Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 435. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 605  —  435. mál.




Frumvarp til laga



um erfðafjárskatt.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Af öllum fjárverðmætum, er við skipti á dánarbúi manns hverfa til erfingja hans, skal greiða skatt í ríkissjóð eftir lögum þessum, enda fari búskiptin fram hér á landi, þó með þeim undantekningum er lög þessi greina.
    Af öllum fasteignum hér á landi, sem eigendaskipti verða að á grundvelli lögerfða, bréferfða eða fyrirframgreiðslu arfs, skal greiða skatt eftir lögum þessum án tillits til þess hvar aðilar að ráðstöfuninni eru búsettir.
    Greiða skal skatt samkvæmt lögum þessum af gjafaarfi, dánargjöfum, fyrirframgreiddum arfi og gjöfum þar sem gefandi hefur áskilið sér afnot eða tekjur af hinu gefna til dauðadags eða um tiltekinn tíma sem ekki er liðinn við fráfall hans.
    Ekki skal greiða erfðafjárskatt af lífeyrissparnaði sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda fari um skattlagningu samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

2. gr.

    Eftirtalin hugtök eru í lögum þessum notuð sem hér segir:
     a.      Sambýlismaður: Sá sem stofnað hefur til óvígðrar sambúðar við einstakling af gagnstæðu kyni og tekur arf eftir hann samkvæmt erfðaskrá þar sem stöðu hans sem sambýlismanns arfleifandans er ótvírætt getið.
     b.      Stjúpbarn: Barn maka, enda hafi það alist upp á heimili arfleifanda.
     c.      Fósturbarn:
                  1.      Barn annars manns er alist hefur upp á heimili arfleifanda frá barnæsku til sjálfræðisaldurs,
                  2.      barn sambýlismanns arfleifanda,
                  3.      barn maka arfleifanda ef það telst ekki stjúpbarn arfleifanda.

3. gr.

    Erfðafjárskattur ræðst af sifjatengslum erfingja við arfleifanda, hvort heldur sem arfur fellur til erfingja samkvæmt beinum lagaákvæðum, erfðaskrá eða dánargjafargerningi.
    Nú hafnar maður eða afsalar sér arfi eftir annan mann og skal þá erfingi, sem við arfsafsalið fær stærri arfshluta en hann ella hefði fengið, greiða af hinum aukna arfi sama erfðafjárskatt og hinum hefði borið að greiða er hafnaði eða afsalaði sér arfi. Sé sá undanþeginn erfðafjárskatti sem hafnar eða afsalar sér arfi skal sá er þann arf hlýtur greiða af honum sama erfðafjárskatt og honum hefði borið að greiða ef hann hefði tekið þann arf beint.

4. gr.

    Af arfi, sem fellur til þess hjóna sem lifir hitt, svo og af arfi sambýlismanns, sbr. a-lið 2. gr., skal engan erfðafjárskatt greiða, sbr. þó ákvæði 2. mgr. 3. gr. Sama gildir um einstaklinga í staðfestri samvist samkvæmt lögum um staðfesta samvist.

5. gr.

    Erfðafjárskattur af arfi annarra erfingja en greinir í 4. gr. ákvarðast þannig:
     a.      Af arfi, sem fellur til niðja hins látna, kjörbarna, stjúpbarna eða fósturbarna eða niðja þeirra, svo og af arfshluta sem ráðstafað hefur verið með erfðaskrá samkvæmt ákvæðum 35. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, skal greiða 5% erfðafjárskatt.
     b.      Af arfi til erfingja sem ekki falla undir a-lið þessarar málsgreinar, svo sem foreldra hins látna eða niðja þeirra, afa eða ömmu hins látna eða barna þeirra eða fjarskyldari eða óskyldra aðila, skal greiða 10% í erfðafjárskatt.
    Nú byrja búskipti eftir lát beggja hjóna og skal þá leggja erfðafjárskatt á arf erfingjanna eins og um eitt bú sé að ræða án tillits til þess hvort erfingjar beggja hjónanna séu hinir sömu eða ekki.

6. gr.

    Af þeim verðmætum sem lög þessi taka til skv. 1. gr. og afhent eru sem fyrirframgreiðsla til erfingja upp í arf skal greiða erfðafjárskatt sem hér segir:
    Erfingjar, sem falla undir a-lið 1. mgr. 5. gr., skulu greiða 5% í erfðafjárskatt.
    Erfingjar, sem falla undir b-lið 1. mgr. 5. gr., skulu greiða 10% í erfðafjárskatt.
    Erfingjar, sem falla undir 4. gr., eru undanþegnir erfðafjárskatti af fyrirframgreiddum arfi.

7. gr.

    Erfðafjárskattur manna reiknast þannig: Af fyrstu 1.000.000 kr. sem samtals falla í arf greiðist enginn erfðafjárskattur. Af fjárverðmætum yfir 1.000.000 kr. greiðist erfðafjárskattur skv. 5. gr.

8. gr.

    Nú deyr maður sem tæmst hefur arfur áður en skiptum á því búi er lokið og skal þá dánarbú hans taka þann arf er hinn látni ella hefði hlotið og greiða þann erfðafjárskatt er honum hefði borið að greiða.

9. gr.

    Gjaldstofn erfðafjárskatts er heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði skv. 10. gr.     
    Með heildarverðmæti skv. 1. mgr. er átt við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna. Gildir þetta um öll verðmæti sem metin verða til fjár, þ.m.t. húsbréf, fasteignaveðbréf, verðtryggð spariskírteini ríkissjóðs, skuldabréf, hugverkaréttindi, líftryggingar, bifreiðar, aflaheimildir o.fl. Séu verðbréf önnur en hlutabréf skráð á opinberu kaupþingi skal telja þau til eignar á kaupþingsverði á þeim degi sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu. Inneignir hjá bönkum, sparisjóðum eða öðrum innlánsdeildum, sem og aðrar inneignir og útistandandi skuldir, skulu taldar að meðtöldum áföllnum vöxtum og/eða verðbótum.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal gjaldstofn eigna samkvæmt þessari málsgrein vera eftirfarandi:
     a.      Hlutabréf skulu talin á nafnverði að meðtöldum jöfnunarhlutabréfum sem réttur hefur stofnast til fyrir lok skipta nema sannað sé að raunvirði eigna félags að frádregnum skuldum sé lægra en hlutafé þess. Sama gildir um stofnsjóðsinneignir hjá samvinnufélögum, stofnfjárbréf í sparisjóðum og stofnfjáreignir í sameignarfélögum. Erlend hlutabréf skal telja til eignar á nafnverði, en ef nafnverð er ekki þekkt skulu bréfin færð til eignar á kaupverði.
     b.      Þegar eign hefur verið seld nauðungarsölu skal miða við uppboðsandvirði eignarinnar.
     c.      Fasteignir skulu taldar á fasteignamatsverði. Af leigulóðarréttindum skal einnig greiða erfðafjárskatt með sama hætti. Nú er eignarréttur að fasteign háður kvöð um innlausnarrétt tiltekins aðila og skal þá leggja erfðafjárskatt á innlausnarverð sé það lægra en fasteignamatsverðið.
                  Sé almennt markaðsverðmæti fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð eignarinnar er erfingjum heimilt að óska eftir mati skv. 17.–23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Er þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið, enda fylgi slík matsgjörð, sem ekki er eldri en fjögurra vikna gömul, erfðafjárskýrslu. Að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla laga nr. 20/1991 um mat samkvæmt þessum staflið.
     d.      Búpeningur skal talinn á því verði sem lagt er til grundvallar álagningu opinberra gjalda á því ári sem erfðafjárskattur er greiddur.

10. gr.

    Skuldir arfleifanda, þ.m.t. væntanleg opinber gjöld, skulu koma til frádráttar áður en erfðafjárskattur er reiknaður, svo og útfararkostnaður arfleifanda og kostnaður sem nauðsynlegur reynist til að skipta búinu og ákvarða skattstofna skv. 9. gr. Þessir liðir skulu sundurliðaðir á erfðafjárskýrslu og studdir gögnum. Erfðafjárskattur samkvæmt lögum þessum er ekki frádráttarbær.

