Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 621. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 929  —  621. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2003.

1.     Inngangur.
    Evrópuráðsþingið er þingræðislegur vettvangur 45 aðildarríkja Evrópuráðsins og gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi þess, enda hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja 626 fulltrúar sem skiptast til helminga, í aðalmenn og varamenn. Þá eiga 18 áheyrnarfulltrúar rétt til setu á þinginu. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í tíu málefnanefndum. Þá sitja formenn landsdeilda í stjórnarnefnd og í sameiginlegri nefnd með ráðherranefndinni, auk þess sem tuttugu þingmenn sitja í forsætisnefnd þingsins. Loks starfa á þinginu fimm flokkahópar. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir og
          vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinga.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið sér fyrir samningu og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og -samtök. Þar ber að sjálfsögðu hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/ 1994.
    Á þingfundum eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða áliti er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þær og framkvæmir til samræmis við þær ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Þá er Evrópuráðsþingið umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, menningar- og menntamál, og eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Ólíkt Evrópuþinginu eru fulltrúar á Evrópuráðsþinginu þjóðkjörnir þingmenn og hafa störf þingsins því beina skírskotun til starfa þjóðþinganna sjálfra. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem menn starfa saman á jafnræðisgrundvelli, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægir. Hefur þetta farsæla samstarf hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í Mið- og Austur-Evrópu á undangengnum árum. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta við að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi, og ekki síður möguleika, Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni, ekki síst í ljósi þess að Evrópuráðið og þingmannasamkunda þess er eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem Ísland nýtur fullrar aðildar.

2.    Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Fram að alþingiskosningum 10. maí voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólafur Örn Haraldsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar. Ný Íslandsdeild var skipuð í upphafi 129. þings. Aðalmenn voru Sólveig Pétursdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Árni R. Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Ritari Íslandsdeildarinnar var Andri Lúthersson.

3.    Helstu málefni Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins árið 2003.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja lýðræðis- og efnahagsuppbyggingu í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með efnahags-, laga- og tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört og á árinu náði stofnunin þeim merka áfanga að aðildarríkin urðu fjörutíu og fimm talsins þegar sambandsríki Serbíu og Svartfjallalands hlaut formlega aðild. Segja má að ríki Evrópuráðsins myndi nú eina órofa pólitíska heild og er óhætt að segja að með vaxandi verkefnum og auknum umsvifum undanfarin ár hafi vægi ráðsins aukist verulega. Á vettvangi ráðherranefndar Evrópuráðsins var nokkuð rætt um hugmyndir þess efnis á árinu að efna til þriðja leiðtogafundar ráðsins og hvaða málefni verði fjallað um þar. Fyrirhugað er að slíkur fundur verði haldinn árið 2004. Þá varð framhald á umræðum um endurskipulagningu Mannréttindadómstóls Evrópu og liggur framkvæmdaáætlun fyrir í þá veru. Samskipti ESB og Evrópuráðsins hafa verið mjög í deiglunni undanfarin missiri og á árinu varð framhald á þeim umræðum, sérstaklega með tilliti til stækkunar ESB, stjórnarskrárdraga sambandsins og svokallaðrar réttindaskrár þess.
    Framan af ári bar átökin í Tsjetsjeníu nokkuð hátt á dagskrá Evrópuráðsþingsins líkt og undangengin ár. Til skamms tíma var Evrópuráðsþingið verið nær eina alþjóðastofnunin sem hafði aðgang að Tsjetsjeníu. Höfðu kraftar ráðsins því verið nýttir til hins ýtrasta til að ná fram friðsamlegri lausn á deilum og átökum Tsjetsjena og Rússlandsstjórnar. Í mars var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í Tsjetsjeníu um drög að stjórnarskrá landsins en framkvæmd kosninganna var afar umdeild. Eftirmál umræðu Evrópuráðsþingsins í aðdraganda kosninganna urðu til þess að sérlegur starfshópur þingsins í málefnum Tsjetsjeníu var leystur upp.
    Af lýðræðis-, réttarfars- og eftirlitsmálum sem jafnan eru til meðferðar á Evrópuráðsþinginu var staða mála í Moldóvu, Georgíu, Aserbaídsjan og Armeníu ofarlega á baugi. Hvatti þingmannasamkundan ráðherraráð Evrópuráðsins til að nýta allar færar leiðir til að leysa úr þeim vanda sem skapast hefði í þessum ríkjum á undanförnum árum.
    Deilur um aðdraganda stríðsins í Írak og stríðsreksturinn sjálfan voru fyrirferðarmiklar á þinginu líkt og hjá flestum alþjóðastofnunum á síðasta ári og hélst sú umræða í hendur við umræður um baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi.
    Hér á eftir fara ítarlegri upplýsingar um starfsemi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins á árinu 2003.

