Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 688. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1017  —  688. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2003.

1.     Inngangur.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Sjálfsstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka jafnframt þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndarfunda fjórum sinnum á ári og skipuleggur árlegar þemaráðstefnur þar sem rætt er eitt ákveðið málefni, svo sem umhverfismál, menningarmál og öryggismál. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Í Norðurlandaráði sitja 87 þingmenn, þar af sjö alþingismenn. Hvert hinna ríkjanna fjögurra (ásamt sjálfsstjórnarsvæðunum) á 20 þingmenn í Norðurlandaráði. Hvert ríki skipar forseta Norðurlandaráðs á fimm ára fresti. Á árlegum þingfundi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga í senn, um mánaðamótin október/nóvember, er fjallað um fram komnar tillögur og sendir þingið frá sér tilmæli til ráðherranefndar. Á Norðurlandaráðsþinginu gefa samstarfsráðherrar Norðurlanda þinginu skýrslu og svara fyrirspurnum. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað í nefndir og trúnaðarstöður. Í Norðurlandaráði starfa fjórir flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, íhaldsmenn og vinstrisósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamvinnunnar. Loks kemur kjörnefnd saman á þingum til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

2.     Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1.     Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi árs skipuðu Íslandsdeildina Ísólfur Gylfi Pálmason, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Sigríður Jóhannesdóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigríður A. Þórðardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Rannveig Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Drífa Hjartardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Ásta Möller, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Hjálmar Árnason, þingflokki Framsóknarflokks, Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Katrín Fjeldsted, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þuríður Backman, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
    Í kjölfar alþingiskosninga var á 129. þingi kjörin ný Íslandsdeild 27. maí. Hana skipuðu Jónína Bjartmarz, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Drífa Hjartardóttir, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Rannveig Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigríður A. Þórðardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Sigurður Kári Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Mörður Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks, Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jón Gunnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Sömu þingmenn voru kosnir í Íslandsdeild 1. október við upphaf 130. þings. Á fundi Íslandsdeildar 6. október varð sú breyting að Rannveig Guðmundsdóttir tók við varaformennsku deildarinnar í stað Drífu Hjartardóttur.
    Stígur Stefánsson alþjóðaritari gegndi starfi ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á starfsárinu 2003.

2.2.    Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Á 54. þingi Norðurlandaráðs í Helsinki 29.–31. október 2002 var kosið í nefndir fyrir starfsárið 2003. Ísólfur Gylfi Pálmason, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigríður A. Þórðardóttir voru kjörin til setu í forsætisnefnd. Sigríður A. Þórðardóttir tók jafnframt sæti í kjörnefnd. Sigríður Jóhannesdóttir tók sæti í menningar- og menntamálanefnd og Drífa Hjartardóttir í velferðarnefnd. Steingrímur J. Sigfússon var kjörinn varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar. Arnbjörg Sveinsdóttir var kjörin í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og eftirlitsnefnd og tók við varaformennsku í báðum nefndum. Að loknum alþingiskosningum breyttist nefndaskipan þannig að Jónína Bjartmarz tók við af Ísólfi Gylfa Pálmasyni í forsætisnefnd, Ásta R. Jóhannesdóttir tók við af Sigríði Jóhannesdóttur í menningar- og menntamálanefnd og Sigurður Kári Kristjánsson tók við af Arnbjörgu Sveinsdóttur í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og eftirlitsnefnd.
    Auk nefndarsetu sátu meðlimir Íslandsdeildar í vinnuhópum á vegum Norðurlandaráðs, auk þess sem þeir sátu í stjórnum stofnana og ráða tilnefndir af Norðurlandaráði. Arnbjörg Sveinsdóttir sat í vinnuhópi um hvalamál á vegum umhverfis- og náttúruauðlindanefndar. Steingrímur J. Sigfússon sat í vinnuhópi um vinnumarkaðssamstarf við Eystrasaltsríkin á vegum efnahags- og viðskiptanefndar. Rannveig Guðmundsdóttir gegndi stöðu áheyrnarfulltrúa Norðurlandaráðs hjá þingmannanefnd um norðurskautsmál. Þuríður Backman sat í stjórn norrænnar samstarfsmiðstöðvar um málefni fatlaðra, Rannveig Guðmundsdóttir í stjórn Norræna menningarsjóðsins og Ísólfur Gylfi Pálmason átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans. Jónína Bjartmarz tók við af Ísólfi Gylfa í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans á síðari hluta starfsársins.

2.3.     Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom saman til fundar sjö sinnum á árinu. Að venju var þátttaka í fundum, þemaráðstefnu og þingi Norðurlandaráðs undirbúin en þar að auki voru fjöldamörg mál á dagskrá svo og gagnkvæm upplýsingaskipti fulltrúa í Íslandsdeild um stöðu mála í einstökum nefndum og vinnuhópum Norðurlandaráðs. Töluvert var rætt um eftirfylgni við tilmæli Norðurlandaráðs en við breytingarnar á skipulagi ráðsins sem tóku gildi 1. janúar 2002 var lögð áhersla á nánari tengsl við þing ríkjanna og hlutverk landsdeilda við að fylgja tilmælum eftir heima í héraði. Að loknu Norðurlandaráðsþingi í byrjun nóvember var ákveðið að taka upp svipað vinnulag og hjá dönsku landsdeildinni og senda tilmæli Norðurlandaráðs til viðkomandi fastanefnda Alþingis. Hugmyndin að baki þessari ráðstöfun er sú að fastanefndirnar fái tilmælin til upplýsingar og geti jafnframt fylgt þeim eftir í löggjafarstarfi þegar við á. Þá var nokkuð rætt um fjölmiðlaumfjöllun frá Norðurlöndum og möguleika á frekari kynningu á norrænu samstarfi. Sérstaklega var farið yfir kynningarstarf og viðbúnað vegna Norðurlandaráðsþings en fjölmiðlaumfjöllun frá því var með mesta móti.
    Íslandsdeildin hélt einn fund með Siv Friðleifsdóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda, og fór hann fram í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu 13. október. Með ráðherra á fundinum voru Snjólaug Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins, auk Ragnheiðar Harðardóttur og Hanne Fisker, starfsmanna skrifstofunnar. Fundurinn var haldinn í aðdraganda 55. Norðurlandaráðsþings og var þingið sjálft og formennska Íslands innan Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2004 helstu umræðuefnin. Ráðherra skýrði frá megináherslum í formennskuáætlun Íslands sem ber nafnið „Auðlindir Norðurlanda – Lýðræði, menning, náttúra“. Þar ber hæst áherslur á Vestur-Norðurlönd í norrænu samstarfi og hugmyndir um grannsvæðasamstarf með nágrannaríkjum Norðurlanda í vestri, áframhaldandi starf til að afnema landamærahindranir og þróun lýðræðis á tímum hnattvæðingar og hraðra framfara í upplýsingatækni. Jónína Bjartmarz kynnti áherslumál Norðurlandaráðs starfsárið 2004 en hver nefnd ráðsins skilgreinir forgangsmál fyrir upphaf hvers starfsárs.
    Íslandsdeildin hélt fund með nokkrum stjórnarmönnum og starfsmönnum Norræna félagsins 17. nóvember en þeir voru Sigurlín Sveinbjarnardóttir, formaður, Ólafur Örn Haraldsson, Úlfur Sigurmundsson, Óðinn Albertsson og Esther Sigurðardóttir. Stjórnarmenn afhentu minnisblað um starfsemi Norræna félagsins og kynntu helstu verkefni, svo sem Snorraverkefnið sem snýst um að taka á móti ungmennum frá Kanada og þjónustusímann Halló Norðurlönd sem rekinn er fyrir Norrænu ráðherranefndina til að liðka fyrir flutningum á milli Norðurlanda og kortleggja vandamál varðandi landamærahindranir. Þá voru ræddir möguleikar á samstarfi Íslandsdeildar og Norræna félagsins, m.a. varðandi hugsanlega norræna daga sem haldnir yrðu í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Reykjavík árið 2005.
    Íslandsdeild þáði boð Norðurlandaráðs um að senda þingmenn á ýmsar alþjóðaráðstefnur fyrir hönd ráðsins á starfsárinu 2003. Sóttu íslenskir þingmenn þær ráðstefnur sem meðlimir sérstakra sendinefnda Norðurlandaráðs. Á meðal þeirra viðburða sem þingmenn Íslandsdeildar sóttu má nefna Eystrasaltsráðstefnuna í Oulu og málstofu með pólskum þingmönnum um málefni hinnar norðlægu víddar í Varsjá. Fulltrúar Íslandsdeildar tóku einnig þátt í kosningaeftirliti í Moskvu vegna kosninga til rússnesku Dúmunnar. Þá tók Jónína Bjartmarz, formaður Íslandsdeildar, þátt í sérstökum fundi og pallborðsumræðum í Stokkhólmi um skýrslu breska tímaritsins Economist um Norðurlönd. Þingmenn Íslandsdeildar sóttu einnig ráðstefnur á vegum sinna nefnda í Norðurlandaráði og er þess getið hér á eftir í umfjöllun um hverja nefnd fyrir sig.
    Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs voru veittir á fundi Íslandsdeildar 25. júní. Samanlagt var styrkupphæðin sem kom í hlut Íslendinga 90.000 dkr. Alls bárust níu umsóknir og ákvað Íslandsdeildin að veita öllum umsækjendunum styrk. Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, Brynja Þorgeirsdóttir, Hjördís Finnbogadóttir og Þorbjörg Eva Erlendsdóttir hlutu 15.000 dkr. hver, Brynhildur Þórarinsdóttir og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir hlutu 10.500 dkr. hvor, og Guðmundur Steingrímsson og Gunnar Gunnarsson 4.500 dkr. hvor.