11. gr.

    Nú skipta erfingjar dánarbúi einkaskiptum og skulu þeir þá, innan þeirra tímamarka er í einkaskiptaleyfi greinir, leggja fyrir sýslumann erfðafjárskýrslu til ákvörðunar á erfðafjárskatti, sbr. 93. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. Skal skýrslan vera skilmerkilega útfyllt og gögn fylgja til skýringar þeim fjárhæðum sem þar eru greindar. Með erfðafjárskýrslu skulu fylgja a.m.k. þrjú síðustu skattframtöl arfleifanda.
    Allir erfingjar skulu undirrita erfðafjárskýrsluna.
    Erfingjar sem taka við fyrirframgreiddum arfi skulu afhenda sýslumanni erfðafjárskýrslu til áritunar vegna þeirra verðmæta.
    Erfðafjárskýrsla samkvæmt lögum þessum skal vera í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

12. gr.

    Sýslumaður skal yfirfara erfðafjárskýrslu og gæta þess sérstaklega að hún sé í samræmi við skiptagerð viðkomandi dánarbús.
    Telji sýslumaður skýrslu áfátt að einhverju leyti getur hann veitt viðkomandi aðilum tiltekinn frest til að bæta úr eða leiðrétt sjálfur séu ágallar smávægilegir.
    Þegar sýslumaður hefur yfirfarið erfðafjárskýrslu og telur hana fullnægjandi skal hann ákvarða erfðafjárskatt hvers erfingja, árita skýrsluna og tilkynna hinum skattskylda aðila.
    Nú greinir erfingja á við sýslumann um gjaldstofn vegna tiltekinnar eignar eða annað sem áhrif hefur á fjárhæð erfðafjárskattsins og skal sýslumaður þá veita þeim allt að tveggja vikna frest til að leggja fram gögn til stuðnings kröfum sínum. Sýslumaður má lengja þennan frest um allt að tvær vikur. Að frestinum liðnum skal sýslumaður ákvarða erfðafjárskattinn á grundvelli framkominna gagna og tilkynna erfingjum með sannanlegum hætti. Vilji erfingjar ekki fella sig við ákvörðun erfðafjárskatts geta þeir innan 30 daga frá því að þeim berst tilkynning sýslumanns kært ákvörðun hans til yfirskattanefndar.
    Þegar endanleg niðurstaða um ágreiningsefnið liggur fyrir áritar sýslumaður skýrsluna skv. 3. mgr. Að því búnu skal sýslumaður senda skýrsluna til skattstjóra í sínu skattumdæmi sem yfirfer hana og kannar hvort eignir séu réttilega taldar fram.

13. gr.

    Þegar dánarbúi er skipt opinberum skiptum skal skiptastjóri útfylla erfðafjárskýrslu í samræmi við frumvarp til úthlutunar úr búinu og undirrita hana einn en leggja hana síðan fyrir sýslumann ásamt frumvarpi til úthlutunar til bráðabirgðaákvörðunar á erfðafjárskatti áður en skiptafundur verður haldinn um frumvarpið. Innan viku frá því að skiptum er lokið skal skiptastjóri leggja skýrsluna á ný fyrir sýslumann til ákvörðunar skattsins og áritunar.
    Að lokinni áritun sýslumanns skv. 1. mgr. skal hann senda skýrsluna til skattstjóra í sínu umdæmi sem yfirfer hana og kannar hvort eignir séu réttilega taldar fram.
    Vilji erfingjar ekki fella sig við ákvörðun erfðafjárskatts skv. 1. mgr. geta þeir innan 30 daga frá því að þeim berst tilkynning sýslumanns kært ákvörðun hans til yfirskattanefndar, en ef erfingjar samþykkja getur skiptastjóri lokið skiptunum með því að greiða þá skattfjárhæð, sem sýslumaður hefur ákvarðað, með fyrirvara um endurheimtu. Komi til endurgreiðslu skatts að leystum ágreiningi tekur skiptastjóri upp skiptin á ný til að úthluta því sem er endurgreitt.

14. gr.

    Skattstjóri skal hafa lokið yfirferð erfðafjárskýrslunnar eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 40 dögum frá því að honum barst erfðafjárskýrsla. Þegar skattstjóri hefur yfirfarið erfðafjárskýrslu skal hann gera erfingjum og eftir atvikum skiptastjóra viðvart um að hann hafi lokið yfirferðinni. Geti skattstjóri ekki vegna aðstæðna erfingja gert nauðsynlegar athuganir á erfðafjárskýrslu framlengist framangreindur frestur um þann tíma sem slíkar aðstæður ríkja.

15. gr.

    Telji skattstjóri að eignir séu ekki réttilega taldar fram í erfðafjárskýrslu, gjaldstofn ekki réttur, erfðafjárskattur ekki lagður á viðkomandi aðila, erfðafjárskýrsla eða fylgigögn að öðru leyti ófullnægjandi eða skattstjóri telur frekari skýringa þörf á einhverju atriði skal hann skriflega skora á erfingja eða eftir atvikum skiptastjóra að bæta úr því innan ákveðins frests og láta í té skriflegar skýringar og þau gögn, þ.m.t. bókhald og bókhaldsgögn, sem skattstjóri telur þörf á að fá. Fáist ekki fullnægjandi svar innan tiltekins tíma skal skattstjóri áætla þá liði erfðafjárskýrslu sem hann telur óljósa eða tortryggilega og ákvarða skatt í samræmi við skýrsluna þannig breytta.
    Sé erfðafjárskýrslu breytt með stoð í þessari grein, þ.m.t. ef skattstofn er áætlaður, skal skattstjóri gera viðkomandi aðilum viðvart um breytingarnar með tilkynningu og rökstyðja ástæður þeirra.
    Skattstjóri skal gera viðkomandi sýslumanni viðvart skriflega komi fram upplýsingar um eignir eða breyttan skattstofn sem ekki koma fram í skiptagerð.
    Hafi skattstjóri grun um erfðafjárskattsvik eða að refsiverð brot á lögum um bókhald og ársreikninga hafi verið framin skal hann tilkynna það skattrannsóknarstjóra ríkisins sem ákveður um framhald málsins.

16. gr.

    Skattskyldur aðili, sem telur skatt sinn eða skattstofn skv. 15. gr. eigi rétt ákveðinn, getur sent skriflega rökstudda kæru, studda nauðsynlegum gögnum, til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

17. gr.

    Öllum aðilum, bæði þeim sem skattskyldir eru og öðrum, er skylt að láta sýslumönnum og eða skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann sem hann getur veitt upplýsingar um og varða skattlagningu þeirra aðila eða eftirlit með eða rannsókn á henni. Með skattyfirvöldum í þessari grein er átt við skattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra.
    Vegna skatteftirlits samkvæmt lögum þessum getur skattstjóri, ríkisskattstjóri og menn sem þeir fela eftirlitsstörf krafist þess að skattskyldir aðilar leggi fram til könnunar bókhald sitt og bókhaldsgögn, svo og önnur gögn er varða reksturinn, þ.m.t. bréf og samninga. Enn fremur hafa þessir aðilar aðgang að framangreindum gögnum og aðgang að starfsstöðvum framtalsskyldra aðila og birgðageymslum og heimild til að taka skýrslur af hverjum þeim sem ætla má að geti gefið upplýsingar er máli skipta. Sömu heimildir hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins.
    Stjórnvöld hafa enn fremur heimildir þær er um getur í 2. mgr. gagnvart þeim aðilum sem ekki eru framtalsskyldir.
    Nú verður ágreiningur um skyldu aðila samkvæmt þessari grein og getur sýslumaður, ríkisskattstjóri eða skattrannsóknarstjóri ríkisins þá leitað um hann úrskurðar héraðsdóms. Gegni einhver ekki upplýsingaskyldu sinni má vísa máli til opinberrar rannsóknar.

18. gr.

    Séu verðmæti á erfðafjárskýrslu ranglega fram talin má skattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna.
    Fella skal niður álag samkvæmt þessari grein ef erfingi færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á erfðafjárskýrslu.
         

