Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 486  —  87. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003, sbr. lög nr. 58/2003.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar gerir breytingartillögur við sundurliðun 1, tekjur A-hluta. Þá eru lagðar til 14 breytingartillögur sem samtals nema 447,9 m.kr. til hækkunar. Jafnframt eru gerðar breytingar á 3. og 4. gr. frumvarpsins.
    Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR

01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 8 m.kr.
201     Fasteignir forsætisráðuneytis.
        1.01
Fasteignir forsætisráðuneytis. Gerð er tillaga um 8 m.kr. fjárveitingu til að jafna út halla fyrri ára hjá fasteignum forsætisráðuneytisins. Umsvif hafa aukist og fasteignum í umsjá byggingadeildarinnar fjölgað. Þar má nefna Gljúfrastein og Hótel Valhöll. Halli hefur verið á rekstrarviðfangi liðarins sem mun leiða til skerðingar á viðhaldsfé verði ekkert aðhafst. Nauðsynlegt er talið að koma rekstrinum í jafnvægi og tryggja að viðhaldsfé nýtist til brýnna viðhaldsverkefna.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 97,9 m.kr.
919     Söfn, ýmis framlög.
        1.90
Söfn, ýmis framlög. Gerð er tillaga um 3 m.kr. framlag til Byggðasafnsins á Garðskaga.
        6.90
Söfn, ýmis stofnkostnaður. Gerð er tillaga um 4,8 m.kr. framlag til uppbyggingar Tækniminjasafns Austurlands.
974     Sinfóníuhljómsveit Íslands.
        1.01
Sinfóníuhljómsveit Íslands. Lögð er til 56,1 m.kr. fjárheimild til að fjármagna lífeyrisuppbætur til fyrrverandi starfsmanna hljómsveitarinnar sem taka lífeyri samkvæmt eftirmannsreglunni úr B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Framlagið tekur mið af hlut ríkissjóðs í rekstri hljómsveitarinnar og nemur 56% af útgjöldum hljómsveitarinnar vegna þessa kostnaðarliðar á árununum 1999–2002. Stefnt er að samkomulagi milli rekstraraðila og hljómsveitarinnar um uppgjör á skuld hennar við sjóðinn og er þetta liður í því.
989     Ýmis íþróttamál.
        1.24
Frjálsíþróttavöllur á Sauðárkróki, landsmót ungmennafélaga 2004. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til uppbyggingar fyrir Landsmót UMFÍ 2004.
        1.31
Íþróttasvæði á Torfunesi, Ísafirði. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til uppbyggingar á íþróttasvæðinu á Torfunesi.
999     Ýmislegt.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um að veitt verði 4 m.kr. lokaframlag til Lagnakerfamiðstöðvar Íslands sem komi til viðbótar 4 m.kr. framlagi samkvæmt sundurliðun óskiptrar fjárheimildar á þessu viðfangsefni í fjárlögum ársins 2003. Stöðin er samstarfsvettvangur þeirra sem vinna við rannsóknir og fræðslu í lagnaiðnaði. Markmiðið með starfseminni er að stuðla að rannsóknum, þróun, stöðlun og tækninýjungum auk þess að samhæfa rannsóknir á lagnakerfum í landinu.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 14 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
    1.90 Ýmislegt. Lögð er til 14 m.kr. hækkun á safnlið til ýmissa verkefna.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 415 m.kr.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.10
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Gerð er tillaga um 400 m.kr. fjárveitingu til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að koma til móts við vanda tekjulægri sveitarfélaga á landsbyggðinni. Fénu verður úthlutað eftir nánari reglum sem félagsmálaráðherra setur í samráði við ráðgjafarnefnd sjóðsins.
984     Atvinnuleysistryggingasjóður.
        1.41
Framlög og styrkir. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til að framlengja starfsmenntunarátak fólks á almennum vinnumarkaði. Í kjölfar kjarasamninga á árinu 2000 gerðu aðilar vinnumarkaðarins og félagsmálaráðherra með sér samkomulag um 200 m.kr. framlag úr Atvinnuleyistryggingasjóði til að efla starfsmenntun starfsfólks á almennum vinnumarkaði á gildistíma kjarasamninganna. Átakinu á að ljúka í haust en vegna góðrar reynslu og mikillar þátttöku er lagt til að það verði framlengt.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 100 m.kr.
379     Sjúkrahús, óskipt.
        1.01
Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa. Gerð er tillaga um 50 m.kr. hækkun á liðnum en jafnframt eru millifærðar 45 m.kr. á lið 08-491-1.01 Reykjalundur, Mosfellsbæ.
381
     Sjúkrahús og læknisbústaðir.
        6.90
Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Lagt er til 50 m.kr. framlag vegna flutnings heilsugæslustöðvarinnar í Fannborg 7–9 Kópavogi í Hamraborg 8.
491     Reykjalundur, Mosfellsbæ.
        1.10
Reykjalundur, Mosfellsbæ. Millifærðar eru 45 m.kr. til Reykjalundar af óskiptum lið, 08-379-1.01.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði lækkuð um 247,5 m.kr.
989     Launa- og verðlagsmál.
        1.90
Launa- og verðlagsmál. Í forsendum fjárlaga er ekki spáð fyrir um þróun á gengi gjaldmiðla heldur er jafnan miðað við gengi þeirra í byrjun september. Talsverð styrking hefur orðið á gengi krónunnar gagnvart dollar og jeni frá forsendum fjárlaga en það leiðir til lækkunar á útgjöldum fjárlagaliða sem tengjast þessum gjaldmiðlum. Á það einkum við um útgjöld sem beinlínis eru greidd í erlendri mynt, svo sem útgjöld sendiráða og framlög og aðildargjöld til alþjóðasamtaka. Áætlað meðalgengi evru og annarra evrópumynta á árinu er á hinn bóginn lítið breytt frá forsendum fjárlaga. Í samræmi við endurmat á þessum forsendum er gert ráð fyrir að fjárheimildir viðkomandi fjárlagaliða verði lækkaðar sem nemur alls 247,5 m.kr. Gerð er tillaga um þessar breytingar í einu lagi undir launa- og verðlagsmálalið fjárlaga í frumvarpinu en sundurliðun á einstök viðfangsefni er sýnd í sérstöku yfirliti III með breytingartillögum meiri hlutans.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 50 m.kr.
301     Orkustofnun.
        1.01
Yfirstjórn. Lagt er til að veittar verði 50 m.kr. til frekari rannsókna á sviði orkumála. Annars vegar er um að ræða 30 m.kr. vegna rammaáætlunar og hins vegar 20 m.kr. til vetnisrannsókna. Framlag til rammaáætlunarinnar er ætlað til að gera upp kostnað vegna 1. áfanga áætlunarinnar sem nú er lokið. Áformað er að Orkustofnun nýti 20 m.kr. tímabundið framlag í eitt ár til að koma á fót vettvangi fyrir vistvænt eldsneyti. Markmiðið er að stofnunin afli þekkingar og aðstoði stjórnvöld við stefnumörkun auk þess að hún verði vettvangur fyrir samræmingu á vinnu þeirra ráðuneyta sem málið snertir.