4.    Þingfundur Evrópuráðsþingsins 2003.
a.    Fyrsti hluti þingsins.
    Dagana 27.–31. janúar fór fyrsti hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2003 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, Ólafur Örn Haraldsson, varaformaður, og Kristján L. Möller, í fjarveru Margrétar Frímannsdóttur, auk Andra Lútherssonar ritara.
    Á janúarfundi Evrópuráðsþingsins var m.a. efnt til umræðna um tjáningarfrelsi í evrópskum fjölmiðlum, stöðu mála í Tsjetsjeníu og ástand og horfur í Írak. Þá stóð til að Evrópuráðsþingið tæki stjórnarskrármál í furstadæminu Liechtenstein til umfjöllunar undir liðnum brýn umræða. Nokkur umræða hafði farið fram í stjórnmálanefnd þingsins um tillögur Hans Adams annars, fursta af Liechtenstein, að stjórnarskrárbreytingum sem færa mundu honum aukin völd og boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar. Feneyjanefnd Evrópuráðsins, sem fjallar um stjórnskipuleg efni í aðildarríkjum ráðsins, hafði varað við tillögum furstans og sagt að um afturför væri að ræða sem stofnað gæti aðild ríkisins að Evrópuráðinu í hættu. Að mati nefndarinnar fælu tillögurnar í sér að ef ríkisstjórn Liechtenstein glataði trausti furstans yrði hún að víkja jafnvel þótt hún nyti stuðnings þingsins. Þá mundi furstinn geta vikið einstökum ráðherrum úr embætti með samþykki þingsins. Gagnrýnin beindist enn fremur að því að með samþykkt tillagnanna fengi furstinn neitunarvald gagnvart lagafrumvörpum og að engar stjórnarskrárbreytingar yrðu samþykktar án tilstillis hans. Ef tillögurnar næðu fram að ganga gæti furstinn gefið út neyðarlög sem takmörkuðu einstök ákvæði stjórnarskrárinnar. Þar sem taka átti málefnið fyrir undir liðnum brýn umræða varð þingheimur að greiða atkvæði um hvort málið yrði tekið á dagskrá. Í atkvæðagreiðslu var fellt með naumum meiri hluta atkvæða að fjalla um málið.
    Í upphafsræðu sinni á þinginu vék Peter Schieder, forseti Evrópuráðsþingsins, að málefnum Íraks og þeim klofningi sem virtist vera að myndast í afstöðu vestrænna ríkja til aðgerða gegn Íraksstjórn. Sagði hann að heimsbyggðin stæði á þröskuldi styrjaldar sem gæti haft umtalsverð hnattræn áhrif. Sagði hann að ályktanir Evrópuráðsþingsins um Írak skiptu miklu máli því að á þeirri samkomu væru saman komin hundruð þjóðkjörinna fulltrúa yfir 800 milljóna manna í 44 aðildarríkjum Evrópuráðsins. Innan þingsins væru uppi mismunandi skoðanir og viðhorf og endurspegluðust þau í umræðum. Sagði Schieder að örðugt væri að finna annan vettvang þar sem skoðanir Evrópubúa endurspegluðust svo gjörla. Þá vék hann að orðum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna nokkrum dögum áður og sagði að ekki væri hægt að skipta álfunni upp milli „nýju Evrópu“ og „gömlu Evrópu“. Sagði hann að á síðasta ári hefði þingið ályktað um að forðast bæri vopnuð átök í Írak með öllu hugsanlegu móti og að leita þyrfti allra leiða til að finna friðsamlega lausn mála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Sú afstaða hefði lítið breyst og sagði þingforsetinn að það væru fleiri en aðeins leiðtogar Frakklands og Þýskalands sem væru á þessari skoðun.
    Sem fyrr voru málefni Tsjetsjeníu tekin til umræðu í stjórnmálanefnd þingsins og á þingfundi miðvikudaginn 29. janúar. Fyrir fundinum lá skýrsla Judds lávarðar sem ferðast hafði til Norður-Kákasushéraðsins, ásamt skýrsluhöfundum flóttamannanefndar og laga- og mannréttindanefndar, stuttu fyrir þingfundinn til að meta aðstæður. Í skýrslunni kom fram að afar lítið hefði þokast áfram hvað pólitíska lausn átakanna varðaði og að aðbúnaður Tsjetsjena væri enn bagalegur. Meginefni skýrslunnar var þó fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá Tsjetsjeníu sem boðuð hafði verið 23. mars 2003. Í skýrsludrögum Judds lávarðar kom fram það mat skýrsluhöfundar að það væri fjarri lagi að allar forsendur væru uppfylltar fyrir að unnt væri að efna til lögmætrar þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárdrögin, enn væru allt of margir þættir óljósir. Nefndi hann að áður en efnt yrði til atkvæðagreiðslu um svo mikilvægt mál yrðu að liggja fyrir raunhæf markmið með pólitísku friðarferli. Þá nefndi hann að svo virtist sem mörg stjórnarskrárdrög hefðu verið samin og að enn væri alls óljóst hverjir hefðu haft þá vinnu með höndum. Sagði hann að drög þau sem honum hefðu verið sýnd orkuðu nokkuð tvímælis. Þá sagði hann að sú vinna sem innt hefði verið af hendi við gerð kjörskráa væri afar ófullkomin og í raun enginn vegur að gera slíkar skrár fullbúnar fyrir boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagði hann og að málefnin hefðu lítið sem ekkert verið kynnt fyrir Tsjetsjenum. Þá nefndi hann einnig að áhöld væru um hverjir hefðu kosningarrétt í þjóðaratkvæðagreiðslunni innan Tsjetsjeníu og jafnframt að brottfluttir Tsjetsjenar eða þeir sem flúið hefðu eða héldu sig í leynum væri, eðli málsins samkvæmt, ógerlegt að kjósa. Í ályktunardrögum var lagt til að kosningunum yrði frestað þar til unnt væri að mæta skilyrðum fyrir frjálsri og lögmætri atkvæðagreiðslu. Rússneska landsdeildin mótmælti þessu mati Judds lávarðar harðlega og sagði að mikill vilji væri fyrir því að efna til atkvæðagreiðslunnar í mars 2003, einnig meðal Tjsetsjena sem hefðu almennt fulla vitneskju um eðli málsins. Sagði hann að flóttamönnum yrði gert kleift að snúa til baka til héraðsins til þess eins að kjósa og að samkomulag hefði náðst við grannhéruð um skipulegar kosningaferðir úr flóttamannabúðum. Sagði Dmitrý Rogozín, formaður rússnesku landsdeildarinnar, að fyrirhugað þjóðaratkvæði væri mikilvægt skref fyrir friðarferlið í héraðinu og að það væri ábyrgðarhluti að tefja fyrir afgreiðslu málsins.
    Á fyrsta þingdegi komu málefnanefndir saman og kusu í trúnaðarstöður. Á fundi félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar þingsins var Lára Margrét Ragnarsdóttir einróma endurkjörin formaður í annað sinn.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir tók til máls í fyrirspurnartíma Josephs Borgs, formanns ráðherraráðs Evrópuráðsins, og beindi þeirri spurningu til ráðherrans hvað Evrópuráðið hygðist taka sér fyrir hendur til að hvetja þau aðildarríki sem enn ekki hafa undirritað Evrópusáttmálann um mannréttindi og líftækni og bókunina um bann við klónun manna, til að gera það hið fyrsta. Sagði Lára Margrét að þótt fregnir um að sértrúarsöfnuði hefði tekist að klóna barn væru ekki afar trúverðugar, þá væri mikilvægt að aðildarríki Evrópuráðsins undirrituðu sáttmálann og bókunina. Ráðherrann sagðist hafa ugg í brjósti vegna fregnanna og taldi að tækninni fleygði fram mun hraðar en menn gerðu sér grein fyrir. Sagði hann að Evrópuráðið hefði beitt sér innan Sameinuðu þjóðanna í málefnum tengdum líftækni og sagði afar mikilvægt að Evrópuríki sameinuðu afstöðu sína í þessu máli.
    Lára Margrét tók þátt í umræðum um Tsjetsjeníu og sagðist í ræðu sinni vera á sama máli og skýrsluhöfundur, Judd lávarður, um að ákaflega mikilvægt væri að ná fulltrúum allra hinna ólíku afla sem í Tsjetsjeníu starfa að samningaborði og draga lærdóm af þeim átakasvæðum sem alþjóðasamfélagið hefði þurft að glíma við á síðustu árum og áratugum. Taldi hún að ef unnt yrði að „stofnanabinda“ deilurnar og færa þær þannig inn á hið pólitíska svið mundu róttækustu öflin sjálfkrafa færast á hliðarlínuna. Þá vék hún að fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu í mars og sagðist vera henni algerlega andsnúin. Evrópuráðið yrði að standa fast á því að atkvæðagreiðslunni yrði frestað því að greinilegt væri að grundvallarforsendur væru langt frá því að vera uppfylltar. Sagði hún að meðan að Tsjetsjenar lifðu í ótta, flóttamönnum væri gert ómögulegt að kjósa í frjálsum kosningum og grafið væri undan störfum Evrópuráðsins væri fullljóst að allt of snemmt væri að efna til slíkrar atkvæðagreiðslu. Sagði Lára Margrét að ef Evrópuráðið legði blessun sína yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna í mars, að öllu óbreyttu, mundi orðstír þess bíða varanlegan skaða. Ótækt væri að Evrópuráðið væri verkfæri í höndum eins aðildarríkis þess og lagði hún áherslu á að Rússar yrðu að getað tekið réttmætri gagnrýni.
    Lára Margrét mælti fyrir tveimur skýrslum félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar þingsins, annars vegar fyrir skýrslu Ungverjans Gyula Hegyi um stefnu í félagsmálum og málefnum eldri borgara og hins vegar fyrir skýrslu ungverska þingmannsins Lászlós Surjáns, um félagslega stöðu fatlaðra. Þá var Lára Margrét meðflutningsmaður tveggja breytingartillagna, annars vegar við tilmæli þingsins um tjáningarfrelsi í fjölmiðlum í Evrópu og hins vegar við ályktun þingsins um stöðu mála í Írak.
    Málefni Tsjetsjeníu ollu talsverðu uppnámi í umræðum á þinginu. Mikill fjöldi breytingartillagna við ályktunardrög stjórnmálanefndarinnar hafði verið lagður fram af hálfu rússnesku landsdeildarinnar og annarra og var flestum tillögum hafnað, bæði í meðförum nefndar og á þingfundi. Hins vegar gerðust óafturkræf mistök í afgreiðslu breytingartillagna á þingfundi með þeim afleiðingum að texti um að Evrópuráðsþingið teldi að útilokað væri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslunnar í mars, sökum þess að grundvallarforsendum yrði ekki fullnægt, var felldur úr ályktuninni.
    Þingfundinn ávörpuðu: Abdullah Gül, forsætisráðherra Tyrklands, Bruce George, forseti þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Enrique Jackson Ramirez, forseti öldungadeildar mexíkóska þingsins, Fenech Adami, forsætisráðherra Möltu, Joseph Borg, utanríkisráðherra Möltu, sem fer með formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins, Walter Schwimmer, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Denis MacShane, Evrópumálaráðherra Bretlands, Claudine Boisseau, ráðherra málefna fatlaðra í ríkisstjórn Frakklands, og Thomas Klestil, forseti Austurríkis.

