Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 89. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 457  —  89. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggjast eindregið gegn samþykkt frumvarpsins. Það felur í sér kjaraskerðingu um 5–600 millj. kr. fyrir launafólk á sama tíma og ríkisstjórnin marglofar gríðarlegum skattalækkunum. Samþykkt þess dregur enn fremur úr hvatningu til almenns þjóðhagslegs sparnaðar á tímum þegar þensla er fram undan í efnahagslífinu og því brýnt að beita öllum ráðum til að hvetja landsmenn til sparnaðar. Jafnframt er það alvarlegt mál að samþykkt frumvarpsins mun fella brott nær eina hvatann sem 12–15 þúsund starfsmenn sveitarfélaga hafa til viðbótarlífeyrissparnaðar. Í tilviki þeirra er því rangt, sem meiri hlutinn fullyrðir, að með frumvarpinu sé einungis verið að fella brott þann sparnaðarhvata sem minnstu máli skiptir varðandi viðbótarlífeyrissparnað. Athygli vekur að jafnólík samtök og stofnanir sem Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Landsbankinn, Hagfræðistofnun og Samtök banka og verðbréfafyrirtækja leggjast gegn samþykkt frumvarpsins. Samband íslenskra tryggingafélaga telur álitamál hvort rétt sé að gera frumvarpið að lögum að svo stöddu.
    Arfleifð verðbólguáranna birtist meðal annars í því að sparnaðarhefðin hvarf úr vitund landsmanna. Sparnaður borgaði sig einfaldlega ekki á þeim tímum þar sem sparað fé brann á báli verðbólgunnar og glataðist að stórum hluta. Þetta leiddi til þess að í kjölfar lágrar verðbólgu sem tókst að koma á í tíð ríkisstjórnarinnar 1988–1991, sem báðir A-flokkarnir áttu aðild að, hefur reynst mjög erfitt að glæða sparnaðarvitund Íslendinga. Eina árangursríka aðferðin til að ýta undir almennan þjóðhagslegan sparnað hefur til þessa verið þeir hvatar sem beitt var af opinberri hálfu til að festa viðbótarlífeyrissparnaðinn í sessi.
    Fyrir þá sem vinna á almennum vinnumarkaði og opinbera starfsmenn, aðra en starfsmenn sveitarfélaga, hafa þessir hvatar verið þríþættir: Í fyrsta lagi hefur sparandinn fengið skattfrestun á viðbótariðgjaldi. Í öðru lagi var samið í kjarasamningum 1998 um sérstakt 2% framlag launagreiðanda á móti greiddu iðgjaldi launamanns. Í þriðja lagi var lögum um tryggingagjald tvíbreytt þannig að launagreiðendur fengu afslátt af tryggingagjaldi sem nam 0,1% fyrir hvert prósent sem starfsmenn greiddu í viðbótarlífeyrissparnað, upp að 4% sparnaði. Afslátturinn lagðist við viðbótarlífeyrissparnað launamannsins. Lækkun tryggingagjaldsins sem rann til viðbótarlífeyris sparenda mátti þó aldrei vera meiri en 10% af iðgjaldahluta hans.
    Þessir þrír hvatar hafa leitt til þess að smám saman hefur þátttaka í viðbótarlífeyrissparnaðinum orðið mjög góð. Ekki er að efa að langmikilvægasta hvatningin hefur verið 2% mótframlag launagreiðandans. Um það mótframlag var samið í kjarasamningum 1998 eins og fyrr segir. Aðilar vinnumarkaðarins eiga því stærstan heiður af því, ekki síst verkalýðshreyfingin. Þetta er nauðsynlegt að rifja upp í ljósi þess að ríkisstjórnin, og fjármálaráðherra sérstaklega, tala jafnan með þeim hætti að þeim beri alfarið að þakka hversu giftusamlega hefur tekist með viðbótarlífeyrissparnaðinn. Það er einfaldlega rangt eins og hér er bent á. Mótframlagið varð til í frjálsum samningum vinnumarkaðarins og með aðild fjármálaráðuneytis.
