Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 411. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 907  —  411. mál.


                                  

Nefndarálit



um frv. til l. um starfsmenn í hlutastörfum.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Frumvarpið gerir ráð fyrir að innleidd verði tilskipun um rammasamning um hlutastörf þar sem settar eru fram almennar meginreglur og lágmarkskröfur er varða hlutstörf. Í 3. mgr. 2. gr. kemur fram að ákvæði laganna taki ekki til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem á grundvelli hlutlægra ástæðna fá greitt tímavinnukaup, enda byggist sú undanþága á kjarasamningi, ákvörðun stjórnvalds eða venju í slíkum tilvikum. Þannig nýtur tímavinnufólk ekki þeirra réttinda sem frumvarpið kveður á um. Á hinum almenna vinnumarkaði tókst Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins hins vegar að ljúka kjarasamningi um réttarstöðu starfsmanna í hlutastörfum sem ekki tókst á hinum opinbera vinnumarkaði. Samtök launafólks hafa harðlega gagnrýnt að lagt er til að allir sem fá greitt tímavinnukaup fyrir vinnu sína hjá ríki og sveitarfélögum falli utan gildissviðs laganna.
    Minni hlutinn leggst gegn ákvæðum 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins sem kveður á um að lögin taki ekki til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem fá greitt tímakaup og vísar í rökstuðning sem fram kemur í álitsgerðum frá samtökum launafólks sem eru birt sem fylgiskjöl. Þar eru færð fram rök fyrir því að tilskipunin um hlutastörf sem verið er að innleiða með þessum lögum heimili ekki að undanskilja tímavinnufólk frá ákvæðum laganna.
    Hjá ríki og sveitarfélögum eru stórir hópar starfsmanna sem munu ekki njóta þeirra réttinda sem tilskipuninni er ætlað að tryggja. Félagsmálaráðuneytið hefur ekki sýnt fram á með neinum rökum hvers vegna nauðsynlegt er talið að undanskilja þennan hóp starfsmanna ríkis og sveitarfélaga í lögunum og skapa þannig mismunun í stað þess að draga úr henni sem í orði kveðnu er þó yfirlýst stefna stjórnvalda.
    Félagsmálaráðuneytið hefur lagt ríka áherslu á að máli þessu verði hraðað og hefur í því samhengi verið bent á að Eftirlitsstofnun EFTA muni að öðrum kosti hugsanlega höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum fyrir brot á EES-samningnum verði frekari frestun á því að tilskipunin verði innleidd. Af hálfu samtaka launafólks mun þeirri hugmynd hins vegar hafa verið hreyft að verði frumvarpið samþykkt í óbreyttri mynd verði látið á það reyna frammi fyrir sömu aðilum hvort lögin standist.
    Minni hlutinn telur að ekki hafi verið sýnt fram á að nauðsyn beri til að undanskilja starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem fá greitt samkvæmt tímavinnu og telur auk þess ófært að samþykkja frumvarp sem vafi leikur á um að standist þá tilskipun EES sem ætlunin er að innleiða.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur þessu áliti.

Alþingi, 10. febr. 2004.



Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Helgi Hjörvar.

Fylgiskjal I.


Umsögn Alþýðusambands Íslands.
(21. janúar 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Umsögn BSRB.
(22. janúar 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.