b.    Annar hluti þingsins.
    Dagana 31. mars–4. apríl fór annar hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2003 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, Ólafur Örn Haraldsson, varaformaður, og Margrét Frímannsdóttir, auk Andra Lútherssonar ritara.
    Á aprílfundi Evrópuráðsþingsins, sem var haldinn fyrr en undangengin ár, var m.a. efnt til brýnnar utandagskrárumræðu um ástandið í Írak og afstöðu Evrópuríkja til þeirra. Þá var umræða um skýrslu og ályktunardrög þýska þingmannsins Rudolfs Bindigs (fulltrúa laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins) um ástand mannréttindamála í Tsjetsjeníu. Í skýrslunni var vikið að því að ef finna ætti varanlega pólitíska lausn mála í héraðinu yrði mannréttindabrotum að linna og draga þá til saka sem gerst hefðu sekir um slík brot. Taldi skýrsluhöfundur að meginástæða þess að svo umfangsmikil mannréttindabrot hefðu viðgengist væri sú að rússneskir hermenn og tsjetsjenskir vígamenn hefðu ekki verið látnir bera ábyrgð á gerðum sínum. Lagði skýrsluhöfundur til að menn leituðu leiða til að draga þá sem sekir hefðu gerst til ábyrgðar, m.a. með því að stofna til sérlegs stríðsglæpadómstóls í málefnum Tsjetsjeníu-héraðs. Mættu ályktunardrögin eindreginni andstöðu rússnesku landsdeildarinnar á Evrópuráðsþinginu. Þess má geta að breski þingmaðurinn Judd lávarður, sem sinnt hafði málefnum Tsjetjseníu-héraðs fyrir hönd stjórnmálanefndar þingsins, hafði nokkrum vikum fyrir aprílfundinn sagt af sér stöðu skýrsluhöfundar nefndarinnar vegna deilna sem upp komu á janúarfundi þingsins vegna fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárdrög fyrir Tsjetsjeníu-hérað. Atkvæðagreiðslan fór fram í lok marsmánaðar og fór á þá leið að um 90% þeirra sem greiddu atkvæði voru fylgjandi stjórnarskrárdrögunum. Hvorki Evrópuráðið né Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hafði eftirlit með atkvæðagreiðslunni.
    Þá tók þingið fyrir skýrslu breska þingmannsins Michael Hancocks (fulltrúa flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins) sem fjallaði um sameiginlega stefnu í málefnum flóttamanna og hælisleitenda. Í skýrslu sinni sagði Hancock að brýnt væri að aðildarríki Evrópuráðsins sammæltust um lágmarksskilyrði hvað varðar meðhöndlun farandverkamanna og hælisleitenda. Í sameiginlegri stefnu ríkjanna ætti að koma fram að hælisleitendur mætti eingöngu setja í varðhald undir afar sérstökum kringumstæðum og að þeir ættu rétt á endurgjaldslausri lögfræðiaðstoð og túlkun. Þá var tilgreint að hælisleitendur ættu að eiga kröfu á að fá skorið úr um mál sín innan sex mánaða og jafnframt að þeir ættu rétt til áfrýjunar ef farið yrði fram á að þeim yrði vísað úr landi. Þingið fjallaði einnig um skýrslu Bretans Malcolm Bruce (fulltrúa laga- og mannréttindanefndarinnar) um verndun táknmáls fyrir heyrnarlausa í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Í skýrslunni var táknmálið skilgreint á sama hátt og tungumál minnihlutahópa og þess farið á leit að það nyti sömu lagalegu verndar. Í skýrslunni og ályktunardrögum hennar kom fram að sérstök bókun við Evrópusáttmálann um svæðisbundin tungumál og tungumál minnihlutahópa mundi gefa heyrnarlausum færi á að aðlagast betur samfélagi sínu og veita þeim aukin tækifæri í réttar- og menntakerfi og atvinnulífi aðildarríkja Evrópuráðsins. Þá voru aðildarríkin m.a. hvött til að efla menntun í táknmáli og leggja meira af mörkum til textunar efnis í sjónvarpi.
    Málefni Íraks voru fyrirferðarmikil á aprílfundinum enda aðeins nokkrir dagar liðnir frá því að hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna, Breta og bandamanna þeirra hófust í landinu. Peter Schieder, forseti Evrópuráðsþingsins, vék að stöðu mála í Írak í upphafsávarpi sínu og rifjaði upp að fulltrúar þingsins hefðu, á janúarfundi þess, ályktað um að vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna ættu að fá tíma og ráðrúm til að leita að gereyðingarvopnum í landinu. Minnti hann jafnframt á að þingið hefði ályktað í þá veru að ekki væru nein tengsl milli hryðjuverkahópsins al Qaeda og stjórnvalda í Írak. Í þessu ljósi hefði það verið afstaða Evrópuráðsþingsins að hernaðaraðgerðir gegn ríkjandi valdhöfum í Bagdad væru ekki lögmætar nema ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna lægi fyrir. Sagði Schieder að svo hefði ekki verið í janúar og svo væri ekki heldur nú við upphaf aprílfundar Evrópuráðsþingsins. Sagði hann að Bandaríkjastjórn og jafnframt þónokkur aðildarríki Evrópuráðsins hefðu skellt skollaeyrum við ályktun Evrópuráðsþingsins sem og yfirlýstum vilja alþjóðasamfélagsins. Harmaði hann þessa afstöðu og sagðist jafnframt vilja að hernaðaraðgerðum yrði hætt án tafar og að málefni Íraks yrðu færð undir Sameinuðu þjóðirnar á ný.
    Fimmtudaginn 3. apríl gerðist Serbía og Svartfjallaland, nýstofnað ríkjasamband gamla sambandsríkisins Júgóslavíu, 45. aðildarríki Evrópuráðsins við hátíðlega athöfn þegar fáni ríkisins var dreginn að húni fyrir utan Evrópuráðshöllina í Strassborg. Með aðild Serbíu og Svartfjallalands að ráðinu má segja að afar mikilvægum áfanga í sameiningu Evrópu í eina órofa heild hafi verið náð. Var aðildin einnig mikilvæg pólitísk stuðningsyfirlýsing til stjórnvalda í Belgrad á umbrotatímum en aðeins nokkrum vikum fyrr hafði Zoran Djindjic, forsætisráðherra Serbíu, verið veginn af handbendum skipulegra glæpasamtaka í Belgrad.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir flutti ræðu í umræðum þingsins um stöðu mannréttindamála í Tsjetsjeníu og setti þar ástandið í samhengi við aðrar vár sem uppi væru í alþjóðamálum. Sagðist hún harma framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar en jafnframt að nú yrðu menn að horfa fram á veginn og starfa í þeim pólitíska raunveruleika sem við blasti. Sagði hún að ef marka mætti mat skýrsluhöfundar ættu rússnesk stjórnvöld afar margt eftir ógert í héraðinu til að skapa forsendur fyrir langvarandi friði. Traust væri það sem menn yrðu að byggja á og því væri brýn þörf á að upplýsa um ýmislegt sem miður hefði farið á síðustu mánuðum. Tiltók Lára Margrét sérstaklega að upplýsingar yrði að veita um afdrif hins mikla fjölda manna sem hnepptur hefði verið í gæsluvarðhald af rússneskum hersveitum og afdrif fanga þeirra sem sérlegur starfshópur Evrópuráðsins hefði heimsótt á síðasta ári. Þá innti hún eftir frekari upplýsingum um fjöldagrafir. Sagði Lára Margrét að meðan þessum og öðrum knýjandi spurningum væri ósvarað væri lítil von til þess að nauðsynlegt lágmarkstraust skapaðist.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir var fulltrúi flokkahóps hægrimanna í umræðum um skýrsludrög svissneska þingmannsins Andreas Gross (fulltrúa stjórnmálanefndarinnar) um Evrópu og stríðið í Írak og harmaði í ræðu sinni að eftir tólf ára þrætur við ríkisstjórn Íraks hefði Bandaríkjamönnum, Bretum og bandamönnum þeirra ekki verið fært annað en að beita hernaðaraðgerðum til að koma fram yfirlýstum vilja alþjóðasamfélagsins. Rakti hún stuttlega blóðugan valdaferil Íraksforseta og sagði að áþján sú sem íraskur almenningur hefði þurft að ganga í gegnum á því tímabili væri meiri en orð fengju lýst. Lagði Lára Margrét áherslu á að íröskum stjórnvöldum hefði gengið aðeins eitt til, að viðhalda eigin völdum hvað sem það kostaði. Gilti þá einu hvort ráðist hefði verið á grannríki, vilji alþjóðasamfélagsins virtur að vettugi eða eigin þegnar beittir pólitísku ofbeldi og kúgunum. Þá spurði hún hvernig á því stæði að alþjóðasamfélaginu hefði ekki auðnast að fylkja sér sameiginlega um afstöðuna gagnvart Saddam Hussein og ríkisstjórn hans og taldi hún að sum Evrópuríki bæru þar mikla ábyrgð. Rakti hún aðdraganda ályktunar 1441 í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og eftirmál hennar og spurði hvort Bandaríkjamönnum og Bretum hefði verið gert nokkuð annað kleift en að beita hernaðaraðgerðum í ljósi eindreginnar afstöðu Frakka um að beita neitunarvaldi gegn nokkurri viðbótarályktun í öryggisráðinu. Í því tilliti minnti hún á getuleysi Evrópuríkja til að beita sér í átökunum í Bosníu-Hersegóvínu og Kosovo-héraði á síðasta áratug. Sagði Lára Margrét að við alþjóðasamfélaginu blasti nú það risavaxna verkefni að leysa úr ágreiningsefnum og vonaðist til að Evrópuráðsþinginu auðnaðist að senda frá sér marktæk skilaboð þess efnis.
    Lára Margrét lagði fram tvær breytingartillögur við ályktunardrög stjórnmálanefndarinnar. Í þeirri fyrri var farið fram á að orðalagi um aðdraganda átakanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna væri breytt og vísað til þess mikla fjölda ályktana sem Írakar hefðu hunsað. Var tillagan studd með þeim orðum að óbreytt ályktun gerði lítið úr þeim samningsvilja sem Bretar og Bandaríkjamenn hefðu þó sýnt innan öryggisráðsins og spurði Lára Margrét hvort Þjóðverjar, Frakkar og Rússar legðu annan skilning í orðalagið „alvarlegar afleiðingar“ en önnur ríki. Tillagan var felld. Í síðari breytingartillögu þingmannsins fór hún fram á orðalagsbreytingar í ályktuninni þar sem vikið var að ábyrgð fjölmiðla um að varast miðlun „and-bandarískra og and-evrópskra tilfinninga“. Í rökstuðningi með tillögunni sagði Lára Margrét að í ljósi þess að átökin í Miðausturlöndum hefðu valdið deilum og væringum um heimsbyggðina alla væri orðalag þetta of bundið Bandaríkjunum og Evrópu og lagði til að því yrði breytt í „and-þjóðernislegra tilfinninga og trúarlegrar óbilgirni“. Alls voru sjö breytingartillögur lagðar fram gegn téðu orðalagi ályktunarinnar. Skýrsluhöfundur sagðist vera sammála Láru Margréti um að orðalag ályktunarinnar væri of þröngt en lagði til að þingheimur samþykkti aðra tillögu, svipaðs efnis, og varð það niðurstaðan.
    Ályktunardrög stjórnmálanefndarinnar voru afar umdeild og voru alls rúmlega 50 breytingartillögur lagðar fram. Athygli vakti hve fáir tóku þátt í atkvæðagreiðslum.
    Þingfundinn ávörpuðu: Dragoljub Micunovic, forseti þings Serbíu og Svartfjallalands, Joseph Borg, utanríkisráðherra Möltu sem fer með formennsku ráðherraráðs Evrópuráðsins, og Simeon Saxe-Coburg Gotha, forsætisráðherra Búlgaríu.

