Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 509. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 781  —  509. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Birgir Ármannsson,


Bjarni Benediktsson, Sigurður Kári Kristjánsson.


1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „150.000“ í 1. tölul., „75.000“ í 2. tölul., „50.000“ í 3. tölul., „50.000“ í 5. tölul., „75.000“ í 7. tölul. og „60.000“ í 9. tölul. 13. gr. laganna kemur: 40.000.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu er lagt til að gjöld fyrir skráningu félaga verði lækkuð, sem og gjald fyrir skráningu loftfars til atvinnuflugs. Lækkunin yrði mismikil eftir tegund þeirra félaga sem um ræðir en mest yrði hún fyrir skráningu hlutafélaga og samvinnufélaga. Þar mundi gjaldið lækka úr 150.000 kr. í 40.000 kr. Lækkun gjalda fyrir skráningu annarra félaga yrði minni. Skráningargjöld félaga eftir breytinguna yrðu þó aldrei hærri en 40.000 kr. Þá mundi skráningargjald fyrir loftfar til atvinnuflugs lækka úr 60.000 kr. í 40.000 kr.
    Alþjóðabankinn gefur út samanburð á því hversu mikla fyrirhöfn og fjármuni þarf til að stofna fyrirtæki eftir löndum. Þegar bornar eru saman aðstæður til stofnunar fyrirtækja í ýmsum nágranna- og samkeppnislöndum Íslands kemur í ljós að hér á landi er framkvæmdin nokkuð skilvirk og einföld. Hins vegar liggur fyrir að kostnaðurinn er hér hár í samanburði við þessi lönd. Nemur kostnaður við stofnun einkahlutafélags hér á landi um 3,7% af vergri landsframleiðslu á mann en er enginn í Danmörku svo að dæmi sé tekið. Í Finnlandi telst kostnaðurinn vera 1,1%, í Svíþjóð 0,7% og 0,6% í Bandaríkjunum.
    Fyrir skráningu hlutafélags og samvinnufélags hefur verið tekið gjald sem nemur nú 150.000 kr. Fyrir skráningu einkahlutafélags er þessi fjárhæð 75.000 kr. Gjald fyrir aðrar skráningar hefur verið allt að 75.000 kr. Þá hefur umskráning einkahlutafélags í hlutafélag kostað 75.000 kr.
    Framangreind gjöld eru bein skattheimta og varða ekki sjálfa skráninguna. Kostnaði af skráningum fyrirtækja er mætt með skráningargjaldi sem kveðið er á um í reglugerð nr. 474/2003, um útgáfu kennitölu við skráningu í fyrirtækjaskrá, með stoð í lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá.



Prentað upp.
    Hár kostnaður við stofnun fyrirtækja er hindrun við uppbyggingu atvinnulífs og kemur mest niður á nýsköpun. Ekki er óvarlegt að ætla að svo há gjöld sem nefnd hafa verið hér hafi
fælt einhverja frá stofnun t.d. einkahlutafélags. Það er bagalegt því að hlutafélagaformið er
tvímælalaust æskilegra í atvinnurekstri heldur en t.d. rekstur manns í eigin nafni. Með frumvarpinu er leitast við að ryðja úr vegi þessari hindrun og búa þannig betur í haginn fyrir væntanlegt athafnafólk og nýsköpunarstarf.