Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 340. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 981  —  340. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um sjóntækjafræðinga, nr. 17/1984.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur, Vilborgu Hauksdóttur og Sólveigu Guðmundsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Matthías Halldórsson frá landlæknisembættinu, Kristin Kristinsson, Guðbjörgu Ketilsdóttur, Axel Örn Ársælsson og Dögg Pálsdóttur frá Félagi íslenskra sjóntækjafræðinga, Friðbert Jónasson, prófessor í augnlækningum, og Kristján Þórðarson frá Augnlæknafélagi Íslands. Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá Félagi íslenskra sjóntækjafræðinga, Neytendasamtökunum, Augnlæknafélagi Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Læknafélagi Íslands og landlæknisembættinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra geti í reglugerð heimilað sjóntækjafræðingum að mæla sjón og fullvinna gleraugu og snertilinsur með ákveðnum skilyrðum. Í gildandi lögum er sjóntækjafræðingum því aðeins heimilt að fullvinna og selja sjónhjálpartæki (gleraugu og snertilinsur) að fyrir liggi tilvísun og/eða forskrift læknis.
    Í greinargerð landlæknis, sem er fylgiskjal með frumvarpinu, kemur fram að talið er að margir, sennilega flestir, starfandi íslenskir sjóntækjafræðingar hafi menntun sem nægi til þess að þeir fengju leyfi til sjónmælinga annars staðar á Norðurlöndum. Jafnframt kemur fram að þar eru reglur almennt þannig að sjóntækjafræðingar mega mæla sjón að því undanskildu að þeir mega ekki sjónmæla börn undir ákveðnum aldri og einstaklinga sem taldir eru í áhættu vegna augnsjúkdóma. Telur landlæknir að eðlilegast sé að takmarkanir sjóntækjafræðinga til sjónmælinga verði sem líkastar þeim sem nú gilda annars staðar á Norðurlöndum og að á meðan sjóntækjafræðingar uppfylla ekki allir menntunarskilyrði verði þeim skipt í þrjá tilgreinda hópa eftir menntun. Er nefndin sammála því.
    Augnlæknafélag Íslands varar við því að sjóntækjafræðingar fái heimild til að sjónmæla. Af hálfu félagsins er talið að tíðni glákublindu muni aukast þar sem gláka greinist þá mun seinna en ella. Sama megi segja um aðra sjúkdóma eins og sykursýki, hækkaðan blóðþrýsting og skjaldkirtilssjúkdóma því að oft verða augnlæknar fyrstir lækna til að greina þessa sjúkdóma. Vegna þessa ítrekar nefndin mikilvægi þess að faglega sé staðið að því að veita sjóntækjafræðingum heimild til sjónmælinga og þess gætt að þeir hafi tilskilda menntun. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að landsmenn fái sjálfir að ráða því hvernig heilsuvernd þeirra er háttað hvað þetta varðar eins og á við um aðrar sérgreinar læknisfræðinnar og fyrirbyggjandi eftirlit. Bendir nefndin á að í þessu sem öðru sé sjálfsagt að heilbrigðisyfirvöld veki fólk til vitundar um mikilvægi þess að láta augnlækna fylgjast vel með sjón sinni og fara í reglulegt eftirlit. Telur nefndin einnig mikilvægt að gott samstarf sé milli augnlækna og sjóntækjafræðinga.
    Í greinargerð landlæknis kemur fram að hann telur tímabært að breyta gildandi lögum um sjóntækjafræðinga þannig að þeir fái með vissum skilyrðum að ávísa sjónhjálpartækjum. Nefndin tekur undir það og leggur til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu en þar er kveðið á um að sjóntækjafræðingar fullvinni sjónhjálpartæki samkvæmt tilvísun og/eða forskrift augnlæknis en ráðherra geti heimilað sjóntækjafræðingum, sem uppfylla nánar tilgreind skilyrði um menntun, að mæla sjón og fullvinna sjónhjálpartæki fyrir nánar tilgreinda hópa. Augnlæknar hafa einkarétt á sjónmælingum samkvæmt gildandi fyrirkomulagi en með breytingunni sem nefndin leggur til verður sjóntækjafræðingum, að uppfylltum skilyrðum um menntun sem ráðherra skal setja í reglugerð, heimilt að mæla sjón samhliða augnlæknum. Jafnframt leggur nefndin til að ráðherra sé heimilt með setningu reglugerðar að takmarka heimildir sjóntækjafræðinga til augnmælinga. Ein takmörkunin sem landlæknir leggur til í greinargerð sinni er að sjóntækjafræðingar megi ekki mæla sjón hjá einstaklingum 55 ára og eldri. Nefndin telur ekki rétt að miða við ákveðið aldurshámark en slíkar takmarkanir þekkjast ekki annars staðar á Norðurlöndunum. Landlæknir leggur einnig til að sjóntækjafræðingum verði ekki heimilt að mæla sjón hjá þeim einstaklingum sem aldrei hafa farið til augnlæknis. Nefndin bendir á að með slíku reglugerðarákvæði er tryggt að allir landsmenn sem þarfnast sjónglerja fara a.m.k. einu sinni til skoðunar hjá augnlækni auk þess sem öll börn fara í hefðbundna skólaskoðun.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      1. gr. orðist svo:
                   5. gr. laganna orðast svo:
                  Sjóntækjafræðingar mæla sjón og fullvinna og selja sjónhjálpartæki (gleraugu og snertilinsur).
                  Ráðherra skal í reglugerð setja ákvæði um menntunarskilyrði sem sjóntækjafræðingar skulu uppfylla til að mega mæla sjón og fullvinna sjónhjálpartæki.
                  Ráðherra getur í reglugerð takmarkað heimildir sjóntækjafræðinga til að mæla sjón hjá nánar tilgreindum hópum.
     2.      2. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 15. júní 2004.

    Þuríður Backman skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Ágúst Ólafur Ágústsson, Dagný Jónsdóttir og Margrét Frímannsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. febr. 2004.



Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Pétur H. Blöndal.



Þuríður Backman,


með fyrirvara.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Guðrún Ögmundsdóttir.