c.     Þriðji hluti þingsins.
    Dagana 23.–27. júní fór þriðji hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2003 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, og Össur Skarphéðinsson, í fjarveru Margrétar Frímannsdóttur, auk Andra Lútherssonar ritara.
    Á júnífundi Evrópuráðsþingsins var m.a. efnt til brýnnar utandagskrárumræðu um Evrópuráðið og Framtíðarráðstefnu Evrópusambandsins (ESB). Málefni ESB og Framtíðarráðstefnu sambandsins hafa verið nokkuð til umræðu á Evrópuráðsþinginu undangengin missiri og hafa þingmenn þar haft af því nokkrar áhyggjur að ESB hygðist hrinda í framkvæmd svonefndri réttindaskrá ESB, sem í grunninn er afar áþekk mannréttindasáttmála Evrópu, án þess þó að ESB gerist formlegur aukaaðili að Evrópuráðinu eins og margsinnis hefur verið boðið á undanförnum árum. Hafa áform ESB um sjálfstæða réttindaskrá vakið hjá fulltrúum Evrópuráðsþingsins nokkurn ugg um framtíð Evrópuráðsins sjálfs, þ.e. að með áformum ESB væri verið að kippa fótum undan starfsemi Evrópuráðsins án þess að stofnunin sem slík hefði mikið um það að segja. Nokkrir fastafulltrúa Framtíðarráðstefnunnar eiga jafnframt sæti á Evrópuráðsþinginu og hafa þeir reynt að beita áhrifum sínum í þá veru að ESB undirritaði mannréttindasáttmálann. Í skýrslu Evrópuráðsþingsins var árangri ESB og starfi Framtíðarráðstefnunnar fagnað og það sögð mikil tímamót í Evrópusamstarfi að ESB fengi sína eigin stjórnarskrá. Fagnaði þingið jafnframt því að ESB er gert lagalega kleift að gerast aðili að mannréttindasáttmála Evrópu í stjórnarskrárdrögunum sem og að þar er mælst til frekara samstarfs. Gera tilmæli þingsins ráð fyrir að ráðherraráð Evrópuráðsins styðji ESB heilshugar í því að sambandið gerist fullur aðili að mannréttindasáttmálanum eins og fram kæmi í stjórnarskrárdrögunum sem fjallað yrði um á næstu ríkjaráðstefnu haustið 2003. Þó harmar þingið að ekki skuli vera minnst á Evrópuráðið í stjórnarskrárdrögunum þar sem rætt er um „nánasta umhverfi Evrópusambandsins“ og minnir á að Evrópuráðið er órofa heild 45 Evrópuríkja sem tengjast innbyrðis í starfi sem grundvallast á yfir 190 milliríkjasáttmálum, heildstæðu evrópsku samfélagi þar sem ríkjum er ekki skipt í flokka. Er farið fram á að vegur Evrópuráðsins verði aukinn í stjórnarskrárdrögunum með því að vísa í: sáttmála þá sem Evrópuráðið stendur vörð um, árangurinn af starfi Evrópuráðsins í því að koma í veg fyrir hættuástand innan álfunnar á undangengnum áratugum og styrkja forsendur friðar, og farsælt eftirlit Evrópuráðsins með skuldbindingum aðildarríkja á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins. Miklar umræður urðu um skýrslu stjórnmálanefndar þingsins (skýrsluhöfundur: Theodores Pangalos frá Grikklandi) þótt flestir fögnuðu þeim merka árangri Framtíðarráðstefnunnar að hafa náð að semja drög að stjórnarskrá sambandsins á aðeins 16 mánaða tímabili og fá þau samþykkt á leiðtogafundi ESB í Grikklandi fyrr í mánuðinum. Misjafnar skoðanir voru hins vegar á því hvort stjórnarskrárdrögin gengju of langt eða skammt og virtust margir þeirra sem tóku til máls vonast til þess að drögin tækju nokkrum breytingum í meðförum ríkisstjórna á ríkjaráðstefnunni sem boðað hafði verið til um haustið. Walter Schwimmer, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, tók þátt í umræðunum og sagði frá bréfaskiptum sínum og framkvæmdastjórnar ESB og formanns Framtíðarráðstefnunnar um tengsl Evrópuráðsins og ESB í stjórnarskránni. Hvatti Schwimmer þingmenn þeirra Evrópuráðsríkja sem jafnframt væru aðilar að ESB að beita áhrifum sínum svo að ályktanir Evrópuráðsþingsins næðu fram að ganga. Í máli afar margra komu fram varnaðarorð í þá veru að forðast bæri að ESB teygði sig um of inn á þá braut sem Evrópuráðið hefði varðað á sviði mannréttinda, lýðræðis og réttarríkis og að forðast bæri átök stofnananna í millum. Í upphafsávarpi Peters Schieders, forseta Evrópuráðsþingsins, var drepið á stjórnarskrárdrögin og sagði hann að að öllu lagatæknimáli slepptu snerust markmið Evrópuráðsins um að ESB gerðist aukaaðili að Evrópuráðinu. Sagðist hann fagna að Framtíðarráðstefnan hvetti ESB til þess að gerast aðili að mannréttindasáttmála Evrópu sem mundi leiða til þess að Evrópubúar, hvar sem þeir búa, nytu sömu verndar hvað mannréttindi varðar. Schieder sagðist hins vegar vilja að stofnanatengsl ESB og Evrópuráðsins yrðu aukin enn frekar og að sambandið gerðist aukaaðili að Evrópuráðinu og þar með aðili að öllum sáttmálum þeim sem það stendur vörð um.
    Miðvikudaginn 25. júní var efnt til umræðu um skýrslu jafnréttisnefndar þingsins um mansal og vændi. Skýrsluhöfundur var Ans Zwerver frá Hollandi. Umræðan vakti nokkra athygli enda hafa vandamál tengd mansali verið ofarlega á baugi í Evrópu síðastliðna mánuði og missiri. Í skýrslunni var rætt um að Evrópuráðið væri kjörinn vettvangur til að taka á þessum vanda þar sem öll aðildarríkin frá Kákasus-héraðinu til Vestur-Evrópu tengdust mansali með einum eða öðrum hætti. Hefur vandinn aukist gríðarlega að umfangi síðustu ár og er nú svo komið að innan álfunnar er mansal og vændi þriðja umfangsmesta skipulega glæpastarfsemin á eftir eiturlyfjasmygli og ólöglegri sölu vopna. Alls er talið að um 120.000 konur og börn séu flutt frá austanverðri Evrópu til Vestur-Evrópu árlega fyrir tilstuðlan glæpasamtaka og að flestir þessara einstaklinga séu neyddir til að stunda vændi. Í tilmælum skýrslunnar er m.a. hvatt til þess að hvert og eitt aðildarríki Evrópuráðsins útnefni sérlegan eftirlitsmann með mansali og að efnt verði til almennrar vitundarvakningar um vandann.
    Þá var tekin til umræðu skýrsla laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um réttindi fanga sem bandarísk stjórnvöld hafa haft í haldi við Guantanamo-flóa eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Skýrsluhöfundur var Kevin McNamara frá Bretlandi. Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt nýjum tölum heldur Bandaríkjastjórn 680 einstaklingum föngnum í herstöð sinni við Guantanamo-flóa og eru þeir frá 43 þjóðríkjum. Segir þar enn fremur að í dag, 18 mánuðum eftir að fangelsið var sett á laggirnar, væru lítil merki um að dregið verði úr starfseminni að sinni. Örfáir fangar hefðu verið sendir til baka til heimalands síns og er skýrsluhöfundur jafnframt gagnrýninn á aðbúnað fanganna sem hann segir vera undir lágmarksskilyrðum Sameinuðu þjóðanna. Megingagnrýni skýrsluhöfundar fólst þó í því að Bandaríkjastjórn bryti ákvæði Genfarsáttmálanna með starfrækslu fangelsins og að afar óljóst sé á hvaða forsendum einstaklingunum er haldið föngnum þar sem skilgreining Bandaríkjastjórnar á „ólöglegum stríðsmönnum“ (e. unlawful combatants) samræmist í engu skilgreiningum í alþjóðalögum. Hvatti skýrsluhöfundur til þess að Evrópuráðið beitti sér fyrir úrlausn mála í Guantanamo-flóa og sagði að á sama tíma og alþjóðasamfélagið fordæmdi hryðjuverkin í Bandaríkjunum og þau sem síðar hefðu orðið, þá bæri ríkisstjórnum skylda til að gæta þess að grundvallarmannréttindum sé ekki varpað fyrir róða. Peter Schieder, forseti Evrópuráðsþingsins, vék sérstaklega að þessu máli í upphafsávarpi sínu og sagði að hundruðum manna væri haldið í Guantanamo-herstöðinni án þess að hafa verið ákærðir fyrir stríðsglæpi eða verið auðkenndir sem stríðsfangar. Sagði hann að alþjóðasamfélagið mætti ekki þegja þunnu hljóði vegna ástands þessa og að mannleg reisn og grundvallarmannréttindi ættu ávallt að liggja til grundvallar, jafnvel þegar barist væri gegn jafnskæðri vá og hryðjuverkum. Vonaðist hann til að unnt yrði að ræða þessi málefni við Bandaríkjastjórn fordómalaust.
    Meðal annarra mála sem hátt bar í störfum Evrópuráðsþingsins á júnífundinum og vöktu nokkra athygli og umtal var staða palestínskra flóttamanna (skýrsluhöfundur var Olav Akselsen frá Noregi), umræðan um landbúnaðarmál og stækkun Evrópusambandsins (skýrsluhöfundur var Marcin Libicki frá Póllandi), og málefni Kýpur (skýrsluhöfundar voru Svisslendingurinn Dick Marty og Finninn Jaako Laakkso). Þess má geta sérstaklega að Franz Fischler, sem fer með landbúnaðarmál í framkvæmdastjórn ESB, tók þátt í umræðum um landbúnaðarmál og stækkun ESB. Þar ræddi hann m.a. um sameiginlega landbúnaðarstefnu ESB (CAP) og tók undir orð skýrsluhöfunda um brýna nauðsyn þess að endurbæta og einfalda þá stefnu. Tveimur dögum eftir umræðurnar á Evrópuráðsþinginu bárust fregnir af því að ESB hefði náð tímamótasamkomulagi um endurbætur á hinni mjög svo umdeildu sameiginlegu landbúnaðarstefnu eftir maraþonfund í Brussel.
    Íslandsdeildin tók að venju virkan þátt í þingstörfunum og sótti nefndarfundi í viðkomandi nefndum. Þá tók Össur Skarphéðinsson þátt í umræðum um skýrslu jafnréttisnefndarinnar um vændi og mansal og var útnefndur talsmaður flokkahóps jafnaðarmanna í umræðunum. Í ræðu sinni sagði Össur að mansal og vændi væri sá vandi sem vaxið hefði hvað hraðast í álfunni á undanförnum árum og að með glæpum þeim sem tengdust slíkri starfsemi væri vegið að einstaklingsbundnum rétti manna með slíkum hætti að hrikalegt væri. Sagði hann að sem talsmaður flokkahóps síns neitaði hann að trúa því að ekkert væri unnt að gera til að stemma stigu við þessum vágesti og að vændi væri óhjákvæmilegur fylgifiskur 21. aldar. Taldi hann að Evrópuráðið yrði að taka fast á þessum vanda og sagði að skortur á sameiginlegri stefnu væri sannarlega í hróplegu ósamræmi við það hvernig Evrópubúar stæðu vörð um mannréttindi almennt. Minnti þingmaðurinn fulltrúa Evrópuráðsþingsins á að afleiðingar mansals og vændis væru áþreifanlegar í félagslegum skilningi – ungar konur og börn hefðu verið rænd æsku sinni, framtíð og mannlegri reisn og sagði hann að ástæður þessa vanda væru augljósar. Glæpahringir þrifust á fátækt, örvinglan, þekkingarskorti, stríðsátökum og félagslegu róti. Þetta væru jafnframt þeir þættir sem ráðast yrði gegn. Að endingu vék Össur sérstaklega að tveimur þáttum. Annars vegar sagði hann það afar mikilvægt að ræða opinskátt eftirspurnarhlið vændis og benti sérstaklega á framtak Svía en í Svíþjóð hafa kaup á vændi verið gerð ólögleg. Á hinn bóginn benti hann á einn svartasta blett í starfi alþjóðasamfélagsins sem væri sá að í kringum friðargæsluverkefni og alþjóðastarf á óróasvæðum í álfunni hefði sprottið upp markaður sem þrifist á vændi og mansali. Þetta yrði að uppræta án tafar. Að lokum sagði Össur að aðildarríkjum Evrópuráðsins bæri að fylgja fordæmi ályktunar og tilmæla Evrópuráðsþingsins.
    Þingfundinn ávörpuðu: Dr. Franz Fischler, sem fer með landbúnaðar- og sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Rudolf Schuster, forseti Slóvakíu, Walter Schwimmer, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, og Nicolae Dudau, utanríkisráðherra Moldóvu sem fer með formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins fyrri hluta árs 2003.