3.     Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
3.1.     Forsætisnefnd.
         Af hálfu Íslandsdeildar sátu Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason í forsætisnefnd en Jónína Bjartmarz tók við af Ísólfi Gylfa eftir alþingiskosningar. Norski þingmaðurinn Inge Lønning gegndi embætti forseta Norðurlandaráðs á árinu og er hann úr flokkahópi hægrimanna.
    Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir Norðurlandanna og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Forsætisnefnd annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni, og hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við þing Norðurlandaráðs. Forsætisnefnd fjallar um norrænu fjárlögin en sérstakur vinnuhópur á vegum nefndarinnar tók þá fjárlagavinnu sérstaklega að sér árið 2003, líkt og áður hafði verið gert. Eftir breytingar á nefndakerfi Norðurlandaráðs sem tóku gildi árið 2002 er aukin áhersla lögð á utanríkis- og öryggismál í starfi forsætisnefndar, þar á meðal friðargæslu og málefni hinnar norðlægu víddar ESB. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og á í samstarfi við ESB/EES, ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri stofnanir. Forsætisnefnd fjallar einnig um þær tillögur sem til hennar er beint og vísar öðrum tillögum sem lagðar eru fyrir ráðið til viðeigandi málefnanefnda. Hún hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Forsætisnefnd hélt átta fundi á árinu en auk þess fóru fram sameiginlegir fundir forsætisnefndar og ýmissa aðila. Af helstu málum sem forsætisnefnd fjallaði um, fyrir utan hefðbundin störf, má nefna landamæralaus Norðurlönd en málefni þeirra voru í brennidepli á starfsárinu. Landamæralaus Norðurlönd komust á dagskrá árið 2002 með rannsókn Ole Norrbacks á réttarstöðu Norðurlandabúa þegar þeir flytjast á milli Norðurlanda. Var rannsóknin unnin að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar. Alls búa um 300.000 Norðurlandabúar annars staðar á Norðurlöndum en í heimalandi sínu. Rannsókn Norrbacks sýndi að stórum landamærahindrunum hefur enn ekki verið rutt úr vegi. Í henni kom fram að víða er pottur brotinn varðandi það að farið sé eftir norrænum samningum um réttindi Norðurlandabúa og að hluti vandans er vanþekking embættismannakerfisins. Dæmi um þetta eru skattavandamál fólks sem sækir vinnu sína yfir landamæri, sköttun lífeyrisgreiðslna sem greiddar eru yfir landamæri, tregða við að viðurkenna gagnkvæm starfsréttindi o.fl. Norræna ráðherranefndin réð Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Dana, til að hafa umsjón með starfi til afnáms þessara hindrana á árinu 2003. Nefndir Norðurlandaráðs unnu samtímis að tillögum um hvernig málefni landamæralausra Norðurlanda snertu þeirra málefnasvið. Til þess að samræma aðgerðir og tillöguvinnslu nefnda Norðurlandaráðs á þessu sviði kom forsætisnefnd á fót sérstökum stýrihópi undir forustu Ole Stavad. Stýrihópurinn beitti sér m.a. gegn háum gjöldum fjármálastofnana vegna peningasendinga á milli Norðurlanda. Átti forsætisnefnd fundi með Poul Schlüter og sænska samstarfsráðherranum Berit Andnor um landamærahindranir.
    Annað mál sem var ofarlega á dagskrá forsætisnefndar var framtíðarstefnumótun Norðurlandaráðs varðandi stöðu og hlutverk Norðurlanda í Evrópu eftir stækkun ESB. Stækkun ESB eykur þörfina á að Norðurlönd hafi samráð um hagsmunamál sín í Evrópusamstarfinu og á það jafnt við um norrænu ESB-löndin og EES-löndin Ísland og Noreg. Enn fremur var litið til þess að Norðurlönd gætu átt samstarf við Eystrasaltsríkin þegar þau eru komin inn í ESB um að koma sameiginlegum hagsmunamálum fram. Umræðan um stöðu og áhrif Norðurlanda í Evrópu var nátengd umræðunni um afnám landamærahindrana því að með því að leysa þau vandamál mundu Norðurlönd styrkja sig í sessi og gætu um leið orðið fyrirmynd að afnámi landamærahindrana innan ESB.
    Af öðrum málum sem komu til kasta forsætisnefndar má nefna Vestur-Norðurlönd og norðurskautsmál. Rannveig Guðmundsdóttir var áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs í þingmannanefnd um norðurskautsmál og skilaði skýrslum og tillögum til forsætisnefndar um aukinn stuðning við þann málaflokk. Forsætisnefnd fór í sumarferð til Svalbarða 13.–17. ágúst og voru þessi málefni rædd ítarlega auk þess sem ýmsar stofnanir á sviði norðurskautsrannsókna voru skoðaðar.

3.2.     Menningar- og menntamálanefnd.
    Fyrir hönd Íslandsdeildar átti Sigríður Jóhannesdóttir sæti í menningar- og menntamálanefnd fram yfir alþingiskosningar en þá tók Ásta R. Jóhannesdóttir við. Nefndin hélt fimm fundi á árinu.
    Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti.
    Á starfsárinu beindi nefndin m.a. sjónum að aðstæðum til vísindarannsókna, sér í lagi möguleikum á samvinnu um mennta- og rannsóknarsvæði á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Þá voru íþróttir til umfjöllunar sem leið til aðlögunar ungra nýbúa að norrænum samfélögum og tungumálastefna og staða norrænna tungumála voru einnig á dagskrá nefndarinnar.
    Mennta- og menningarmálanefnd hélt sumarfund sinn í Færeyjum þar sem menning og tungumál Vestur-Norðurlanda voru í brennidepli. Var þar m.a. fjallað um stöðu vestnorrænu tungumálanna á tímum hnattvæðingar og málstefnu stjórnvalda á Vestur-Norðurlöndum og í hvaða mæli önnur norræn tungumál væru kennd á svæðinu. Átti nefndin fund með menntamálanefnd Lögþingsins og heimsótti ýmiss konar stofnanir.
    Þá hélt menningar- og menntamálanefnd málstofu um klámvæðingu í tengslum við septemberfund Norðurlandaráðs. Þar fjallaði fagfólk á þessu sviði um hvernig greiðara aðgengi að klámi, m.a. á netinu, hefur áhrif á viðhorf æskufólks til þess hvað það teldi eðlilegt og hvað ekki í kynferðismálum. Einnig var rætt hvernig klámvæðingin hefur áhrif á jafnrétti kynjanna og kæmi mismunandi niður á drengjum og stúlkum. Þá var fjallað um tengsl kláms og fjölgunar kynferðisglæpa og loks var kynnt átaksverkefni frá Noregi þar sem brugðist var við aukinni klámvæðingu með fræðslu og umræðuverkefnum í skólum.
         Nokkuð var um ráðstefnusókn íslenskra þingmanna á vegum menningar- og menntamálanefndar. Sigríður Jóhannesdóttir sótti eina ráðstefnu og Ásta R. Jóhannesdóttir tvær ráðstefnur í ráðstefnuröðinni Norræn menningarstefna sem Norræna ráðherranefndin stóð fyrir.

3.3.     Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Fulltrúi Íslandsdeildar í efnahags- og viðskiptanefnd var Steingrímur J. Sigfússon sem jafnframt gegndi stöðu varaformanns nefndarinnar.
    Efnahags- og viðskiptanefnd annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni.
    Vinnuhópur um vinnumarkaðssamstarf við Eystrasaltsríkin starfaði á árinu og áttu í honum sæti Kent Olsson, Ole Vagn Christensen, Steingrímur J. Sigfússon og Thor Gunnar Kofoed. Vinnumarkaðsmál Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna voru mikið til umræðu árið 2002 en þá náðist ekki samstaða í nefndinni um tillöguflutning á þessu sviði. Í ljósi þess að samþætting vinnumarkaða Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna mun aukast mjög við stækkun ESB 1. maí 2004 var vinnuhópnum komið á til þess að afla frekari upplýsinga og gera tillögur um aðgerðir. Einkum var vinnuhópnum ætlað að kanna á hvaða sviðum ólík löggjöf, uppbygging og skipulag vinnumarkaða gæti haft afleiðingar fyrir samþættingu þeirra í framtíðinni. Vinnuhópurinn hélt fimm fundi, fór í kynningarheimsóknir til sex samtaka launþega og atvinnurekenda í Eystrasaltsríkjunum og hélt auk þess þrjá fundi með utanaðkomandi sérfræðingum á þessu sviði. Í lokaskýrslu vinnuhópsins kom m.a. fram að samtök aðila vinnumarkaðarins í Eystrasaltslöndunum standa systursamtökum sínum á Norðurlöndum langt að baki hvað varðar skipulag og styrk og að samningaviðræðuferli séu sjaldnast í föstum skorðum. Það er sérstaklega tekið fram að hugsanleg aðstoð Norðurlanda við skipulag vinnumarkaða í Eystrasaltsríkjunum fari fram á forsendum heimamanna og fullt tillit verði tekið til sögulegra aðstæðna. Niðurstaða vinnuhópsins, sem samþykkt var á Norðurlandaráðsþingi, var að biðja Norrænu ráðherranefndina að gangast fyrir vinnumarkaðsráðstefnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna með það að markmiði að greina þarfir samtaka vinnumarkaðarins í Eystrasaltsríkjunum fyrir stuðning og því næst gera tillögur um verkefni og aðgerðir á þessu sviði.
    Önnur mál á dagskrá nefndarinnar voru t.d. hugmyndir um að koma á norrænum samráðsvettvangi á sviði húsgagnaiðnaðarins og eftirfylgni við norrænan sáttmála um framsækin smáfyrirtæki, frumkvöðla og sjálfstæða uppfinningamenn. Þar að auki voru málefni er varða hugbúnað sem byggist á opnum stöðlum ofarlega á baugi í starfi nefndarinnar.