    Íslenska lífeyrissjóðakerfið er öfundarefni vítt um heim. Það er á góðri leið með að verða styrkasta stoðin í velferðarkerfi landsmanna, sem verkalýðshreyfingin á mestan heiður á að hafa komið á fót með baráttu sinni alla síðustu öld. Á þessu ári greiða alls um 162.619 Íslendingar í lífeyrissjóði samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins. Hátt í helmingur þeirra, 43,3% eða 70.566 manns, tekur þátt í viðbótarlífeyrissparnaðinum. Viðbótariðgjaldið nam alls um 5,8 milljörðum kr. þannig að tíund tryggingagjaldsins, sem launamenn tapa ef frumvarpið verður samþykkt, getur orðið fast að 580 millj. kr. Ofangreindar tölur um þátttöku í almennum lífeyrissparnaði og viðbótarsparnaðinum sýna svart á hvítu að stórir hópar taka ekki þátt í viðbótarsparnaðinum og líklegt að margir geri það einungis að takmörkuðu leyti. Alþýðusamband Íslands telur í umsögn sinni að þetta séu einkum hinir tekjulægri, enda auðvelt að færa rök að því að það séu fyrst og fremst þeir sem telja sér ekki fært að leggja aukreitis inn á lífeyrissreiknig umfram það sem lögboðið er. Það má rifja upp að verkalýðshreyfingin brást á sínum tíma við þessu með því að semja í desember 2001 um að 1% framlag launagreiðenda væri óháð framlagi launþega. Þátttökuleysi stórra hópa, eins og fyrrgreindar tölur birta, sýnir hins vegar að það er fráleitt tímabært að draga úr hinum opinbera hvata til þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaðinum. Þvert á móti ætti að halda honum inni í kerfinu, og ráðast sérstaklega í kynningu á gagnsemd viðbótarsparnaðarins gagnvart tekjulægri hópum á vinnumarkaði.
    Þá er ótalin sú alvarlega staðreynd að tíund tryggingagjaldsins er líklega mikilvægasti hvatinn sem ýtir undir viðbótarsparnað mjög stórs hóps sem starfar fyrir sveitarfélögin. Ástæðan er sú að starfsmenn sveitarfélaga hafa ekki náð því fram í samningum sínum við sveitarfélögin að þau greiði mótframlag upp á 2% til þeirra sem taka þátt í viðbótarsparnaðinum. Sjöfn Ingólfsdóttir, varaformaður BSRB og formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, upplýsti á fundi efnahags- og viðskiptanefndar 18. nóvember að hér væri um 12–15 þúsund manns að ræða. Tíund tryggingagjaldsins, sem er hreint mótframlag ríkisins, er því mikilvægasti hvatinn sem að þessum stóra hópi beinist hvað viðbótarsparnaðinn áhrærir. Í frumvarpinu er verið að fella hann brott. Það eitt ætti að nægja til að frumvarpið verði ekki samþykkt. Stjórnarandstaðan vill af þessu tilefni mótmæla harðlega þeirri fullyrðingu í áliti meiri hlutans að tíund tryggingagjaldsins sé veigaminnsti þátturinn varðandi viðbótarsparnaðinn. Svo er alls ekki í tilviki fyrrgreinds hóps, þar sem tíundin er eina mótframlagið, og því augljóslega mikilvægari en skattfrestun á iðgjaldshlutanum. Hin ranga fullyrðing meiri hlutans sýnir að stjórnarliðar hafa annað tveggja ekki unnið heimavinnuna sína með því að kynna sér allar hliðar málsins eða þeir telja það ekki ómaksins vert að ýta undir viðbótarsparnað þeirra 12–15 þúsunda sem vinna hjá sveitarfélögunum í landinu.
    Stjórnarandstaðan ítrekar að samþykkt frumvarpsins grefur undan almennum sparnaði landsmanna þegar allar spár benda til þess að búast megi við verulegri þenslu í hagkerfinu. Samþykkt frumvarpsins gengur því þvert á yfirlýst markmið jafnt stjórnar sem stjórnarandstöðu um hagstjórn.
    Verði frumvarpið að lögum jafngildir það kjaraskerðingu upp á 5–600 millj. kr. fyrir launamenn í landinu. Stjórnarandstaðan tekur heils hugar undir með umsögn Alþýðusambands Íslands þar sem segir: „Slík kjaraskerðing mun ekki auðvelda komandi kjarasamningsgerð.“

Alþingi, 25. nóv. 2003.



Össur Skarphéðinsson,


frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir.



Lúðvík Bergvinsson.



Fylgiskjal I.


Umsögn Alþýðusambands Íslands.
(Reykjavík, 3. nóvember 2003.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal II.


Umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða.
(Reykjavík, 27. október 2003.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal III.


Umsögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
(Reykjavík, 17. október 2003.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.