d.    Fjórði hluti þingsins.
    Dagana 25. september–2. október fór fjórði hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2003 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir, formaður, Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, og Margrét Frímannsdóttir, auk Andra Lútherssonar ritara.
    Septemberfundur Evrópuráðsþingsins var með nokkuð öðru sniði en hingað til hefur tíðkast og var fundavikan mun lengri en áður. Ástæða þessa var að fimmtudaginn 26. september var efnt til sameiginlegs fundar með Evrópuþinginu í Strassborg og fór fundurinn fram í Evrópuráðshöllinni. Föstudaginn 27. september voru nefndafundir og laugardaginn 28. september fóru fram fundir flokkahópa og ýmiss konar ráðstefnur á þeirra vegum. Mánudagsmorguninn 29. september hófust síðan venjubundnir fundir Evrópuráðsþingsins og stóðu þeir þar til síðdegis fimmtudaginn 2. október. Fyrirkomulag þetta hefur aldrei verið reynt fyrr og má með sanni segja að það mæltist afar illa fyrir meðal þingmanna og embættismanna sem fundina sóttu. Um óþarflega langan tíma var að ræða og ekki bætti úr skák að hinn sameiginlegi fundur með Evrópuþinginu var afar illa sóttur af hálfu Evrópuþingmanna. Komu flokkahópar og ritarar landsdeilda gagnrýni sinni á framfæri og var það von ýmissa, m.a. Íslandsdeildar, að ekki yrði efnt til slíkra sameiginlegra funda í bráð, ef það þýddi lengri vist í Strassborg á kostnað annarra starfa í þjóðþingunum sjálfum.
    Fyrirkomulag hins sameiginlega fundar Evrópuráðsþingsins og Evrópuþingsins var þannig að forsetar þinganna, Peter Schieder, forseti Evrópuráðsþingsins, og Pat Cox, forseti Evrópuþingsins, héldu ávörp og því næst tóku talsmenn flokkahópa til máls í tveimur aðskildum umræðum. Annars vegar var umræða um Framtíðarráðstefnu Evrópusambandsins, stjórnarskrárdrög hennar og framtíðarsamstarf Evrópusambandsins og Evrópuráðsins. Hins vegar var rætt um frelsi í flutningum milli landa, fólksflutninga og landamæravörslu. Ekki gafst tóm til frekari umræðna en þeirra sem talsmenn flokkahópanna lögðu til. Á fundinum var samþykkt sameiginleg yfirlýsing forseta þinganna sem tók til málefnanna tveggja sem rætt var um. Í yfirlýsingunni var kveðið á um að Evrópuráðið og ESB yrðu að koma í veg fyrir hvers kyns tvíverknað og að auka bæri samstarf stofnananna með víðtækum hætti. Var störfum Framtíðarráðstefnunnar fagnað og tilgreint að stjórnarskrárdrögunum bæri að vera forsenda næstu ríkjaráðstefnu ESB. Þá var hnykkt á stuðningi við aðild ESB að mannréttindasáttmála Evrópu og mælst til þess að efnt verði til aukinnar samvinnu milli þingmanna sem sitji á alþjóðlegum þingmannasamkundum og þjóðkjörinna þingmanna. Þá var hvatt til aukins samstarfs milli Evrópusambandsins og Evrópuríkjanna í austurvegi, sérstaklega hvað varðar viðskipti og efnahagsstjórn, varnir og öryggismál og löggæslumál. Í yfirlýsingunni var einnig vikið að málefnum er lúta að frelsi í flutningum manna milli landa og kveðið á um þörfina á því að viðhalda skilvirkri, sameiginlegri stefnu í málefnum flóttamanna og innflytjenda og nauðsyn þess að efla og viðhalda því samstarfi sem náðst hefði við ríki sem stæðu utan ESB. Þá var einnig hvatt til áframhaldandi vinnu við frumkvæði Evrópuráðsins um fullnustu Evrópusáttmála um mansal og aðildarríkin hvött til stuðnings við slíkan sáttmála. Sólveig Pétursdóttir, formaður Íslandsdeildar, sagði í framlagi sínu til umræðunnar um frelsi í flutningum milli landa, fólksflutninga og landamæravörslu að ýmsar vár stæðu fyrir dyrum alþjóðasamfélagsins um þessar mundir og þá sérstaklega Vesturlanda. Alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi, mansal, eiturlyfjasmygl, vinnuþrælkun og barnaþrælkun væru dæmi um þann vanda sem væri aðsteðjandi og benti Sólveig á að á sama tíma og hindrunum á ferðum manna milli landa og heimsálfa fækkaði ört þá spryttu upp glæpasamtök sem leituðust við að hagnýta færar leiðir til starfsemi sinnar. Sagði hún að eina leiðin til að stemma stigu við slíkri starfsemi væri með skilvirkri milliríkjasamvinnu. Með tilliti til þessa ræddi Sólveig um Schengen-samstarfið og jákvæða reynslu Íslands af því. Schengen-samkomulagið væri ekki aðeins tæki til að fækka hindrunum heldur einnig afar áhrifarík leið til að sporna við ólöglegum flutningi fólks og skipulegri glæpastarfsemi.
    Af málefnum þeim sem rædd voru á fundi Evrópuráðsþingsins kenndi ýmissa grasa líkt og fyrr. Hæst bar utandagskrárumræður um hlutverk Sameinuðu þjóðanna í Írak og umræður um sameiginlega stefnu í málefnum innflytjenda og hælisleitenda. Þá var enn fremur rætt um skuldbindingar Úkraínu á vettvangi Evrópuráðsins og ógnir þær sem steðja að lýðræðinu frá öfgahópum og öfgaflokkum í Evrópu. Ræða átti umdeilda skýrslu félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndarinnar um líknardráp sem rituð var af svissneska þingmanninum Dick Marty, en komið var í veg fyrir að skýrslan og ályktunardrögin yrðu tekin fyrir á þingfundi og var málinu vísað aftur til nefndar. Í skýrsludrögunum, sem vakið hafa mikla athygli á alþjóðavettvangi, var hvatt til þess að málefni sem tengdust líknardrápi væru rædd opinskátt og að aðildarríki Evrópuráðsins hugleiddu breytingar á löggjöf með það að markmiði að ekki yrði lengur unnt að sækja lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn til saka fyrir að aðstoða dauðvona sjúklinga við að svipta sig lífi (með vísan til tiltekinna skilyrða þess efnis). Þess má geta að í áliti laga- og mannréttindanefndarinnar kom hins vegar fram að ef að ákvæði ályktunarinnar kæmust til framkvæmda væri vegið að reisn og rétti sjúklinga. Er það afar sjaldgæft að málum sé vísað aftur til nefndar og líklega til marks um hve djúpt þetta mál ristir í vitund fulltrúa Evrópuráðsþingsins, óháð þjóðerni, flokkum eða flokkahópum.
    Tekin var fyrir á fundinum ályktun stjórnmálanefndarinnar um hlutverk Sameinuðu þjóðanna í Írak og urðu nokkrar umræður um málið. Í ályktuninni komu fram áhyggjur fulltrúa Evrópuráðsþingsins af stöðu mála í landinu og hve illa gengi að koma á almennu öryggi. Harmaði þingið þann mikla ágreining sem fram hefði komið innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og áhrif þessa á framtíðarskipan mála í Írak. Sagði og í ályktuninni að pólitískt stöðugt og efnahagslega farsælt Írak væri lykill að friði í Miðausturlöndum og voru fastaríki öryggisráðsins hvött til þess að yfirstíga þann ágreining sem hefði skapast. Þá hvatti þingið aðildarríki Evrópuráðsins til að leggja sitt af mörkum til að koma völdum sem fyrst aftur í hendur Íraka og að hraða undirbúningi almennra kosninga í landinu. Þá var á fundinum tekin fyrir skýrsla danska þingmannsins Hanne Severinsen, fyrir hönd eftirlitsnefndarinnar, um skuldbindingar Úkraínu á vettvangi Evrópuráðsins. Í skýrslunni kom fram að þrátt fyrir að Úkraína hefði sýnt nokkurn árangur hvað skuldbindingar sínar varðaði þá væri enn nokkuð langt í land með að forsendum réttarríkisins væri fullnægt. Var þetta í sjöunda sinn sem eftirlitsnefndin skilar skýrslu um Úkraínu og í máli Severinsens kom fram að áhersla að þessu sinni væri lögð á löggjöf í landinu með það fyrir augum að auka tiltrú almennings á réttarkerfinu og efla sjálfstæði dómara. Þá vék hún að tilfinnanlegum skorti á úrbótum hvað varðar refsivist og framkvæmd kosninga auk þess sem hún ræddi um æ ríkari tilhneigingu forseta landsins til að stjórna fjölmiðlum. Í ályktuninni var farið fram á að nánu eftirliti Evrópuráðsþingsins í Úkraínu yrði fram haldið um ókomna framtíð.
    Íslandsdeildin tók að venju virkan þátt í þingstörfunum og sótti nefndarfundi í viðkomandi nefndum. Sólveig Pétursdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og talsmaður flokkahóps evrópskra hægrimanna (EDG) í umræðum um sameiginlega stefnu í málefnum innflytjenda og hælisleitenda, lagði á það áherslu í ræðu sinni að menn mættu ekki missa sjónar á því að á sama tíma og landamæri opnuðust og hagsæld af því hlytist þá væru ávallt til staðar aðilar sem leituðust eftir því að hagnast á ólöglegum flutningi fólks. Sagði Sólveig að mansal og flutningur fólks milli landa með blekkingum eða þvingunum væri mikill blettur á alþjóðasamfélaginu og að það væri skylda stjórnvalda aðildarríkja Evrópuráðsins að tryggja öryggi landanna gagnvart slíkum glæpum. Hvað þetta varðaði væri alþjóðleg samvinna í landamæravörslu, löggæslu og fræðslu og þjálfun opinberra starfsmanna afar mikilvæg og í raun grunnurinn að þeim skilvirku og sanngjörnu úrræðum sem stjórnvöld sæktust eftir. Sagði hún að heildstæð löggjöf í þessa veru væri bæði í almannaþágu sem og í þágu innflytjenda og hælisleitenda. Væri afar mikilvægt að hinir síðarnefndu gætu gengið að skýrum upplýsingum um feril sinna mála og að forsendur ferlisins væru ávallt hinar sömu. Nefndi Sólveig máli sínu til stuðnings jákvæða reynslu Íslendinga af Schengen-samstarfinu sem hefði fært samstarfsríkjunum afar skilvirkar leiðir til að tryggja frjálsa flutninga fólks milli landa og á sama tíma styrkt alþjóðlega samvinnu og úrbætur innan samstarfsríkjanna. Ræddi Sólveig enn fremur um útlendingalögin frá 2002 og jákvæða reynslu Íslendinga af þeim og samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í baráttunni gegn mansali og ítrekaði loks mikilvægi slíks samstarfs.
    Þingfundinn ávörpuðu: Adrian Nastase, forsætisráðherra Rúmeníu, Vladimír Voronín, forseti Moldóvu, sem fer með formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins síðari hluta ársins 2003, Nicolae Dudau, utanríkisráðherra Moldóvu, sem fer með formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins síðari hluta ársins 2003, Donald Johnston, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD), og Peter Medgyessi, forsætisráðherra Ungverjalands.

