Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 364  —  87. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003, sbr. lög nr. 58/2003.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar gerir 42 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 4.097,7 m.kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR

00 Æðsta stjórn ríkisins

        Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 14,5 m.kr.
201     Alþingi.
        1.06
Almennur rekstur. Lögð er til 4,5 m.kr. fjárveiting til að bæta aðstöðu fatlaðra alþingismanna á Alþingi.
        1.10
Rekstur fasteigna. Gerð er tillaga um 5 m.kr. fjárveitingu vegna breytinga á fundaaðstöðu þingflokka og skrifstofum þingmanna og aukins húsaleigukostnaðar. Um er að ræða kostnað við flutning á fundaaðstöðu Samfylkingar í fræðslustofu í Skálanum, gerð nýrrar fræðslustofu í Alþingishúsi, auknu leiguhúsnæði í Austurstræti 12 og fjölgun skrifstofuherbergja þar.
             Jafnframt er lögð til 5 m.kr. fjárveiting vegna kostnaðar við flutning á starfsaðstöðu fréttamanna á Alþingi, þ.e. flutning á búnaði fyrir hljóð- og myndflutning úr risi Alþingishúss yfir í nýja aðstöðu í Skálanum. Samkvæmt áætlun Framkvæmdasýslu ríkisins er kostnaður við verkið 5 m.kr.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 60 m.kr.
211     Tækniháskóli Íslands.
        1.01
Tækniháskóli Íslands. Gerð er tillaga um 35 m.kr. aukafjárveitingu vegna samnings sem Tækniháskóli Íslands gerði um mitt yfirstandandi ár um leigu og innréttingu á 1.118 m² húsnæði á 2. hæð að Höfðabakka 9. Húsnæðið kom í stað 1.586 m² óinnréttaðs rýmis í kjallara sama húss sem skólinn hafði tekið á leigu til ársins 2014 og áætlað var að kostaði 125 m.kr. að innrétta.
430     Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
        1.01
Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Lagt er til að miðstöðin fái 5 m.kr. til að greiða upp rekstrarhalla.
973     Þjóðleikhús.
        1.01
Þjóðleikhús. Gerð er tillaga um 20 m.kr. framlag til að koma til móts við kostnaðarauka sem kom fram árin 2001 og 2002 vegna útfærslu stjórnenda leikhússins á kjarasamningum.

04 Landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 226,5 m.kr.
211     Rannsóknastofnun landbúnaðarins.
        1.01
Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Lagt er til að stofnunin fái 15 m.kr. til þróunarátaks í líftækni. Ráðgert er að féð verði endurgreitt við sölu á hlut stofnunarinnar í Orf- Líftækni hf.
221     Veiðimálastofnun.
        1.01
Veiðimálastofnun. Lagt er til að veitt verði 2,5 m.kr. framlag til Norðurlandsdeildar stofnunarinnar á Hólum.
233     Yfirdýralæknir.
        1.01
Yfirdýralæknir. Lögð er til 2 m.kr. aukafjárveiting vegna embættis eftirlitsdýralæknis í Svalbarðs- og Þórshafnarhreppi.
261     Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði.
        1.01
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði. Lagt er til að skólinn fái 15 m.kr. vegna uppsafnaðs kostnaðar við uppbyggingu nýrra námsbrauta.
271     Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal.
        1.01
Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag vegna aukinna umsvifa í skólanum, einkum í fiskeldisdeild.
311     Landgræðsla ríkisins.
        1.90
Fyrirhleðslur. Gerð er tillaga um 22 m.kr. aukafjárveitingu til fyrirhleðslna en óvenjumiklir vatnavextir voru í öllum ám í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum og Múlasýslum haustið 2002 og brýnt að grípa til aðgerða. 2 m.kr. af upphæðinni eru ætlaðar til að styrkja flóðvarnargarða við Jökulsá á Fjöllum, Bakkahlaup, til að tryggja að vatn renni ekki á milli Jökulsár og Skjálftavatns.
891     Sérstakar greiðslur í landbúnaði.
        1.16
Styrkur til sauðfjárbænda. Lagt er til 140 m.kr. framlag á þessum lið sem varið verði til að bæta erfiða afkomu í sauðfjárbúskap og styðja við sauðfjárbændur sem orðið hafa fyrir tekjuskerðingu vegna versnandi stöðu búgreinarinnar í kjölfar verðlækkana á kjötmarkaði. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leita eftir fjárheimildinni í framhaldi af umfjöllun um tillögur nefndar um vanda sauðfjárbænda. Samþykkt ríkisstjórnarinnar um málið gerir ráð fyrir að þessi sérstaki stuðningur við bændur miðist að hálfu við beingreiðslurétt sauðfjárbænda í ár og að hálfu við framleitt magn dilkakjöts á lögbýlum.
