Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 55. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 282  —  55. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um ferðaþjónustu á Íslandi.

     1.      Hvert hefur hlutfall ferðaþjónustu verið af vergri landsframleiðslu á tímabilinu 1998– 2003? Í svarinu er óskað eftir samanburði við sjávarútveg og orkufrekan iðnað.
    Hér fyrir neðan má sjá hlutfall ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. Hvað varðar hlutfall sjávarútvegs og orkufreks iðnaðar, þá notar Hagstofan ekki þær skilgreiningar en hér að neðan eru upplýsingar um hlutfall áls og kísiljárns annars vegar og fiskveiða og fiskvinnslu hins vegar í landsframleiðslu samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni.


Ferðaþjónusta

Ál og kísiljárn
Fiskveiðar og fiskvinnsla
1998 4,5% 1,3% 12,0 %
1999 4,4% 1,1% 10,7%
2000 4,6% 1,4% 10,5%
2001 4,3% 1,3% 12,1%
2002 4,7% 1,3% 12,4%


     2.      Hversu stórt hlutfall af gjaldeyristekjum þjóðarinnar hefur mátt rekja til ferðaþjónustu á sama tímabili? Í svarinu er óskað eftir samanburði við sjávarútveg og orkufrekan iðnað.
    Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hafa samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar verið eftirfarandi hlutfall af heildargjaldeyristekjum:

1998 12,9%
1999 12,8%
2000 13,1%
2001 12,4%
2002 12,1%

    Ekki liggja fyrir upplýsingar um árið 2003 og samgönguráðuneytið hefur ekki handbærar upplýsingar né hefur tekist að afla upplýsinga um hlutfall sjávarútvegs eða orkufreks iðnaðar af heildargjaldeyristekjum þessi ár.

     3.      Hvert hefur verið hlutfall ferðaþjónustunnar í innlendri verðmætasköpun á sama tímabili? Í svarinu er óskað eftir samanburði við sjávarútveg og orkufrekan iðnað.

    Samgönguráðuneytið hefur ekki þessar upplýsingar og óljóst er hvað átt er við, en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni er venjan að vísa til landsframleiðslu í þessu sambandi, sbr. svar við 1. tölul.
     4.      Hefur farið fram faglegur samanburður á starfsskilyrðum ferðaþjónustunnar á Íslandi og í nágrannalöndum okkar?
    Í framhaldi af stefnumótun í ferðaþjónustu árið 1997 var gerður samanburður á rekstrarumhverfi ferðaþjónustu á Íslandi og í nágrannalöndunum. Þá var skipuð nefnd á vegum samgönguráðherra haustið 1999, sem fjallaði um rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar. Í framhaldi af þessari vinnu hafa stjórnvöld á undanförnum árum gert fjölmargar breytingar á rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar. Þar má t.d. nefna:
       –      Lækkun á vörugjöldum bíleigubíla.
       –      Niðurfellingu yfirflugsgjalda í innanlandsflugi.
       –      Hækkun endurgreiðsluhlutfalls virðisaukaskatts veitingahúsa.
       –      Breytingar á virðisaukaskattsreglum vegna hópferðabíla til að auðvelda endurnýjun.
       –      Lækkun fasteignagjalda á landsbyggðinni.
       –      Stóraukið fjármagn til styrkja sérleyfishafa og ráðgjöf við rekstur.
       –      Aukin bein framlög til flugrekenda innanlands með útboðum.
       –      Fjölgun ferða í ferjusiglingu sem njóta ríkisstyrkja.
    Þá er nú að störfum nefnd á vegum samgönguráðherra sem á að fjalla sérstaklega um rekstrarvanda heilsársgististaða á landsbyggðinni.

     5.      Hvernig er háttað rannsóknum á bættu rekstrarumhverfi greinarinnar?

    Eins og kom fram í svari við 4. tölul. hafa þrjár nefndir kannað rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar á undanförnum árum og tvær skilað niðurstöðum.Til ýmissa aðgerða hefur síðan verið gripið í kjölfarið til að bæta rekstrarumhverfið eins og áður segir. Þá var á vegum Ferðamálaráðs unnið sérstakt rannsóknarverkefni á árunum 1999–2000 um rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu sem leiddi til þróunar og gerðar sérstaks reiknilíkans fyrir gististaði. Styðst reiknilíkanið við gögn frá Hagstofunni, SAF og tölulegar upplýsingar frá rekstraraðilum.
    Tilgangurinn með þessum hugbúnaði er að gera væntanlegum og núverandi rekstraraðilum kleift að sjá hvaða áhrif ótal breytur hafa á væntanlegan rekstur næsta eða næstu ár, þar sem stuðst er við opinberar tölur um ýmsan grunnkostnað og settar hafa verið inn raunverulegar upplýsingar um fjölmarga þætti. Var það m.a. markmiðið að núverandi rekstraraðilar gætu áttað sig betur á hvar vandamálin lægju og væntanlegir rekstraraðilar séð hvort grundvöllur væri fyrir áætluðum fjárfestingum þeirra.
    Þetta reiknilíkan er öllum aðgengilegt á vef Ferðamálaráðs.

     6.      Hafa verið kannaðir möguleikar á að endurskoða skilgreiningu ferðaþjónustunnar í þjóðhagsútreikningum svo að auðveldara verði að finna út raunverulegt umfang greinarinnar?

    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni hefur þetta verið kannað en ekki mun standa til að breyta þeirri skilgreiningu sem nú er stuðst við.