Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 9. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 9  —  9. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á samkeppnislögum, nr. 8/1993, með síðari breytingum.

Flm.: Lúðvík Bergvinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Bryndís Hlöðversdóttir,
Einar Már Sigurðarson, Guðmundur Árni Stefánsson, Guðrún Ögmundsdóttir,
Helgi Hjörvar, Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson,
Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Mörður Árnason, Rannveig Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    40. gr. laganna orðast svo:
    Samkeppnisstofnun getur við rannsókn máls gert húsleit í starfsstöðvum fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar rökstuddur grunur liggur fyrir um brot gegn ákvæðum laganna. Á sama hátt getur stofnunin gert húsleit og lagt hald á gögn á heimilum stjórnenda fyrirtækja.
    Við framkvæmd aðgerða skv. 1. mgr. skal fara eftir ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.

2. gr.

    Á eftir 50. gr. XII. kafla laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Þegar uppi er grunur um brot á IV. kafla laga þessara skal Samkeppnisstofnun án tafar tilkynna ríkissaksóknara um málið, ásamt gögnum sem rökstyðja það. Samkeppnisstofnun skal enn fremur veita honum aðgang að nýjum gögnum jafnharðan og þeirra er aflað, eftir að tilkynning um að rökstuddur grunur hafi vaknað um refsivert brot hefur verið send ríkissaksóknara og hann ákveðið að hefja rannsókn. Ríkissaksóknari metur hvort og hvenær ástæða er til hefja opinbera rannsókn á ætluðum refsiverðum brotum einstaklinga á samkeppnislögum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Brot gegn ákvæðum IV. kafla laga þessara og reglum og fyrirmælum settum með stoð í honum varða fésektum eða fangelsi allt að sex árum.
     b.      Í stað 1.–3. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sektir samkvæmt lögum þessum verða einungis lagðar á einstaklinga.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem m.a. er ætlað að skýra og skerpa á verkaskiptingu og samskiptum milli Samkeppnisstofnunar og ríkislögreglustjóra vegna brota á samkeppnislögum, auk þess sem brot fyrirtækja varða ekki lengur refsingum.
    Brot fyrirtækja og lyktir mála gagnvart þeim eiga því alfarið undir stjórnvöld. Að sjálfsögðu verða þær ákvarðanir bornar undir dómstóla ef svo ber undir, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar um embættistakmörk yfirvalda.
    Í fyrsta lagi er lagt til að refsiábyrgð fyrirtækja verði afnumin. Með breytingunni verður því einungis unnt að beita lögaðila stjórnsýsluviðurlögum vegna brota á lögunum. Ákvörðun Samkeppnisráðs þar um verður endurskoðuð af dómstólum samkvæmt almennum reglum kjósi aðili svo. Breytingin kemur í veg fyrir að lögaðilum sé refsað tvisvar fyrir sama brotið.
    Í öðru lagi er lagt til að Samkeppnisstofnun verð gert kleift að leita á heimilum stjórnenda fyrirtækja að gögnum. Brot gegn samkeppnislögum eru fyrst og fremst brot gegn almenningi. Hér er því um mjög alvarleg brot að ræða. Það er almenn samstaða um það í samfélaginu að ríkisvaldið eftirláti fyrirtækjum og einstaklingum framleiðslu og sölu vara á markaði. Ríkið hefur líka að mestu dregið sig út úr ákvörðunum um verðlagningu og verðmyndun framleiðsluvara. Til þess að verðmyndun á markaði verði eðlileg er nauðsynlegt að sanngjörn og heiðarleg samkeppni fái notið sín. Þeir sem brjóta gegn ákvæðum laga sem ætlað er að stuðla að því að efnahagslífið fái þrifist og dafnað á þessum forsendum vega því alvarlega að hagsmunum almennings sem verður að greiða fyrir þessi brot með hærra verði á vörum, jafnvel nauðsynjavörum. Brot gegn samkeppnislögum eru litin mjög alvarlegum augum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fengið heimild til húsleitar á heimilum stjórnenda fyrirtækja við þessar aðstæður. Það er því ljóst að Íslendingar verða fljótlega að lögfesta sambærilegt ákvæði vegna aðildar sinnar að EES-samningnum. Það er skynsamlegt að gera það strax vegna alvarleika brotanna. Með lögfestingu þessara reglna er það lagt á dómstóla að meta hvað teljist vera heimili stjórnenda og hverjir séu stjórnendur fyrirtækja sem rétt sé að veita húsleitarheimild hjá.