        1.91
Loðdýrafóður. Lagt er til að niðurgreiðslur á loðdýrafóðri hækki um 15 m.kr. Fóðrið er stærsti kostnaðarliðurinn í loðdýrarækt. Fóðurverð hefur hækkað mikið á síðustu árum og er nú mun hærra hér en hjá samkeppnisþjóðum.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 31,4 m.kr.
203     Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
        1.01
Almenn starfsemi. Lögð er til 31,4 m.kr. aukafjárveiting vegna uppsafnaðs halla á rekstri stofnunarinnar miðað við árslok 2003. Til stendur að hætta rekstri þjónusturannsókna í starfsstöðvum standi gjaldskrártekjur ekki undir kostnaði við reksturinn.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 25,6 m.kr.
210     Héraðsdómstólar.
        1.01 Héraðsdómstólar
og 6.01 Tæki og búnaður. Við 3. umræðu um fjárlagagafrumvarp fyrir árið 1999 var samþykkt tillaga fjárlaganefndar um 12 m.kr. stofnkostnaðarframlag á viðfangsefninu 6.10 Tæki og búnaður vegna tölvubúnaðar héraðsdómstóla og upplýsingakerfis. Fjárheimildin hefur verið í fjárlögum frá þeim tíma en tækjakaup og önnur eignakaup héraðsdómstóla hafa verið verulega lægri og hefur því safnast upp umtalsverður afgangur af stofnkostnaðarheimildum. Lagt er til að 55 m.kr. af uppsöfnuðum fjárheimildum á stofnkostnaðarviðfangsefninu verði millifærðar á rekstrarviðfangsefni héraðsdómstóla. Fjárheimildinni er ætlað að mæta að mestu uppsöfnuðum rekstrarhalla dómstólanna undanfarin ár. Gerð er tillaga um samsvarandi millifærslu fjárheimilda við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004.
303     Ríkislögreglustjóri.
        1.01
Ríkislögreglustjóri. Lagt er til 15 m.kr. framlag til að fjölga störfum lögreglumanna við efnahagsbrotadeild embættisins. Málum deildarinnar fjölgar stöðugt, svo sem vegna meintra samkeppnislagabrota, peningaþvættis, fíkniefnamála og annarra umfangsmikilla sakamála sem mikilvægt er að ekki dragist á langinn að rannsaka. Gerð er tillaga um sambærilega tímabundna hækkun fjárveitingar til embættisins í tvö ár við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004.
             Að auki er gerð tillaga um 8,6 m.kr. aukaframlag vegna uppsafnaðs fjárhagsvanda við innheimtu sekta. Verkefnið hefur nú verið fært til sýslumannsembættisins á Hvolsvelli en hér er um að ræða stöðu í árslok 2002 á viðfangsefni hjá embætti ríkislögreglustjóra sem fellt hefur verið niður í fjárlögum 2003. Á viðfangsefnið var einungis færður kostnaður vegna prentunar og póstburðargjalda en ekki laun vegna vinnu. Tekjur af sektum renna í ríkissjóð. Lagt er til að veitt verði framlag til að mæta að fullu uppsöfnuðum halla viðfangsefnisins í árslok 2002 svo ekki þurfi að skerða almennan rekstur stofnunarinnar vegna þessa.
701     Þjóðkirkjan.
        6.28
Þingeyrarklausturskirkja. Gerð er tillaga um 2 m.kr. framlag til byggingar aðstöðu við Þingeyrarklausturskirkju.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 411 m.kr.
313     Jafnréttisstofa.
        1.01
Jafnréttisstofa. Lögð er til 7 m.kr. viðbótarfjárheimild til Jafnréttisstofu til að mæta ófyrirséðum útgjöldum vegna starfsloka framkvæmdastjóra og útgjöldum vegna dómsmáls.
400     Barnaverndarstofa.
        1.20
Heimili fyrir börn og unglinga og 6.21 Viðbygging. Lagt er til að millifærð verði 60 m.kr. fjárheimild vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við Stuðla, meðferðarheimili fyrir unglinga. Um mitt ár 2002 náðist samkomulag við rekstraraðila Skjöldólfsstaðar í Jökuldal um að hætta þar starfsemi meðferðarheimilis þar sem nýta mætti fjármuni betur með viðbyggingu við Stuðla.
