Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 254. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 628  —  254. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 37 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson og Arndísi Ármann Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Hermann B. Haraldsson og Þorstein Mána Árnason frá Félagi dagabátaeigenda, Óskar Þór Karlsson frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Einar Kristjánsson útgerðarmann, Grétar Guðlaugsson útgerðarmann og Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Byggðastofnun, Rannsóknamiðstöð Íslands, Félagi dagabátaeigenda, Landssambandi smábátaeigenda, Fiskistofu, Sjómannasambandi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Hafrannsóknastofnuninni.
    Tvær efnisbreytingar felast í frumvarpinu. Lagt er til að ráðstöfun fjár úr sjóði vegna ólögmæts sjávarafla takmarkist ekki við hafrannsóknir og eftirlit eins og nú er heldur verði jafnframt heimilt að ráðstafa fé til nýsköpunar á sviði sjávarútvegs. Þá er lagt til að Fiskistofu verði heimilað að beita leyfissviptingum vegna vanskila á greiðslum vegna ólögmæts afla.
    Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Hina fyrri má meðal annars rekja til þess að samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (255. mál) sem liggur fyrir þinginu og nefndin afgreiddi samhliða þessu máli er lagt til að andvirði hins svokallaða hafróafla renni í Verkefnasjóð sjávarútvegsins sem hér er mælt fyrir. Við þessa breytingu mun fjárstreymi sjóðsins aukast til mikilla muna. Það er mat nefndarinnar að nauðsynlegt sé að skýrar reglur gildi um úthlutun úr sjóðnum og að eðlilegt sé að skipuð verði stjórn yfir sjóðnum sem geri tillögur til ráðherra um úthlutun. Leggur nefndin til breytingartillögur í þessa veru. Mælist nefndin jafnframt til þess að reglur um stjórn sjóðsins og úthlutun úr honum verði kynntar fyrir nefndinni áður en þær taka gildi.
    Seinni breytingartillaga nefndarinnar hefur það að markmiði að kveða skýrar á um í hvaða tilvikum beita skuli leyfissviptingum vegna vanskila á greiðslu vegna ólögmæts sjávarafla, auk þess sem tekið er fram að leyfissviptingu skuli einnig beita þótt eigendaskipti hafi orðið á skipi, nema að eigendaskiptin hafi orðið við nauðungarsölu eða við gjaldþrotaskipti. Loks er mælt fyrir um heimild Fiskistofu til leyfissviptingar standi útgerð ekki við samning um greiðslu skuldar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.



Prentað upp.
    Jóhann Ársælsson, Jón Gunnarsson, Kristján L. Möller og Grétar Mar Jónsson skrifa undir álitið með fyrirvara. Jón Bjarnason var viðstaddur afgreiðslu málsins sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Alþingi, 9. des. 2003.


Kristinn H. Gunnarsson,


varaform., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Kjartan Ólafsson.


Páll Magnússon.


Grétar Mar Jónsson,


með fyrirvara.

Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.

Kristján L. Möller,


með fyrirvara.