3.4.     Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Í upphafi árs var Arnbjörg Sveinsdóttir fulltrúi Íslands í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd en um mitt ár tók Sigurður Kári Kristjánsson sæti hennar. Nefndin annast málefni sem varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál.
    Af helstu verkefnum umhverfis- og náttúruauðlindanefndar má nefna vísindaráðgjöf við ákvörðun fiskikvóta og stuðning við hafrannsóknastofnanir á Norðurlöndum. Unnin var tillaga um samvinnu til að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika og umhverfisvæna orkuframleiðslu og orkuneyslu. Þá var umhverfi Eystrasaltsins í brennidepli eftir slæm umhverfisslys í siglingum svo og eftirlit og stjórn á rándýrastofnum. Sem fyrr var Sellafield-kjarnorkuverið á austurströnd Englands og mengunarhætta sem af því stafar á dagskrá nefndarinnar.
    Í tengslum við febrúarfundi Norðurlandaráðs hélt umhverfis- og náttúruauðlindanefnd málþing um hvali og seli í þinghúsinu í Stokkhólmi. Málþingið var haldið að frumkvæði Arnbjargar Sveinsdóttur. Sat Arnbjörg í vinnuhópi sem skipulagði dagskrá og efnistök málþingsins. Megintilgangur málþingsins var að veita þingmönnum á Norðurlöndum hlutlausar upplýsingar um stöðu hvalamála. Hvalamál hafa sem kunnugt er verið mikið í deiglunni á undanförnum árum og hafa fyrirliggjandi upplýsingar oft verið ónákvæmar og jafnvel áróðurskenndar. Í stað þess að kalla fulltrúa hvalveiðisinna og Grænfriðunga til málþingsins voru fengnir sérfræðingar á þessu sviði til að greina hvernig hvaladeilan hefði þróast í að verða jafnpólitísk og tilfinningaþrungin og raun bæri vitni. Hugsunin að baki því var sú að ein forsendna þess að hægt sé að þoka umræðunni áfram væri að stjórnmálamenn skildu rök og gildismat andstæðra fylkinga og sögulega þróun deilunnar.
    Dagskrá málþingsins skiptist í fjóra hluta. Fyrsti hlutinn fjallaði um stofnstærðir og forsendur fyrir sjálfbærri nýtingu. Annar hluti fjallaði um rök og gildi í hvalaumræðunni og þróun hennar. Meðal þess sem spurt var um var hvers vegna umræðan hefði orðið svo öfgakennd, og hvort aðrar grundvallarreglur giltu um verndun hvala og sela en annarra dýra. Þriðji hlutinn var um hina pólitísku hlið málsins, þ.e. hvernig hvalamálið hefði orðið svo fyrirferðarmikið í alþjóðastjórnmálum og hvernig Norðurlandaþjóðirnar hefðu nálgast málið. Það er t.a.m. illskiljanlegt fyrir þjóðir sem stunda eða vilja stunda hvalveiðar hve andstaðan gegn þeim hefur mikið vægi í utanríkismálastefnu Svía, án þess þó að þeir eigi beinna hagsmuna að gæta. Að sama skapi er erfitt fyrir þær þjóðir sem eru á móti hvalveiðum að skilja hvers vegna þjóðir eins og Íslendingar og Norðmenn, tvær af ríkustu þjóðum heims, leggja svo mikla áherslu á veiðar þegar ekki virðast augljósir efnahagslegir hagsmunir í húfi. Málþingið var vel sótt og þótti takast vel en það opnaði umræðuna fyrir þessi mál innan Norðurlandaráðs.

3.5.     Velferðarnefnd.
    Fulltrúi Íslands í velferðarnefnd var Drífa Hjartardóttir. Nefndin sinnir velferðar- og tryggingamálum, félagsþjónustu og heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, bygginga- og húsnæðismálum, fjölskyldumálum, börnum og unglingum, og baráttu gegn misnotkun vímuefna.
    Umfjöllun um landamæralaus Norðurlönd var ofarlega á baugi hjá velferðarnefnd og fjallaði nefndin einkum um vandamál á sviði félags- og heilbrigðismála við flutninga á milli Norðurlanda. Vann nefndin m.a. tillögu um að einfalda og samræma skattlagningu á lífeyrisgreiðslum yfir landamæri. Þá gerði nefndin tillögu um að ráðherranefndin beitti sér fyrir einföldun og samræmingu á reglum um örorkubætur á Norðurlöndum.
    Á heilbrigðissviðinu fjallaði nefndin um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sykursýki og norrænar rannsóknir á þessu sviði þar sem einnig væri gengið til samstarfs við Eystrasaltsríkin. Þá vann nefndin tillögu um aðgerðir gegn misnotkun áfengis og vímuefna. Kjarni tillögunnar voru tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar um að vinna með Eystrasaltsríkjunum að strangari og skilvirkari stefnu í Evrópu í þessum málaflokki, tryggja meðferðarúrræði fyrir vímuefnaneytendur og vinna að því að minnka meðalneyslu áfengis með verðlagsstefnu, takmörkun á aðgengi að vörunni og takmörkunum á möguleikum framleiðenda til markaðssetningar.
    Velferðarnefnd kom á fót vinnuhópi um málefni barna og ungmenna árið 2002 og starfaði hann áfram árið 2003. Nánar tiltekið á hópurinn að fylgjast með stöðu barna og ungmenna á Norðurlöndum, í Eystrasaltslöndunum og í Norðvestur-Rússlandi, gefa velferðarnefnd mynd af aðgerðum norrænna stjórnvalda og þjóðþinga á þessu sviði, og koma með tillögur að því hvernig Norðurlandaráð getur unnið að því að ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verði virk og virt í Eystrasaltslöndunum og Norðvestur-Rússlandi. Í þessu skyni var sumarferð velferðarnefndar farin til Vyborgar í Rússlandi þar sem nefndin skoðaði m.a. skýli og neyðarmóttöku fyrir götubörn, barnaheimili og barnaspítala auk þess sem nefndin átti fund með fulltrúum hjálparsamtaka sem beita sér fyrir málefnum barna.

3.6.     Borgara- og neytendanefnd.
    Borgara- og neytendanefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum.
    Enginn fulltrúi Íslandsdeildar sat í nefndinni starfsárið 2003. Helsta áhersluatriði í starfi nefndarinnar var barátta gegn mansali og kynlífsþrælkun og vann nefndin fjórar tillögur á þessu sviði sem samþykktar voru á Norðurlandaráðsþingi. Tilmælin fólu m.a. í sér að norrænu ríkisstjórnirnar efndu til sameiginlegra aðgerða til að stemma stigu við mansali og vændi með áherslu á að vinna að því að minnka eftirspurn eftir konum og börnum til kynferðislegrar misnotkunar. Jafnframt var hvatt til að reyna að samræma norræna löggjöf á sviði vændis að svo miklu leyti sem ólík stefna Norðurlanda í hegningarlöggjöf veitir svigrúm til. Þá var þeim tilmælum beint til ráðherranefndarinnar að styðja innan ramma grannsvæðastefnunnar frjáls félagasamtök og stjórnvöld til að vinna gegn eftirspurn eftir vændisþjónustu á Eystrasaltssvæðinu. Enn fremur var ráðherranefndin beðin um að gera úttekt á því hversu árangursrík sú aðferð að gera vændiskaup refsiverð hefur reynst í baráttunni gegn vændi og bera aðferðina saman við önnur úrræði í hegningarlögum á þessu sviði.

3.7.     Eftirlitsnefnd.
    Í upphafi árs var Arnbjörg Sveinsdóttir fulltrúi Íslands í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs en um mitt ár tók Sigurður Kári Kristjánsson sæti hennar. Eftirlitsnefndin fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþings með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Hluti af fastri starfsemi nefndarinnar er að fara yfir skýrslur dönsku ríkisendurskoðunarinnar um ársreikninga Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins.
    Eftirlitsnefnd tók tvö málefni til sérstakrar skoðunar á árinu. Annars vegar var gerð úttekt á því hvernig hið nýja skipulag Norðurlandaráðs virkar og hins vegar heildarúttekt á upplýsingastarfi Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Báðum verkefnum verður lokið á árinu og skýrslur lagðar fyrir Norðurlandaráðsþing. Eftirlitsnefnd hélt sumarfund sinn á Akureyri og heimsótti þá m.a. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar en verkefni sem unnin eru af stofnuninni, eins og skýrslan um sjálfbæra samfélagsþróun á norðurslóðum, hafa hlotið ríkulega styrki úr rannsóknarsjóðum Norrænu ráðherranefndarinnar.

