Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 428. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 663  —  428. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson og Ármann Kr. Ólafsson frá sjávarútvegsráðuneytinu, Friðrik Arngrímsson, Björgólf Jóhannsson og Eirík Tómasson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Árna Bjarnason frá farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Örn Pálsson og Arthúr Bogason frá Landssamtökum smábátaeigenda, Hermann B. Haraldsson og Þorstein Mána Árnason frá Félagi dagabátaeigenda, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Óskar Þór Karlsson og Jón Stein Elíasson frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Arnar Sigurmundsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva og Jóhann Sigurjónsson frá Hafrannsóknastofnuninni.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Samtökum eigenda sjávarjarða, Byggðastofnun, Sjómannasambandi Íslands og Samtökum fiskvinnslu án útgerðar.
    Helstu breytingar samkvæmt frumvarpinu eru eftirfarandi. Lagt er til að lögleidd verði svonefnd línuívilnun. Samkvæmt frumvarpinu takmarkast ívilnunin við dagróðrabáta sem beita línu í landi og er þeim heimilt að landa 16% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Dagróðrabátur telst bátur sem kemur til hafnar til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að hann heldur til veiða úr höfn þeirri þar sem línan var tekin um borð. Mælt er fyrir um að línuívilnun í þorski skuli á hverju fiskveiðiári takmarkast við 3.375 lestir af óslægðum þorski. Ekki eru hins vegar sett takmörk á afla í ýsu og steinbít en þó mælt fyrir um heimild ráðherra til þess að takmarka afla í þessum tegundum telji hann ástæðu til. Þá er kveðið á um að aflaheimildir og áætlaður afli til línuívilnunar skuli dreginn frá leyfðum heildarafla áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar.
    Samhliða upptöku línuívilnunar til dagróðrabáta er lagt til að aflaheimildir sem ráðherra hefur haft til úthlutunar til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta, skv. 3. mgr. 9. gr., verði skertar í tveimur áföngum og loks aflagðar í lok fiskveiðiársins 2005/2006. Með sama hætti er lagt til að aflaheimildir sem Byggðastofnun hefur haft til ráðstöfunar til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi verði aflagður í tveimur áföngum. Til mótvægis við niðurfellingu þessara aflaheimilda er lagt til, auk framangreindrar línuívilnunar, að ráðherra geti ráðstafað eftirstöðvum af þeim 12.000 lestum sem hann hefur til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga í aflamarki einstakra tegunda, sbr.1. mgr. 9. gr. laganna, til minni byggðarlaga sem annaðhvort hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum á bolfiski eða til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri

Prentað upp.
skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í byggðarlögunum.
    Loks er í frumvarpinu lagt til að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að heimild til tegundatilfærslu skuli í ákveðnum fisktegundum miðast við hærri viðmiðun en 2% af heildaraflaverðmæti botnfiskaflamarks.
    Samkvæmt frumvarpinu er ráðherra einungis heimilt að ráðstafa til byggðarlaga, sbr. a-lið 2. gr., eftirstöðvum af þeim 12.000 lestum sem hann hefur ráðstöfunar til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. Verði ákvæði frumvarpsins samþykkt óbreytt getur sú staða komið upp að engar eða litlar aflaheimildir verði til ráðstöfunar til að mæta vanda byggðarlaga af öðrum orsökum. Meiri hluti nefndarinnar leggur því til breytingartillögu sem ætlað er að treysta stöðu minni byggðarlaga sem lenda í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háðar eru veiðum og vinnslu á bolfiski. Breytingartillögunni er enn fremur ætlað að styrkja byggðarlög sem orðið hafa fyrir skyndilegum skerðingum á aflaheimildum sínum.
    Markmið línuívilnunar með þessu frumvarpi og með breyttu fyrirkomulagi byggðakvótans er að styrkja og efla útgerð og fiskvinnslu í sjávarbyggðum, þ.m.t. þeim byggðum sem hafa fengið sérstaka úthlutun í formi byggðakvóta. Með breytingartillögunni vill meiri hlutinn styrkja grundvöll byggðakvótans og gera hann markvissari. Þær aflaheimildir sem á grundvelli breytingartillögunnar munu fara til lítilla byggðarlaga sem háðar eru bolfiskveiðum og vinnslu og hafa orðið fyrir samdrætti eiga meðal annars að koma í stað þess byggðakvóta sem úthlutað hefur verið til krókaaflamarksbáta og 1.500 tonna byggðakvóta sem úthlutað var í samráði við Byggðastofnun, að teknu tilliti til aðstæðna. Meiri hlutinn leggur loks til að ráðherra skipi starfshóp, með aðild Byggðastofnunar, sem hafi það hlutverk að gera tillögur til ráðherra um fyrirkomulag úthlutunar.
    Þá er lögð til smávægileg orðalagsbreyting á 7. málsl. efnismgr. b-liðar 3. gr. frumvarpsins.
    Málefni svonefndra dagabáta hafa verið rædd í nefndinni. Ekki reyndist nú unnt að leggja til tillögur um framtíðarskipan í málefnum þeirra sem þó er mikilvægt verkefni. Meiri hlutinn leggur áherslu á að vinnu við það verði hraðað.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:


     1.      A-liður 2. gr. orðist svo: 1. mgr. orðast svo:
                  Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema allt að 12.000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið sem hann getur ráðstafað þannig:
                  1.      Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda.
                  2.      Til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig:
                      a.      Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á bolfiski.
                      b.      Til byggðarlaga, sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum, og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í byggðarlögunum.
     2.      Orðin „með sama hætti“ í 7. málsl. efnismgr. b-liðar 3. gr. falli brott.

Alþingi, 11. des. 2003.



Kristinn H. Gunnarsson,


varaform., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Kjartan Ólafsson.


Guðjón Ólafur Jónsson.