19. gr.

    Skattar álagðir samkvæmt lögum þessum renna í ríkissjóð og hafa sýslumenn og eftir atvikum tollstjórinn í Reykjavík á hendi innheimtu þeirra. Skattur skal greiddur til innheimtumanns í því umdæmi sem skatturinn er lagður á.
    Áfrýjun skattákvörðunar eða deila um skattskyldu frestar ekki gjalddaga erfðafjárskatts eða leysir neinn undan viðurlögum sem lögð eru á við vangreiðslu hans.
    Erfðafjárskattur skal reiknaður út miðað við verðmæti arfs hvers erfingja á þeim degi sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu.
    Gjalddagi erfðafjárskatts er tíu dögum eftir að sýslumaður tilkynnir erfingjum um áritun erfðafjárskýrslu, sbr. 3. og 5. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 13. gr.
    Sé erfðafjárskattur hækkaður skv. 15. gr. fellur viðbótarfjárhæðin í gjalddaga tíu dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina.
    Hafi erfðafjárskattur ekki verið greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er frá gjalddaga.
    Dráttarvextir samkvæmt lögum þessum skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Um endurgreiðslu oftekins erfðafjárskatts samkvæmt lögum þessum fer samkvæmt lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.
    Sé kæra til meðferðar hjá yfirskattanefnd og nefndin leggur ekki úrskurð á kæru innan lögboðins frests skal greiða erfingja dráttarvexti af fjárhæð sem yfirskattanefnd úrskurðar að skuli endurgreiða, eða dæmd er síðar, frá þeim tíma er frestur nefndarinnar til að kveða upp úrskurð leið.
    Ætíð má krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma er dómsmál telst höfðað til endurgreiðslu skatta samkvæmt lögum þessum.

20. gr.

    Ekki er heimilt að gefa erfingjum út yfirlýsingu um eignarheimild þeirra að tiltekinni eign dánarbús fyrr en erfðafjárskattur af viðkomandi eign hefur verið greiddur.
    Réttaráhrif fyrirframgreiðslu upp í arf miðast við það tímamark þegar erfðafjárskattur er greiddur eða, ef ekki þarf að greiða erfðafjárskatt vegna afhendingar viðkomandi eignar, þegar sýslumaður hefur áritað erfðafjárskýrslu varðandi fyrirframgreiðsluna.
    Erfingjar eru ábyrgir fyrir greiðslu erfðafjárskatts einn fyrir alla og allir fyrir einn, með þeirri takmörkun þó að ekki verður innheimt hjá neinum meira en sem svarar heildararfi hans samkvæmt skiptagerð viðkomandi dánarbús.

21. gr.

    Skýri erfingi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um erfðafjárskatt skal hann greiða fésekt allt að fimmfaldri þeirri fjárhæð í viðbótarerfðafjárskatt sem skatturinn að réttu lagi hefði orðið hærri en hann varð. Skattur af álagi skv. 18. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
    Skýri erfingi rangt eða villandi frá einhverjum þeim atriðum er varða framtal hans má gera honum sekt þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á skattskyldu hans eða skattgreiðslu.
    Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur sýslumanni eða skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi erfðafjárskýrslu annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til sýslumanns eða skattyfirvalda skal sæta þeirri refsingu er segir í 1. mgr. þessarar greinar.
    Hafi erfingi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að gegna skyldu sinni skv. 17. gr. skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Tilraun til brota og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum þessarar greinar.
    Um málsmeðferð samkvæmt þessari grein gilda meginreglur 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.
    

22. gr.

    Nú er eigi fyrir hendi samningur við annað ríki um að komast hjá tvísköttun á fjárverðmæti sem lög þessi taka til og greiddur hefur verið erfðafjárskattur af þeim verðmætum til opinberra aðila í öðru ríki, þá er skattstjóra heimilt samkvæmt umsókn erfingja að lækka erfðafjárskatt hans hér á landi með hliðsjón af þessum erfðafjárskattsgreiðslum hans. Lækkun skal aldrei nema hærri fjárhæð en þeirri sem erfingja væri gert skylt að greiða hér á landi af fjárverðmætum.

23. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á erfðafjárskatti erlendra og íslenskra skattaðila sem eftir gildandi löggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sömu eignum bæði á Íslandi og erlendis.
    Enn fremur er ríkisstjórninni heimilt að gera samninga um gagnkvæm upplýsingaskipti og um innheimtu erfðafjárskatts við önnur ríki.

24. gr.

    Ákvæði XI. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og reglugerðir settar samkvæmt þeim, skulu gilda eftir því sem við á við beitingu laga þessara.

25. gr.

    Fjármálaráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.

26. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2004 og taka til búskipta þar sem andlát á sér stað eftir gildistöku þeirra. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Árið 2000 var tekin sú ákvörðun að færa umsjón og framkvæmd laga um erfðafjárskatt frá félagsmálaráðuneyti til fjármálaráðuneytis. Í framhaldi af því ákvað fjármálaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða lög nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum. Í starfi sínu var nefndinni ætlað að taka tillit til þeirra athugasemda sem komið höfðu fram varðandi skattlagninguna, jafnframt því að hafa hliðsjón af því sem hefur verið að gerast á þessu sviði í nágrannalöndunum. Þá skyldi nefndin einnig skoða skattlagningu dánarbúa, sbr. ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt.
    Frumvarp þetta byggist í stórum dráttum á tillögum nefndarinnar og er því ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, með síðari breytingum.

II. Sögulegar forsendur.
    Núgildandi lög um erfðafjárskatt eru að mörgu leyti orðin úrelt, enda sett við allt aðrar aðstæður en við búum við nú. Lögin eiga uppruna sinn í dönsku lögum, en fyrstu ákvæðin um erfðafjárskatt í Danmörku er að finna í tilskipun 12. september 1792 sem einnig var lögleidd hér á landi (Lagasafn handa alþýðu I: 116–119). Í formála tilskipunarinnar kemur fram að erfðafé þyki heppilegur skattstofn þar sem hinir skattskyldu borgi skatt „af en virkelig formue, som ofte kan ansees som uventet“. Þessar reglur voru svo áréttaðar og þeim breytt með tilskipun 8. febrúar 1810 um gjald af fasteignasölu og erfðafé (Lagasafn handa alþýðu I: 182–185). Þessar tvær lagaheimildir giltu fram til ársins 1911 er lög nr. 15/1911 leystu þær af hólmi. Var þá gerð sú breyting að erfðafjárskatturinn var hækkaður, látinn fara stighækkandi og gerður mishár eftir skyldleika erfingja. Í Alþingistíðindum frá 1921, A, bls. 33, kemur fram að eldri lögin hafi verið orðin „langt á eftir tímanum“. Lög nr. 30/1921 tóku við af eldri lögum. Efni nýju laganna var í flestum efnum óbreytt, en einu breytingarnar sem lagðar voru til voru gerðar í þeim tilgangi að auka tekjur ríkissjóðs, annars vegar með hækkun skattsins á niðjum arfleifanda og hins vegar með ákvæðum sem mundu hafa í för með sér nákvæmara framtal til skattsins en áður tíðkaðist. Þessum lögum var breytt með lögum nr. 20/1972, en þau lög voru sett vegna þeirrar röskunar sem orðin var á skattstiganum vegna stórfelldra verðbreytinga og þeirrar hækkunar á fasteignamati sem tók gildi um áramótin 1971–1972. Með þessum lögum var gerð sú breyting á 1. gr. laganna að í stað orðsins ,,ríkissjóðs“ kom ,,erfðafjársjóðs“, en erfðafjársjóður var stofnaður með lögum nr. 12/1952. Í frumvarpinu var fjallað um það hlutverk erfðafjársjóðs að endurhæfa fólk sem ekki gæti séð sér farborða. Skattþrepunum var jafnframt fækkað. Hámarksskatturinn hélst sá sami, en fram kom í frumvarpi til laganna að jafnvel þótt skatturinn væri lægri en samkvæmt þágildandi lögum mundu tekjur erfðafjársjóðs hækka frá því sem áður væri vegna hinnar miklu hækkunar fasteignamats. Vegna gildistöku hins nýja fasteignamats um áramótin 1976–1977 var skattstiga laganna enn breytt, með lögum nr. 46/1978. Ekki var um grundvallarbreytingar að ræða, fremur en með lögunum frá 1972, og var hundraðshluta erfðafjárskattsins ekki breytt. Á 106. löggjafarþingi voru sett ný heildarlög um erfðafjárskatt, lög nr. 83/1984, sem enn eru í gildi. Í athugasemdum með frumvarpi því er fylgdi lögum þessum kemur fram að frumvarpið feli í sér lögfestingu á lagaframkvæmd sem smám saman hafi þróast og ætti lögfesting reglnanna að koma í veg fyrir þá réttaróvissu sem hætta væri á að myndaðist vegna mismunandi túlkunar í einstökum lögsagnarumdæmum. Í frumvarpinu væri jafnframt að finna verulegar breytingar frá gildandi reglum, svo sem ákvæði sem leiði til þess að langlífari maki arfleifanda verði undanþeginn erfðafjárskatti og sömuleiðis sambýlismaður arfleifanda hafi verið um óvígða sambúð að ræða. Lögunum var næst breytt með lögum nr. 114/1989, en í þeim voru ákvæði í tengslum við gerð samninga milli Norðurlanda til að koma í veg fyrir tvísköttun erfðafjár. Var ákvæði 2. mgr. 1. gr. laganna breytt á þá leið að erfðafjárskatt skyldi greiða af fasteignum hér á landi og óháð því hvar aðilar væru búsettir. Þá var bætt við ákvæði um heimild fyrir ríkisstjórnina til að gera tvísköttunarsamninga við erlend ríki. Síðasta breyting sem gerð var á lögunum var gerð með lögum nr. 174/2000 þegar erfðafjársjóður var lagður niður og málaflokkurinn fluttur frá félagsmálaráðherra til fjármálaráðherra.