4.     Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru þrenn, þ.e. bókmennta-, tónlistar- og náttúru- og umhverfisverðlaun. Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru þau veitt fyrir bókmenntaverk á norrænu tungumáli. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á norrænum bókmenntum. Sænski rithöfundurinn Eva Ström hlaut verðlaunin 2003 fyrir bókina Rifbeinsborgirnar. Bókin skiptist í þrjá meginkafla og í henni eru bæði ljóð og ljóðrænir textar í óbundnu máli. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars að skáldskapur Evu Ström hafi skýr sérkenni í sænskri ljóðagerð. Hún sé undanfari yngri kynslóðar ljóðskálda og kanni mörk tungumálsins og notkunarmöguleika orðanna.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt árlega, annað árið til tónskálda og hitt árið til tónlistarflytjenda. Samíski listamaðurinn Mari Boine hlaut verðlaunin 2003. Síðastliðna áratugi hefur nýjum kynslóðum tónlistarmanna og tónskálda tekist að endurnýja tónlist Sama með djarflegri tilraunastarfsemi og þar hefur Mari Boine verið í fararbroddi. Það er ekki auðvelt að setja tónlist hennar á ákveðinn bás. Undirstaðan er samískt joik, en auðveldlega má greina áhrif afrískra ryþma, heimstónlistar og rokk-fönks.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norðurlandaráð veitti árlega náttúru- og umhverfisverðlaun. Verðlaunin á að veita einstaklingi sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða hópi fólks, samtökum, fjölmiðlum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hefur í störfum sínum tekist að sýna náttúrunni tillitssemi. Finnsku samtökin Luonto-Liitto hlutu náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2003 fyrir starf samtakanna með börnum og ungu fólki, fyrir námsefni þeirra í umhverfisfræðslu og fyrir framlag þeirra til sjálfbærrar skógræktar.
    Framangreind verðlaun Norðurlandaráðs nema 350.000 dkr.

5.     Sameiginlegir fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kemur að jafnaði saman til nefndafunda fjórum sinnum á ári til þess að vinna þær tillögur og þau mál sem lögð eru fyrir Norðurlandaþing. Í tengslum við þessa nefndarfundi fara fram stuttir sameiginlegir fundir alls ráðsins þar sem eitthvert eitt efni er tekið fyrir.

5.1.     Febrúarfundur Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    Á sameiginlegum fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi var formennskuáætlunin „Norðurlöndin sem heild“ kynnt og hafði Berit Andnor, norrænn samstarfsráðherra Svíþjóðar, framsögu. Það er ný hefð í Norðurlandaráði að halda febrúarfundina í því landi sem tekið hefur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Hugsunin að baki því er sú að gefa norrænum samstarfsráðherra formennskulandsins færi á að kynna formennskuáætlunina í grófum dráttum, auk þess sem málefnanefndir Norðurlandaráðs eigi kost á að funda nánar með einstökum fagráðherrum um áherslur formennskulandsins á afmarkaðri sviðum. Í áætluninni er hugtakið samþætting (integration) lykilorð og er lögð áhersla á samþættingu Norðurlanda á fjórum sviðum: aðlögun nýbúa að norrænum samfélögum; hefðbundna norræna samvinnu og yfirstandandi átak gegn landamærahindrunum; samræmingu á samskiptum við Eystrasaltsríkin; og samræmingu á stefnu Norðurlandanna í evrópsku samstarfi.
    Andnor gerði sérstaklega grein fyrir áherslum á samþættingu innan landanna. Þar er átt við virka þátttöku og áhrif nýbúa á stjórnmál, efnahagslíf, félagsmál og menningu. Andnor lagði áherslu á að í nútímaþjóðfélögum geti fjölbreytileg menning og uppruni þegnanna verið skapandi kraftur. Að sögn Andnor er forsenda aðlögunar sú að fólk beri gagnkvæma virðingu fyrir mismunandi menningu svo framarlega sem ekki er vegið að lýðræðislegum gildum. Aðlögun nýbúa væri mikilvægt verkefni þar sem Norðurlandaþjóðirnar gætu lært af reynslu hver annarrar hvað móttöku nýbúa varðar. Bæði af mistökum sem gerð hefðu verið sem og því sem vel hefur tekist. Þar mætti til dæmis nefna hlutdeild og þátttöku nýbúakvenna í norrænum þjóðfélögum og hvernig norræn samfélög hefðu spornað gegn félagslegum aðskilnaði nýbúa í sérstökum íbúðarhverfum. Einnig ræddi Andnor um aðlögun nýbúa á vinnumarkaði og benti á að atvinna leiddi til aukinnar þátttöku í þjóðfélaginu almennt. Hún benti á að nýbúar byggju oft yfir verðmætri starfshæfni sem kæmi sér vel á Norðurlöndum þar sem meðalaldur almennings breyttist, eldra fólki fjölgaði hlutfallslega og skortur yrði á vinnuafli. Í umræðum eftir ræðu Andnor kvaddi Sigríður Jóhannesdóttir sér hljóðs og greindi frá Nordmål-ráðstefnu um tungumálakennslu nýbúabarna sem hún sótti. Þar voru m.a. kynnt forrit til tungumálakennslu með aðstoð tölvu og beindi Sigríður því til ráðherrans að Norræna ráðherranefndin kannaði hvernig nýta mætti nýjustu upplýsingatækni til tungumálakennslu og þar með hraðari aðlögunar nýbúa.
    Umhverfisráðherra Svíþjóðar, Lena Sommestad, gerði því næst grein fyrir formennskuáherslum Svía á sviði samskipta við nærsvæði Norðurlanda, einkum Eystrasaltsríkin, auk stefnu í umhverfismálum. Sommestad sagði að í samræmi við heildræna stefnu Norðurlanda í umhverfismálum frá 2001 sem kynnt var í skýrslunni „Sjálfbær þróun – ný stefna fyrir Norðurlönd“ mundu Svíar m.a. leggja sérstaka áherslu á umhverfismál í samskiptum við Eystrasaltsríkin. Steingrímur J. Sigfússon tók til máls og sagðist í meginatriðum ánægður með stefnuna um sjálfbæra þróun en tók þó fram að hvað varðaði sjálfbæra nýtingu sjávarspendýra væri hann og sænski ráðherrann á öndverðum meiði. Varðandi nærsvæðasamstarf við Eystrasaltsríkin minnti Steingrímur á að við inngöngu ríkjanna í ESB mundi samþætting á milli vinnumarkaða þeirra og vinnumarkaða Norðurlanda aukast mjög. Greindi hann frá því að efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs hefði komið á fót vinnuhópi um vinnumarkaðssamstarf við Eystrasaltsríkin og vonaðist eftir góðu samstarfi við ráðherranefndina um þau mál. Að síðustu benti Steingrímur á að nærsvæði Norðurlanda væru ekki einungis fyrir botni Eystrasaltsins heldur einnig í vestri og ekki mætti gleyma að sinna samstarfi við þau.