13 Hagstofa Íslands

        Lagt er til að fjárheimild Hagstofu Íslands verði aukin um 10,5 m.kr.
101     Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa.
        1.01
Yfirstjórn. Lagt er til að framlag til Hagstofu Íslands hækki um 10,5 m.kr. til að mæta tekjutapi við flutning fyrirtækjaskrár til ríkisskattstjóra. Í útfærslu málsins við 2. umræðu láðist að taka tillit til hluta þeirra tekna sem Hagstofan verður af og er lagt til að úr því verði bætt með framlagi úr ríkissjóði.


SKÝRINGAR VIÐ 3. GR.

    Lagt er til að ríkissjóður taki 24,3 milljarða kr. lán á árinu í stað áætlana um 21,6 milljarða kr. lántöku í frumvarpinu. Lánsfjárráðstafanir ríkissjóðs hafa verið endurskoðaðar í ljósi þróunarinnar á árinu og þeirra breytinga sem gerðar voru á frumvarpinu við 2. umræðu.
    Gerð er tillaga í b-lið um hækkun lánsfjárheimilda vegna aukinnar útgáfu húsbréfa umfram það sem áætlað var í frumvarpinu. Afgreiðsla húsbréfalána hefur aukist mjög á árinu og ekki eru horfur á að dragi verulega úr eftirspurn eftir lánum það sem eftir lifir ársins.
    Í c-lið er gerð tillaga um auknar heimildir vegna almennra leiguíbúða. Afgreidd lán til leiguíbúða eru meiri en áætlað var þar sem framkvæmdatími er styttri en gert var ráð fyrir. Því verður lokið við fleiri íbúðir á árinu, en lánin eru veitt út á fullgerðar íbúðir.
    Í samræmi við tillögu á þskj. 490 (7.19) um að Rafmagnsveitum ríkisins verði heimilt að ganga til samninga um kaup á Hitaveitu Dalabyggðar er lagt til að lánsfjárheimild fyrirtækisins í fjárlögum fyrir árið 2003 hækki um 145 m.kr. og verði 645 m.kr.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 27. nóv. 2003.



Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Drífa Hjartardóttir.



Bjarni Benediktsson.


Birkir J. Jónsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.