984     Atvinnuleysistryggingasjóður.
        1.11
Atvinnuleysisbætur. Gerð er tillaga um 60 m.kr. fjárveitingu til viðbótar við þær 1.100 m.kr. sem þegar er gert ráð fyrir í frumvarpinu vegna endurmats á kostnaði við hvert atvinnuleysisstig.
        1.35
Námskeiðahald, átaksverkefni og önnur úrræði. Lögð er til 75 m.kr. viðbótarfjárveiting til átaksverkefna fyrir ungt fólk á atvinnuleysisskrá. Þeir fjármunir sem ætlaðir voru til átaksverkefna fyrir atvinnulausa árið 2003 eru uppurnir vegna mun meira atvinnuleysis en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Að ósk félagsmálaráðherra hófu Vinnumálastofnun og stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs í mars sérstakt átak í vinnumarkaðsúrræðum fyrir ungt fólk á atvinnuleysisskrá og ráðstöfuðu til þess verkefnis 75 m.kr.
989     Fæðingarorlof.
        1.11
Fæðingarorlofssjóður. Gerð er tillaga um 280 m.kr. fjárveitingu til sjóðsins þar sem endurskoðuð áætlun hefur leitt í ljós að meðaltalsgreiðslur til þeirra sem fá greitt úr sjóðnum eru meiri en áætlað var.
        1.13
Foreldrar utan vinnumarkaðar. Lögð er til 15 m.kr. lækkun framlaga vegna foreldra utan vinnumarkaðar en endurskoðuð áætlun hefur leitt í ljós að meðaltalsgreiðslur eru lægri og færri fá greitt úr sjóðnum en áætlað var.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.31
Félagasamtök, styrkir. Lögð er til 4 m.kr. fjárveiting til reksturs sumardvalar fyrir fötluð börn á vegum Foreldra- og styrktarfélags Öskjuhlíðarskóla sem félagið hefur séð um sl. 30 ár.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 2.620,8 m.kr.
201     Tryggingastofnun ríkisins.
        1.01
Tryggingastofnun ríkisins. Lagt er til að stofnunin fái 12 m.kr. til að mæta kostnaði við að endurreikna bætur í samræmi við dóm Hæstaréttar frá 16. október 2003.
204     Lífeyristryggingar.
        1.25
Tekjutrygging örorkulífeyrisþega. Gerð er tillaga um 1.500 m.kr. fjárveitingu til að mæta útgjöldum lífeyristrygginga vegna kostnaðar við endurákvörðun tekjutryggingar auk dráttarvaxta í samræmi við dóm Hæstaréttar frá 16. október 2003. Tryggingastofnun vinnur að útreikningi á útgjaldaáhrifum dómsins og er því um áætuð útgjöld að ræða.
206     Sjúkratryggingar.
        1.15
Lyf. Lagt er til 177 m.kr. framlag til að mæta auknum útgjöldum vegna lyfja. Í samræmi við endurskoðaða áætlun á lyfjaútgjöldum á árinu 2003 í lok október stefna þau í rúmlega 5,9 milljarða króna á árinu eða tæpar 340 m.kr. umfram fjárheimildir fjárlaga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 160 m.kr. viðbótarframlagi en í ljósi mjög aukinna útgjalda í september og október í ár, sem hafa hækkað um rúmlega 22% frá sömu mánuðum í fyrra, er óskað eftir 177 m.kr. Til samanburðar má geta þess að fyrstu átta mánuði þessa árs hækkuðu útgjöldin einungis um 5% miðað við sama tímabil í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun er skýring þessarar aukningar einkum aukin neysla, þ.e. aukið magn, og tilfærsla frá ódýrari lyfjum yfir í dýrari umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir.
        1.21
Hjálpartæki. Lögð er til 50 m.kr. lækkun á útgjöldum til hjálpartækja. Í 1. umræðu um frumvarpið var óskað eftir 270 m.kr. viðbótarframlagi til að mæta útgjöldum vegna hjálpartækja í ár. Af þessum 270 m.kr. var gert ráð fyrir að útgjöld vegna bifreiðakaupastyrkja yrðu 190 m.kr. Nú þegar tíu mánuðir eru liðnir af árinu þykir sýnt að þau verða lægri eða um 160 m.kr. Auk þess virðist draga úr aukningu í útgjöldum til annarra hjálpartækja en bifreiða miðað við reynslu síðustu ára.