5.2.     Júnífundur Norðurlandaráðs í Villmanstrand.
    Á sameiginlegum fundi Norðurlandaráðs í Villmanstrand var meginþemað nærsvæðasamstarf Norðurlanda til austurs, starf að umhverfismálum innan hinnar norðlægu víddar og staða umhverfismála í Norðvestur-Rússlandi. Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og núverandi bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans, gerði grein fyrir lánveitingum stofnunarinnar annars vegar til Eystrasaltsríkjanna og hins vegar til Norðvestur-Rússlands. Lán bankans til Eystrasaltsríkjanna hófust 1992 en hafa aukist mjög frá 1999 og nema nú 563 milljónum evra. Lán hafa einkum verið veitt til orkugeirans til að fjármagna umbreytingu frá mengandi orkuvinnslu til umhverfisvænni lausna. Auk þess hefur bankinn veitt lán til uppbyggingar á sviði samgöngumála. Sagði Jón að þótt lán hefðu að mestu verið veitt til verkefna á sviði umhverfismála væru líkur á að önnur svið sæktu á nú þegar Eystrasaltsríkin væru að ganga í ESB og fyrirsjáanlegt er að samþætting vinnumarkaða þeirra og Norðurlanda muni aukast mjög. Nefndi Jón sérstaklega lagasetningu um fjármálamarkað og uppbyggingu fjármálaeftirlits sem mögulegt samstarfssvið í náinni framtíð þar sem Norðurlönd gætu aðstoðað Eystrasaltsríkin. Lán til Rússlands eru einnig mest á sviði umhverfismála og eru sum þeirra veitt til verkefna hinnar norðlægu víddar. Sorpeyðing í Kalíningrad, mengunarvarnir fyrir nikkelverksmiðju í Múrmansk eru dæmi um slík verkefni en líklegt er að lán til að bæta kjarnorkuöryggi og öryggi við vinnslu og geymslu geislavirks úrgangs aukist á næstu árum.
     Berit Andnor, norrænn samstarfsráðherra Svíþjóðar, lagði áherslu á að allar fagráðherranefndirnar hefðu nú hver á sínu sviði mál á dagskrá sem varða samstarf Norðurlanda og Eystrasaltslandanna. Þar sem margir aðrir kæmu að samstarfi á svæði hinnar norðlægu víddar, svo sem Barentsráðið, Eystrasaltsráðstefnan og Norðurskautsráðið, væri einkar mikilvægt að þessir aðilar hefðu samráð um verkefni og verkaskiptingu til að fara betur með takmörkuð fjárráð og forðast tvíverknað. Þetta hefði verið sérstök áhersla Norrænu ráðherranefndarinnar í hugmyndaframlagi sínu til ESB vegna framkvæmdaáætlunar hinnar norðlægu víddar 2003–2006 en ráðherranefndin er nú opinber samstarfsaðili ESB um stefnuna.
    Harro Pitkänen, framkvæmdastjóri NEFCO, Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins, greindi frá starfsemi félagsins á nærsvæðunum en meginmarkmið þess er að stuðla að umhverfisbótum í löndum Mið- og Austur-Evrópu. NEFCO kemur að verkefnum með því að leggja til fjármagn í formi lána eða hlutafjár í lítil eða meðalstór fyrirtæki. Verkefni sem NEFCO hefur stutt á nærsvæðunum hafa einkum verið á sviði orkumála og til að tryggja gæði neysluvatns. NEFCO fjármagnar að hámarki 25% af kostnaði einstakra verkefna sem félagið vinnur á eigin vegum eða innan svæðisbundinna samstarfsáætlana eins og hinnar norðlægu víddar, Eystrasaltsráðsins o.s.frv. Pitkänen lagði áherslu á arðsemi þess að leysa mengunarvandamál svæðisbundið og kynnti útreikninga þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að tíu sinnum ódýrara væri að taka á umhverfisvanda þar sem rótin lægi í héraði en að takast á við afleiðingar hans þegar þær gerðu vart við sig á Norðurlöndum.
    Per Unckel, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, ræddi örar breytingar og framþróun í Eystrasaltsríkjunum og taldi að brátt yrði hætt að líta á svæðið sem nærsvæði sem þyrfti aðstoð, heldur yrðu ríkin samstarfsaðilar Norðurlanda á jafnréttisgrundvelli. Því næst gaf hann stutt yfirlit um norðlægu víddina í norrænu samhengi. Hin norðlæga vídd er stefnurammi ESB um svæðasamstarf á nyrstu landamærum sambandsins. Stefnan tekur til Eystrasaltsins, norðurheimskautssvæðisins og Norðvestur-Rússlands og hefur markmiðið verið að auka samstarf ESB og umsóknarlandanna á svæðinu auk Rússlands. Stefnan tekur tillit til sérstakra svæðisbundinna aðstæðna svo sem hins kalda loftslags, strjálbýlis á stórum landsvæðum, mikils munar á lífsgæðum o.s.frv. Markmið stefnunnar er að tryggja stöðugleika og öryggi á svæðinu og taka sérstaklega á hvers kyns umhverfisvá. Fyrsta framkvæmdaáætlun hinnar norðlægu víddar 2000–2003 var stefnurammi ESB sem leitaðist við að skilgreina markmið og samræma framkvæmdir margra gerenda innan svæðisins. Þegar önnur framkvæmdaáætlun hinnar norðlægu víddar sem gilda á 2004–2006 var í vinnslu var samstarfsaðilum boðið að senda inn tillögur. Norræna ráðherranefndin sendi framkvæmdastjórn ESB skýrslu í mars 2003 og forsætisnefnd Norðurlandaráðs lýsti síðar stuðningi sínum við það framlag þar sem sérstök áhersla er lögð á samráð og skýra verkaskiptingu. Breytingin frá fyrri framkvæmdaáætlun er stærst sú að nú snýst stefnan fyrst og fremst um samstarf við Norðvestur-Rússland enda ganga Eystrasaltsríkin í ESB 1. maí 2004.
    Auk þess eru Kalíningrad og norðurskautssvæðið tilgreind sem áherslusvæði í áætluninni. Hvað varðar áherslu Norrænu ráðherranefndarinnar á skýra verkaskiptingu þá kvað Unckel það ljóst að sérþekking ráðherranefndarinnar væri mest á sviði umhverfismála og að kröftum yrði beint að starfi á því sviði þótt einnig verði starfað á öðrum sviðum áætlunarinnar.
    Að loknu erindi Unckels var nokkur umræða um fjármögnun norðlægu víddarinnar og kom fram að það eru ýmsum nokkur vonbrigði að ekki stendur til að söðla um og veita sérstaka fjárveitingu í fjárlögum ESB til hinnar norðlægu víddar við gildistöku nýrrar framkvæmdaáætlunar heldur munu verkefni á hennar vegum áfram sækja styrki til sjóða sambandsins eins og Tacis, Phare og Interreg.