III. Almennt um skattlagningu erfðafjár.
    Erfðafé hefur lengi verið talið eðlilegur skattstofn eins og sést best á forsögu íslenska kerfisins. Svipaða sögu er að segja af aðildarríkjum OECD. Einungis tvö ríki af 30 aðildarríkjum stofnunarinnar, þ.e. Ástralía og Kanada, leggja ekki á erfðafjárskatt. Fyrir skattlagningunni liggja ýmis rök varðandi yfirfærslu fjár milli kynslóða en almennt talið er erfðafjárskatturinn einungis ein leið af mörgum til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.
    Erfðafjárskattur er dæmi um skattlagningu við yfirfærslu eigna milli aðila. Önnur dæmi um slíka skattlagningu eru þinglýsingargjöld og stimpilgjöld. Einnig má halda fram að virðisaukaskattur sé í eðli sínu slíkur skattur. Þessi tegund skatta felur það í sér að skattskylda skapast við aðilaskipti að eignarréttindum. Þá er litið til þess að um sé að ræða tekju- eða eignaaukningu hjá móttakanda, þ.e. erfingja í tilviki erfðafjárskattsins. Með öðrum orðum að líta megi á erfðafjárskattinn sem skatt sem komi til viðbótar tekjuskatti.
    Samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt er meginreglan sú að skattskyldar tekjur teljast hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Sérreglur um greiðslu erfðafjárskatts af tilteknum verðmætum sem skattaðilum hlotnast eru því undantekning frá þeirri meginreglu. Þannig segir í 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að til skattskyldra tekna teljist „Beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja, nema um fyrirframgreiðslu upp í arf sé að ræða. Undanskildar eru þó tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir ...“ Þá kemur fram í 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. sömu laga þar sem talið er upp hvað ekki telst til tekna að þar á meðal er „Eignaauki vegna arftöku, fyrirframgreiðslu arfs og dánargjafa, enda hafi erfðafjárskattur verið greiddur.“

IV. Skattlagning erfðafjár í öðrum löndum.
    Þótt flest ríki OECD leggi á erfðafjárskatt eru aðferðir við álagningu hans mjög mismunandi eftir ríkjum. Ákvörðun um skattstofn og skattfjárhæð er misjöfn. Einnig er mjög mismunandi eftir ríkjum hvort lagt er á dánarbúið sem heild eða á einstaka arfshluta. Síðari reglunni er fylgt á Norðurlöndum (nema Danmörku), í Frakklandi, Hollandi, á Spáni og í Þýskalandi, en í Bretlandi, Danmörku og ýmsum fleiri ríkjum Evrópu er dánarbúið andlag skattsins. Í langflestum tilvikum fylgja ríkin þó þeirri meginreglu að miða fjárhæð erfðafjárskattsins við skyldleika. Eftir því sem erfingjar eru fjarskyldari þeim mun hærri er skatturinn.
    Samkvæmt íslenskri og norrænni löggjöf um erfðafjárskatta er almenna reglan sú að greiða skuli skatt af hverjum einstökum arfshluta, skatthlutfallið ræðst af sifjatengslum og fer stighækkandi eftir eftir því sem skyldleikinn fjarlægist. Þá hækkar skatturinn innan hvers flokks eftir því sem arfur verður meiri.
    Nýleg endurskoðun hefur staðið yfir bæði í Noregi og Danmörku á lögum um erfðafjárskatt. Hefur við samningu þessa frumvarps nú sérstaklega verið litið til þeirra breytinga sem lagðar hafa verið til í þessum löndum.
    Við samningu þessa frumvarps var það sérstaklega skoðað hvort skattleggja bæri dánarbúið sem slíkt í stað þess að leggja skatt á hvern arfshluta, einnig hvort leggja bæri á stigvaxandi skatt eða hafa fast skatthlutfall með skattfrelsismörkum og hvort skatthlutfall skyldi vera mismunandi eftir skyldleika og tengslum arfláta og erfingja. Skattur á arfshluta er lagður á einstaka erfingja. Skatthlutfallið ræðst þá almennt af sifjaréttarlegum tengslum við arfláta. Í þeim tilvikum sem skattur er lagður á dánarbúið þá er hann almennt reiknaður af nettóeign búsins. Þá skiptir ekki máli hver er erfingi eða hvernig arfur skiptist á milli erfingja.

V. Gallar gildandi kerfis.
    Meðal þeirra atriða sem hafa verið gagnrýnd í íslenska kerfinu er skortur á skýrum reglum um ákvörðun gjaldstofns til erfðafjárskatts. Mest ber þó á gagnrýni á skatthlutfallið sjálft sem fer stighækkandi eftir hæð gjaldstofns og sifjatengslum og getur orðið allt að 45%. Ljóst er að stighækkandi skattur getur skapað ákveðna hættu á ýmiss konar ráðstöfunum fyrir andlát arfleifanda. Þá er almennt talið að háir jaðarskattar ýti undir skattundandrátt.
    Í gildandi lögum eru matskenndar heimildir fyrir ráðherra til að undanþiggja ákveðna aðila greiðslu erfðafjárskatts. Þannig hefur ráðherra samkvæmt gildandi lögum heimild til að undanþiggja greiðslu erfðafjárskatts eins og um maka eða sambýlismann væri að ræða „annars konar sambúðarform ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, svo sem varanleg örorka, alvarleg veikindi eða aðrar sambærilegar aðstæður“. Þá greiða kirkjur, opinberir sjóðir, líknar- og menningarstofnanir og félög ekki erfðafjárskatt. Í mörgum tilvikum er ekki augljóst hvort uppfyllt séu skilyrði fyrir undanþágu.
    Málsmeðferðarreglur erfðafjárskatts, sem og álagning, eftirlit og innheimta hans, hafa verið mjög frábrugðnar því sem almennt gildir um aðra skatta. Álagning og innheimta skattsins hefur alfarið verið á hendi sýslumanna, en eins konar viðbótareftirlit hjá skattstjórum og Ríkisendurskoðun. Þannig hafa skattstjórar haft það hlutverk að yfirfara erfðafjárskýrslur að lokinni innheimtu skattsins, jafnframt því að gera sýslumönnum viðvart hafi einhverju verið ábótavant við álagninguna. Að öðru leyti hafa skattyfirvöld ekki komið að álagningu og eftirliti með erfðafjárskattinum og hafa ágreiningsmál milli aðila ekki verið kæranleg til yfirskattanefndar eins og gildir um aðra skatta.

