Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 586. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 881  —  586. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2003.

I.    Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku EES-samningsins varð nefndin að formi til tvískipt þar eð Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Eins og önnur aðildarríki á Alþingi fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári, og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og Evrópusambandsins (ESB), gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar hittist fyrir hvern fund og á milli funda ef þörf er á. Hún undirbýr starf nefndarinnar, hefur umsjón með verkefnum og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki, en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.
    Í EES-samningnum er gert ráð fyrir sameiginlegri þingmannanefnd EES (95. gr. samningsins). Í hinni sameiginlegu þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá hinum þremur EES-aðildarríkjum EFTA. Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur fyrir ákveðin málefni hverju sinni, stendur fyrir skýrslugerð og ályktar. Skýrslugerð um hvert mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna. Er annar úr hópi EFTA-þingmanna og hinn úr hópi Evrópuþingsmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð, en nefndin lætur venjulega frá sér ályktun þegar umfjöllun um mál er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

II.    Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Í upphafi árs 2003 skipuðu Íslandsdeildina eftirfarandi þingmenn: Vilhjálmur Egilsson, formaður, þingflokki sjálfstæðismanna, Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, þingflokki framsóknarmanna, Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki sjálfstæðismanna, og Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns fram boðs. Varamenn voru Gunnar Birgisson, þingflokki sjálfstæðismanna, Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Katrín Fjeldsted, þingflokki sjálfstæðismanna, Magnús Stefánsson, þingflokki framsóknarmanna, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hinn 21. janúar 2003 var tilkynnt brotthvarf Vilhjálms Egilssonar úr Íslandsdeildinni. Gunnar Birgisson tók sæti aðalmanns og Adolf Berndsen sæti varamanns. Íslandsdeildin kaus Þorgerði K. Gunnarsdóttur formann Íslandsdeildar. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA voru síðan Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Össur Skarphéðinsson. Fulltrúi Íslandsdeildar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES var Þorgerður K. Gunnarsdóttir.
    Í kjölfar alþingiskosninga var ný Íslandsdeild kjörin 27. maí. Hana skipa: Gunnar Birgisson, þingflokki sjálfstæðismanna, Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Birkir J. Jónsson, þingflokki framsóknarmanna, Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki sjálfstæðismanna, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Íslandsdeildin kaus Gunnar Birgisson formann og Birki J. Jónsson varaformann. Varamenn: Birgir Ármannsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Björgvin G. Sigurðsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Jónína Bjartmarz, þingflokki framsóknarmanna, Sigurður Kári Kristjánsson, þingflokki sjálfstæðismanna, og Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Íslandsdeildin var endurkjörin 1. október í upphafi 130. þings. Ritari Íslandsdeildar var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþjóðaritari til 10. október, en þá tók við Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs.
    Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu.

III.    Nokkur atriði úr starfi Íslandsdeildar og þingmannanefnda EFTA og EES árið 2003.
    Íslandsdeildin var að venju mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES. Þorgerður K. Gunnarsdóttir var kjörin varaformaður þingmannanefndar EFTA á fundi nefndarinnar í janúar fyrir árið 2003, en Gunnar Birgisson tók við þeirri stöðu í júní 2003, í kjölfar kosningar nýrrar Íslandsdeildar. Fulltrúar Íslandsdeildar voru framsögumenn tveggja skýrslna þingmannanefndar EES sem voru grundvöllur ályktana, en fulltrúar Noregs og Liechtensteins tóku að sér eina skýrslu hvor. Segja má að eins og oft áður hafi virkt eftirlit með ráðherraráði EFTA og stofnunum EES að miklu leyti verið að frumkvæði Íslandsdeildar. Íslandsdeildarmenn þjörmuðu að embættismönnum ESB og EFTA þegar ástæða þótti til. Þeir komu skoðunum sínum skýrt á framfæri við ráðherraráð EFTA og knúðu á um svör við mikilvægum spurningum.
    Samningaviðræður EFTA-ríkjanna og ESB um stækkun EES voru eðlilega stórt mál á dagskrá þingmannanefnda EFTA og EES á árinu 2003. Fengu nefndirnar reglulegar upplýsingar um gang mála og létu þingmenn í ljós álit sitt. Lögðu Íslandsdeildarmenn m.a. áherslu á ásættanlega niðurstöðu varðandi fjárframlög og tollfrjáls viðskipti með fisk. Íslandsdeildarmenn höfðu frumkvæði að því að ýmis mál voru tekin upp á árinu. Össur Skarphéðinsson hafði t.d. frumkvæði að því að þingmannanefnd EFTA tæki upp umræðu um hlut sveitarstjórna í ákvarðanatöku innan EES og um starfsmannaleigur. Nefndin fjallaði um þau mál sem voru efst á baugi innan ESB og tóku þingmenn Íslandsdeildar upp ýmis áhersluatriði í þeim umræðum. Staða efnahagsmála í ríkjum ESB og málefni evrunnar eru dæmi um mál sem Íslandsdeildin ræddi við fulltrúa ESB, sem og stefna sambandsins í innflytjendamálum, mótun sameiginlegrar utanríkisstefnu ESB og samskipti þess við Rússland. Íslandsdeildarmenn kynntu sér stjórnarskrárdrög ESB og ræddu m.a. um lýðræði innan sambandsins og EES, og tilraunir til að færa ESB nær fólkinu. Þá bar möguleg uppfærsla EES-samningsins nokkrum sinnum á góma.
    Eftir óformlegar viðræður við kollega sína EFTA megin í þingmannanefnd EES tók sendinefnd Evrópuþingsins í nefndinni frumkvæði og kom því til leiðar að utanríkisráðherrum EFTA/EES-ríkjanna verður boðið að ávarpa utanríkismálanefnd Evrópuþingsins og fjalla um þróun mála í Evrópu og framtíðarsamskipti EFTA og ESB innan EES. Er gert ráð fyrir slíkum fundi fyrir kosningar til Evrópuþingsins sem fram fara í júní nk. Þetta er mjög gott mál og sýnir hvernig góð tengsl þingmanna geta leitt til þess að stjórnvöld nái betur eyrum fulltrúa stofnana ESB en annars hefði orðið.
    Á báðum fundum með ráðherraráði EFTA á árinu var mikið rætt um samskipti við þriðju ríki. Á fyrri fundinum í júní voru íslenskir þingmenn nokkuð jákvæðir og tilbúnir til að gefa EFTA meiri tíma til að vinna í ýmsum samningum sem voru í deiglunni, þó að aðeins hafi örlað á gagnrýni vegna seinagangs, t.d. gagnvart Kanada, Bandaríkjunum og Rússlandi. Þá töldu þingmenn samráð EFTA-ríkjanna mega vera meira í tengslum við Doha-viðræður Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Á síðari fundinum í desember gætti meiri óþolinmæði Íslandsdeildarmanna, en þeir bentu á að sömu svör fengjust ár eftir ár við vissum spurningum um gerð samstarfs- eða fríverslunarsamninga, án nokkurs sýnilegs árangurs. Sérstaklega var rætt um fríverslunarsamning við Kanada. Ákvað þingmannanefnd EFTA að frumkvæði formanns Íslandsdeildar að skoða hvort og hvernig hún gæti aðstoðað ráðherrana við að koma samningaviðræðum af stað aftur með það að markmiði að ljúka þeim sem fyrst. Jafnframt var rætt m.a. um gang viðræðna við Egyptaland, Túnis og Líbanon.
    Um mitt ár kom upp vilji hjá vissum ríkjum innan EFTA til að fækka ráðherrafundum og fundum þess með þingmönnum úr tveimur í einn á ári. Þó ber að taka skýrt fram að þessar hugmyndir komu ekki frá Íslandi. Íslandsdeildinni leist vægast sagt mjög illa á þessar hugmyndir og lét þá skoðun í ljós á fundi með ráðherraráðinu í júní. Íslandsdeildin benti á að hætta væri á að þingmannanefndin yrði sett til hliðar. Það tíðkaðist t.d. að ráðgjafanefnd EFTA fengi einn fund á ári með ráðherraráðinu, en ráðherrar yrðu að gera sér grein fyrir því að þingmannanefndin ætti að hafa aðra og betri stöðu, enda um að ræða lýðræðislegt eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Íslandsdeildin lagði áherslu á mikilvægi þingmannanefndarinnar sem lýðræðislegs afls innan EFTA sem veitti nauðsynlega tengingu stofnunarinnar við þjóðþing aðildarríkjanna. Farsæl lausn fannst síðan á desemberfundinum á framtíðarskipulagi funda, ekki síst vegna þess að utanríkisráðherra Íslands sýndi málflutningi þingmanna góðan skilning og vildi tryggja nauðsynlega aðkomu þeirra að málum. Í framtíðinni verða desemberfundir ráðherraráðsins minni í sniðum, þátttaka annarra stofnana EFTA verður skorin niður og lögð meiri áhersla á pólitíska stefnumótun. Íslandsdeildin fagnaði þessari niðurstöðu og sér jafnvel fram á betri fundi þar sem betra næði verði fyrir samráð ráðherraráðs og þingmannanefndar.
    Venja er að Íslandsdeildin haldi fund með Evrópunefnd þjóðþings þess ríkis sem næst tekur við forustu innan ESB, en nýtt forusturíki tekur við á sex mánaða fresti. Á árinu hélt Íslandsdeild fundi með fulltrúum Evrópunefnda ítalska og írska þingsins. Á þessum fundum kynnir Íslandsdeildin helstu þætti EES-samstarfsins. Sérstök áhersla er lögð á stöðu Íslands og gagnkvæmar skuldbindingar ESB og EFTA/EES-ríkjanna, auk þess sem farið er yfir helstu þætti Evrópuumræðunnar á Íslandi, sérstaklega afstöðu Íslendinga til sjávarútvegsstefnu ESB. Á árinu 2003 var sérstök áhersla lögð á að ræða stækkun EES og mikilvægi þess að þjóðþing ESB-ríkja fullgiltu samninginn tímanlega svo að stækkun EES og ESB gæti átt sér stað samtímis hinn 1. maí 2004.