6.     Fjórði sameiginlegi fundur Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins.
    Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið héldu fjórða sameiginlega fund sinn í Lundi 27.–29. apríl. Fyrri fundir voru haldnir í Vilnius árið 1996, Helsinki árið 1999 og Riga árið 2001. Hefð hefur komist á að halda sameiginlega fundi annað hvert ár til skiptis á Norðurlöndum eða í Eystrasaltsríkjunum. Meginþemu fundarins í Lundi voru barátta gegn skipulagðri glæpastarfsemi, friðargæsla og öryggismál, og byggðastefna ESB. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Sigríður Jóhannesdóttir varaformaður, Sigríður A. Þórðardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara Íslandsdeildar.
    Alþjóðlegir skipulagðir glæpir á Eystrasaltssvæðinu, svo sem mansal, verslun með eiturlyf og peningaþvætti, eru ógn gegn lýðræðinu og hinu opna samfélagi og því ber að berjast gegn þeim með öllum tiltækum ráðum. Lene Espersen, dómsmálaráðherra Dana, hafði framsögu í umræðunni um skipulagða glæpastarfsemi og ræddi um hið nána lögreglusamstarf Norðurlanda og hvernig þau hafa sameinast um að senda lögreglumenn til Eystrasaltsríkjanna sem tengiliði við þarlend lögregluyfirvöld. Hún nefndi einnig dæmi um tvíhliða samstarf lögregluyfirvalda í Eystrasaltsríkjunum og Danmörku við rannsókn brotamála. Espersen sagði sölu kvenna og barna til vændis einhverja ógeðfelldustu birtingarmynd skipulagðrar glæpastarfsemi á Eystrasaltssvæðinu og gerði grein fyrir því að dönsk lögregla hefur gert baráttuna gegn mansali að forgangsmáli. Danska þingið hefur nýlega samþykkt viðauka við hegningarlögin um mansal og er þar farið eftir sáttmála Sameinuðu þjóðanna um mansal og rammasamþykkt ESB um sömu mál. Í desember 2002 lagði danska stjórnin, fyrst norrænna ríkisstjórna, fram sérstaka framkvæmdaáætlun gegn mansali sem felur í sér fyrirbyggjandi starf og ýmsar aðgerðir sem beinast að því að hjálpa fórnarlömbunum.
    Maris Gulbis, innanríkisráðherra Lettlands, flutti einnig framsöguræðu og gerði grein fyrir umbótum innan lögreglunnar í Lettlandi en spillingarhneyksli höfðu dregið úr tiltrú almennings á hana. Hann gerði jafnframt grein fyrir vaxandi eiturlyfjaneyslu og fjölgun glæpa í landinu og varaði við því að við opnun landamæra eftir inngönguna í ESB væri líklegt að glæpahringir mundu reyna að nýta ný tækifæri. Þó væri inngangan í ESB mikilvægt skref í baráttunni gegn glæpastarfsemi til lengri tíma því að hún mundi stuðla að efnahagslegum framförum sem draga úr atvinnuleysi, efla menntakerfið og draga úr spillingu en félagsleg vandamál sem þessi mynda þann jarðveg sem glæpastarfsemin sprettur úr.
    Sigríður A. Þórðardóttir tók þátt í umræðunni og lagði áherslu á að alþjóðleg samvinna væri lykillinn að árangri í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi. Í því sambandi væri mikilvægt að ríkisstjórnir ynnu að samræmingu hegningarlöggjafar og einfölduðu lögreglusamvinnu á milli landa. Nefndi Sigríður sérstaklega lögreglusamstarfið innan Schengen sem Eystrasaltsþjóðirnar verða aðilar að við inngöngu í ESB 1. maí 2004. Í ljósi reynslunnar, sem sýnir að opnum landamærum fylgja aukin umsvif glæpasamtaka milli landa, var Schengenkerfið hannað með það fyrir augum að styrkja samvinnu lögreglu og tollvörslu aðildarlandanna um leið og kerfið greiddi fyrir frjálsu flæði fólks. Þau upplýsingakerfi og stofnanir sem komið hefur verið á fót í Schengenkerfinu hafa stórbætt samstarfsmöguleika lögreglu á þessu sviði en þó lagði Sigríður áherslu á það að samhliða því yrðu löndin við Eystrasalt að efla löggæslu heima fyrir til þess að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
    Rannveig Guðmundsdóttir flutti eina af framsöguræðunum um friðargæslu og öryggismál. Hún lagði áherslu á að í hinu breytta öryggisumhverfi sem þróast hefur eftir lok kalda stríðsins duga hefðbundnar aðferðir eins og fælingar- eða einangrunarstefna skammt til að tryggja friðinn. Nýjar ógnir sem geta stuðlað að óstöðugleika eða jafnvel falli ríkja spanna allt frá náttúruhamförum til hryðjuverka og borgarastríðs og því þarf nýjar lausnir til. Norðurlönd hafa verið í fararbroddi við að þróa aðgerðir til að fyrirbyggja átök, borgaralega jafnt sem hernaðarlega friðargæslu, uppbyggingarstarf og friðarumleitanir á átakasvæðum. Norðurlönd hafa gott orðspor í alþjóðasamfélaginu sem óháður aðili sem getur komið að átökum stríðandi fylkinga án þess að vera tortryggð fyrir að gæta einhverra sérhagsmuna. Norðurlandaráð samþykkti árið 2001 tilmæli til norrænu ríkisstjórnanna um að auka formlegt samstarf á sviði borgaralegrar friðargæslu og aðgerða til að fyrirbyggja átök. Tók Rannveig dæmi um friðarferlið á Sri Lanka þar sem Norðmenn leiða samningaviðræður stríðandi aðila en sérstök friðargæslusveit sem öll Norðurlöndin taka þátt í fylgist með framkvæmd friðarsamninganna. Rannveig ræddi enn fremur samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á sviði borgaralegs öryggis en það felur m.a. í sér björgunarsamstarf og viðbúnað vegna stórslysa í Eystrasaltinu og stórar æfingar eins og Nordic Peace og Barents Peace sem beinast að friðargæslu og björgunarstarfi.
    Í umræðu um Evrópumál lýsti Berit Andnor, norrænn samstarfsráðherra Svíþjóðar, væntingum sínum um aukið samstarf á milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna eftir að þau síðarnefndu ganga í ESB 1. maí 2004. Náið samstarf síðasta áratuginn og lega ríkjanna hefur leitt til þess að þjóðirnar við Eystrasaltið hafa svipaða sýn í mörgum málaflokkum ESB. Með samráði og samstöðu ættu Norðurlönd og Eystrasaltsríkin hægara með að ná fram sameiginlegum hagsmunamálum á vettvangi ESB. Minntist Andnor sérstaklega á hina norðlægu vídd, stefnuramma ESB gagnvart grannsvæðum í norðri, og skýrði frá þátttöku Norrænu ráðherranefndarinnar við gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar hinnar norðlægu víddar sem á að gilda 2004–2006. Þar færu hagsmunir Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna saman en í drögunum að hinni nýju framkvæmdaáætlun er aðaláhersla lögð á samstarfsverkefni við Norðvestur-Rússland með það að markmiði að tryggja stöðugleika og öryggi á svæðinu og taka sérstaklega á hvers kyns umhverfisvá.
    Nokkur umræða skapaðist um byggðastefnu og þróunarsjóði ESB og hvernig styrkjum verður veitt úr sjóðunum eftir stækkun sambandsins. Danski þingmaðurinn Ole Stavad hélt því fram að enn væri þörf á byggðastyrkjum á Norðurlöndum, en löndin yrðu í framtíðinni að veita hana sjálf. Óviðeigandi væri að Norðurlönd hlytu áfram styrki frá ESB því að mikilvægara væri að standa saman um það á Norðurlöndum að styrkja uppbyggingu í nýjum aðildarríkjum. Í áframhaldandi umræðu um vanþróuð svæði tók Sigríður Jóhannesdóttir til máls og lagði áherslu á að styrkja grasrótarstarf utan hins hefðbundna opinbera starfs. Norðurlönd ættu að koma á sambandi við frjáls félagasamtök á illa stæðum svæðum í Rússlandi og styrkja þau til góðra verka. Þetta mætti t.d. gera í Kalíningrad.
    Í lokayfirlýsingu fundarins í Lundi segir að stækkun Evrópusambandsins muni leiða til nýrra samstarfsmöguleika í Evrópu. Norðurlönd og Eystrasaltsríkin hafi mikilvægu hlutverki að gegna í Norður-Evrópu og saman geti þau verið málsvari smáríkja í Evrópusambandinu. Samstarf ríkjanna átta geti líka verið drifkraftur fyrir annað svæðasamstarf innan Evrópusambandsins. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að ríkin taki höndum saman í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi, spillingu og verslun með konur og börn til að tryggja áframhaldandi lýðræðisþróun og velferð. Umhverfisvernd, einkum verndun Eystrasaltsins, og viðbrögð við neyðarástandi og hryðjuverkum eru einnig verkefni sem setja verður í forgang í samstarfi ríkjanna. Jafnframt er kveðið á um að ríkin vinni saman innan hinnar norrænu víddar í Evrópusambandinu til að auka áhrif smáríkja.
    