VI. Helstu breytingar frumvarpsins.
    Áður en vikið verður nánar að einstökum ákvæðum frumvarpsins verður gerð nokkur grein fyrir meginefni þess og helstu breytingum frá gildandi lögum.

A. Hverjir eru skattskyldir?
    
Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins eru það erfingjar sem eru skattskyldir, þ.e. þeir er taka við arfi, gjafaarfi, dánargjöfum, fyrirframgreiddum arfi og gjöfum þar sem gefandi hefur áskilið sér afnot eða tekjur af hinu gefna.
    Samkvæmt gildandi lögum eru maki og sambýlismaður eða sambýliskona undanþegin greiðslu erfðafjárskatts og eru ekki lagðar til breytingar á því fyrirkomulagi. Jafnframt er í gildandi lögum gert ráð fyrir heimild ráðherra til að undanþiggja greiðslu erfðafjárskatts „annars konar sambúðarform ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, svo sem varanleg örorka, alvarleg veikindi eða aðrar sambærilegar aðstæður“. Sama gildir um undanþágu frá greiðslu skattsins fyrir kirkjur, opinbera sjóði, líknar- og menningarstofnanir eða félög. Sama gildir um opinber söfn landsins og alþjóðlegar stofnanir. Í frumvarpinu lagt til að heimildir ráðherra til að undanþiggja þessa aðila greiðslu erfðafjárskatts verði felldar brott. Maki og sambýlismaður eða sambýliskona verða þó áfram undanþegin greiðslu erfðafjárskatts. Samfara þeim lækkunum erfðafjárskattsins sem lagðar eru til í frumvarpinu er talið að ekki séu lengur forsendur fyrir sérstökum undanþágum sem verið hafa í gildi hingað til auk þess sem það hefur valdið vandkvæðum í framkvæmd að meta framangreind atriði. Mun breytingin leiða til þess að fyrrgreindir aðilar greiði framvegis 10% erfðafjárskatt.

B. Flokkun skattaðila.
    Í frumvarpinu er erfingjum skipað í tvo skattflokka, sbr. 1. og 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins, í stað þriggja eins og verið hefur samkvæmt gildandi lögum.
    Skipan í skattflokka byggist á skyldleika erfingja og arfleifanda og er skatthlutfallið mishátt eftir flokkum. Í a-flokki eru niðjar arfleifanda, kjörbörn, stjúpbörn, fósturbörn og niðjar þeirra, svo og þeir bréferfingjar sem arfleifandi hefur ráðstafað fé til samkvæmt heimild í 35. gr. erfðalaga, þ.e. þegar hann á skylduerfingja á lífi. Í b-flokki eru aðrir en þeir sem falla undir a-flokk, þ.e. foreldrar hins látna og niðjar þeirra, þar á meðal systkin hins látna, afi og amma og börn þeirra, þar á meðal kjörbörn og svo fjarskyldari erfingjar og óskyldir. Aðrir bréferfingjar en þeir sem rúmast innan fyrri flokksins sæta skattlagningu skv. 2. mgr. 5. gr.

C. Fjárhæð skattsins og skattfrelsismörk.
    Tvær veigamestu breytingar frumvarpsins eru annars vegar veruleg lækkun skatthlutfallsins og hins vegar hækkun skattfrelsismarka. Þannig er gert ráð fyrir að af erfðafé í a-flokki skuli greiða 5% erfðafjárskatt og af erfðafé í b-flokki skuli greiða 10% erfðafjárskatt. Ræðst skattfjárhæðin af skyldleika erfingja við arfleifanda eins og samkvæmt gildandi lögum. Skatturinn er því hærri eftir því sem skyldleikinn er firnari. Slíkar reglur eru réttlættar út frá erfðaréttarlegum sjónarmiðum, þ.e. með vísan til þess að erfðaréttur fjarskyldari ættingja er veikari en erfðaréttur náskyldra. Hins vegar hækkar skatturinn ekki eftir því sem erfðafé vex eins og er samkvæmt gildandi lögum. Hann er með öðrum orðum ekki stigvaxandi.
    Samkvæmt gildandi lögum er skatthlutfall þeirra erfingja sem falla munu undir a-flokk samkvæmt frumvarpi þessu 5% á gjaldstofn undir 830 þús. kr. sem hækkar um 1% fyrir hverjar 830 þús. kr. umfram það mark þar til 4,1 millj. kr. eignamarki er náð. Af eignum umfram það greiðist 10% skattur. Í gildandi lögum fer skatthlutfall þeirra erfingja sem falla munu undir b-flokk stighækkandi miðað við 830 þús. kr. eignabil fyrir hver tvö prósent frá 15% upp í 25%, þar til 4,1 millj. kr. eignamarkinu er náð. Sem fyrr segir er tillaga frumvarpsins sú að allir þeir erfingjar sem samkvæmt gildandi lögum falla undir C-flokk verði skattlagðir með erfingjum í b- flokki. Í C-flokki samkvæmt gildandi lögum er skatthlutfallið á bilinu 30–45% miðað við 830 þús. kr. eignabil fyrir hver þrjú prósent. Það þýðir að erfðafjárskattur af eignum umfram 4,1 millj. kr. í C-flokki er 45% samkvæmt gildandi lögum. Nái frumvarpið fram að ganga munu þessir aðilar greiða 10% erfðafjárskatt eftir breytinguna. Af þessu sést að tillaga frumvarpsins gerir ráð fyrir að verulega verði dregið úr jaðaráhrifum erfðafjárskattsins enda óvenju mikil í gildandi kerfi.
    Í frumvarpinu er miðað við að heildarskattfrelsismörk í hverju dánarbúi verði 1 millj. kr. og að erfðafjárskattur verði eingöngu lagður á þá fjárhæð sem er umfram viðmiðunarmörkin. Í dag eru skattfrelsismörkin afar lág, eða einungis 60 þús. krónur. Þá er skatturinn lagður á alla fjárhæðina sé hún hærri en 60 þús. kr., en ekki einungis það sem umfram er.
    Samfara verulegri lækkun skatthlutfallsins og skattfrelsismarkanna er horfið frá ýmsum undanþágum sem verið hafa í lögunum, sbr. umfjöllun undir A-lið hér að framan. Há skatthlutföll vekja ávallt upp kröfur um undantekningarreglur á ýmsum sviðum. Með þeirri lækkun og einföldun á skattlagningunni sem lögð er til í frumvarpinu ætti að vera svigrúm til þess að afnema undanþágur frá greiðslu erfðafjárskatts sem verið hafa í gildi án þess að það komi of þungt niður á þeim aðilum sem hafa getað nýtt sér þær.

D. Ákvörðun gjaldstofns.
    Í frumvarpinu eru ítarlegri ákvæði um gjaldstofn erfðafjárskatts en verið hafa samkvæmt gildandi lögum, án þess að um breikkun skattstofnsins sé að ræða. Þá eru sett skýrari ákvæði um við hvaða tímamark skuli ákveða gjaldstofninn.
    Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins er gjaldstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði. Erfðafjárskatturinn er síðan reiknaður út miðað við verðmæti arfs hvers erfingja á gjalddaga skattsins, þ.e. við skiptalok. Sú meginregla er lögð til að við ákvörðun gjaldstofns sé miðað við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna. Frá þeirri meginreglu eru fjórar undantekningar sambærilegar þeim sem eru í gildandi lögum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að hlutabréf verði talin fram á nafnverði eins og samkvæmt gildandi lögum. Í öðru lagi skal þegar eign hefur verið seld nauðungarsölu miða verðmæti við uppboðsandvirði eignarinnar. Þriðja undanþágan varðar fasteignir. Fasteignir skulu taldar á fasteignamatsverði. Hins vegar er tekið upp mikilvægt nýmæli varðandi fasteignir sem felur það í sér að sé almennt markaðsverðmæti fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð eignarinnar er erfingjum heimilt að óska eftir mati skv. 17.–23. gr. laga nr. 90/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Er þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið, enda fylgi erfðafjárskýrslu matsgjörð sem ekki er eldri en fjögurra vikna gömul. Fjórða og síðasta undanþágan varðar mat á búpeningi og er það óbreytt frá gildandi lögum.