        1.55
Sjúkradagpeningar. Lögð er til 30 m.kr. lækkun á framlagi til sjúkradagpeninga í samræmi við þróun útgjalda það sem af er ári en á undanförnum árum hefur dregið úr útgjöldum til þessa málaflokks m.a. vegna þess að endurhæfingarlífeyrir, sem er tímabundið úrræði, og sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna hafa að einhverju marki tekið yfir hlutverk sjúkradagpeninga.
305     Lýðheilsustöð.
        1.01
Lýðheilsustöð. Gerð er tillaga um samtals 11,8 m.kr. leiðréttingu á framlagi til tóbaksvarna þannig að það verði í samræmi við brúttósölu tóbaks en samkvæmt lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, skal framlagið vera a.m.k. 0,9% af brúttósölu. Leiðréttingin nemur 2,1 m.kr. vegna ársins 2001, 1,3 m.kr. vegna 2002 og 8,4 m.kr. vegna 2003.
358     Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri.
        1.01
Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Lögð er til 40 m.kr. aukafjárveiting til greiðslu uppsafnaðs rekstrarhalla Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri til viðbótar 100 m.kr. fjárveitingu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
373     Landspítali – háskólasjúkrahús.
        1.01
Landspítali – háskólasjúkrahús. Lögð er til 735 m.kr. fjárveiting til greiðslu uppsafnaðs rekstrarhalla Landspítala – háskólasjúkrahúss sem kemur til viðbótar 930 m.kr. fjárveitingu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
379     Sjúkrahús, óskipt.
        1.01
Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa. Lögð er til 45 m.kr. fjárveiting til að gera upp rekstrarhalla Sjálfsbjargar, hjúkrunar- og endurhæfingarstöðvar, enda verði það til þess að auðvelda gerð þjónustusamnings.
700     Heilbrigðisstofnanir.
        1.01
Almennur rekstur. Lögð er til 150 m.kr. fjárveiting vegna rekstrarvanda heilbrigðisstofnana sem kemur til viðbótar 45 m.kr. fjárveitingu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
795     St. Jósefsspítali, Hafnarfirði.
        1.11
St. Jósefsspítali, Hafnarfirði. Lögð er til 30 m.kr. aukafjárveiting til greiðslu uppsafnaðs rekstrarhalla St. Jósefsspítala, Hafnarfirði.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 770 m.kr.
481     Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum.
        6.01
Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Gerð er tillaga um að fjárveiting vegna heimildarákvæða fjárlaga fyrir árið 2003 verði aukin um 450 m.kr. Í fjárlögum er fjárveiting liðarins 190 m.kr. og verða 147 m.kr. af henni nýttar til kaupa á húsnæði á Efri- Brú fyrir starfsemi Byrgisins og afgangurinn til að mæta kostnaði við nokkrar aðrar heimildir. Því til viðbótar þarf að standa straum af útgjöldum vegna kaupa á fasteign, lóð og hlutabréfum í tengslum við sölu á Sementsverksmiðju ríkisins sem samtals nema um 450 m.kr. Þetta eru kaup á eignum sem ekki voru taldar nýtast nýjum eigendum verksmiðjunnar í rekstrarlegum tilgangi. Kveðið er á um það í kaupsamningi að söluandvirðið gangi aðallega til að greiða niður skuldir. Um er að ræða lóð verksmiðjunnar að Sævarhöfða 31 ásamt mannvirkjum, sem metin er á 280 m.kr., hluta af skrifstofuhúsnæði verksmiðjunnar á Akranesi, sem metið er á 72,5 m.kr., hlutabréf í Speli hf., sem metin eru á 40 m.kr., og hlutabréf í húseiningaverksmiðjunni Geca hf., sem metin eru á 46,5 m.kr. Áformað er að selja þessar eignir og er reiknað með að sölutekjur ríkisins verði álíka miklar þegar þeim hefur verið komið í verð.