7.     55. þing Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð hélt sitt 55. þing í Ósló dagana 27.–29. október. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Jónína Bjartmarz formaður, Sigríður A. Þórðardóttir, Drífa Hjartardóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, auk Stígs Stefánssonar, ritara Íslandsdeildar.
    Við upphaf almennra umræðna eftir þingsetningu 27. október kynnti Davíð Oddsson forsætisráðherra formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, „Auðlindir Norðurlanda – Lýðræði, menning, náttúra“. Steingrímur J. Sigfússon veitti andsvar við ræðu forsætisráðherra og hvatti til þess að Ísland tæki umsókn Færeyinga um sjálfstæða aðild Færeyja að Norðurlandaráði upp á sína arma og leitaði farsællar lausnar á málinu. Forsætisráðherra svaraði því til að málefni Færeyja bæri að leysa á vettvangi landanna tveggja, Færeyja og Danmerkur, og að hann teldi ekki jákvætt fyrir þróun málsins að aðrar þjóðir blönduðu sér í það á þessu stigi. Síðar í hinum almennu umræðum hélt Steingrímur ræðu og sagði að vegna þeirrar afstöðu Dana að sjálfstæð aðild Færeyja að Norðurlandaráði samræmdist ekki þjóðréttarlegri stöðu þeirra samkvæmt dönsku stjórnarskránni mætti hugsa sér tvær lausnir á málinu. Annars vegar kæmi til greina breyting á stjórnarskránni en slíkt væri tímafrekt verk og vandasamt sem gæti tafið málið um of. Hinn kosturinn væri að breyta Helsinkisáttmálanum frá 1962, grunnsamningi norræns samstarfs, þannig að hægt væri að koma til móts við óskir Færeyinga án þess að það bryti í bága við dönsku stjórnarskrána.
    Sigríður A. Þórðardóttir tók einnig þátt í almennum umræðum og fagnaði ákvörðun norrænu forsætisráðherranna um að bjóða Eystrasaltsríkjunum aðild að Norræna fjárfestingarbankanum. Minnti Sigríður á það að hugmynd þess efnis hefði fyrst komið fram í skýrslu vísramannahópsins sem unnin var fyrir Norrænu ráðherranefndina árið 2000. Það var um sama leyti og flokkahópur hægrimanna innan Norðurlandaráðs lagði fram tillögu um að Eystrasaltsríkjunum yrði boðin aðild að Norðurlandaráði. Sú tillaga hlaut ekki brautargengi en Sigríður sagði það sérlega gleðilegt að styrkja samstarfið við Eystrasaltsríkin nú með því að bjóða þeim aðild að Norræna fjárfestingarbankanum á jafnréttisgrundvelli. Það væri rökrétt í ljósi óska Norðurlanda um aukið samstarf við Eystrasaltsríkin í Evrópumálum eftir að þau verða orðin aðilar að ESB 1. maí 2004.
    Málefni sem varða landamærahindranir á Norðurlöndum voru í brennidepli á þinginu og annan dag þingsins, 28. október, var sérstök umræða um þau. Landamæralaus Norðurlönd komust á dagskrá árið 2002 með rannsókn Ole Norrbacks á réttarstöðu Norðurlandabúa þegar þeir flytjast á milli Norðurlanda en Norræna ráðherranefndin bað um rannsóknina. Alls búa um 300.000 Norðurlandabúar annars staðar á Norðurlöndum en í heimalandi sínu. Rannsókn Norrbacks sýndi að stórum landamærahindrunum hefur enn ekki verið rutt úr vegi. Dæmi um þetta eru skattavandamál fólks sem sækir vinnu sína yfir landamæri, sköttun lífeyrisgreiðslna sem greiddar eru yfir landamæri, tregða við að viðurkenna gagnkvæm starfsréttindi o.fl. Norræna ráðherranefndin réð Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Dana, til að hafa umsjón með starfi til afnáms þessara hindrana á árinu 2003. Flutti Schlüter skýrslu sína á þinginu og greindi frá árangri sem náðst hefði m.a. varðandi tollamál, gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda, viðurkenningu á íslenskri nafnahefð í Svíþjóð og nánara samstarf þjóðskráa Norðurlanda sem tryggir að þeir sem flytjast á milli landanna fá nýja kennitölu eins fljótt og unnt er. Í umræðunum sem á eftir fylgdu kom fram að enn er mikið verk óunnið við að ryðja landamærahindrunum úr vegi og að Schlüter mun halda áfram starfi sínu í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2004.
    Málefni Vestur-Norðurlanda voru einnig í brennidepli á þinginu og var sérstök umræða um þau. Siv Friðleifsdóttir, samstarfsráðherra Norðurlanda, hóf umræðuna og kynnti skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um stöðu Vestur-Norðurlanda í norrænu samstarfi. Í skýrslunni er m.a. mikil áhersla lögð á grannsvæðastefnu Norðurlanda til vesturs sem felur í sér samstarf við ey- og strandríki við norðanvert Atlantshaf um umhverfi hafsins og önnur sameiginleg hagsmunamál.
    Jónína Bjartmarz tók þátt í umræðunni sem talsmaður flokkahóps miðjumanna og benti á að gríðarlegur landfræðilegur munur væri á Norðurlöndum frá ísbreiðum Grænlands til hveitiakra Danmerkur og að það væri fyrst og síðast samkennd sem væri grundvöllur norræns samstarfs. Í þessari samkennd fælist að þjóðirnar viðurkenndu þennan mikla mun og byggðu þrátt fyrir hann upp samstarf á ólíkum sviðum. Jónína þakkaði ráðherranefndinni fyrir skýrsluna og fagnaði sérstaklega hugmyndum um grannsvæðastefnu í vestur um umhverfi hafsins. Umhverfismál í hafi væru óháð landamærum og því væri það sérstakt hagsmunamál allra landa við Norður-Atlantshaf sem nýta auðlindir hafsins að eiga samstarf til að tryggja að hægt sé að stunda þá nýtingu áfram á sjálfbæran hátt. Sigríður A. Þórðardóttir, talsmaður flokkahóps hægrimanna, tók undir mikilvægi þess að ráðherranefndin beini sjónum sínum að Vestur-Norðurlöndum og að áhersla yrði lögð á samvinnu um umhverfi hafsins og nýtingu auðlinda þess. Sigríður lýsti jafnframt vonbrigðum sínum með skilningsleysi norrænna vinaþjóða gagnvart hvalveiðum Vestur-Norðurlanda þrátt fyrir að þær færu fram á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir flokkahóp vinstrisósíalista og grænna og lýsti sig ánægðan með skýrsluna og hve málefni Vestur-Norðurlanda verða ofarlega á baugi í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Steingrímur nefndi sérstaklega hugmyndir um heildstæða úttekt á samgöngumálum Vestur-Norðurlanda sem taki jafnt til flug- og skipasamgangna og hvatti til þess að slík úttekt yrði gerð. Þá sagði Steingrímur aukið vægi Vestur-Norðurlanda í norrænu samstarfi geta verið brú til aukins sjálfstæðis fyrir Grænland og Færeyjar. Rannveig Guðmundsdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs í þingmannanefnd um norðurskautsmál, tók einnig þátt í umræðunni og minnti á að það er mikil tenging á milli málefna norðurskautsins og Vestur-Norðurlanda, sérstaklega í umhverfismálum. Loftslagsbreytingar væru mun hraðari á norðurskautssvæðinu en annars staðar í heiminum og segja mætti að breytingar þar gæfu vísbendingar um það við hverju mætti búast á öðrum svæðum á næstu áratugum. Þetta gæfi einstaka möguleika til þess að rannsaka og spá fyrir um þróun loftslagsbreytinga.
    Í umræðum um vinnumarkaðsmál kvaddi Steingrímur J. Sigfússon sér hljóðs og ræddi viðhorf flokkahóps vinstrisósíalista og grænna til vinnumarkaðssamstarfs við Eystrasaltsríkin en flokkahópurinn hafði frumkvæði að því að vinnuhópur var stofnaður til að fjalla um málið innan efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs. Sagði Steingrímur að flokkahópurinn teldi það sérlega mikilvægt hlutverk Norðurlanda að aðstoða Eystrasaltslöndin við það að byggja upp, þróa og skipuleggja vinnumarkaði sína. Að sjálfsögðu yrði slíkt samstarf að fara fram á þeim forsendum sem Eystrasaltsríkin teldu heillavænlegust. Ef ríkin telja að hið þróaða norræna líkan þar sem jafnræði ríkir með aðilum vinnumarkaðarins sé eftirsóknarvert beri að styðja verkefni og framkvæmdaáætlanir í þá veru. Í því sambandi væri einkum fýsilegt að styðja samtök aðila vinnumarkaðarins á Norðurlöndum til að koma á samstarfi og samstarfsverkefnum með systursamtökum sínum í Eystrasaltslöndunum.
     Sérstök umræða var um vændi og mansal enda lágu þrjár tillögur þar að lútandi fyrir þinginu. Var nokkuð tekist á um það hvort Norðurlönd ættu samleið í baráttunni gegn vændi og hvöttu sænskir þingmenn til þess að fleiri þjóðir tækju upp hina svokölluðu „sænsku leið“ og gerðu vændiskaup refsiverð. Jónína Bjartmarz tók þátt í umræðunni og sagði að á liðnum árum hefði framboðið á ungum konum og börnum sem seld væru mansali frá Austur-Evrópu til kynlífsþrælkunar á Vesturlöndum aukist stórlega. Norðurlönd væru í fararbroddi í heiminum í jafnréttis- og velferðarmálum og því væri það skylda Norðurlanda að fara fyrir í baráttu alþjóðasamfélagsins gegn þessu meini. Sagðist Jónína styðja „sænsku leiðina“ í baráttunni gegn vændi og vonast til að aukin samstaða næðist um hana í náinni framtíð. Að lokum upplýsti Jónína þingið um það að lagafrumvarp byggt á „sænsku leiðinni“ hefði verið lagt fram á Alþingi.
    Í umræðum um heilbrigðismál var lögð fram tillaga velferðarnefndar Norðurlandaráðs um aðgerðir gegn misnotkun áfengis og ólöglegra vímuefna. Drífa Hjartardóttir kvaddi sér hljóðs og sagði greinilega kosti við að vinna sameiginlega gegn vímuefnum og skiptast á upplýsingum milli landanna um vænlegar leiðir í baráttunni við vandann. Þegar fíkniefni eru annars vegar væri enn fremur mjög mikilvægt að einblína ekki um of á þéttbýli eins og fjölmiðlar hafa tilhneigingu til, væntanlega vegna fleiri sýnilegra misnotenda og alvarlegri ofbeldisverka. Mikilvægt væri að muna eftir landsbyggðinni og skiptast ekki síður á upplýsingum um tilraunaverkefni gegn fíkniefnum sem gefa góða raun í smærri bæjum.     
    Þriðji og síðasti þingdagur, 29. október, hófst á utanríkismálaumræðu þar sem utanríkisráðherrar Norðurlanda fluttu skýrslur sínar. Í þeirri umræðu var Rannveig Guðmundsdóttir talsmaður forsætisnefndar Norðurlandaráðs um friðargæslu og aðgerðir til að fyrirbyggja átök. Rannveig lagði áherslu á að í kjölfar ófriðar væru samfélög manna sundruð og að átök síðasta árs sýndu fram á mikilvægi friðargæslu og borgaralegs uppbyggingarstarfs. Rannveig vísaði til skýrslu Norðurlandaráðs um þessi mál og tilmæla 30/2001 til ráðherranefndarinnar um að efla norrænt samstarf á sviði borgaralegrar friðargæslu og um aðgerðir til að fyrirbyggja átök. Þakkaði Rannveig góð viðbrögð ríkisstjórnanna við tilmælum ráðsins og lagði jafnframt áherslu á að á átakasvæðum kæmist varanlegur friður ekki á nema með öflugri borgaralegri uppbyggingarstarfsemi og í því starfi gætu Norðurlönd verið öðrum fyrirmynd.
    Steingrímur J. Sigfússon tók einnig þátt í utanríkismálaumræðunni og lýsti þeirri skoðun flokkahóps vinstrisósíalista og grænna að hernaðaríhlutanir væru neyðarúrræði til að gera út um alþjóðleg deilumál og slíkar íhlutanir ættu aldrei að fara fram á skjön við alþjóðalög eða stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Kvað Steingrímur það mikil vonbrigði að tvö norræn lönd, Danmörk og Ísland, sem hingað til hefðu stutt Sameinuðu þjóðirnar dyggilega, hefðu leiðst út í að styðja einleik Bandaríkjanna og Bretlands í Írak í trássi við alþjóðasamfélagið. Þá lýsti Steingrímur andstöðu við uppbyggingu aðskilnaðarmúrs Ísraelsstjórnar gagnvart Palestínumönnum og óttaðist að bygging múrsins gæti aukið ófrið á svæðinu fremur en hitt.
    Jónína Bjartmarz gerði stöðu kvenna og barna á átakasvæðum að umræðuefni í sinni ræðu og minnti á að eins konar vakning hefði átt sér stað varðandi neyð kvenna og barna eftir þjóðarmorð, þjóðernishreinsanir, skipulegar nauðganir og annan hrylling sem átti sér stað á Balkanskaganum á síðasta áratug. Vitnaði Jónína til skýrslu Elisabet Rehn og Ellen Johnson Sirleaf, „Konur, stríð og friður“, sem tekin var saman að frumkvæði UNIFEM. Þar er dregin upp dökk mynd af aðstæðum kvenna og barna á átakasvæðum og því hroðalega ofbeldi sem þau þurfa að þola. Jónína benti á að Norðurlönd stæðu framarlega í friðargæslustörfum auk þess sem þau væru sá heimshluti sem lengst væri kominn í jafnréttismálum. Af þessum sökum hefðu Norðurlönd líklega betri forsendur en nokkur önnur ríki til að setja verndun og málefni kvenna og barna á oddinn í sínu friðargæslustarfi. Hvatti Jónína til þess að það yrði gert og lagði jafnframt áherslu á að Norðurlönd tækju forustu um að auka hlut kvenna í sveitum friðargæsluliða.
    Sjálfbær nýting náttúruauðlinda var tekin til sérstakrar umræðu á þinginu. Sigurður Kári Kristjánsson tók til máls og taldi að ósamræmi væri í því að Norðurlönd berðu sér á brjóst og teldu sig í fararbroddi hvað varðar sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda en um leið virtust sum löndin vera á móti sjálfbærri nýtingu sjávarspendýra. Sigurður sagði vandamálin varðandi hvalveiðar flókin en ef reynt væri að einfalda málið eins og frekast er unnt þá stæði eftir spurningin um það hvort ekki ættu að gilda sömu reglur um nýtingu auðlinda sjávar og um nýtingu annarra auðlinda. Fyrir þjóðir sem væru háðar nýtingu sjávarauðlinda væri það óþolandi að aðrar kröfur væru gerðar til veiða í hafi en veiða á landi. Í báðum tilfellum hlyti grundvallarreglan að vera sú að maðurinn hefði rétt til nýtingar á villtum dýrastofnum svo lengi sem það væri gert á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Þetta hlyti að vera grunnkrafa gagnvart öllum veiðum hvort sem um væri að ræða hvalveiðar í Norður-Atlantshafi eða veiðar á elg og dádýrum á landi í Skandinavíu.
    Í menningarmálaumræðu þingsins mælti Ásta R. Jóhannesdóttir sem talsmaður menningar- og menntamálanefndar fyrir tillögu um að stofna kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Sagði Ásta hin nýju verðlaun falla vel að og styrkja þau menningarverðlaun sem fyrir eru á sviði bókmennta og tónlistar og kvað tímabært að bæta kvikmyndamiðlinum við enda óumdeilt að Norðurlönd stæðu mjög framarlega í kvikmyndagerð. Innan Norðurlanda mundu verðlaunin vekja athygli á norrænum kvikmyndum og norrænni menningu almennt auk þess sem þeim væri ætlað að styrkja stöðu norrænna kvikmynda á heimamörkuðum. Mikilvægast væri að kvikmyndir eru helsti afþreyingarmiðill ungs fólks og gætu aukið áhuga nýrra kynslóða á bræðraþjóðum og norrænni menningu. Utan Norðurlanda vektu hin nýju verðlaun athygli á norrænum kvikmyndum og norrænni menningu og gætu orðið til þess að auðvelda dreifingu norrænna kvikmynda á alþjóðamarkaði.
    Við þinglok miðvikudaginn 29. október fóru fram kosningar í nefndir og kjör forseta og varaforseta Norðurlandaráðs. Sama dag hafði ráðið samþykkt tillögu um að koma á embætti varaforseta Norðurlandaráðs í tvö ár í tilraunaskyni en að þeim tíma loknum yrði metið hvort fyrirkomulag með forseta og varaforseta þyki vænlegt til framtíðar. Varaforseti skal vera frá sama landi og forsetinn og leysa hann af þegar forseti getur ekki gegnt störfum sínum. Er þar einkum horft til ráðstefnu- og fundarsóknar hjá alþjóðastofnunum en mjög hefur færst í vöxt að forseti komi fram fyrir hönd ráðsins við slík tækifæri. Forseti var kjörinn sænski þingmaðurinn Gabriel Romanus sem er í flokkahópi miðjumanna og varaforseti Anita Johansson úr flokkahópi jafnaðarmanna. Eftir kosningarnar er nefndarseta Íslandsdeildar sem hér segir: Rannveig Guðmundsdóttir og Jónína Bjartmarz halda sætum sínu í forsætisnefnd. Í efnahags- og viðskiptanefnd situr Drífa Hjartardóttir sem formaður og Steingrímur J. Sigfússon sem varaformaður. Sigríður A. Þórðardóttir situr í velferðarnefnd. Sigurður Kári Kristjánsson situr í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd sem varaformaður en auk þess á Ásta R. Jóhannesdóttir sæti í nefndinni. Sigurður Kári er jafnframt í eftirlitsnefnd.
    Næsta þing Norðurlandaráðs verður haldið í Stokkhólmi 1.–3. nóvember 2004.