IV.    Áherslur í málefnastarfi og helstu verkefni þingmannanefndar EFTA á árinu 2004.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA ræddi á árinu 2003 nauðsyn þess að eiga fundi með þingmönnum ríkja sem munu ganga í ESB og þar með EES á árinu 2004. Hefur verið ákveðið að efna til slíkra funda með fulltrúum þjóðþinga Eystrasaltsríkjanna í febrúar 2004. Verður EES-samningurinn rækilega kynntur á þessum fundum og rætt um aðkomu EFTA/EES-ríkjanna að mótun löggjafar ESB og helstu hagsmunamál. Þá verður rætt um samstarf í Evrópumálum þar sem hagsmunir fara saman.
    Skýrsla um hlut sveitarstjórna í ákvarðanatöku innan EES verður tekin fyrir á fundi þingmannanefndar EES í apríl. Þingmenn telja nauðsynlegt að skoða þetta mál með tilliti til þess að mörg EES-mál hafa áhrif á sveitarstjórnarstiginu og kalla á útgjöld sveitarstjórna. Samt koma sveitarstjórnir hvergi formlega að umfjöllun um EES-mál.
    Samstarf við þriðju ríki verða í brennidepli á árinu. Eins og nefnt var í síðasta kafla hyggst þingmannanefndin hafa samband við þingmenn í Kanada með það fyrir augum að reyna að aðstoða EFTA við að koma á fríverslunarsamningi. Auk þess mun nefndin sjálfsagt áfram fjalla um samskipti við Rússland og Bandaríkin, auk Egyptalands, Túnis og fleiri ríkja.
    Stækkun innri markaðarins og hugsanlegar afleiðingar fyrir EFTA-ríkin verður væntanlega áfram á dagskrá þingmannanefndar EFTA. T.d. er vel hugsanlegt að áherslur í lagasetningu gætu breyst með inngöngu nýrra ríkja sem hafa ef til vill aðra forgangsröðun þegar kemur að málefnum innri markaðarins, t.d. hvað varðar lagasetningu á sviði umhverfis- eða félagsmála. Þá eykst enn ójafnvægi hinna tveggja stoða EES-samningsins og því mikilvægt að fylgjast með starfsemi stofnana EES og skilvirkni ákvarðanatöku. Jafnframt má minnast á að ástæða gæti verið til að auka samstarf Norðurlanda, Eystrasaltsríkja og Póllands í Evrópumálum og gætu þingmenn vissulega stuðlað að því. Þá má nefna Lissabon-ferlið. Lítið virðist miða í þá þátt að bæta samkeppnisstöðu ESB, a.m.k. svo sýnilegt sé, en þetta er forgangsverkefni hjá ESB og því eðlilegt að þingmannanefndin fylgist áfram með framvindu mála og taki þátt í umfjöllun og stefnumótun þar sem við á.
    Áætlun um innri markaðinn 2003–2006 kom út fyrri part ársins 2003 og er almenn stefnumörkun um málefni innri markaðarins. Áhersla er lögð á að styrkja innri markaðinn og afnema hindranir. Í viðauka eru tillögur framkvæmdastjórnar ESB að nýrri lagasetningu til næstu þriggja ára. Meðal helstu umfjöllunarefna áætlunarinnar eru aðgerðir sem snerta vöru- og þjónustuviðskipti, samgöngumál, skattamál, opinber innkaup, bætt viðskiptaumhverfi fyrirtækja, einfaldara regluverk, framkvæmd reglna, bætt upplýsingastreymi, breytta aldurssamsetningu aðildarþjóða, stækkun innri markaðarins og innri markaðinn í alþjóðlegu samhengi. Mikilvægt er fyrir alþingismenn að gera sér grein fyrir hugsanlegum áhrifum áætlunarinnar á íslenska stefnumörkun. Fylgjast þarf vel með starfi framkvæmdarvaldsins við að skilgreina íslenska hagsmuni.
    Í þessu sambandi skiptir máli að góð samvinna ríki innan Alþingis og að allar leiðir séu nýttar til að löggjafarvaldið sé vel upplýst og komi að málum í tæka tíð á meðan enn má hafa áhrif á stefnumótun. Það er til einskis að koma að málum þegar tillaga að lagasetningu er þegar komin fram hjá ESB. Tími EFTA-ríkjanna til áhrifa er á fyrri stigum, á meðan tillögur eru enn í mótun. Því er varpað fram þeirri spurningu hvort ástæða sé til að skoða nánar samráð á milli Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA og utanríkismálanefndar. Það gæti t.d. hugsanlega verið gagnlegt að Íslandsdeildin kæmi upplýsingum reglulega á framfæri við utanríkismálanefnd. Jafnframt gætu samráðsfundir, t.d. tvisvar á ári, verið gagnlegir til að fara almennt yfir EES-málin í sameiningu. Þetta eru hugmyndir sem Íslandsdeildin vill koma á framfæri, með það fyrir augum að örva umræðu um þessi mál, sérstaklega hvernig styrkja mætti starfið innan þingsins þegar kemur að umfjöllun um EES-mál.
    Jafnframt þyrfti að athuga hvernig þingið gæti nýtt sér betur það góða starf sem unnið er í sendiráði Íslands í Brussel, þannig að breiður hópur þingmanna hefði gagn af. Íslandsdeildin vill varpa fram þeirri hugmynd að Alþingi feli alþjóðasviði að koma á fundi í sendiráðinu fyrir alla alþingismenn sem eiga erindi til Brussel. Slíkir fundir gætu verið almennir eða sértækir eftir því sem við ætti hverju sinni. Margs konar alþjóðlegir fundir eru haldnir í Brussel og fara þónokkrir alþingismenn þangað á hverju ári. Þó að í einhverjum tilvikum þyrfti að lengja ferð um einn dag yrði ávinningurinn eflaust mikill.
    Að lokum skal nefnt að ákveðið hefur verið í tilefni 10 ára afmælis EES-samningsins að halda ráðstefnu þingmannanefndar EFTA í samvinnu við ráðgjafanefnd EFTA. Verður ráðstefnan í Reykjavík 21. október nk. Umræðuefnið verður hlutverk EFTA og EES í nýrri Evrópu. Ráðstefnan verður haldin þegar tíu ný aðildarríki hafa gengið í ESB, nýtt Evrópuþing verið kjörið og ný framkvæmdastjórn ESB tilnefnd. Ráðstefnan mun vonandi veita tækifæri til að ræða þau brýnu verkefni sem bíða úrlausnar í EES-samstarfinu. Þar sem ráðstefnan verður haldin í Reykjavík skapast gott tækifæri til þátttöku fyrir Alþingi og vonast Íslandsdeildin til þess að margir alþingismenn verði meðal ráðstefnugesta.

V.    Yfirlit yfir fundi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu og frásagnir af þeim.
    Starfsemi nefndanna var með reglulegum hætti á árinu 2003. Þingmannanefnd EES hélt tvo fundi og þingmannanefnd EFTA fjóra fundi, auk tveggja funda með ráðherraráði EFTA. Þá voru haldnir tveir samráðsfundir með ráðgjafanefnd EFTA, en í henni sitja fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Fjórar skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra. Hér á eftir verður gerð grein fyrir fundum þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu.

