Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 249. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 501  —  249. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Hinir miklu og sögulegu atburðir í stjórnmálum Evrópu á níunda áratugnum sem náðu hámarki í kringum 1990 vöktu vonir um að kalda stríðinu væri ekki einungis lokið heldur hefðu þá einnig skapast forsendur til að hverfa frá skiptingu álfunnar og sameina Evrópu í eina heild í öryggis- og stjórnmálalegu tilliti. Miklar væntingar tengdust þessum breytingum, ekki bara í Evrópu heldur um heim allan. Vonir manna um varanlegan frið flugu hátt og að vígbúnaðarkapphlaup og ógnarjafnvægi undangenginna áratuga heyrði sögunni til. Í kjölfar þess að Varsjárbandalagið liðaðist sundur og var lagt niður töluðu margir fyrir því að unnið yrði að því sama hvað varðaði hernaðarbandalagið NATO sem ávallt hefur grundvallað vígbúnaðarstefnu sína á beitingu kjarnorkuvopna. Í stað hinna gömlu hernaðarbandalaga og þeirrar hugsunar sem þau voru sprottin úr yrði leitast við að þróa nýtt öryggiskerfi í Evrópu sem tæki til allrar álfunnar. Um leið yrði unnið að því að styrkja lýðræðisþróunina í Evrópu allri, ekki síst í ríkjum syðst og austast í álfunni þar sem þörfin fyrir samstilltar aðgerðir til að tryggja frið og stöðugleika var augljóslega mest, eins og því miður hefur rækilega komið á daginn.
    Mikið hefur verið fjallað um breytt inntak öryggis- og friðarmálanna. Hugtakið öryggi hefur fengið víðari merkingu en áður var og vísar nú ekki eingöngu til stjórnmálaástands og hernaðarlegs styrks heldur einnig og ekki síður til öryggis og stöðugleika hvað varðar umhverfismál, félagsmál, efnahagslega þætti og fleira.
    Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að vænlegasta leiðin í öryggismálum Evrópu hefði verið og sé sú að efla stofnunina um öryggi og samvinnu í Evrópu (ÖSE) sem sameiginlega friðar- og öryggisgæslustofnun allrar Evrópu. Þar geta allar þjóðir setið við sama borð og tekið þátt í að móta nýja stefnu í öryggis- og friðarmálum álfunnar, stefnu sem byggist á nýrri hugsun, alþjóðasamvinnu, afvopnun og viðleitni til friðsamlegra lausna deilumála. Þessu tengist einnig viðleitni sem víða hefur gætt, t.d. á norrænum vettvangi, til þess að beina kröftunum í ríkari mæli að fyrirbyggjandi, borgaralegum aðgerðum, í því skyni að tryggja frið og stöðugleika, þ.e. að reynt verði að grípa inn í fyrir fram með aðgerðum á svæðum þar sem ástæða er til að hafa áhyggjur af þróun mála og að aðgerðir eins og aukin framlög til þróunarsamvinnu og uppbyggingar atvinnulífs, stuðningur við lýðræði og uppbyggingu stoðkerfa samfélagsins, aðstoð við að byggja upp eftirlitsstofnanir og réttarkerfi séu vænlegri til að tryggja frið og stöðugleika heldur en að beita herstyrk til að slökkva ófriðarbál sem þegar hefur kviknað. Því miður eru áformin um stækkun NATO í raun andstæð þessari hugsun, byggjast á því að færa út landamæri gamaldags hernaðarbandalags og á vígbúnaðarhugsun.
    Einn meginágalli stækkunar NATO er þær kröfur sem gerðar eru af hálfu yfirstjórnar hernaðarbandalagsins um að ný aðildarríki verji miklum fjárhæðum til fjárfestinga í margs konar búnaði og til að endurnýja herafla sinn.
    Ástæða er til að athuga reynsluna af fyrri áfanga stækkunar Atlantshafsbandlagsins þegar Pólland, Tékkland og Ungverjaland fengu aðild. Kostnaðarsamar aðgerðir til að uppfylla kröfur um endurnýjun heraflans hafa staðið mjög í þessum þjóðum. Miklar deilur stóðu lengi um endurnýjun flughers Póllands og þau gríðarlegu útgjöld sem henni fylgdu. Í Tékklandi var nýlega ákveðið að fresta útgjöldum til uppbyggingar hersins í kjölfar flóða sem ollu Tékkum miklum búsifjum. Þetta og fleira má nefna til marks um hversu fráleitt það er að stóraukin útgjöld til vígbúnaðarmála séu það sem ríki Austur-Evrópu þurfi mest á að halda. Þvert á móti sárvantar þessar þjóðir fé til uppbyggingar og til að styrkja innviði samfélagsins, þar á meðal og ekki síst að taka á í umvherfismálum sem víða eru í miklum ólestri á þessu svæði.
    Áhugi þjóða í Austur-Evrópu á að tengjast vestrænum stofnunum hvort heldur sem er Evrópusambandinu eða Atlantshafsbandalaginu er skiljanlegur í ljósu hinnar dökku sögu þeirra. Að sjálfsögðu ber að hafa í huga það sjónarmið að virða beri sjálfsákvörðunarrétt þessara þjóða. Þeir kostir sem nýjum aðildarríkjum bjóðast eru hins vegar afgerandi sem og það hvort sú heildarskipan mála sem kemst á þjónar til lengri tíma litið markmiðum um frið, öryggi og stöðugleika allra þjóða, ekki bara sumra eða fáeinna útvalinna.
    Fyrir liggur að hernaðarbandalagið NATO byggir tilvist sína og aðferðafræði á því að áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Þetta er gert þrátt fyrir að Alþjóðadómstóllinn í Haag hafi fyrir mörgum árum dæmt kjarnorkuvopn sem slík og hótun um beitingu þeirra ólögmæta, brot á alþjóðalögum. Það er einnig ljóst að skipulag og starfshættir NATO byggjast að verulegu leyti enn á þeim viðhorfum sem voru ríkjandi á tímum kalda stríðsins, þ.e. á ógnarmætti fælingar, vígbúnaðarhugsun og nauðsyn hernaðarlegra yfirburða. Enn fremur verður að horfa til nýrrar stefnu sem NATO hefur mótað um að taka til hendi utan yfirráðasvæðis sjálfra aðildarríkjanna.
    Minni hlutinn getur því ekki fallist á að það sé jákvætt skref í þróun öryggismála í heiminum að framlengja lífdaga hernaðarbandalagsins NATO. Þvert á móti beri að vinna að því að leggja hernaðarbandalög niður og gæta friðar, stöðugleika og öryggis í heiminum með lýðræðislega uppbyggðum svæðis- og alheimsstofnunum, eins og stofnuninni um öryggi og samvinnu í Evrópu (ÖSE) og endurskipulögðu öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Stækkun NATO sem slík er ekki jákvætt innlegg í þá þróun sem vænlegast væri að vinna að á sviði öryggisgæslumála í Evrópu sem og í heiminum öllum. Með vísan til þessarar afstöðu munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. nóv. 2003.



Steingrímur J. Sigfússon.