Alþingi, 23. febr. 2004.



Jónína Bjartmarz,


form.


Drífa Hjartardóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.



Sigurður Kári Kristjánsson.





Fylgiskjal.

Tilmæli og ákvarðanir um innri málefni samþykkt
á 55. þingi Norðurlandaráðs (Ósló 27.–29. október 2003).


     1.      Tilmæli nr. 1/2003, um vísindaráðgjöf við ákvörðun fiskikvóta (A 1301/miljö).
     2.      Tilmæli nr. 2/2003, um stuðning við hafrannsóknastofnanir á Norðurlöndum (A 1301/ miljö).
     3.      Tilmæli nr. 3/2003, um viðskiptatengslanet (A 1318/n).
     4.      Tilmæli nr. 4/2003, um afsláttarkjör fyrir ungmenni og námsmenn (A 1325/k).
     5.      Tilmæli nr. 5/2003, um lífeyri og örorkubætur (A 1335/v).
     6.      Tilmæli nr. 6/2003, um norrænan samráðsvettvang fyrir húsgagnaiðnaðinn (A 1316/n).
     7.      Tilmæli nr. 7/2003, um eftirfylgni við norrænan sáttmála um framsækin smáfyrirtæki, frumkvöðla og sjálfstæða uppfinningamenn (A 1322/n).
     8.      Tilmæli nr. 8/2003, um vinnumarkaðsráðstefnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna (A 1332/n).
     9.      Tilmæli nr. 9/2003, um aðgerðir gegn vændi og verslun með konur (A 1317/m).
     10.      Tilmæli nr. 10/2003, um fyrirbyggjandi aðgerðir og úttekt á aðgerðum gegn vændi og verslun með konur (A 1317/m).
     11.      Tilmæli nr. 11/2003, um dreifingu kvikmyndarinnar „Lilja 4-ever“ í skóla á Norðurlöndum (A 1323/m).
     12.      Tilmæli nr. 12/2003, um dreifingu kvikmyndarinnar „Lilja 4-ever“ á grannsvæðum Norðurlanda (A 1323/m).
     13.      Tilmæli nr. 13/2003, um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sykursýki (A 1333/v).
     14.      Tilmæli nr. 14/2003, um aðgerðir gegn vímuefnum og áfengi (A 1334/v).
     15.      Tilmæli nr. 15/2003, um framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði neytendamála 2005–2008 (A 1329/m).
     16.      Tilmæli nr. 16/2003, um notkun genabreytinga í landbúnaði (A 1330/miljö).
     17.      Tilmæli nr. 17/2003, um menntunar- og rannsóknarsvæði á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum (A 1328/k).
     18.      Tilmæli nr. 18/2003, um stuðningskerfi fyrir ungmenni í stjórnmálum á Norðurlöndum og Rússlandi (A 1319/m).
     19.      Tilmæli nr. 19/2003, um framkvæmdaáætlun fyrir samstarf við Norðvestur-Rússland (A 1327/v/m/miljö).
     20.      Tilmæli nr. 20/2003, um líffræðilegan fjölbreytileika (A 1297/miljö).
     21.      Tilmæli nr. 21/2003, um umhverfisvæna orkuframleiðslu og orkuneyslu (A 1298/miljö).
     22.      Tilmæli nr. 22/2003, um öryggi umhverfisins við skipasamgöngur í Eystrasaltinu (A 1309/miljö og A 1314/miljö).
     23.      Tilmæli nr. 23/2003, um stjórn á stofnum rándýra á Norðurlöndum (A 1331/miljö).
     24.      Tilmæli nr. 24/2003, um kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs (A 1276/p).
     25.      Tilmæli nr. 25/2003, um íþróttir sem samþættandi afl á Norðurlöndum (A 1315/k).
     26.      Tilmæli nr. 26/2003, um tungumálastefnu (A 1321/k).
     27.      Tilmæli nr. 27/2003, um norræna upplestrarkeppni – vinnu með klassíska norræna rithöfunda á grunnskólastiginu (A 1326/k).
     28.      Tilmæli nr. 28/2003, um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2004 (B 219/p, C 2, C 1).
     29.      Ákvörðun um innri málefni nr. 1/2003, um skýrsluna „Breytingin frá þriggja stoða kerfi yfir í vinnu byggða á málefnanefndum“ (A 1337/kk).
     30.      Ákvörðun um innri málefni nr. 2/2003, um hlutverk Norðurlanda og norræns samstarfs í nýrri Evrópu (A 1294/p).
     31.      Ákvörðun um innri málefni nr. 3/2003, um varaforseta Norðurlandaráðs (A 1336/p).