i.    41. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og 69./37. fundur þingmannanefndar EFTA, haldnir í Brussel 12. febrúar 2003.
    Fundi framkvæmdastjórnar sátu Kristinn H. Gunnarsson, Össur Skarphéðinsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttur. Aðra fundi sátu auk þeirra Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Gunnar Birgisson.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var ákveðið að tilnefna Vidar Björnstad og Gunnar Birgisson til að taka að sér skýrslugerð fyrir næsta fund þingmannanefndar EES, annars vegar um framtíð Evrópusambandsins og stjórnarskrárþing þess og hins vegar um framkvæmd EES-samningsins á árinu 2002. Þá var einnig ákveðið að Þorgerður K. Gunnarsdóttir yrði tilnefnd sem varaformaður þingmannanefndar EFTA á árinu 2003, en formaður var Jürgen Zech frá Liechtenstein.
    Fund þingmannanefndar EFTA ávörpuðu Björn T. Grydeland, sendiherra og formaður samninganefndar EFTA gagnvart ESB, John Palmer, forstöðumaður Evrópustofnunarinnar í Brussel, Peter Sandler, ráðgjafi Evrópusambandsins í Lissabon-ferlinu, og Sebastian Remoy, sérfræðingur EFTA í Lissabon-ferlinu.
    Björn T. Grydeland greindi frá yfirstandandi samningaviðræðum EFTA og ESB og sagði EFTA leggja höfuðáherslu á að samningar næðust fyrir 10. apríl nk. Hann taldi nauðsynlegt fyrir EFTA að samningar við ESB yrðu samþykktir um leið og ný ríki ESB fengju formlega inngöngu og því yrðu allir samningar að vera frágengnir fyrir 1. maí 2004. Hann sagði EFTA-ríkin mundu standa við öll þau atriði sem þau hefðu fallist á hingað til, en að algjör krafa af þeirra hálfu væri að engir nýir tollmúrar yrðu reistir með inngöngu nýrra ríkja í ESB. Hann sagði EFTA vera tilbúið til að ræða aukin fjárframlög til að jafna hlut fátækra ríkja ESB en að himinháar kröfur ESB væru fullkomlega óásættanlegar og ótækur viðræðugrundvöllur milli fylkinganna tveggja. Hann minnti á að EFTA-ríkin hefðu engar lagalegar skyldur gagnvart ESB hvað varðaði slík fjárframlög og að ESB gæti ekki reynt með þessu móti að neyða EFTA-ríkin til að auka greiðslur sínar í sjóði ESB. Grydeland sagði að í raun hefði lítið þokast í samningaviðræðum hingað til en hann taldi þó ekki ástæðu til svartsýni. Hann sagði að komið hefði verið á fót þremur vinnuhópum um erfiðustu málin – fjárframlög EFTA, landbúnað og sjávarútveg – og að hann vonaðist til að þeir hópar gætu komið samningaviðræðum á skrið. Hann sagði að EFTA-löndin stæðu í þessum samningaviðræðum hvert í sínu lagi en að þau hefðu orðið ásátt um ákveðin sameiginleg atriði sem þau mundu ekki víkja frá gagnvart ESB. Össur bað Grydeland um að fjalla meira um hin svokölluðu „sameiginlegu atriði“ EFTA varðandi fjárframlög því að svo virtist sem Norðmenn væru reiðubúnir til að auka greiðslur sínar meira en Íslendingar, og slíkt kæmi Íslendingum einkar illa. Hann sagðist fagna bjartsýni sendiherrans og vonaðist til að hún gæti staðist en dró þó í efa raunverulegan grundvöll þess miðað við núverandi stöðu. Hann minnti einnig á mikilvægi þess að tryggja tollfrjáls viðskipti með fisk og innti eftir stöðu samningaviðræðna í þeim efnum. Grydeland sagði að þrátt fyrir stuttan tíma til samninga þá væri 1. maí 2004 sú dagsetning sem skipti mestu máli og að EFTA og ESB hlytu að geta ráðið fram úr sínum málum á málefnalegan hátt á næstu vikum og mánuðum. Hann sagði EFTA-löndin semja hvert í sín lagi en mjög gott samráð væri á milli EFTA-landanna og samvinnan öll til fyrirmyndar. Hann sagði hins vegar að EES-samningurinn yrði nær ómögulegur í framkvæmd ef öll ný ESB-ríki gengju ekki inn í hann um leið og þau yrðu formlega aðilar að ESB.
    John Palmer fjallaði um helstu forgangsverkefni í formennskutíð Grikkja og nefndi sérstaklega stækkun ESB, utanríkismál, framtíðarsýn Evrópusambandsins og Lissabon-ferlið. Hann sagði öll þessi mál vera langvarandi viðfangsefni allra formennskuríkja og sagði að í raun þyrfti að endurskoða formennskuferlið innan ESB. Það væri á margan hátt óhentugt að hvert ríki færi með formennskuna í aðeins sex mánuði í senn; ríkin væru rétt búin að setja sig inn í flókna málaflokka og farin að framkvæma stefnu ESB af skilningi þegar þau yrðu að gefa formennskuna áfram til næsta ríkis. Hann sagði að öðru leyti augljóst að eitt helsta verkefnið í formennskutíð Grikkja yrði sameiginleg utanríkisstefna ESB. Alvarleg vandkvæði hefðu mjög greinilega komið í ljós á þessu sviði í Íraksdeilunni og ekki væri útséð um hvernig þróunin yrði í framtíðinni; grundvöllur fyrir sameiginlegri utanríkisstefnu ESB hefði því veikst á síðustu vikum. Þá gerði Palmer stjórnarskrárþing ESB um framtíð Evrópu að umtalsefni. Hann sagði stjórnarskrárþingið vera mjög róttæka breytingu á vinnuháttum ESB, ekki síst þar eð þjóðþing sem og aðrir armar þjóðlífsins hefðu mun meira um málin að segja og tækju virkari þátt í vinnuferlinu. Stjórnarskrárþingið væri á allan hátt lýðræðislegra heldur en ýmsar aðrar stofnanir ESB og vísaði á ákveðinn hátt veginn í stjórnarháttum ESB. Varðandi framtíðarstefnu ESB taldi hann líklegt að samþykkt yrði sérstök stjórnarskrá sambandsins, tekin yrði upp meirihlutaafgreiðsla fleiri mála og að dóms- og öryggismálum yrði tryggður öruggur sess innan sambandsins. Þorgerður K. Gunnarsdóttir benti á erfiða efnahagslega stöðu stærstu ríkja ESB og spurði hvernig sambandið hygðist taka á því. Hún spurði einnig um stefnu ESB í innflytjendamálum, en slíkt hlyti að breytast eitthvað eftir stækkun. Einnig spurði hún um hvað yrði um væntanlega stjórnarskrá ef eitthvert sambandsríki hafnaði slíku. Össur Skarphéðinsson gerði framtíð NATO að umtalsefni og þau áhrif sem þróun þess hefði á mótun sameiginlegrar utanríkisstefnu ESB og innti svara við því hvernig ESB hygðist haga samskiptum sínum við Rússland. Palmer sagði að efnahagsástandið í ýmsum ríkjum ESB væri vissulega mjög alvarlegt og sagði nauðsynlegt að endurskoða rækilega stefnumótun sambandsins í efnahagsmálum. Hann sagði daga verðbólgu liðna og því yrði að taka á efnahagsmálum á annan hátt en hefði verið gert hingað til. Hann sagði Þýskaland þurfa að gera gagngerar breytingar á efnahagsumhverfi sínu og að ESB sem heild yrði að verða vinveittari frjálsum viðskiptum og fyrirtækjarekstri. Hvað varðaði innflytjendamál sagði Palmer að frjálst flæði vinnuafls ætti að vera orðið að raunveruleika árið 2007 og að gífurleg vinna ætti sér nú stað á þessu sviði til að tryggja að öll löndin væru tilbúin fyrir svo miklar breytingar. Varðandi utanríkisstefnu ESB gagnvart Rússlandi sagði hann mikilvægt að vera í nánum tengslum við Rússa, ekki síst hvað varðaði innflytjendamál, landamæravörslu, glæpavarnir og fleira því tengt. Það kæmi hins vegar ekki til greina að bjóða Rússlandi aðild að sambandinu.
    Peter Sandler og Sebastian Remoy fjölluðu að lokum um Lissabon-ferlið og þau áhrif sem það mun hafa innan ESB og EFTA. Lissabon-ferlinu er ætlað að gera ESB að „samkeppnishæfasta markaði heims“ og í þeim tilgangi hefur verið reynt að hrinda fjölda lagabreytinga og gagngerra breytinga á vinnuháttum í framkvæmd. Sandler sagði að mikið hefði áunnist innan orkugeirans og viðskipti hefðu verið gerð frjálsari og opnari með Lissabon-ferlinu, en að enn væri langt í land hvað varðaði atvinnumarkaðinn sérstaklega. Sandler fjallaði einnig um ýmsar breytingar í skattamálum og sagði að unnið væri að frekara samræmi ESB-ríkja í þeim efnum enda væri slíkt einn af hornsteinum betra hagkerfis innan ESB. Skattamál væru hins vegar viðkvæm innanríkismál og því þyrfti helst að setja reglur um einfaldar meirihlutaákvarðanir innan ESB í þessum málum ef eitthvað ætti að þokast. Remoy sagði mikilvægt að EFTA-löndin fylgdust vel með Lissabon-ferlinu, en þar eð um væri að ræða ýmsar breytingar á vinnuháttum frekar en breytingar á lögum þá stæði ferlið í raun utan EES-samningsins. Slíkt gæti hins vegar haft þau áhrif á EFTA-löndin að þau drægjust aftur úr með tímanum og gætu ekki samræmt vinnuumhverfi EFTA og ESB með þeim hætti sem eftirsóknarvert væri. Hann brýndi fyrir mönnum að kynna sér vel helstu þætti Lissabon-ferlisins og kynna þau heima fyrir í EFTA-löndunum, en hingað til hefði þessu ekki verið gefinn nægilegur gaumur. Hann sagði Lissabon-ferlið á vissan hátt draga úr áhrifum og valdi þjóðþinga og Evrópuþingsins og því væri sérlega mikilvægt fyrir þingmenn að fylgjast með gangi mála á þessu sviði.
    Að loknum viðræðum gerðu formenn landsdeilda stutta grein fyrir þróun mála heima fyrir. Þorgerður K. Gunnarsdóttir sagði frá komandi kosningum, skoðanakönnunum og helstu málum í brennidepli í kosningabaráttunni. Að lokum var Þorgerður einróma kosin varaformaður þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2003.

