Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 411. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 885  —  411. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um starfsmenn í hlutastörfum.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar kom Gylfi Kristinsson frá félagsmálaráðuneyti. Að auki tók nefndin á móti fulltrúum aðila á vinnumarkaði og við afgreiðslu málsins lágu fyrir skriflegar umsagnir frá Kvenréttindafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ASÍ, fjármálaráðuneyti, BSRB og Reykjavíkurborg.
    Í athugasemdum við frumvarpið eru tilgangur og tilurð þess rakin nokkuð ítarlega. Þar kemur m.a. fram að frumvarpið er lagt fram til innleiðingar á tilskipun ráðsins 97/81/EB, frá 15. desember 1997, sem sameiginlega EES-nefndin samþykkti að fella undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. ákvörðun nefndarinnar nr. 104/1998. Félagsmálaráðuneyti fól aðilum vinnumarkaðarins að semja um efni rammasamningsins sem tilskipunin byggist á. ASÍ og Samtök atvinnulífsins náðu samningum en ekki tókst að semja um starfsmenn ríkis og sveitarfélaga. Sá tími sem Ísland hafði til að innleiða tilskipunina er liðinn. Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar vakið athygli íslenskra stjórnvalda á þeirri staðreynd og gert þeim grein fyrir því að hún muni höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum fyrir brot á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið verði ekki brugðist við án frekari tafa. Það er því ljóst að tíminn sem gafst til að innleiða efni tilskipunarinnar með samningum á vinnumarkaði er uppurinn og ekki verður lengur hjá því komist að setja lög svo að tilskipunin geti talist innleidd á fullnægjandi hátt.
    Gildissvið frumvarpsins er afmarkað í 2. gr. Í 3. mgr. hennar kemur fram að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga, sem á grundvelli hlutlægra ástæðna fá greitt tímavinnukaup í stað mánaðarkaups sem þorri þeirra fær, skuli undanskildir ákvæðum þess enda byggist undanþágan á kjarasamningi, ákvörðun stjórnvalda eða venju í slíkum tilvikum. ASÍ og BSRB telja að þessi takmörkun á gildissviði frumvarpsins standist ekki efnisákvæði tilskipunarinnar og rammasamningsins en öndverð sjónarmið koma fram í umsögnum frá fjármálaráðuneyti og kjaraþróunardeild Reykjavíkurborgar. Rök aðilanna eru rakin í greinargerð með frumvarpinu. Í athugasemdum við 2. gr. kemur fram að við afmörkun á gildissviði frumvarpsins hafi verið litið til innleiðingar Dana á tilskipuninni og að fleiri ríki hafi nýtt sér heimild til undantekninga. Þar segir jafnframt að þeir sem helst fá greitt tímavinnukaup séu skólafólk við störf í skólafríum, lífeyrisþegar sem vinna hluta úr starfi, starfsmenn sem ráðnir eru til skamms tíma á sérstökum, árvissum álagstímum stofnana, starfsmenn sem ráðnir eru til að vinna að sérhæfðum afmörkuðum verkefnum og starfsmenn sem starfa óreglubundið, þó aðeins í algjörum undantekningartilvikum. Þetta er því frekar afmarkaður hópur starfsmanna.
    Það er mat meiri hlutans að í ákvæði 3. mgr. 2. gr. sé ekki farið út fyrir þær heimildir sem veittar eru til undantekninga við innleiðingu tilskipunarinnar. Hún telur þó rétt að bætt verði við bráðabirgðaákvæði sem kveði á um endurskoðun ákvæðisins innan tveggja ára þar sem í 2. tölul. 2. ákvæðis rammasamningsins, sem ákvæði 2. mgr. 3. gr. styðst fyrst og fremst við, er skýrt kveðið á um að undantekningar beri að endurskoða reglulega til að ganga úr skugga um að hlutlægar orsakir sem liggja þeim til grundvallar séu enn í gildi. Meiri hlutinn telur að ekki eigi aðeins að skylda aðila vinnumarkaðarins til slíkrar endurskoðunar, eins og gert er í 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins, heldur verði einnig að mæla fyrir um endurskoðun löggjafans á undantekningarákvæðinu verði frumvarpið að lögum.
    Meiri hlutinn leggur til að í stað orðsins „hlutavinnufólks“ í e-lið 2. mgr. 4. gr. komi „starfsmanna í hlutastörfum“ og þarfnast það ekki skýringar.
    Loks leggur meiri hlutinn til að orðalagi 5. gr. verði breytt svo að ákvæðið verði skýrara hvað snertir skaðabótaskyldu vinnuveitenda og samræmist um leið betur athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu.
    Félagsmálaráðuneyti hefur haft samráð við aðila vinnumarkaðarins við frumvarpsvinnuna og það sama hefur félagsmálanefnd gert. Meiri hlutinn telur að efni frumvarpsins geti bætt stöðu starfsmanna í hlutastörfum án þess að leggja of miklar kvaðir á vinnuveitendur og það eigi ekki að valda verulegum vanda við gerð kjarasamninga verði frumvarpið að lögum. Meiri hlutinn mælir með að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

     1.      Við 4. gr. Í stað orðsins „hlutavinnufólks“ í e-lið 2. mgr. komi: starfsmanna í hlutastörfum.
     2.      Við 5. gr. Í stað orðanna „varðar það“ komi: getur það varðað hann.
     3.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:
                  Ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga þessara skal endurskoðað innan tveggja ára frá gildistöku þeirra.

    Katrín Júlíusdóttir og Gunnar Örlygsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Við afgreiðslu málsins sat Ögmundur Jónasson fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann andvígur áliti þessu.

Alþingi, 10. febr. 2004.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Guðjón Hjörleifsson.



Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Dagný Jónsdóttir.