E. Málsmeðferðarreglur, álagning og innheimta.
    Samkvæmt gildandi lögum skulu sýslumenn fyrir 15. janúar ár hvert senda skattstjóra í sínu skattumdæmi eitt eintak af öllum erfðafjárskýrslum sem þeir hafa afgreitt á næstliðnu ári. Jafnframt skal sýslumaður senda Ríkisendurskoðun fyrir sama tíma eitt eintak af öllum erfðafjárskýrslum sem þeir hafa afgreitt á næstliðnu ári. Í gildandi lögum er einnig mælt fyrir um endurskoðun skattstjóra á skýrslunum, einkum framtöldum eignum, og um endurskoðun Ríkisendurskoðunar á ákvörðun skattsins. Telji skattstjóri eignir vantaldar gerir hann sýslumanni viðvart. Skal sýslumaður ganga eftir skýringum erfingja, sbr. 2. mgr. 11. gr. gildandi laga. Ef vantalning er afsakanleg skal sýslumaður ákvarða erfðafjárskatt að nýju á grundvelli nýrrar erfðafjárskýrslu erfingja. Að öðrum kosti ákvarðar sýslumaður viðbótarerfðafjárskatt með rökstuddum úrskurði, sbr. 20. gr.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ítarlegri reglur um málsmeðferð en er að finna í gildandi lögum. Annars vegar eru reglur um hlutverk sýslumanns við ákvörðun á erfðafjárskatti og hins vegar um eftirlitshlutverk skattstjóra. Þá er lögð til sú meginbreyting að ekki er gert ráð fyrir sérstöku eftirliti Ríkisendurskoðunar. Þess í stað er kveðið skýrar á um allt eftirlit skattstjóra. Gert er ráð fyrir að skattstjóri endurákvarði erfðafjárskatt komi fram nýjar eignir eða verðmæti við eftirlit hans í stað sýslumanns samkvæmt gildandi lögum. Miðað er við að skattstjóri ljúki yfirferð sinni eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 40 dögum eftir að honum barst erfðafjárskýrsla frá sýslumanni. Engin slík ákvæði um málshraða er að finna í gildandi lögum, en með þessu er leitast við að ljúka þessum málum sem fyrst. Skattstjóra ber eftir sem áður að gera viðkomandi sýslumanni viðvart komi fram nýjar eignir sem ekki lágu fyrir í upphafi þar sem nauðsynlegt er að taka upp skiptin í slíkum tilvikum, sbr. lög um skipti á dánarbúum o.fl.
    Í frumvarpinu eru einnig ítarlegri ákvæði um gjalddaga erfðafjárskatts og viðurlög sé skatturinn ekki greiddur á réttum tíma, sem og endurgreiðslu oftekins erfðafjárskatts og kæruheimild til yfirskattanefndar sem er nýjung.

VII. Áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    
Tekjur ríkissjóðs af erfðaskatti sveiflast talsvert milli ára. Á síðustu fimm árum hefur innheimta numið um 665 millj. kr. á ári að jafnaði. Sú fjárhæð hefur þó hækkað nokkuð síðustu ár, m.a. vegna hækkandi fasteignamats, enda eru fasteignir megingjaldstofninn. Á árinu 2002 námu tekjur af þessum skattstofni 769 millj. kr. og er reiknað með að tekjurnar verði nálægt 800 millj. kr. í ár.
    Erfitt er að meta með nákvæmni áhrif breytingartillagna frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs, m.a. vegna ónógra upplýsinga um skiptingu skattteknanna eftir gjaldflokkum í gildandi kerfi. Lausleg áætlun gefur til kynna eftirfarandi skiptingu gjaldstofnsins á mismunandi skattflokka samkvæmt gildandi lögum:

     Gjaldflokkur A (5–10%)     85%
    Gjaldflokkur B (15–25%)     13%
    Gjaldflokkur C (30–45%)       2%

    Af þessum tölum sést að meginhluti erfingja, eða um 85%, lendir í lægsta skatthlutfallinu sem verður 5% eftir breytinguna. Ekki liggur fyrir hvert meðaltal arfs í þeim gjaldflokki er nú eða í öðrum gjaldflokkum og því útilokað að reikna út áhrif breytinganna af einhverri nákvæmni. Einnig er óljóst hvaða áhrif hækkun skattleysismarka samkvæmt tillögum frumvarpsins kemur til með að hafa. Á hinn bóginn er ljóst að þessar breytingar munu að óbreyttu skerða tekjur ríkissjóðs allnokkuð, en á móti vegur fækkun undanþágna og væntanlega virkari framkvæmd og eftirlit með skattheimtunni. Þegar allt er lagt saman má þó gera ráð fyrir að ríkissjóður verði af nokkrum tekjum við breytinguna, eða allt að 300–400 millj. kr.

VIII. Áhrif á gjaldendur.
    Áhrif breytingartillagna frumvarpsins eru nokkuð mismunandi eftir skattflokkum, en í öllum tilvikum ætti skatturinn að lækka ef frá eru taldir þeir aðilar sem hafa verið undanþegnir skattinum en verða nú skattskyldir. Í eftirfarandi töflu er birtur lauslegur samanburður á skattflokkum fyrir og eftir breytingu. Í öllum tilvikum er erfingi aðeins einn og skattskyldur arfur 3 millj. kr. þegar kostnaður hefur verið dreginn frá.

Í krónum      Fyrir breytingu Eftir breytingu Áhrif
Skattflokkur A 190.274 100.000 - 90.274
Skattflokkur B 530.559 200.000 -330.559
Skattflokkur C 1.020.856 200.000 -820.856


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Greinin sem fjallar um andlag erfðafjárskatts er efnislega óbreytt frá 1. gr. laga nr. 83/1984. Skv. 1. mgr. eru það erfingjar sem greiða skulu skattinn og skv. 3. mgr. þeir sem taka við gjafaarfi, dánargjöfum, fyrirframgreiddum arfi og gjöfum þar sem gefandi hefur áskilið sér not eða tekjur af hinu gefna til dauðadags eða um tiltekinn tíma sem ekki er liðinn við fráfall hans. Það eru því erfingjar og gjafþegar sem eru skattskyldir. Athuga ber þó að í lögum um tekjuskatt og eignarskatt er mælt fyrir um skatt á gjöfum, sbr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Til tekjuskatts teljast samkvæmt ákvæðinu „Beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja, nema um fyrirframgreiðslu upp í arf sé að ræða.“ Ef ekki er greiddur erfðafjárskattur af fyrirframgreiðslu upp í arf kann því að vera litið svo á að um gjöf sé að ræða og fer þá um skattlagningu samkvæmt fyrrgreindu ákvæði laga nr. 90/2003. Sama gildir um dánargjafir og eignaauka vegna arftöku. Meginreglan samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt er að slík eignaaukning er tekjuskattsskyld, sbr. 7. gr., en á grundvelli 1. tölul. 28. gr. laganna telst eignaaukningin ekki til tekna, enda hafi erfðafjárskattur verið greiddur.
    Í 1. mgr. er við það miðað að búskiptin fari fram hér á landi. Að því er varðar fasteignir á Íslandi skal greiða skattinn á Íslandi án tillitis til þess hvar erfingjar eða arfleifandi eru búsettir. Ákvæðið kom inn með 1. gr. laga nr. 114/1989 til samræmis við reglur annars staðar á Norðurlöndum, en þar er alls staðar krafist erfðafjárskatts af fasteignum í því landi þar sem þær eru án tillits til þess hvar búskipti fara fram. Í þeim tilvikum sem búskipti fara fram hér á landi og búið á fasteign erlendis færi skv. 1. mgr. Þess ber að geta að ákvæði þessi verður að lesa með hliðsjón af ákvæði 22. gr. frumvarpsins sem er samhljóða 3. mgr. 25. gr. laga nr. 83/1984 og kom inn í lögin með breytingu sem gerð var með 2. gr. laga nr. 114/1989.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um skattalega meðferð lífeyrissparnaðar sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóðs. Er ákvæðið sett inn til að taka af tvímæli um að ekki beri að greiða erfðafjárskatt af slíkum lífeyrissparnaði. Um skattlagningu hans fer samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Iðgjöld vegna lífeyrissparnaðar eru frádráttarbær frá skattskyldum tekjum, sbr. A-lið 30. gr. laga nr. 90/2003, og því ber að greiða tekjuskatt við útborgun lífeyrisins til rétthafa.
    