ii.    29. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES og 18. fundur þingmannanefndar EES, haldnir í Álasundi 19.–20. maí 2003.
    Vegna yfirstandandi kosningabaráttu áttu Íslandsdeildarmenn ekki heimangengt, en fundina sátu Ásta R. Jóhannesdóttir og Jón Bjarnason, auk Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Í upphafi var haldinn fundur í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES þar sem starf nefndarinnar var skipulagt. Ásta R. Jóhannesdóttir og ritari sátu fundinn.
    Fund þingmannanefndar EES ávörpuðu John Boucaouris, fulltrúi ráðherraráðs EES, Matthias Brinkmann, fulltrúi formanns sameiginlegu EES-nefndarinnar, Erik Århus, fulltrúi ráðherraráðs EES og sameiginlegu EES-nefndarinnar, og Einar Bull, forstöðumaður Eftirlitsstofnunar EFTA. Boucaouris, Brinkmann og Århus fjölluðu allir um stækkunarviðræðurnar, tímaáætlun og helstu deiluefni. Markmiðið hafði verið að ljúka viðræðum og skrifa undir stækkun 16. apríl nk., en ljóst þótti að enn væru tiltekin mál óútkljáð og því mundi ferlinu seinka. Fram kom að gert væri ráð fyrir að vandamálin yrðu leyst í lok maí, en viðræðurnar hefðu verið erfiðar og tímafrekar þar eð viðræðuaðilar hefðu í upphafi haft afar ólík sjónarmið. Boucaouris og Brinkmann sögðu annars að EES-samningurinn hefði virkað vel það sem af væri ári og þeir bentu sérstaklega á hversu hratt ESB-gerðir hefðu verið innleiddar í EFTA/EES-ríkjunum. Þeir vöktu athygli á auknu vægi ESB-stofnana og sögðu mikilvægt að EFTA/EES-ríkin fengju aðgang að þessum stofnunum ef þau ætluðu að halda takti í Evrópusamstarfinu. Einar Bull gerði grein fyrir innleiðingu ESB-gerða í löggjöf EFTA/EES-ríkjanna það sem af er ári og sagði þau hafa staðið sig vel. Hann fjallaði einnig um aukið vægi og völd nýrra ESB-stofnana og benti á að slíkar breytingar hefðu áhrif á grundvallarstoðir EES-samningsins. Fundarmenn lögðu áherslu á að stækkunarviðræðurnar fengju farsæla lausn og að stækkun EES-svæðisins yrði að vera samstiga stækkun ESB.
    Í fjarveru formanns Íslandsdeildar kynnti Ásta R. Jóhannesdóttir skýrslu um framkvæmd EES-samningsins á árinu 2002. Ásta sagði að þrátt fyrir að EES-samningurinn virkaði að mörgu leyti vel væru ýmis atriði tilefni til alvarlegrar íhugunar. Stórfelldar breytingar innan ESB stæðu fyrir utan samninginn og enn væru breytingar hraðar. Mikilvægt væri að EFTA/ EES-ríkin drægjust ekki aftur úr. Stækkun ESB, Lissabon-ferlið, fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópu og ýmis önnur mál mundu hafa mikil áhrif á gildi EES-samningsins. Hún hvatti að lokum til þess að næsta ársskýrsla yrði pólitískari og skýrari aflestrar, en svo virtist sem þessar skýrslur væru að jafnaði frekar tæknilegar og þurrar þrátt fyrir að viðfangsefnin væru stórpólitísk og aðkallandi. Paolo Casacas, sem kynnti skýrsluna fyrir hönd Evrópuþingmannsins Gary Titley, sagði ljóst að frá upphafi hefði verið litið á EES-samninginn sem tímabundið skref í átt til ESB-aðildar. Ef EFTA/EES-ríkin ætluðu sér stærri hlut í stefnumótun innan Evrópu væri aðild að ESB augljóslega næsta skref. Casacas sagði að nú væri barátta gegn spillingu í fjármálaheiminum ofarlega á forgangslista Evrópuþingmanna og benti í því sambandi á deilu sem stendur á milli Liechtensteins og framkvæmdastjórnar ESB.
Þá var tekin til umfjöllunar skýrsla um stækkun ESB og EES og framtíðarsýn Evrópusambandsins. Evrópuþingmaðurinn Diana Wallis kynnti skýrsluna og lagði áherslu á hlutverk þjóðþinga í mótun framtíðarsýnar og hugsanlegrar stjórnarskrár ESB og að hlut þjóðþinga ætti að styrkja innan ESB. Wallis fjallaði einnig um ýmiss konar ágreiningsefni, svo sem áhrif smærri ríkja gagnvart hinum stærri, en sagðist bjartsýn á að slík deilumál mundu að lokum leysast farsællega. Norski þingmaðurinn Vidar Björnstad tók undir orð Wallis og ítrekaði hversu mikilvægt væri að EFTA/EES-ríkin fylgdust með gangi mála í mótun framtíðarstefnu og stjórnarskrár ESB. Hann sagði lagaumhverfi ESB hugsanlega breytast til muna fljótlega og við því yrði að bregðast þegar innri markaðurinn færi að ná til fleiri ríkja. Björnstad sagði ESB hafa breyst gríðarlega hin síðari ár og betri gaum yrði að gefa breyttu svæðasamstarfi og auknu hlutverki sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins á stefnumótun ESB. Paolo Casacas sagði skýrsluna vel unna og sagðist fylgjandi þeirri stefnu að Evrópa yrði eins konar sambandsríki með stjórnarskrá. Við atkvæðagreiðslu um ályktanir skýrslnanna gerði Jón Bjarnason athugasemdir við tiltekin atriði og sagðist ekki greiða þeim atkvæði. Hann sagði óhugsandi að greiða því atkvæði að hvetja til einkavæðingar almenningsþjónustu og að ýmislegt í ályktununum bæri þess merki að vera innanhússmál Evrópusambandsins; honum fyndist til dæmis undarlegt að ætlast væri til þess að hann greiddi atkvæði um það hvort Evrópusambandið ætti að hafa sérstakar sendinefndir á Íslandi og í Sviss. Hanuri Paovoli frá Finnlandi tók undir með Jóni og sagðist ekki geta greitt ýmsum atriðum atkvæði, ályktanir væru „matreiddar af Evrópusambandssinnum“.
    Þá var tekin fyrir vinnuskýrsla formanns EES-nefndarinnar um Lissabon-ferlið. Jürgen Zech og Erika Mann ítrekuðu mikilvægi þess að EFTA/EES-ríkin yrðu ekki eftirbátar ESB- ríkja í Lissabon-ferlinu. Ásta R. Jóhannesdóttir sagði að svo virtist sem afar lítið væri rætt um Lissabon-ferlið í þjóðþingum EFTA/EES-ríkjanna og skoða yrði hvers vegna svo lítið færi fyrir þessu mikilvæga máli á pólitískum vettvangi. Hún spurði hvað hefði verið gert til að kynna þessi mál í öðrum löndum og að hve miklu marki þau væru rædd á meðal stjórnmálamanna í hinum EFTA/EES-ríkjunum. Aðrir fundarmenn tóku undir með Ástu og sögðu slæmt hversu lítil pólitísk umræða væri um þessi mál fengju heima fyrir.

