Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 338. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 970  —  338. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Snorra Gunnarsson, Grétar Má Sigurðsson, Bergdísi Ellertsdóttur og Finn Þór Birgisson frá utanríkisráðuneyti, Hönnu S. Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Kristrúnu Kristinsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Gústaf Adolf Skúlason og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands.
    Málið var sent til umsagnar ríflega 50 samtökum, félögum, fyrirtækjum og stofnunum. Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Alþýðusambandi Íslands, Læknafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum banka- og verðbréfafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Umhverfisstofnun og Verslunarráði Íslands. Þá bárust nefndinni upplýsingar og gögn frá Alþýðusambandi Íslands, utanríkisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda samning um þátttöku lýðveldisins Tékklands, lýðveldisins Eistlands, lýðveldisins Kýpur, lýðveldisins Lettlands, lýðveldisins Litháens, lýðveldisins Ungverjalands, lýðveldisins Möltu, lýðveldisins Póllands, lýðveldisins Slóveníu og lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu. Aðildarsamningur EES var gerður í Lúxemborg 14. október 2003 og undirritaður af Íslands hálfu 11. nóvember síðastliðinn. Jafnframt er lagt til að þær breytingar sem gerðar eru á meginmáli EES-samningsins með aðildarsamningnum fái lagagildi hér á landi.
    Meginniðurstaða viðræðnanna varð að stofnaður verður nýr þróunarsjóður EFTA og verða framlög EFTA-ríkjanna til sjóðsins fimmfalt hærri en þau hafa verið undanfarin fimm ár. Framlag Íslands verður um 500 millj. kr. á ári og mun mestur hluti framlagsins renna til nýju aðildarríkjanna. Íslenska ríkið hefur lagt áherslu á að þróunarsjóðurinn styrki einkum verkefni á sviði sjávarútvegs, hagnýtingar jarðhita og orkuvinnslu en á þeim sviðum getur Ísland sérstaklega miðlað þekkingu og reynslu. Við aðild nýju ríkjanna að Evrópusambandinu falla niður gagnkvæmir fríverslunarsamningar þeirra og Íslands. Af þeim sökum var fyrirséð að viðskiptakjör fyrir ákveðnar afurðir mundu versna. Samningar tókust hins vegar um niðurfellingu tolla á frosnum síldarsamflökum frá Íslandi og endurflokkun í tollskrá ESB þannig að sú afurð fær sömu tollmeðferð og frosin síldarflök. Jafnframt náðust samningar um að kvótar yrðu settir fyrir tollfrjáls viðskipti með helstu vörutegundir sem viðskipti hafa verið með og notið hefðu betri viðskiptakjara samkvæmt gildandi fríverslunarsamningum. Stækkun Evrópusambandsins tekur gildi 1. maí næstkomandi og leggur utanríkismálanefnd sérstaka áherslu á að stækkun EES taki gildi á sama tíma.
    Nefndin tók til sérstakrar athugunar ákvæði samningsins um frjálsa för fólks. Gera verður ráð fyrir að töluverður fjöldi fólks frá nýju aðildarríkjunum, einkum Eystrasaltsríkjunum og Póllandi, vilji freista gæfunnar á Íslandi. Íslenskt atvinnulíf þarf á erlendu vinnuafli að halda en hins vegar er nauðsynlegt að íslenskur vinnumarkaður sé vel undirbúinn fyrir fjölda útlendinga í atvinnuleit. Samkvæmt aðildarsamningi EES er einstökum ríkjum heimilt að beita sérstökum aðlögunartíma í allt að sjö ár frá gildistöku stækkunarsamninganna. Ríkisstjórnin lýsti því nýlega yfir að hún hygðist leggja til tveggja ára aðlögunartíma frá 1. maí 2004 til 1. maí 2006. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað mun þorri EES-ríkja beita tveggja ára aðlögunartíma og einhver hafa þegar lýst yfir lengri aðlögunartíma. Í ljósi þessara upplýsinga telur nefndin hyggilegt að beita aðlögunartíma fyrst um sinn. Nefndin leggur hins vegar áherslu á að aðlögunartíminn fram til 2006 verði vel nýttur til að undirbúa íslenskan vinnumarkað fyrir stóran sameiginlegan vinnumarkað á EES-svæðinu. Þá er einnig nauðsynlegt að gæta þess að samfélagið og stofnanir þess séu undirbúin fyrir aukinn fjölda erlendra starfsmanna og fjölskyldna þeirra og má í því sambandi einkum nefna félags- og skólakerfi.
    Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti þarf að gera breytingar á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lögum nr. 96/2002, um útlendinga, og lögum nr. 97/2002, um atvinnu- réttindi útlendinga, fyrir 1. maí næstkomandi til að takmarka megi frjálsa för fólks frá nýju aðildarríkjunum. Nefndin leggur áherslu á að vinnu við þau frumvörp verði hraðað þannig að nauðsynlegar lagabreytingar hafi tekið gildi á undan stækkunarsamningunum. Þá bendir nefndin á að mikilvægt virðist að taka til athugunar framkvæmd laga nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.
    Guðmundur Árni Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Steingrímur J. Sigfússon ritar undir nefndarálitið með fyrirvara.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 26. febr. 2004.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Drífa Hjartardóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.


Einar K. Guðfinnsson.



Magnús Stefánsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.