    Í þriðja lagi er lagt til að refsiábyrgð einstaklinga verði takmörkuð við brot á IV. kafla laganna sem hefur að geyma ákvæði um bann við samkeppnishömlum. Brot á ákvæðum IV. kafla teljast til alvarlegri brota í samkeppnisrétti. Önnur bannákvæði laganna lúta að vægari brotum á lögunum. Það er álit flutningsmanna að nægjanlegt sé að leggja refsiábyrgð á einstaklinga vegna alvarlegri brota á lögunum þar sem beiting stjórnsýsluviðurlaga gagnvart lögaðila feli í sér nægjanleg varnaðaráhrif gagnvart stjórnendum sem þurfa að taka á sig ábyrgð, reynist brot þeirra mjög alvarleg.
    Í fjórða lagi, í samræmi við framangreinda tillögu, er kveðið skýrt á um að Samkeppnisstofnun skuli tilkynna ríkissaksóknara um mál þar sem rökstuddur grunur hefur vaknað um að refsiverður verknaður hafi verið framinn sem fari gegn ákvæðum IV. kafla laganna um bann við samkeppnishömlum. Jafnframt er kveðið á um að Samkeppnisstofnun skuli jafnharðan og nýrra gagna er aflað veita ríkissaksóknara aðgang að þeim, eftir að hann hefur ákveðið að hefja opinbera rannsókn á máli. Það er síðan í verkahring ríkissaksóknara að meta hvort og hvenær hafin skuli opinber rannsókn á ætluðum brotum einstaklinga. Gert er ráð fyrir að rannsókn Samkeppnisstofnunar og ríkissaksóknara fari fram samhliða. Ekki er að sjá að slíkt geti falið í sér vandamál þar sem Samkeppnisstofnun og ríkissaksóknara er falið að rannsaka ólíka fleti þessara mála enda verða þessar rannsóknir að vera sjálfstæðar hvor á sinn hátt.
    Í fimmta lagi er lagt til að refsingar við brotum á ákvæðum samkeppnislaga verði hertar til samræmis við það sem þekkist í þeim löndum sem styðjast við sambærilega löggjöf og við. Það eru ekki síst varnaðaráhrif sem gera það að verkum að flutningsmenn telja nauðsynlegt að þyngja refsingar sökum alvarleika þessara brota. Þolendur brota gegn samkeppnislögum eru fyrst og fremst almenningur, sem vegna brotanna verður að greiða hærra verð eða hafa minna úrval til að velja úr, séu brotin fólgin í misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þess má geta að víðast hvar á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu, m.a. Bretlandi og Írlandi, er gert ráð fyrir 5–6 ára fangelsi vegna brota á ákvæðum samkeppnislaga. Bandaríkjamenn ganga mun lengra í þessum efnum.
    Þá er rétt að taka fram vegna umræðunnar sem verið hefur að undanförnu að í þessu frumvarpi er ekki kveðið á um að rannsókn Samkeppnisstofnunar skuli rjúfa fyrningu vegna refsiábyrgðar einstaklinga. Rannsókn Samkeppnisstofnunar fer ekki í einu og öllu samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, eðli málsins samkvæmt. Hér lögð til skýr verkaskipting milli ríkissaksóknara og lögreglu annars vegar og samkeppnisyfirvalda hins vegar, þar sem rannsókn samkeppnisyfirvalda snýr að fyrirtækjum, og telja flutningsmenn óeðlilegt að rannsókn hennar rjúfi fyrningu vegna hugsanlegrar refsiábyrgðar einstaklinga. Með þeim reglum sem hér er lagt til að verði lögfestar eru lagðar á Samkeppnisstofnun ríkar kvaðir að tilkynna ríkissaksóknara svo skjótt sem auðið er um að rökstuddur grunur hafi vaknað við rannsókn máls og einstaklingar kunni að hafa bakað sér refsiábyrgð. Ábyrgðin á því að brot fyrnist ekki er lögð á Samkeppnisstofnun. Með þeim reglum sem hér er lagt til að verði lögfestar er henni gert skylt að gera ríkissaksóknara tafarlausa grein fyrir því ef rökstuddur grunur vaknar um að brot hafi verið framin, sem kunna að leiða til refsiábyrgðar einstaklinga. Það er svo ákvörðun ríkissaksóknara að hefja rannsókn á málinu, en upphaf þeirrar rannsóknar rýfur fyrningu gagnvart hugsanlegri refsiábyrgð einstaklinga. Þetta telja flutningsmenn vera eðlilegt fyrirkomulag í ljósi þeirrar verkaskiptingar sem lögð er til að verði lögfest milli þessara refsivörsluaðila, þ.e. Samkeppnisstofnunar og ríkissaksóknara.