989     Launa- og verðlagsmál.
        1.90
Launa- og verðlagsmál. Gerð er tillaga um 310 m.kr. viðbótarfjárheimild á þessum lið sem skýrist að mestu af kostnaði vegna úrskurða kjaranefndar árið 2002 um vottorð og gjaldskrárverk heilsugæslulækna. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2003 lágu ekki fyrir nægilegar upplýsingar til að unnt væri að leggja mat á þessa þætti í úrskurðunum. Í fyrsta lagi er um það að ræða að samkvæmt úrskurðum kjaranefndar telst útgáfa vottorða vera hluti af aðalstarfi lækna og fá heilsugæslustöðvar nú tekjur af gjöldum sem þær innheimta af sjúklingum fyrir vottorðin en þurfa jafnframt að greiða læknum laun samkvæmt gjaldskrá fyrir vottorðin þegar þau eru gefin út utan dagvinnutíma og læknir er ekki á yfirvinnulaunum. Áætlað er að sértekjur stöðvanna hækki vegna þessa um 87 m.kr. en að launagreiðslur aukist um 135 m.kr. Áður innheimtu læknar vanalega vottorðsgjöldin beint frá sjúklingum þannig að þau færðust ekki í bókhaldi stöðvanna. Í öðru lagi greiða stöðvarnar nú heimilislæknum fyrir tilgreind læknisverk samkvæmt gjaldskrá þegar þau eru unnin utan vanalegs dagvinnutíma og læknir fær ekki greidd yfirvinnulaun. Áður voru slík gjaldskrárverk greidd af Tryggingastofnun ríkisins. Við þessa breytingu er gert ráð fyrir að launagreiðslur heilsugæslustöðvanna aukist um rúmlega 230 m.kr. á ári. Að auki er gert ráð fyrir 30 m.kr. fjárheimild vegna nokkurra minni háttar leiðréttinga á forsendum launafjárveitinga gildandi fjárlaga.
999     Ýmislegt.
        1.90
Óviss útgjöld. Gerð er tillaga um 10 m.kr. aukafjárveitingu á þessum lið. Í tengslum við samning ríkisins við Skýrr hf. um innleiðingu á nýju Oracle-fjárhagskerfi ríkisins og samning við ANZA hf. um rekstur og þróun rafræns markaðstorgs fyrir stofnanir ríkisins er unnið að því að innkaup ríkisins geti farið fram í gegnum fjárhagskerfið. Fyrirhugað er að fjárheimildin verði nýtt annars vegar til að gera innkaupa- og vörustýringarkerfi fjárhagskerfisins kleift að eiga samskipti við rafræna markaðstorgið og hins vegar til að láta útbúa samræmdan vörulista fyrir um 120 þúsund vörunúmer.

10 Samgönguráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 23,3 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.12
Vetrarsamgöngur og vöruflutningar. Lagt er til að niður falli 4 m.kr. af óskiptu fé af lið 10-190-1.12 Vetrarsamgöngur og vöruflutningar á móti auknum útgjöldum á lið 10-335-6.74 Siglingastofnun, lendingabætur vegna lendingabóta í Drangey.
335     Siglingastofnun Íslands.
        1.01
Yfirstjórn. Gerð er tillaga um 17,5 m.kr. hækkun á framlagi til reksturs stofnunarinnar. Stofnunin átti að gera tillögu um 17,5 m.kr. millifærslu frá stofnkostnaði til reksturs í frumvarpi til fjáraukalaga vegna flutnings á verkefni um hafnir, líkantilraunir og grunnkort. Vegna mistaka við tillögugerð stofnunarinnar féll sá hluti niður sem fól í sér hækkun á rekstrinum og því kom einungis lækkun á stofnkostnaði fram í frumvarpinu. Þetta er leiðrétt með tillögu þessari.
        6.74
Lendingabætur. Gerð er tillaga um 4 m.kr. framlag til lendingabóta í Drangey. Á móti þessum útgjöldum er lagt til að niður falli 4 m.kr. af lið 10-190-1.12 Vetrarsamgöngur og vöruflutningar.
471     Flugmálastjórn.
        1.01
Flugmálastjórn og 5.41 Flugvellir, viðhald. Lagt er til að millifærð verði 99 m.kr. fjárheimild af rekstrarviðfangsefni stofnunarinnar á viðhaldsviðfangsefni til þess að samræma framsetningu fjárheimilda við heildaruppgjör á framkvæmdum við endurnýjun húsnæðis í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli. Í frumvarpinu er farið fram á að heimild verði veitt til að millifæra 75 m.kr. framlag af rekstri stofnunarinnar í þessum tilgangi. Hér er farið fram á að 99 m.kr. fjárheimild verði millifærð til viðbótar vegna framkvæmda árin 2001 og 2002. Tilgangur tillögunnar er sá að fjárheimildir frá Alþingi verði samræmdar í einu lagi við heildarframkvæmdakostnaðinn, sem nemur samtals 174 m.kr.