Um 2. gr.

    Greinin er samhljóða 2. gr. laga nr. 83/1984 og þarfnast því ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Greinin er samhljóða 3. gr. laga nr. 83/1984, þó með þeirri undantekningu að gert er ráð fyrir þeim möguleika erfingja að hafna arfi, sbr. 2. mgr. Um skattlagningu hjá viðtakanda fer eftir sömu reglu eins og um afsal arfs væri að ræða.

Um 4. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 1. mgr. 4. gr. gildandi laga. Þá er áréttað að reglan gildi einnig um einstaklinga í staðfestri samvist, sbr. lög þar að lútandi.

Um 5. gr.

    Í greininni er annars vegar mælt fyrir um skatthlutfall erfðafjárskatts og hins vegar skipan erfingja í skattflokka. Skipan í skattflokka byggist á skyldleika erfingja og arfleifanda. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt erfðaheimildin sé bréferfð, en ekki lögerfð. Í a-flokknum með lægri skattfjárhæð (5% erfðafjárskattur) eru niðjar arfleifanda, kjörbörn, stjúpbörn, fósturbörn og niðjar þeirra og þeir bréferfingjar sem arfleifandi hefur ráðstafað fé til samkvæmt heimild í 35. gr. erfðalaga, þ.e. þegar hann á skylduerfingja á lífi. Skv. 35. gr. erfðalaga er heimilt að ráðstafa fé til bréferfingja með því að skerða hlut skylduerfingja. Bréferfingjum samkvæmt þessu ákvæði er skipað í a-flokk þar sem talið er að þegar svona standi á sé um sérstaklega náið samband arfleifanda og bréferfingja að ræða. Lagt er til að aðrir erfingjar og bréferfingjar verði skattlagðir í b-flokki (10% erfðafjárskattur).
    Ákvæði 2. mgr. er óbreytt og samhljóða 4. mgr. 4. gr. laga nr. 83/1984.

Um 6. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um fyrirframgreiðslu upp í arf. Af greininni leiðir að ráðstöfun telst ekki vera fyrirframgreiðsla arfs nema um hana sé gerð erfðafjárskýrsla og erfðafjárskattur greiddur. Að öðrum kosti væri framlag talið lífsgjöf, nema fyrrgreindur háttur sé hafður á, sbr. einnig athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins. Fyrirframgreiddan arf skal greiða þegar framlag hefur verið innt af hendi. Ber að leggja fram erfðafjárskýrslu og fá áritun sýslumanns, sbr. 3. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Réttaráhrif fyrirframgreiðslu miðast við það tímamark þegar erfðafjárskattur er greiddur, sbr. 2. mgr. 20. gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lögð til veruleg lækkun á skatthlutfallinu. Lagt er til að skatthlutfallið verði 5% hjá þeim erfingjum sem falla undir a-lið 1. mgr. 5. gr. en 10% hjá þeim erfingum sem falla undir b-lið sömu málsgreinar. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 7. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um verulega hækkun skattleysismarka frá því sem verið hefur. Gert er ráð fyrir að skattleysismörk fyrir hvert bú verði 1 millj. kr. Um greiðslu erfðafjárskatts af því sem umfram er fer skv. 5. gr. Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um fyrirframgreiðslu arfs.

Um 8. gr.

    Ákvæði þetta er samhljóða 8. gr. laga nr. 83/1984.

Um 9. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um gjaldstofn erfðafjárskatts og hvernig meta eigi þær eignir sem þar eru taldar fram. Er meginreglan sú að miða verðmæti allra eigna við markaðsverðmæti. Til áréttingar eru síðan tilgreind algengustu verðmæti og eignir sem falla undir meginregluna. Þá er leitast við að afmarka skýrt við hvaða tímamark skuli miða gjaldstofn erfðafjárskatts og við hvaða tímamark skuli ákvarða verðmæti hans.
    Samkvæmt 1. mgr. skal gjaldstofn erfðafjárskatts vera heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði. Erfðafjárskatturinn skal síðan reiknaður út miðað við verðgildi eignar eða verðmæta arfs hvers erfingja á þeim tíma sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu, þ.e. við skiptalok, sbr. 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins. Gjalddagi skattsins er síðan 10 dögum eftir að sýslumaður tilkynnir erfingjum um áritun erfðafjárskýrslu, sbr. 4. mgr. 19. gr. frumvarpsins. Ákvæði 1. og 2. mgr. ákvæðsins eru efnislega samhljóða núgildandi reglum, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 83/1984. Gildandi ákvæði hafa þótt óskýr og er leitast við að kveða skýrar á um þessi atriði í frumvarpi þessu.
    Í 2. mgr. er finna skilgreiningu á því hvað átt er við með „heildarverðmæti“ fjárhagslegra verðmæta í 1. mgr. ákvæðisins. Þar eru jafnframt taldar upp helstu eignir og verðmæti sem meta ber á markaðsverði. Er það á ábyrgð erfingja að sjá til þess að rétt markaðsverðmæti eigna sé skráð á erfðafjárskýrslu.
    Í 3. mgr. eru taldar upp í fjórum stafliðum undantekningar frá meginreglu 2. mgr. ákvæðisins um markaðsverðmæti. Skv. a-lið skal miða verðmæti hlutabréfa við nafnverð. Skv. b-lið skal miða verðmæti eignar sem seld hefur verið nauðungarsölu við uppboðsandvirði. Skv. c-lið skulu fasteignir taldar á fasteignamatsverði. Frá þeirri reglu er ein undantekning sem felur í sér að í þeim tilvikum sem almennt gangverð fasteignar er talið lægra en fasteignamatsverð sé erfingjum heimilt að óska eftir mati skv. 17.–23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Er þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið. Að lokum er í d-lið 3. mgr. sérregla varðandi ákvörðun gjaldstofns þegar um búpening er að ræða.

Um 10. gr.

    1. og 2. málsl. greinarinnar eru samhljóða 10. gr. gildandi laga. Til að taka af allan vafa er í 3. málsl. ákvæðisins tekið fram að erfðafjárskattur samkvæmt lögunum sé ekki frádráttarbær.

Um 11. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um skil á erfðafjárskýrslu til sýslumanns. Er ákvæðið efnislega samhljóða 11. gr. gildandi laga. Það nýmæli er lagt til að erfðafjárskýrslu skuli fylgja þrjú síðustu skattframtöl arfleifanda. Er þetta gert til þess að sýslumaður geti um leið og hann veitir viðtöku erfðafjárskýrslu kannað réttmæti hennar þannig að allar eignir arfleifanda skili sér inn á erfðafjárskýrsluna. Þá er gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri geti ákveðið í hvaða formi erfðafjárskýrsla skuli vera. Opnar þetta meðal annars möguleika til þess að skila rafrænum erfðafjárskýrslum.

Um 12. gr.