iii.    42. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 70./38. fundur þingmannanefndar EFTA, 3. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðgjafanefnd EFTA og 28. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA, haldnir í Kristjánssandi 26.–27. júní 2003.
    Fundina sátu Gunnar Birgisson, formaður Íslandsdeildar, Birkir J. Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Katrín Júlíusdóttir, auk Belindu Theriault, starfandi ritara Íslandsdeildar.
    Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sátu formaður, fulltrúi stjórnarandstöðu og ritari. Þar var farið yfir helstu mál og starfið skipulagt. Meðal annars var samþykkt að halda ráðstefnu í samvinnu við ráðgjafanefnd EFTA í tilefni af 10 ára afmæli EES-samningsins í Reykjavík haustið 2004. Þá var rætt um afstöðu norska ráðherrans Gabrielsen í ráðherraráði EFTA til ráðherrafundanna, en þingmenn höfðu fengið upplýsingar um það stuttu fyrir fundinn að hann hefði hug á að fækka þeim úr tveimur í einn á ári og þar með fækka jafnframt fundum með þingmönnum. Þetta mál var rætt í framkvæmdastjórninni, en formanni Íslandsdeildar leist ekki vel á hugmyndina og lagði áherslu á að þetta yrði ekki ákveðið án samráðs við þingmannanefndina og að gera yrði úttekt á gagnsemi fundanna áður en ákvörðun væri tekin. Birkir var tilnefndur sem meðhöfundur skýrslu um samstarf við grannríki utan ESB (Wider Europe) fyrir næsta fund þingmannanefndar EES.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA gerði formaður Íslandsdeildar grein fyrir úrslitum alþingiskosninga. Gerhard Sabathil, sendiherra ESB til Íslands og Noregs, kynnti niðurstöður nýafstaðins leiðtogafundar ESB í Þessalóníku sem hann taldi að hefði tekist mjög vel. Hann sagði m.a. að fínpússa þyrfti drög að stjórnarskrá ESB, en í meginatriðum væri þetta komið og markaði þáttaskil í sögu ESB. Solana hefði lagt fram fyrir leiðtogafundinn mjög góða greinargerð um öryggismálastefnu ESB sem yrði útfærð frekar fyrir leiðtogafundinn í desember. Gert væri ráð fyrir að ljúka aðildarviðræðum við Búlgaríu og Rúmeníu fyrir lok 2004. Hann minntist á að ákvarðanir hefðu verið teknar um sameiginlega stjórn landamæra sem hefðu áhrif á Ísland og Noreg sem aðila að Schengen-samstarfinu. Sabathil gerði einnig grein fyrir nýjustu þróun í landbúnaðarstefnu ESB. Gunnar Birgisson spurði um stöðu nýrra aðildarríkja gagnvart evru-svæðinu. Guðlaugur Þór spurði hvort tekist hefði með þessum stjórnarskrárdrögum að færa ESB nær fólkinu. Sabathil svaraði því til að ESB stæði frammi fyrir ögrandi verkefni sem kallaði á tilfærslu fjármagns í stórum stíl til nýju aðildarríkjanna. Ný byggðastefna léki lykilhlutverk í þessu sambandi. Vonast væri til að einhver hinna nýju aðildarríkja gætu orðið aðilar að evrunni árið 2007, en það væri kannski fullmikil bjartsýni. Hann taldi tvímælalaust að ESB hefði færst nær fólkinu þar sem umræða um stjórnarskrána hefði verið mikil í öllum aðildarríkjum. Sú umræða yrði enn þá meiri þegar þjóðþingin tækju málið til skoðunar. Hann sagði margt í stjórnarskrárdrögunum auka lýðræði og gegnsæi og var hinn ánægðasti með þau þó að vissulega mætti enn lagfæra ýmislegt.
    Haldinn var sameiginlegur fundur þingmannanefndar EFTA og ráðgjafanefndar EFTA, en í henni sitja aðilar vinnumarkaðarins. Peter Ludlow, sem er formaður rannsóknastofnunar í Brussel, kom á fundinn og hélt erindi um stjórnarskrá ESB. Hann ræddi jafnframt samskipti ESB við grannríki og stækkun ESB og EES. Varðandi stjórnarskrána lagði hann áherslu á fimm atriði: Þó að ýmislegt mætti finna að drögum að stjórnarskrá ESB þá væri hér um jákvæða þróun og framför að ræða. Ákvörðun ráðsins um að samþykkja drögin sem grundvöll ríkjaráðstefnunnar væri mjög mikilvæg, því að þeir sem vildu breytingar á núverandi texta þyrftu að sanna gildi slíkra breytinga, ekki öfugt. Þó að drögin væru að flestu leyti ágæt væri mikil vinna eftir og því enn hægt að eyðileggja ferlið með vitlausum ákvörðunum. Samt væri hann bjartsýnn á að endanlegt plagg yrði ásættanlegt og undirritað af miklum meiri hluta aðildarríkja, ef ekki öllum. Grannríki yrðu í framtíðinni meira í sviðsljósinu, en staða EFTA yrði erfið. Í framhaldi af þessum fullyrðingum ræddi Ludlow framtíðarþróun ESB og sagði líklegt að öll 25 aðildarríki ESB skrifuðu undir stjórnarskrá 2004 og hún gengi í gildi 2005, Búlgaría og Rúmenía gengju í sambandið 2007 og á árunum 2008–2015 yrðu löndin á vestanverðum Balkanskaga aðilar og Tyrkland líka. Hann taldi að í slíku umhverfi hætti EES að skipta máli og best væri fyrir EFTA-ríkin að ganga í ESB. Stefna ESB gagnvart grannríkjum (Wider Europe) væri ekki ætluð EFTA-ríkjum heldur ríkjum eins og Rússlandi, Moldóvu o.s.frv. Áhersla ESB í samskiptum við ríki utan sambandsins yrði í framtíðinni á öryggishagsmuni ekki viðskiptahagsmuni og mundi því snúast um samstarf við fátæk ríki sem ESB vildi ekki fá inn, ekki auðug ríki sem halda sig fyrir utan. Hann taldi að erfiðara yrði fyrir EFTA-ríkin að fá athygli og minna tillit yrði tekið til þeirra.
    Gunnar Birgisson taldi stefna í bandaríki Evrópu og spurði hver áhrifin yrðu af því að ekki eru öll aðildarríkin aðilar að evru-svæðinu. Hann bað jafnframt um frekari skýringar á mati Ludlows á stöðu EFTA-ríkjanna. Guðlaugur Þór Þórðarson ræddi um þá gagnrýni sem hefði víða heyrst þess efnis að stjórnarskráin væri flókið plagg sem væri síst til þess fallið að færa ESB nær fólkinu. Ludlow sagði drögin draga saman og skýra stöðu mála í ESB og sæmilega upplýst fólk gæti þar séð hvað ESB snýst um. Vissulega væri vanþekking á ESB útbreidd og stjórnarskráin mundi væntanlega ekki hjálpa ómenntuðum lýðnum sem vissi lítið um ESB. Í sambandi við EFTA lagði hann áherslu á að ESB héldi áfram að stækka og yrði í framtíðinni upptekið af málefnum fátækari grannríkja og öryggismálum. Spurningin yrði hvernig EFTA-ríkin gætu tryggt að rödd þeirra heyrðist. Breytingar væru að verða á forgangsröðinni hjá ESB og hætta væri á að EFTA yrði ekki ofarlega á baugi. Hann kannaðist ekki við að stefnt væri að bandaríkjum Evrópu. Að lokum sagði hann að mesta ógn sem ESB stæði frammi fyrir núna væri hugsanlegur klofningur þar sem Frakkland og Þýskaland væru öðrum megin og Bretland og Spánn hinum megin.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA með ráðherrum voru á dagskrá bæði samskipti við þriðju ríki, þ.e. gerð fríverslunarsamninga, og stækkun EES. Formaður ráðherraráðsins, Gabrielsen frá Noregi, fór yfir stöðu mála varðandi fríverslunarsamninga. Hæst bar að samningur við Chile var undirritaður í Kristjánssandi. Forgangsmál voru að sögn ráðherrans að ná samningum við Kanada, Egyptaland, Líbanon og Túnis. Áfram yrði unnið að samningum við Suður-Afríku og umræður færu fram við fjölda annarra ríkja um hugsanlega fríverslunarsamninga. Þingmannanefndin var almennt jákvæð gagnvart þróun mála. Gunnar spurði ráðherrana hvort ekki væri hægt að fara að ljúka samningum við Kanada, hvers vegna ekki væri hægt að hefja viðræður við Bandaríkin strax og hver væri staða mála gagnvart Rússlandi. Svör voru á þá leið að enn þá væru skipasmíðar fyrirstaða í samningum við Kanada en vonast væri til að finna flöt á því máli á næstunni, hvað Bandaríkin varðaði yrði að skoða landbúnaðarmálin vel áður en hægt yrði að ræða um formlegar samningaviðræður og fylgst væri með þróun mála í Rússlandi, EFTA styddi viðleitni ESB til að koma á sérstöku samstarfi við Rússland og ætti að fylgja á eftir með svipaða stefnu. Guðlaugur Þór spurði hvort um eitthvert samstarf væri að ræða á milli EFTA-ríkjanna í tengslum við Doha-viðræður Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og fékk þau svör að um væri að ræða óformlegt samráð.
    Í umræðum um stækkun EES kom fram almenn ánægja með niðurstöðuna sem náðst hefði. Rætt var lítillega um hugsanlega uppfærslu EES-samningsins.
    Gabrielsen tilkynnti þingmannanefndinni að ráðherraráðið hefði ákveðið í gær að skoða skipulag ráðherrafundanna. Næsti fundur sem fer fram 15. desember á þessu ári yrði með sama sniði, en þá yrðu teknar ákvarðanir um framhaldið. Þingmannanefndin lagði áherslu á að hún teldi nauðsynlegt að hitta ráðherrana tvisvar á ári.