481     Rannsóknanefnd flugslysa.
        1.01
Rannsóknanefnd flugslysa. Lagt er til samtals 5,8 m.kr. framlag til nefndarinnar, annars vegar 2,7 m.kr. vegna ófyrirséðs kostnaðar við störf nefndarinnar síðari hluta ársins 2002 og fyrri hluta ársins 2003 og hins vegar 3,1 m.kr. vegna uppsafnaðs halla sem ekki hefur tekist að eyða þrátt fyrir að nefndin hafi áður fengið auknar fjárheimildir með fjáraukalögum.


13
Hagstofa Íslands

        Lagt er til að fjárheimild Hagstofu Íslands verði aukin um 7,5 m.kr.
101     Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa.
        1.01
Yfirstjórn. Lagt er til að framlag til Hagstofu Íslands hækki um 7,5 m.kr. til að mæta tekjutapi við flutning fyrirtækjaskrár til ríkisskattstjóra. Við útfærslu málsins í frumvarpinu láðist að taka tillit til hluta þeirra tekna sem Hagstofan verður af og er lagt til að úr því verði bætt með framlagi úr ríkissjóði. Sams konar breyting verður lögð til á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði lækkuð um 92,9 m.kr.
101     Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Yfirstjórn. Lögð er til 3 m.kr. fjárveiting vegna kostnaðar sem til fellur vegna formennsku umhverfisráðuneytisins í ár og í fyrra í vísinda- og tækninefnd rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar, en formennskan kallar á viðbótarferðir starfsmanna ráðuneytisins. Málið var á sínum tíma rætt í ríkisstjórn og ákveðið að veita 2 m.kr. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar til að mæta kostnaði á árinu 2002. Áætlaður viðbótarkostnaður á árinu 2003 er um 3 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.40
Alþjóðastofnanir. Gerð er tillaga um 6 m.kr. fjárveitingu vegna hækkana á framlögum til aðþjóðastofnana. Þar af eru 3,5 m.kr. vegna tveggja alþjóðasamninga sem taka gildi á árinu, þ.e. Stokkhólmssamningsins um þrávirk lífræn efni og Kyoto-bókunarinnar við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna, 1,5 m.kr. hækkun á framlagi til Montreal- sjóðsins og 1 m.kr. til alþjóðlegrar framkvæmdaáætlunar um mengun sjávar frá landi (GPA).
        1.51
Þjóðgarður Vatnajökuls, undirbúningur. Lagt er til að framlag til undirbúnings að stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls verði hækkað um 1,5 m.kr. svo að unnt sé að vinna tillögur að innri uppbyggingu á svæðinu sem mundu styrkja vernd svæðisins og bæta möguleika heimamanna til nýtingar á því.
287     Úrvinnslusjóður.
        1.01
Almennur rekstur. Lögð er til 16,1 m.kr. lækkun fjárveitingar til reksturs Úrvinnslusjóðs. Ný áætlun gerir ráð fyrir að rekstrarkostnaður ársins verði 45 m.kr.
        1.10
Úrvinnslusjóður. Lögð er til 131,7 m.kr. lækkun fjárveitingar til Úrvinnslusjóðs. Ný áætlun gerir ráð fyrir að í ár verði kostnaður sjóðsins við úrvinnslu 320 m.kr.
403     Náttúrustofur.
        1.14
Náttúrustofa Sauðárkróki. Gerð er tillaga um 2,5 m.kr. framlag vegna rannsóknaverkefna sem unnin voru á árinu.
410     Veðurstofa Íslands.
        1.01
Almenn starfsemi. Gerð er tillaga um 34,4 m.kr. fjárveitingu til að greiða niður uppsafnaðan rekstrarhalla Veðurstofunnar í árslok 2001 sem ekki hefur náðst að vinna á. Stofnunin hefur gripið til aðgerða til að styrkja fjármálastjórn sína.
             Einnig er lagt til að veittar verði 7,5 m.kr. til biðlaunagreiðslna og orlofsuppgjörs í tengslum við skipulagsbreytingarnar í framhaldi af stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar á Veðurstofu Íslands. Gert er ráð fyrir að starf eins yfirmanns verði lagt niður og að tilfærslur verði í störfum annarra yfirmanna stofnunarinnar.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 14. nóv. 2003.




Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Guðmundur Hallvarðsson.



Bjarni Benediktsson.


Birkir J. Jónsson.


Birgir Ármannsson.