5.     Stjórnarnefnd.
Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Napólí.
    Hinn 8. september sl. fór fram venjubundinn haustfundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins. Var fundurinn að þessu sinni haldinn í Napólí. Sólveig Pétursdóttir, formaður Íslandsdeildar, og Andri Lúthersson ritari sóttu fundinn af hálfu Íslandsdeildar og var þetta í fyrsta sinn sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins hefur ritara deildarinnar með sér til fulltingis en ráð var fyrir því gert í fjárhagsáætlun Íslandsdeildarinnar fyrir árið 2003. Gert er ráð fyrir að þetta fyrirkomulag verði til frambúðar til jafns við aðrar Íslandsdeildir Alþingis.
    Á fundinum héldu ýmsir tignargestir ávörp auk forseta Evrópuráðsþingsins, Peters Schieder, sem stjórnaði fundum. Í máli Domenicos Fisichella, varaforseta öldungadeildar ítalska þingsins, kom fram að Evrópuráðið hefði í yfir 50 ár staðið í fararbroddi við vernd mannréttinda og gæti stofnunin því með réttu gert tilkall til þess að vera höfuðvígi vörslu mannréttinda í Evrópu. Sagði hann að eftir kalda stríðið hefði komið glögglega fram að þótt járnmúrinn væri horfinn væru enn til staðar háir múrar hvað varðaði efnahags- og samfélagsþróun og virðingu fyrir mannréttindum svo að fátt eitt væri nefnt. Af þeim sökum væri afar mikilvægt í því öra samrunaferli álfunnar sem nú færi fram að menn vöruðust að draga markalínur milli þeirra þjóða sem væru „innan“ viðkomandi stofnana eða stæðu „utan“ þeirra. Sagði varaforsetinn að samrunaferlið væri afar mikilvægt og metnaðarfullt og að Ítalía styddi það heils hugar en hinu mætti ekki gleyma að fyrir utan ESB, hvort sem litið væri skammt eða langt í austurveg, stæði hin stóra Evrópa sem á rætur í hinni samevrópsku samfélagsskipan. Hvað þetta varðaði væri Evrópuráðið sú stofnun sem hefði náð einna mestum árangri í sambandi við útbreiðslu gilda á sviði mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins. Fisichella sagði að stefna Evrópuráðsins á árunum eftir fall Sovétríkjanna hefði verið afar farsæl í málefnum ríkja Mið- og Austur-Evrópu og þess verið gætt í hvívetna að varpa grundvallarmarkmiðum ráðsins ekki fyrir róða án þess þó að þröngva einni tiltekinni leið upp á þjóðir. Slíkur sveigjanleiki væri ákaflega verðmætur. Að lokum sagði varaforsetinn að hann teldi að Evrópuráðið, og þá sérstaklega þingið, ætti að forðast það að einbeita sér eingöngu að mannréttindamálum og einnig að hafa bæri í huga að bæta sýnileika Evrópuráðsins sem hefði lotið nokkuð í lægra haldi fyrir sýnileika og umsvifum ESB.
    Í máli Pier Ferdinando Casinis, forseta neðri deildar ítalska þingsins, kom fram að álfan færi um þessar mundir í gegnum tvö umfangsmikil breytingaferli. Annars vegar væri um hreint stjórnarskrárferli að ræða þar sem markmiðin væru sameiginlegt „heimili“ í eiginlegri merkingu þess orðs, með sameiginlegum réttindum og skyldum og sameiginlegum borgararétti. Á hinn bóginn færi nú fram umfangsmikið stækkunarferli sem hefði í för með sér mikinn kostnað og nýjar þarfir, þ.m.t. endurskoðun á mörgum þeim reglum sem hafa stýrt því hvert Evrópa stefndi. Hvað Evrópuráðið og Evrópusambandið varðaði sagði Casini brýnt að líta svo á að stofnanir hefðu hvor um sig hag af reynslu hinnar, í stað þess stofnanalega ágreinings og „landvinningastefnu“ sem einkennt hefði sambúðina á tíðum. Sagðist Casini vonast til þess að ESB gerðist aðili að sáttmálum Evrópuráðsins og tiltók menningarsáttmála Evrópu og félagsmálasáttmála Evrópu sérstaklega. Þetta mundi efla Evrópu sem eina lagalega órofa heild. Þannig gætu Evrópuríki tekist sameiginlega á við brýn málefni.
    Mario Baccini, aðstoðarutanríkisráðherra Ítalíu, hélt erindi á fundinum og sagði hann að Evrópuráðsþingið hefði með störfum sínum reynst íbúum álfunnar mikilvægur bakhjarl og aukið traust stofnunarinnar meðal almennra borgara. Þá ræddi Baccini um helstu stefnumið Ítalíu sem gegndi formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins á síðari hluta ársins 2003. Nefndi hann fimm stefnumið sem hæst bæru: að tryggja fulla þátttöku allra ESB-ríkjanna og þeirra ríkja sem vænta aðildar; að efna til ríkjaráðstefnu til að ljúka ferli því sem Framtíðarráðstefna ESB hefði hafið og lyki með formlegri stjórnarskrá ESB sem færa mundi borgara Evrópuríkja nær framkvæmdarvaldi ESB; að efla samkeppnishæfni hagkerfa Evrópuríkja og styrkja innviði þeirra, einkum með tilliti til samgangna; að efla getu ESB á alþjóðavettvangi til að framfylgja friði, réttlæti og stöðugleika; að efla frelsi og öryggi borgara álfunnar, sérstaklega með því að herða enn frekar baráttuna gegn skipulegri hryðjuverkastarfsemi og mansali.
    Eftir venjubundna liði stjórnarnefndarfundarins var gengið til dagskrár og skýrslur og ályktanadrög málefnanefndanna kynnt. Fyrst var tekin fyrir skýrsla Hollendingsins Eriks Jurgens, fyrir hönd laga- og mannréttindanefndarinnar, um embætti forseta lávarðadeildar breska þingsins (e. Lord Chancellor). Í skýrslunni var farið fram á að Bretar tækju á þeim stjórnskipunarlega vanda er skapaðist við það að sami einstaklingur skipaði embætti forseta lávarðadeildar, forseta hæstaréttar og dómsmálaráðherra. Sem kunnugt er hafði breska stjórnin ákveðið nokkrum mánuðum fyrir fundinn að breyta embættinu og þakkaði Jurgens því Bretum fyrir skjót viðbrögð. Þá kynnti Svisslendingurinn Lili Nabholz-Haidegger skýrslu sína um stofnun umboðsmanns, fyrir hönd sömu nefndar. Nokkrir fundarmenn ræddu um skýrsluna og sögðu frá tilhögun umboðsmanns í sínum heimalöndum. Undir liðnum efnahags- og þróunarmál var rætt um tvær skýrslur. Skýrsla Svisslendingsins Claude Frey fjallaði um Norður/Suður-stofnun Evrópuráðsins og framlag hennar til þróunarsamstarfs á 21. öld. Í ávarpi sínu sagði Frey að það væri miður að aðeins 20 af 45 aðildarríkjum Evrópuráðsins sæju sér fært að styðja stofnunina og sagðist vona að breyting yrði á í nánustu framtíð. Stofnun þessi væri einkar mikilvæg við að tengja Evrópuráðið við lýðræðisþróun í norðanverðri Afríku og á þeim óvissutímum sem nú ríktu væri þetta verkefni brýnna en ella. Þá kynnti Ítalinn Giovanni Crema skýrslu sína um úrbætur í skipulagi hins opinbera í Evrópu og sagði í ræðu sinni að mikið hefði áunnist í slíkum úrbótum í ríkjum Mið- og Austur- Evrópu að undanförnu, fyrir tilstuðlan Evrópuráðsins. Tvær skýrslur flóttamannanefndarinnar voru teknar til umfjöllunar á stjórnarnefndarfundinum. Fyrri skýrslan fjallaði um farandverkamenn sem starfa við landbúnaðarframleiðslu Suður-Evrópuríkja og sagði skýrsluhöfundurinn, ítalski þingmaðurinn Tana de Zulueta, í ræðu sinni að mikil brögð hefðu verið að því í Miðjarðarhafsríkjum að störf farandverkamanna tengdust æ meira skipulegri glæpastarfsemi. Taldi hún ríka þörf á aukinni samvinnu milli þeirra ríkja sem væru háð vinnuframlagi árstíðabundinna farandverkamanna og taldi mikilvægt að aðildarríki Evrópuráðsins fullgiltu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi og vernd farandverkamanna og fjölskyldna þeirra. Þá var fjallað um skýrslu ítalska þingmannsins Pasquale Nessa um réttindi eldri farandverkamanna sem tekið hafa upp búsetu í ríkjum Evrópuráðsins. Taldi þingmaðurinn brýna þörf á því að samhæfa stefnu Evrópuráðsríkja í málefnum þessa hóps manna, sérstaklega með tilliti til eftirlaunagreiðslna og sjúkratrygginga. Á vegum menningar-, mennta og vísindanefndar Evrópuráðsþingsins voru tvær skýrslur til umfjöllunar. Annars vegar skýrsla spænska þingmannsins Joseph Varela i Serra um framlag Evrópuráðsins til æðri menntunar, og hins vegar skýrsla breska þingmannsins Edward O'Hara um kynningu á listasögu Evrópu. Að lokum var tekin fyrir skýrsla þingskapanefndarinnar um breytingar á nafni nefndar um fólksflutninga, flóttamenn og lýðfræði (flóttamannanefndarinnar) í nefnd um fólksflutninga, flóttamenn og fólksfjölda. Sólveig Pétursdóttir, formaður Íslandsdeildar, flutti framsögu um efni skýrslunnar í fjarveru skýrsluhöfundar og tilgreindi hinar tæknilegu og fræðilegu ástæður þess að hið nýja nafn nefndarinnar endurspeglaði betur störf nefndarinnar og viðfangsefni.
    Fundinn ávörpuðu: Rosa Russo Jervolino, borgarstjóri Napólí, Antonio Bassolino, héraðsstjóri Kampaníu-héraðs, Domenico Fisichella, varaforseti öldungadeildar ítalska þingsins, Pier Ferdinando Casini, forseti neðri deildar ítalska þingsins, og Roberto Antonione, aðstoðarutanríkisráðherra Ítalíu.

