklega, af því að það hefur ekki komið fram í umræðunni, að sá sokkni kostnaður sem er Marshall-hjálpin, sem Reykjavíkurborg fékk og byggði fyrir Sogsvirkjanir á sínum tíma, sem síðar voru lagðar inn í Landsvirkjun að það er sennilega stærsti sokkni kostnaðurinn í því kerfi sem við erum að setja hér upp sem flutningskerfi. Það er sú upphæð sem er sennilega langsamlega stærsti kostnaðarliðurinn. Ég held að þegar rætt er um þennan sokkna kostnað og farið verður yfir það hver eignarhlutur Landsvirkjunar og þar með eignarhlutur Reykjavíkurborgar í flutningskerfinu er, og hversu stór hluti af honum er til kominn vegna Marshall-hjálparinnar, sem mér skilst að gæti verið u.þ.b. 60% af þeim fjármunum sem fóru til uppbyggingar á Sogsvirkjununum á sínum tíma, þá verður sá kostnaður að metast eins og annar sokkinn kostnaður í þessum þætti

Ég vildi, frú forseti, koma hér upp til að halda þessu til haga og að þetta hafi komið fram.