iv.    43. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og 71./39. fundur þingmannanefndar EFTA, haldnir í Brussel 16. október 2003.
    Fundina sátu Gunnar Birgisson, formaður Íslandsdeildar, Össur Skarphéðinsson, Birkir J. Jónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Lúðvík Bergvinsson, auk Belindu Theriault, ritari Íslandsdeildarinnar.
    Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sátu Gunnar Birgisson, Össur Skarphéðinsson og Belinda Theriault. Þar var starfið fram undan skipulagt. Ákveðið var að tillögu Össurar að fram færu umræður á fundi þingmannanefndarinnar í desember um aðkomu sveitarstjórna að EES-málum annars vegar og hins vegar um starfsmannaleigur og löggjöf um starfsemi þeirra. Ákveðið var að málin yrðu jafnframt rædd við ráðherraráð EFTA í desember. Auk þess að rætt yrði um samskipti við þriðju ríki, málefni EES og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Þá lýstu þingmenn áhuga á því að eiga á næstu mánuðum fundi með þingmönnum ríkja sem ganga á næsta ári í ESB, sérstaklega fulltrúum Eystrasaltsríkjanna. Að lokum var rætt um sameiginlega ráðstefnu sem þingmannanefnd og ráðgjafanefnd EFTA hyggjast halda í Reykjavík í tilefni af tíu ára afmæli EES-samningsins.
    Gunnar Birgisson, varaformaður þingmannanefndar EFTA, stýrði fundi nefndarinnar í fjarveru formanns. Á fundinum fjallaði Per Mannes, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, um undirbúning undir stækkun EES. Því miður hefði orðið að fresta undirritun stækkunarsamnings EES þar sem Liechtenstein hefði ekki séð sér fært að undirrita hann á tilsettum tíma vegna deilna við Tékkland og Slóvakíu um framkvæmd viðurkenningar á sjálfstæði Liechtensteins. Unnið væri að því að leysa málið. Per Mannes ræddi um stækkun innri markaðarins og hugsanlegar afleiðingar fyrir EFTA-ríkin. Hann sá ekki fyrir sér nein stórfelld vandamál af völdum frjálsra fólksflutninga. Umhverfismál og matvælaöryggi gætu verið málaflokkar sem yrðu í brennidepli, sem og eftirlit með framkvæmd reglna í stækkuðu ESB. Áherslur í lagasetningu gætu breyst eftir stækkun. Ekki væri víst að nýju aðildarríkin væru áköf í að setja ný lög á sviði umhverfisverndar og á félagslega sviðinu. Per sagði að vissulega ykist enn ójafnvægi hinna tveggja stoða innan EES, en áhrif EFTA-ríkjanna hefðu aldrei snúist um stærð. Þátttaka í nefndum ESB væri enn helsti styrkur EFTA-ríkjanna þegar kæmi að því að hafa áhrif á lagasetningu. Áhrif á Evrópuþingið og ráðherraráð ESB væru aftur á móti einungis óbein. Mikilvægt yrði í framtíðinni að setja fram athugasemdir EFTA-ríkjanna við fyrirhugaða lagasetningu með kröftugum og ákveðnum hætti. Möguleikar kynnu að felast í því að eiga náið samstarf við Norðurlönd, Eystrasaltsríki og Pólland. Skoða yrði hvort ástæða væri til að uppfæra EES-samninginn. Össur Skarphéðinsson hafði áhyggjur af þeim töfum sem hefðu orðið á undirritun stækkunarsamningsins. Hann spurði m.a. hvenær uppfærsla EES-samningsins yrði tekin til athugunar, hvort uppfærsla væri raunhæfur möguleiki og hver væri stefna EFTA-ríkjanna gagnvart starfsmannaleigum. Hann sagði síðasttalda atriðið þegar vera vandamál á EES-svæðinu. Guðlaugur Þór Þórðarson fjallaði um umhverfismál og hugsanleg vandamál á því sviði í stækkuðu EES. Per Mannes sagði að stefnt væri að því að leysa vandamál Liechtensteins á næstu tveimur vikum. Skiptar skoðanir væru um málefni er tengdust starfsmannaleigum og tímabundnu vinnuafli. Tillaga um lagasetningu á því sviði væri föst í ráðherraráði ESB og útlitið ekki gott hvað varðaði lausn málsins. Af EFTA-ríkjunum hefði Ísland mestan áhuga á uppfærslu EES-samningsins. Beðið væri eftir niðurstöðu ríkjaráðstefnunnar til að hægt væri að skoða heildarmyndina. EFTA-skrifstofan mundi þá gera heildarúttekt á málinu, en síðan væri það aðildarríkjanna að ákveða framhaldið.
    Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins, hélt fróðlegt erindi um starfsemi dómstólsins. Hann ræddi hlutverk og skipulag dómstólsins, stöðu hans gagnvart Evrópudómstólnum og gaf fundarmönnum gott yfirlit yfir dóma og þýðingu þeirra.
    Áætlun um innri markaðinn 2003–2006 (Internal Market Strategy) var næsta mál á dagskrá fundarins. Áætlunin er stefnumótandi plagg frá framkvæmdastjórn ESB til næstu þriggja ára um málefni innri markaðarins. Þar má sjá hvaða tillögur að nýrri lagasetningu eru á döfinni. Mikilvægt er því að löggjafinn kynni sér plaggið vel og þingmenn fylgist með framvindu mála. Meðal helstu efnisatriða í áætluninni eru aðgerðir sem snerta vöru- og þjónustuviðskipti, samgöngumál, skattamál, opinber innkaup, bætt viðskiptaumhverfi fyrirtækja, einfaldara regluverk, framkvæmd reglna, bætt upplýsingastreymi, breytta aldurssamsetningu aðildarþjóða, stækkun innri markaðarins og innri markaðinn í alþjóðlegu samhengi.
    Gerard de Graaf, deildarstjóri á skrifstofu um málefni innri markaðarins hjá framkvæmdastjórn ESB, kom á fundinn til að ræða áætlunina. Hann sagði að tekist hefði vel til með innri markaðinn á síðustu tíu árum, en þó þyrfti að gera miklu betur. Innri markaðurinn væri að mörgu leyti vannýttur. Síðan 2001 hefðu t.d. viðskipti innan ESB nánast ekkert aukist og litlar fjárfestingar væru jafnframt áhyggjuefni. Samræma þyrfti reglur enn frekar og opna fyrir frekari viðskipti með lagasetningu. Áætlunin tæki á mörgum þáttum, en mikinn pólitískan vilja þyrfti til að koma markmiðum hennar áleiðis. Þann vilja skorti hjá sumum leiðtogum. T.d. væri það stefna þýsku stjórnarinnar að draga lappirnar í Brussel og koma í veg fyrir ákvarðanir. Hann tók sem dæmi Lissabon-ferlið sem ætlað er að gera ESB að samkeppnishæfasta svæði heims fyrir 2010. Hann sagði að þrátt fyrir fögur fyrirheit væri lítið búið að gera til að bæta samkeppnisstöðu ESB. Ráðherrar samkeppnismála ynnu ekki vinnuna sína, þeir létu nægja froðusnakk í Brussel í staðinn fyrir að taka ákvarðanir á fundum sínum. Guðlaugur Þór Þórðarson taldi ljóst af orðum ræðumanns og af upplýsingum í áætluninni sjálfri að þrátt fyrir allt sem gert hefði verið á síðustu árum væri árangurinn ekki nógu góður. Skoða þyrfti aðrar lausnir. De Graaf ítrekaði að innri markaðurinn hefði tekist vel, þó að margt mætti enn færa til betri vegar. Sumir teldu breytingar of örar innan ESB, en sannleikurinn væri sá að tíminn frá því að tillaga að nýrri gerð kæmi fram og þar til hún yrði að lögum væri að meðaltali sex ár. Össur Skarphéðinsson taldi ræðumanninn allt of svartsýnan og átaldi hann fyrir að mála allt of dökka mynd af þróuninni innan ESB.
    Í umræðum um þróun mála í þjóðþingum EFTA-ríkjanna tók Gunnar Birgisson fram að von væri á frumvarpi vegna stækkunar EES í kringum næstu mánaðamót, en það gæti þó breyst ef undirritun samningsins drægist.