6.    Nefndastörf.
a.    Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd: Sólveig Pétursdóttir.
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson.
Stjórnarnefnd: Sólveig Pétursdóttir.
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson.
Stjórnmálanefnd: Sólveig Pétursdóttir.
    Til vara: Árni R. Árnason.
Laga- og mannréttindanefnd: Sólveig Pétursdóttir.
    Til vara: Árni R. Árnason.
Jafnréttisnefnd: Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Össur Skarphéðinsson.
Efnahagsnefnd: Kristinn H. Gunnarsson.
    Til vara: Birkir J. Jónsson.
Umhverfis- og landbúnaðarnefnd: Kristinn H. Gunnarsson.
    Til vara: Birkir J. Jónsson.
Þingskapanefnd: Sólveig Pétursdóttir.
    Til vara: Árni R. Árnason.
Mennta- og vísindanefnd: Kristinn H. Gunnarsson.
    Til vara: Birkir J. Jónsson.
Félags- og heilbrigðismálanefnd: Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Össur Skarphéðinsson.
Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Össur Skarphéðinsson.

b.    Þátttaka í nefndafundum utan þinga.
    Utan reglulegra þinga halda nefndir Evrópuráðsþingsins nokkra fundi árlega, ýmist í Strassborg eða París eða einhverju aðildarríkja ráðsins. Alls sótti Íslandsdeildin á annan tug slíkra funda árið 2003 og var það einungis lítið brot af þeim fundum sem haldnir voru. Lára Margrét Ragnarsdóttir sótti fund stjórnmálanefndarinnar í París um miðjan janúar og aftur í byrjun marsmánaðar. Þá sótti hún fundi stjórnmálanefndarinnar og félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndarinnar í Berlín í lok apríl auk sérlegs ráðherrafundar Evrópuráðsins í Malaga í upphafi maí. Sólveig Pétursdóttir sótti fund stjórnmálanefndarinnar í París 11. desember. Össur Skarphéðinsson sótti fund jafnréttisnefndarinnar í París 5. september og fund flóttamannanefndarinnar á sama stað í byrjun desembermánaðar. Kristinn H. Gunnarsson fór á fund menningar- og menntamálanefndarinnar í Búdapest og fund umhverfis- og landbúnaðarnefndarinnar í París um miðjan september. Þá sótti hann fund menningar- og menntamálanefndarinnar sem haldinn var í Liverpool 18.–20. nóvember.

Alþingi, 16. febr. 2004.



Sólveig Pétursdóttir,


form.


Kristinn H. Gunnarsson,


varaform.


Össur Skarphéðinsson.






Fylgiskjal.


Ályktanir, álit, tilmæli og tilskipanir Evrópuráðsþingsins árið 2003.


    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum Evrópuráðsþingsins árið 2003:

Fyrsti hluti þingfundar 27.–31. janúar:
          álit nr. 242, um drög að Evrópusáttmála um baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi,
          tilmæli nr. 1596, um aðstöðu ungra farandverkamanna í Evrópu,
          tilskipun nr. 585, um eftirlitshlutverk Evrópuráðsþingsins,
          ályktun nr. 1316, um Írak,
          ályktun nr. 1317, um mengun í sjó,
          ályktun nr. 1318, um hnattvæðingu og sjálfbæra þróun,
          ályktun nr. 1319, um ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun,
          ályktun nr. 1320, um góða starfshætti við framkvæmd kosninga,
          tilmæli nr. 1594, um ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun,
          tilmæli nr. 1595, um góða starfshætti við framkvæmd kosninga,
          tilmæli nr. 1591, um stefnu í félagsmálum og málefnum eldri borgara,
          ályktun nr. 1314, um framlag Evrópuráðsins til þróunar stefnuskrár Evrópusambandsins,
          tilmæli nr. 1592, um félagslega stöðu fatlaðra,
          ályktun nr. 1315, um mat á forsendum fyrir friðsamlegri lausn mála í Tsjetsjeníu,
          tilmæli nr. 1593, um mat á forsendum fyrir friðsamlegri lausn mála í Tsjetsjeníu,
          tilskipun nr. 584, um mat á forsendum fyrir friðsamlegri lausn mála í Tsjetsjeníu,
          tilmæli nr. 1589, um tjáningarfrelsi í fjölmiðlum í Evrópu,
          ályktun nr. 1313, um menningarlegt samstarf Evrópu og ríkja í norðanverðri Afríku,
          tilmæli nr. 1590, um menningarlegt samstarf Evrópu og ríkja í norðanverðri Afríku,
          tilmæli nr. 1588, um fólksflutninga í suðausturhluta Evrópu,
          ályktun nr. 1312, um þróun stöðugleikasáttmála fyrir suðaustanverða Evrópu.