    Greinin mælir fyrir um eftirlit sýslumanns með réttmæti erfðafjárskýrslu. Er ákvæði greinarinnar að mestu efnislega samhljóða ákvæðum 12. og 13. gr. gildandi laga, en leitast hefur verið við að kveða skýrar á um eftirlit sýslumanns í frumvarpinu.
    Í 4. mgr. ákvæðisins er að finna nýmæli sem lýtur að þeirri breytingu á málsmeðferð sem lögð er til í frumvarpinu. Þannig er gert ráð fyrir að erfingjar geti borið ágreiningsefni sín undir yfirskattanefnd vilji þeir ekki fella sig við ákvörðun sýslumanns. Er þetta úrræði til viðbótar því úrræði sem verið hefur samkvæmt gildandi lögum, en erfingjar geta ávallt krafist úrlausnar héraðsdómara um skattskyldu og skattfjárhæð eftir ákvæðum 119. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl.
    Samkvæmt 5. mgr. skal sýslumaður senda skattstjóra í sínu skattumdæmi erfðafjárskýrslu sem skal yfirfara hana og kanna hvort eignir séu réttilega taldar fram.

Um 13. gr.

    1. mgr. greinarinnar sem mælir fyrir um framkvæmd skiptastjóra við opinber skipti er efnislega samhljóða 1. mgr. 14. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir að frumvarp til úthlutunar fylgi með erfðafjárskýrslu til sýslumanns. Að lokinni áritun sýslumanns skal hann senda skýrsluna til skattstjóra í sínu umdæmi sem kannar hvort eignir séu réttilega taldar fram, sbr. 2. mgr.
    3. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 14. gr. laganna að viðbættu því nýmæli að heimilt er að kæra ákvörðun sýslumanns til yfirskattanefndar.

Um 14. gr.

    Ákvæðið er nýmæli að því leyti að gert er ráð fyrir að sýslumaður sendi viðkomandi skattstjóra erfðafjárskýrslur jafnóðum og hann lýkur áritun þeirra, sbr. 5. mgr. 12. gr. og 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins. Skattstjóra eru síðan sett ákveðin tímamörk til að ljúka endurskoðun sinni. Þá er gert ráð fyrir að skattstjóri geri erfingjum sérstaklega viðvart þegar hann hefur lokið skoðun sinni.

Um 15. gr.

    Ákvæði greinarinnar er nýmæli, en þar er mælt fyrir um málsmeðferð skattstjóra komi í ljós tormerki á erfðafjárskýrslu. Greinin er samin með hliðsjón af 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Samkvæmt 1. mgr. skal skattstjóri skriflega skora á erfingja og eftir atvikum skiptastjóra að gefa umbeðnar skýringar á erfðafjárskýrslu telji hann skýrsluna ófullnægjandi. Þess ber að geta að í þeim tilvikum sem erfingjar eru fleiri en einn ber skattstjóra að leita viðhorfa þeirra allra til álitaefnisins áður en hann tekur ákvörðun, nema fyrir liggi skýrt umboð um fyrirsvar.
    Samkvæmt 2. mgr. er gert ráð fyrir að skattstjóri endurákvarði erfðafjárskatt sé erfðafjárskýrslu breytt í framhaldi af skoðun hans.

Um 16. gr.

    Í greininni er að finna nýmæli sem felur í sér kæruheimild á ákvörðunum skattstjóra skv. 15. gr. til yfirskattanefndar samkvæmt lögum um yfirskattanefnd.

Um 17. gr.

    Ákvæðið er að mestu leyti í samræmi við þá upplýsingaskyldu sem er finna í 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 18. gr.

    Ákvæði greinarinnar er samið með hliðsjón af sambærilegu ákvæði 108. gr. laga nr. 90/ 2003, um tekjuskatt og eiganrskatt. Greinin fjallar um hvernig með skuli fara ef eignir eru ekki réttilega taldar fram til erfðafjárskatts.

Um 19. gr.

    Greinin mælir fyrir um innheimtu, gjalddaga og viðurlög við vangreiðslu erfðafjárskatts. Er ákvæðið fært til samræmis við innheimtu og álagningu annarra skatta og gjalda í ríkissjóð.
    Samkvæmt 1. mgr. rennur erfðafjárskattur í ríkissjóð og tollstjórar hafa á hendi innheimtu þeirra. Í Reykjavík mun sýslumaðurinn í Reykjavík taka við greiðslu erfðafjárskatts, en þegar um skattbreytingu er að ræða hjá skattstjóra mun tollstjórinn í Reykjavík annast innheimtu skattsins.
    Samkvæmt 3. mgr. skal erfðafjárskattur reiknaður út miðað við verðgildi eignar eða verðmæti arfs hvers erfingja á þeim tíma sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu, þ.e. við skiptalok.     Samkvæmt 4. mgr. er gjalddagi erfðafjárskatts tíu dögum eftir að sýslumaður tilkynnir erfingjum um áritun erfðafjárskýrslu, sbr. 3. og 5. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 13. gr. frumvarps þessa. Ef skattstjóri síðan hækkar eða eftir atvikum lækkar ákvarðaðan erfðafjárskatt fellur sú skattbreyting jafnframt í gjalddaga tíu dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina, sbr. 5. mgr. Ef skatturinn er ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er frá gjalddaga, sbr. 6. mgr. Dráttarvextir eru þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir, sbr. lög um vexti og verðtryggingu.
    Ákvæði 8. mgr. er sett hér til áréttingar, en lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda gilda um oftekinn erfðafjárskatt.
    Ákvæði 9. og 10. mgr. eru efnislega samhljóða 3. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 20. gr.

    Ákvæði 1. og 2. mgr. þessarar greinar eru samhljóða ákvæðum 5. og 6. mgr. 7. gr. gildandi laga.
    Ákvæði 3. mgr. er samhljóða ákvæði 2. mgr. 21. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu eru erfingjar ábyrgir fyrir greiðslu erfðafjárskatts. Er það óskipt ábyrgð, en með þeirri takmörkun að ekki verður innheimt hjá neinum meira en sem svarar heildararfi hans samkvæmt skiptagerð viðkomandi dánarbús.

Um 21. gr.

    Í greininni er að finna refsiákvæði vegna brota á lögunum. Er ákvæðið samið með hliðsjón af 109. og 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 22. og 23. gr.

    Greinarnar eru samhljóða 25. gr. gildandi laga. Ákvæðið kom inn í lögin með breytingu sem gerð var með 2. gr. laga nr. 114/1989.

Um 24. gr.

    Ákvæðið vísar til XI. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, Ýmis ákvæði um skattyfirvöld.

Um 25. og 26. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um erfðafjárskatt.

    Frumvarp þetta felur í sér heildarendurskoðun á lögum um erfðafjárskatt sem að stofni til eru frá árinu 1984. Helstu breytingarnar frá gildandi lögum miða að því að lækka skatthlutföll og hækka skattfrelsismörk og draga þar með úr jaðarskattsáhrifum. Gert er ráð fyrir að skatthlutföll verði ekki lengur stighækkandi, heldur verði tveir flokkar skattaðila eftir skyldleika erfingja þar sem lagður verði á 5% skattur í öðrum flokknum en 10% í hinum. Miðað er við að skattfrelsismörk í dánarbúi verði 1 m.kr. í stað 60.000 kr. samkvæmt núgildandi ákvæðum. Í ljósi þess að skatturinn lækkar talsvert er hins vegar lagt til að horfið verði frá ýmsum undanþágum sem nú eru heimilar, svo sem þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi hjá erfingja eða þegar í hlut eiga opinberir sjóðir, kirkjur, félög o.fl. Þá miðar frumvarpið að því að málsmeðferðarreglur erfðafjárskatts hjá sýslumönnum og skattstjórum verði gerðar skýrari og skilvirkari á ýmsan hátt, auk þess sem heimilt verði að skjóta málum til úrskurðar hjá yfirskattanefnd.
    Ekki liggja fyrir nægilega góð gögn um núverandi innheimtu skattsins til að unnt sé að áætla áhrif frumvarpsins á þessar tekjur ríkissjóðs. Samkvæmt lauslegu mati er þó reiknað með að tekjutapið verði í kringum 300–400 m.kr. þegar þess er gætt að framkvæmd og eftirlit ætti að verða skilvirkara og að lækkun skattsins ætti að draga úr undanskotum. Skattálagningin verður einfaldari samkvæmt frumvarpinu og er ekki ástæða til að ætla að breytingar á framkvæmdinni hafi teljandi áhrif á kostnað stjórnsýslunnar verði það lögfest.