v.    Fundur með Evrópunefnd ítalska þingsins í Róm 26. nóvember, 32. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES og 21. fundur þingmannanefndar EES sem haldnir voru í Brussel 27. nóvember.
    Ítalía var í forustu innan ESB til áramóta. Venja er að Íslandsdeildin fari til fundar við þing forusturíkis ESB í upphafi formennskutímabilsins, en Evrópunefnd ítalska þingsins gat ekki orðið við beiðni um fund fyrr. Breytti það þó ekki því að fundurinn var mjög góður og gagnlegur fyrir báða aðila. Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sátu fundinn Gunnar Birgisson, formaður, Guðlaugur Þór Þórðarson, Lúðvík Bergvinsson og Belinda Theriault, ritari Íslandsdeildar. Auk formanns Evrópunefndarinnar, Giacomo Stucchi frá Norðurbandalaginu, sátu fimm aðrir ítalskir þingmenn fundinn. Í upphafi fundar ræddi Stucchi af þekkingu um EES-samninginn og þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Hann sagði mikilvægt að auka enn frekar samstarf Íslands og ESB og nýta þau tækifæri sem kynnu að bjóðast í þeim efnum. Hann ræddi lítillega um varnar- og öryggismál í Evrópu, norrænu víddina og stækkun ESB. Gunnar Birgisson fór yfir þau málefni sem Íslandsdeildin hafði hug á að ræða, sérstaklega stækkun EES og mikilvægi þess að þjóðþing allra aðildarríkja fullgiltu stækkunarsamninginn tímanlega svo að stækkun ESB og EES gæti farið fram samtímis. Hann óskaði eftir aðstoð ítalska þingsins við að tryggja snurðulausa framkvæmd málsins og fékk góðar undirtektir hjá ítölskum kollegum sínum. Gunnar kynnti jafnframt þróunarsjóð EFTA, sem mun gagnast nýjum aðildarríkjum ESB, auk nokkurra núverandi aðildarríkja. Hann fór yfir Evrópuumræðuna á Íslandi og útskýrði sérstaklega afstöðu Íslendinga til sjávarútvegsstefnu ESB. Fundarmenn ræddi síðan m.a. um gang mála á ríkjaráðstefnu ESB þar sem stjórnarskrárdrög ESB eru til umfjöllunar, áhrif stækkunar ESB á frekari þróun sambandsins, varnar- og öryggismálastefnu ESB með tilliti til NATO og málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Í lok fundar minnti Gunnar á góð tengsl landanna, m.a. gagnkvæmar heimsóknir þingforsetanna og forsætisráðherranna og þakkaði góðar móttökur. Ítalir létu í ljós ánægju sína með fundinn og sögðust hafa skilning á málstað Íslendinga.
    Því næst hélt sendinefndin til Brussel þar sem Össur Skarphéðinsson bættist í hópinn. Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES sátu Gunnar Birgisson, Össur Skarphéðinsson og Belinda Theriault. Á þeim fundi var fundur þingmannanefndar EES undirbúinn, farið var yfir ályktanadrög og breytingartillögur og fundnar málamiðlanir þar sem hægt var. Öll sendinefndin sat fund þingmannanefndar EES. Þar voru tvær skýrslur teknar til umfjöllunar og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra.
    Í fyrsta lagi var tekin til umræðu skýrsla um nágrannastefnu ESB og EES (The Wider Europe and the EEA). Birkir J. Jónsson var meðhöfundur skýrslunnar, en í fjarveru hans kynnti Gunnar Birgisson skýrsluna. Í ályktuninni sem samþykkt var á fundinum er m.a. fagnað stefnumótun ESB gagnvart nýjum grannríkjum, EES/EFTA-ríki eru almennt hvött til að auka tengsl sín við þessi ríki og stuðningi er lýst við stofnun sérstakra þingmannasamtaka fyrir þingmenn frá ESB-ríkjum og Miðjarðarhafssvæðinu, jafnframt með þátttöku EES/EFTA-ríkja.
    Í öðru lagi var tekin fyrir skýrsla um stjórnarskrárdrög ESB og áhrif þeirra á EES (The Draft Constitution for Europe and Implications for the EEA). Í drögum að ályktun var í fyrstu tíu greinunum lagt jákvætt mat á stjórnarskrárdrögin, en í síðari hluta ályktunarinnar fjallað um áhrif þeirra á EES. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram breytingartillögu þar sem lagt var til að fyrstu tíu greinarnar færu út og í stað þeirra kæmi ein hlutlaus grein. Sú tillaga var samþykkt á fundinum. Í ályktuninni er m.a. hvatt til þess að stækkunarsamningur EES verði fullgiltur með hraði í aðildarríkjunum til þess að hægt verði að tryggja stækkun ESB og EES samtímis. Jafnframt er hvatt til tæknilegrar uppfærslu EES-samningsins í samræmi við breytingar á sáttmálum ESB.
    Þingmannanefnd EES gaf á fundinum út yfirlýsingu þar sem frumkvæði sendinefndar Evrópuþingsins í nefndinni er fagnað, en að hennar tilstuðlan verður utanríkisráðherrum EFTA/EES-ríkjanna boðið að ávarpa utanríkismálanefnd Evrópuþingsins og fjalla um þróun mála í Evrópu og framtíðarsamskipti EFTA og ESB innan EES. Er gert ráð fyrir slíkum fundi fyrir kosningar til Evrópuþingsins sem fram fara í júní nk.
    Vinnuskýrsla ráðgjafanefndar EES um sérstofnanir ESB og Evrópska efnahagssvæðið var kynnt þingmannanefndinni. Slíkar sérstofnanir eru nú fimmtán talsins og hafa ólík hlutverk. Sumar hafa eftirlitshlutverk, aðrar vinna sem upplýsinganet og enn aðrar sjá um framkvæmd áætlana ESB á sérstökum sviðum. EFTA/EES-ríkin taka þátt í starfi þriggja sérstofnana og eiga jafnframt aðkomu að stjórnum þeirra og hafa óskað eftir þátttöku í þremur stofnunum til viðbótar. Rætt er um að breyta fyrirkomulagi stofnana og stjórna þeirra eftir stækkun ESB og því er mikilvægt að tryggja áframhaldandi aðkomu EES/EFTA-ríkja að sérstofnunum og stjórnum þeirra eftir stækkun.
    Að venju var á fundi þingmannanefndar EES rætt almennt um þróun EES-samningsins. Fundinn ávörpuðu Nikolaus prins af Liechtenstein sendiherra, forseti hinnar sameiginlegu EES-nefndar og fulltrúi formanns ráðherraráðs EES, Alessandro Merola sendiherra, fulltrúi formanns ESB í ráðherraráði EES, Percy Westerlund, æðsti fulltrúi ESB í hinni sameiginlegu EES-nefnd, og Einar Bull, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Össur Skarphéðinsson ræddi um möguleika á tæknilegri uppfærslu á EES-samningnum. Fannst honum Westerlund taka illa í slíka uppfærslu í inngangsorðum sínum og spurði hvort ekki væri næg ástæða til uppfærslu samningsins að möguleikar EFTA-ríkjanna til áhrifa hefðu minnkað samfara auknum áhrifum Evrópuþingsins. Westerlund sagði að fram að þessu hefði ekki verið ástæða til uppfærslu, en nú væri beðið eftir útkomu ríkjaráðstefnu ESB til að endurmeta stöðuna. Framkvæmd EES-samningsins gengi vel og engin ástæða væri til að laga það sem ekki væri brotið. Össur sagði á margan hátt mega bæta EES-samninginn og auka lýðræðisleg áhrif EFTA-ríkjanna. En til að slíkt mætti gerast yrði ESB að vera opið fyrir tæknilegri uppfærslu. Þeir Össur og Westerlund ræddi jafnframt mögulega inngöngu Ísraels í EES, en Össur hafði heyrt slíkar hugmyndir innan framkvæmdastjórnar ESB. Westerlund fullyrti að engin slík áform væru uppi.
    Í framhaldi af þessum umræðum var ákveðið að þingmannanefndin skoðaði lýðræði innan EES, sérstaklega með tilliti til nýrrar stjórnarskrár ESB og að Össur Skarphéðinsson og einn Evrópuþingmaður yrðu meðhöfundar að slíkri skýrslu fyrir næsta fund þingmannanefndarinnar. Síðar var umfjöllunarefninu breytt í ljósi þess að stjórnarskrá ESB var ekki samþykkt og var ákveðið að tillögu Össurar að fjalla um hlut sveitarstjórna í ákvarðanatöku innan EES. Jafnframt verður undirbúin fyrir þann fund skýrsla um ársskýrslu hinnar sameiginlegu EES-nefndar. Fundurinn verður 26.–27. apríl í Liechtenstein.
    Um kvöldið sat hluti sendinefndarinnar kvöldverðarboð hjá sendiherra Íslands hjá ESB, Kjartani Jóhannssyni, en hann hafði jafnframt boðið nokkrum starfsmönnum ráðuneyta sem starfa í sendiráðinu og fræddu þeir sendinefndina um störf sín. Þótti sendinefndinni ljóst af upplýsingum sem fram komu að mikið og gott starf væri unnið á vegum íslenska sendiráðsins í Brussel undir styrkri stjórn sendiherrans. Ástæða væri til að styðja það mikilvæga starf sem þar færi fram og fylgjast með því sem þar væri að gerast.

vi.    44. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 4. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðgjafanefnd EFTA, 29. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA og 72./40. fundur þingmannanefndar EFTA, haldnir í Genf 15.–16. desember 2003, og fundur með Evrópunefnd írska þingsins sem haldinn var 17. desember 2003.
    Fundina sátu Gunnar Birgisson, formaður Íslandsdeildar, Össur Skarphéðinsson, Birkir J. Jónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Lúðvík Bergvinsson, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar.
    Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sátu formaður, Össur og ritari. Á fundinum var farið yfir fjárhagsáætlun ESA og fyrirhugaða fjárveitingu. Einar Bull, forseti ESA, kynnti fjárhagsáætlun stofnunarinnar og Nikolaus prins af Liechtenstein, formaður ESA-nefndar EFTA-ríkjanna, kynnti sjónarmið EFTA-ríkjanna og fyrirhugaðar fjárveitingar. Að loknum umræðum samþykkti framkvæmdastjórn þingmannanefndar ályktun um málið sem send var til ESA-nefndarinnar. Framkvæmdastjórnin notaði jafnframt tækifærið til að undirbúa fundi sem halda átti síðar um daginn og næsta dag. Íslandsdeildarmenn komu á framfæri gagnrýni á skipulag fundanna og dagskrá fundar með ráðherraráði EFTA, en þar væri ekki farið eftir óskum sem þingmenn höfðu sett fram. Lögðu fulltrúar Íslands áherslu á mikilvægi þingmannanefndarinnar sem lýðræðislegs afls innan EFTA og að nauðsynlegt væri að hún fengi nauðsynlega fyrirgreiðslu innan stofnunarinnar og tækifæri til að ræða mál við ráðherraráðið á sínum forsendum.
    Haldinn var sameiginlegur fundur þingmannanefndar EFTA og ráðgjafanefndar EFTA, en í henni sitja aðilar vinnumarkaðarins. Þar var kynnt skýrsla um frjálst flæði vinnuafls á EES-svæðinu, bæði með tilliti til stækkunar EES og tillögu að nýrri lagasetningu á þessu sviði sem er nú til umfjöllunar innan ESB. Jafnframt lá fyrir fundinum skýrsla um drög að lagasetningu um vinnuskilyrði starfsmanna starfsmannaleigna (temporary agency workers). Umræður urðu um hvort gera mætti ráð fyrir auknu flæði vinnuafls til EES/EFTA-ríkjanna eftir stækkun EES. Margir töldu að frekar þyrfti að huga að frjálsu þjónustuflæði en frjálsu flæði vinnuafls, af því að tilboð fyrirtækja í framkvæmdir fælu í sér mismunandi launakostnað eftir því hvaðan vinnuaflið væri. Lagaákvæði um þetta eru ólík á Íslandi og í Noregi. Á Íslandi gilda ákvæði um laun samkvæmt kjarasamningum líka þegar um erlent vinnuafl frá leigumiðlunum er að ræða, en engin slík ákvæði eru í norskum lögum. Þrátt fyrir að staðan sé betri á Íslandi með tilliti til lagasetningar kom fram í máli Össurar Skarphéðinssonar að of auðvelt væri fyrir fyrirtæki að sniðganga lögin. Hann taldi þörf á evrópskri lagasetningu og hörðum viðurlögum við brotum. Guðlaugur Þór Þórðarson benti á að margt væri jákvætt við starfsmannaleigur og sagði að innan Evrópu þyrfti að auka sveigjanleika á vinnumarkaðnum, ekki draga úr honum, til að auka samkeppnishæfni. Gunnar Birgisson tók undir með Guðlaugi og sagði vandamál tengd starfsmannaleigum lítils háttar og engin ástæða væri til að gera mikið úr þessu máli.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA með ráðherrum var rætt um stækkun EES og sérstaklega frjálst flæði vinnuafls í því sambandi. Fram kom að ekki er ljóst hvort Ísland og Noregur muni styðjast við tímabundnar undanþágur. Bæði ríkin vilja gjarnan leyfa frjálst flæði strax frá 1. maí 2004, en ef mörg ESB-ríki nýta sér undanþágur gæti skapast þrýstingur á EFTA-ríkin þar sem fleiri mundu sækja þangað. Össur Skarphéðinsson taldi minni líkur á að frjálst flæði vinnuafls skapaði vandamál en frjálst þjónustuflæði. Hann sagði að þegar mætti sjá merki um misnotkun á erlendu vinnuafli á Íslandi sem tengdist starfsmannaleigum og hætta væri á því að sú misnotkun ykist þegar stækkun EES kæmi til framkvæmda. Engin viðurlög væru við því á Íslandi að sniðganga reglur um lágmarkslaun. Spurði hann ráðherrana hvort þeir væru tilbúnir til að beita sér fyrir lagasetningu til að koma í veg fyrir misnotkun erlends vinnuafls, jafnt heima fyrir sem innan ESB. Formaður ráðherraráðsins, utanríkisráðherra Liechtensteins, sagði að málið yrði skoðað og ef vandræði kæmu upp yrði kannað hvernig mætti leysa þau. Ef málið væri í sjálfheldu innan ESB væri til lítils að taka það upp á þeim vettvangi. Guðlaugur Þór vildi taka fram að þó að menn sæju einhver vandamál í tengslum við starfsmannaleigur mætti ekki gleyma því að þær ynnu jafnframt þarft starf á mörgum sviðum. Öll umræða um þær mætti ekki vera neikvæð.
    Á fundinum var jafnframt á dagskrá að ræða um nágrannastefnu ESB. Þingmannanefndin taldi nauðsynlegt að ræða samstarf við þriðju ríki í víðara samhengi og gerði það. Gunnar Birgisson gagnrýndi aðgerðaleysi gagnvart Kanada, en fríverslunarsamningur milli EFTA- ríkjanna og Kanada hefur verið á dagskrá í nokkur ár. Ekki hefur verið hægt að ganga frá samningnum vegna deilna Kanadamanna og Norðmanna um skipasmíðar og hefur ekkert gerst síðustu þrjú ár. Gunnar bauð fram aðstoð þingmannanefndarinnar við að þoka málinu áfram. Hann vildi heyra frá ráðherrum um gang viðræðna við ýmis önnur ríki, t.d. Egyptaland, Túnis, Rússland og Bandaríkin. Norski ráðherrann Gabrielsen sagði Norðmenn oft hafa rætt við Kanadamenn og nú væri boltinn hjá þeim síðarnefndu. Ekki væri hægt að gera meira en rætt yrði við nýja ríkisstjórn þegar hún væri tekin við. Hann fagnaði aðstoð frá þingmannanefndinni. Óformlegar viðræður hefðu farið fram við Bandaríkin en nú þyrfti að gefa sér tíma til að skoða málin áður en lengra væri haldið. Halldór Ásgrímsson tók undir með þingmönnum um að ganga þyrfti frá samningi við Kanada og ef það tækist ekki yrði að viðurkenna ósigur og enda samningaferlið. Hann taldi ágreiningsmál við Túnis um fisk og Egyptaland um kartöflur smávægileg og bjóst við að þau yrðu leyst fljótlega. Hann taldi mjög jákvætt að þingmannanefndin tæki upp samskipti við þing þeirra ríkja sem nú væri verið að gera samninga við (parliamentary dialogue). Framkvæmdastjóri EFTA taldi að samningar tækjust við Líbanon næsta vor og Suður-Afríku einhvern tíma á næsta ári. Össur Skarphéðinsson furðaði sig á ummælum Gabrielsen að ekkert frekara væri hægt að gera varðandi Kanada. Hann sá einn augljósan möguleika sem væri að taka skipasmíðar út úr samningsdrögunum. Hann fagnaði nágrannastefnu ESB (Wider Europe Policy), en varaði þó við því að ESB vildi nota EES sem ruslakistu fyrir þá sem það vildi ekki fá inn í sambandið. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði áherslu á samstarf við Bandaríkin og taldi að sá samningur ætti að fá forgang hjá EFTA.
    Þá var rætt við ráðherrana um hlut sveitarstjórna í ákvarðanatöku innan ESB, en minnisblað um málið lá fyrir fundinum. Ljóst er að margar gerðir ESB hafa áhrif á sveitarstjórnarstiginu og var því sett á laggirnar ráðgefandi nefnd gagnvart ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB (EU Committee of the Regions). Hún gefur álit sitt á öllum tillögum sem snerta málefni sveitarfélaga. EES/EFTA-ríkin hafa ekki aðgang að sveitarstjórnarnefnd ESB, en sú nefnd var ekki til þegar EES-samningurinn var gerður. Össur Skarphéðinsson lagði til að EFTA setti á laggirnar sveitarstjórnarnefnd sem starfaði samhliða nefnd ESB. Þannig gætu sveitarstjórnir í EES/EFTA-ríkjunum fengið upplýsingar og reynt að hafa áhrif EFTA megin. Að lokum ræddi Gunnar Birgisson ákvörðun ráðherrana um að breyta desemberfundi sínum og gera hann einfaldari og minni í sniðum með meiri áherslu á pólitíska stefnumótun. Hann lagði áherslu á að þingmannanefnd EFTA hefði áfram tvo fundi á ári með ráðherrum, þ.e. bæði í júní og desember, og taldi að hið nýja fyrirkomulag desemberfundarins gæti jafnvel aukið pólitískt samráð þingmanna og ráðherra.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA gáfu embættismenn frá EFTA-skrifstofunni og viðskiptaráðuneyti Noregs yfirlit yfir samstarf við þriðju ríki. Að því loknu hélt Roderick Abbott, aðstoðarframkvæmdastjóri WTO, prýðilegt erindi um stöðu Doha-samningalotunnar og framtíð hennar. Bæði málin verða áfram á dagskrá þingmannanefndarinnar. Gunnar Birgisson var kjörinn formaður þingmannanefndar árið 2004 og Morten Höglund frá Noregi varaformaður. Næsti fundur þingmannanefndar verður haldinn í febrúar eða mars. Gunnar Birgisson sagðist mundu setja af stað könnun á því hvernig best væri að nálgast kanadíska þingið til að reyna að aðstoða EFTA við að koma á fríverslunarsamningi.
    Að EFTA-fundunum loknum hélt Íslandsdeildin til fundar við Evrópunefnd írska þingsins, en Írland tók við forustu í ESB um áramótin. Gunnar Birgisson fór yfir þau málefni sem Íslandsdeildin hafði hug á að ræða, sérstaklega stækkun EES og mikilvægi þess að þjóðþing allra aðildarríkja fullgiltu stækkunarsamninginn í tíma svo að stækkun ESB og EES gæti farið fram samtímis. Hann óskaði eftir aðstoð írska þingsins við að tryggja snurðulausa framkvæmd málsins. Síðan skiptust þingmenn á skoðunum um Evrópumálin almennt, auk þess sem rætt var sérstaklega um sjávarútvegsstefnu ESB.

VI.    Ályktanir þingmannanefndar EES árið 2003.
    Ályktanir um eftirfarandi mál voru samþykktar í þingmannanefnd EES:
          stækkun EES og framtíð ESB,
          framkvæmd EES-samningsins á árinu 2002,
          nágrannastefnu ESB,
          stjórnarskrárdrög ESB og áhrif þeirra á EES.

Alþingi, 9. febr. 2004.


Gunnar Birgisson,


form.


Birkir J. Jónsson,

varaform.


Bryndís Hlöðversdóttir.



Guðlaugur Þór Þórðarson.


Lúðvík Bergvinsson.