Annar hluti þingfundar 31. mars–4. apríl:

          ályktun nr. 1327, um svonefnda „mannorðs-glæpi“,
          ályktun nr. 1328, um konur og lánafyrirgreiðslu til uppbyggingar atvinnustarfsemi,
          tilmæli nr. 1603, um Evrópu og stríðið í Írak,
          ályktun nr. 1326, um Evrópu og stríðið í Írak,
          tilmæli nr. 1600, um stöðu mannréttindamála í Tsjetsjeníu,
          ályktun nr. 1323, um stöðu mannréttindamála í Tsjetsjeníu,
          tilskipun nr. 586, um stöðu mannréttindamála í Tsjetsjeníu,
          tilskipun nr. 587, um úrbætur á stöðu yfirgefinna barna,
          tilmæli nr. 1601, um úrbætur á stöðu yfirgefinna barna,
          tilmæli nr. 1602, um kjörbréf fulltrúa Evrópuráðsþingsins,
          ályktun nr. 1324, um Evrópu og þróun orkugjafa á Kaspíahafssvæðinu,
          ályktun nr. 1325, um kjörbréf fulltrúa Evrópuráðsþingsins,
          álit nr. 245, um drög að sáttmála um verndun dýra í millilandaflutningum,
          tilmæli nr. 1597, um stefnu í samgöngumálum Evrópu,
          ályktun nr. 1321, um stefnu í samgöngumálum Evrópu,
          tilmæli nr. 1598, um verndun táknmáls í aðildarríkjum Evrópuráðsins,
          tilmæli nr. 1599, um stöðu menningarmála í Suður-Kákasus,
          ályktun nr. 1322, um vanda nýrrar landbúnaðarstefnu,
          álit nr. 243, um fjárlög Evrópuráðsins fyrir árið 2004,
          álit nr. 244, um útgjöld Evrópuráðsins fyrir árið 2004.

Stjórnarnefndarfundur 27. maí:
          ályktun nr. 1329, um fjölskyldufyrirtæki,
          tilmæli nr. 1604, um stöðu og hlutverk ríkissaksóknaraembætta aðildarríkja Evrópuráðsins,
          tilmæli nr. 1605, um efnahagsframfarir í Moldóvu.

Þriðji hluti þingfundar 23.–27. júní:
          tilmæli nr. 1614, um tengsl umhverfismála og mannréttinda,
          ályktun nr. 1341, um stefnumið í evrópskum flugumferðarmálum,
          tilmæli nr. 1613, um Evrópuráðið og Framtíðarráðstefnu Evrópusambandsins,
          ályktun nr. 1339, um Evrópuráðið og Framtíðarráðstefnu Evrópusambandsins,
          ályktun nr. 1340, um réttindi fanga bandarískra stjórnvalda við Guantanamo-flóa,
          ályktun nr. 1335, um meðferð ungverskra minnihlutahópa í grannríkjum (Magýar),
          ályktun nr. 1336, um ógnir við starfsemi Alþjóðastríðsglæpadómstólsins,
          tilmæli nr. 1610, um mansal og vændi,
          ályktun nr. 1337, um mansal og vændi,
          tilmæli nr. 1611, um ólöglegan flutning líffæra í Evrópu,
          tilmæli nr. 1612, um stöðu palestínskra flóttamanna,
          ályktun nr. 1338, um stöðu palestínskra flóttamanna,
          ályktun nr. 1332, um framlag Evrópska uppbyggingar- og framþróunarbankans (EBRD) til efnahagslegrar uppbyggingar í Mið- og Austur-Evrópu,
          tilmæli nr. 1607, um starfsemi IOM (International Organisation for Migration),
          tilmæli nr. 1608, um landtöku Tyrkja á Kýpur,
          tilmæli nr. 1609, um jákvæða reynslu sjálfsstjórnarsvæða með tilliti til hættuástandsstjórnunar í Evrópu,
          ályktun nr. 1333, um réttindi Kýpur-Grikkja og Maróníta til búsetu í norðurhluta Kýpur,
          ályktun nr. 1334, um jákvæða reynslu sjálfsstjórnarsvæða með tilliti til hættuástandsstjórnunar í Evrópu,
          tilmæli nr. 1606, um málefni sem mannréttindasáttmáli Evrópu nær ekki til,
          ályktun 1330, um landbúnaðarmál og stækkun Evrópusambandsins,
          ályktun nr. 1331, um viðsjár í landbúnaði Miðjarðarhafsríkja.

Stjórnarnefndarfundur 8. september:
          tilmæli nr. 1615, um stofnun umboðsmanns,
          tilmæli nr. 1616, um Norður/Suður-stofnun Evrópuráðsins og framlag hennar til þróunarsamstarfs á 21. öld,
          tilmæli nr. 1617, um úrbætur í skipulagi hins opinbera,
          tilmæli nr. 1618, um farandverkamenn sem starfa við landbúnaðarframleiðslu Suður- Evrópuríkja,
          tilmæli nr. 1619, um réttindi eldri farandverkamanna,
          tilmæli nr. 1620, um framlag Evrópuráðsins til æðri mennta,
          tilmæli nr. 1621, um kynningu á listasögu Evrópu,
          ályktun nr. 1342, um embætti forseta lávarðadeildar breska þingsins (e. Lord Chancellor) í stjórnskipan Stóra-Bretlands,
          ályktun nr. 1343, um breytingu á nafni nefndar um fólksflutninga, flóttamenn og lýðfræði (flóttamannanefndar) í nefnd um fólksflutninga, flóttamenn og fólksfjölda.

Fjórði hluti þingfundar 25. september–2. október:
          tilmæli nr. 1628, um hlutverk Sameinuðu þjóðanna í Írak,
          ályktun nr. 1351, um hlutverk Sameinuðu þjóðanna í Írak,
          ályktun nr. 1352, um stofnfrumurannsóknir í mönnum,
          tilmæli nr. 1626, um umbætur í heilbrigðiskerfi Evrópuríkja,
          tilmæli nr. 1627, um afnám dauðarefsinga í áheyrnaraðildarríkjum Evrópuráðsins,
          ályktun nr. 1349, um afnám dauðarefsinga í áheyrnaraðildarríkjum Evrópuráðsins,
          ályktun nr. 1350, um Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) og hið hnattræna hagkerfi,
          ályktun nr. 1347, um áhrif „Mexíkóborgar-stefnunnar“ á frelsi til notkunar getnaðarvarna í Evrópu,
          tilmæli nr. 1624, um sameiginlega stefnu í málefnum innflytjenda og hælisleitenda,
          tilmæli nr. 1625, um stefnu í málefnum innflytjenda í Evrópuráðsríkjum,
          ályktun nr. 1348, um jafnræði kynjanna í störfum Evrópuráðsþingsins,
          ályktun nr. 1344, um ógnir sem lýðræðinu stafa af öfgahópum og öfgaflokkum í Evrópu,
          ályktun nr. 1345, um kynþáttahatur, þjóðernisofstæki og hatursfulla orðræðu í stjórnmálum,
          álit nr. 246, um samskipti Evrópuráðsins og frjálsra félagasamtaka,
          tilmæli nr. 1622, um skuldbindingar Úkraínu á vettvangi Evrópuráðsins,
          tilmæli nr. 1623, um réttindi minnihlutahópa,
          ályktun nr. 1346, um skuldbindingar Úkraínu á vettvangi Evrópuráðsins.

Stjórnarnefndarfundur 25. nóvember:
          álit nr. 247, um siðferði og sveitarstjórnir,
          tilmæli nr. 1629, um framtíð lýðræðisins: styrking lýðræðisstofnana,
          ályktun nr. 1353, um framtíð lýðræðisins: styrking lýðræðisstofnana,
          tilmæli nr. 1630, um eyðileggingu strandlengju Miðjarðarhafsins og áhrifin á ferðamannaþjónustu,
          tilmæli nr. 1631, um flóttamenn í Evrópu,
          tilmæli nr. 1632, um unglinga og heilsugæslu,
          tilmæli nr. 1633, um nauðungarflutninga sígauna (Róma) frá fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu,
          tilmæli nr. 1634, um skattaívilnanir til varðveislu menningarverðmæta,
          tilmæli nr. 1635, um samkynhneigða og íþróttaiðkun,
          tilmæli nr. 1636, um lífræna landbúnaðarframleiðslu,
          tilmæli nr. 1637, um evrópskt samstarf á sviði umhverfismála,
          tilmæli nr. 1638, um sjálfbæra þróun fjallahéraða,
          tilmæli nr. 1639, um fjölskylduráðgjöf og jafnrétti,
          ályktun nr. 1354, um sakfellingu Grigory Pasko,
          ályktun nr. 1355, um skattaívilnanir til varðveislu menningarverðmæta,
          ályktun nr. 1356, um aukinn fjölda sæta í eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins.