Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 482. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1147  —  482. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2003.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti, Kolbein Árnason frá sjávarútvegsráðuneyti og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þá hélt nefndin fund með sjávarútvegsnefnd Alþingis þar sem farið var ítarlega yfir alla efnisþætti málsins.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2003 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 31. mars og 15. apríl 2003.
    Í samningnum er, líkt og í samningi sömu aðila á síðasta ári, kveðið á um að færeyskum skipum sé heimilt á loðnuvertíðinni 2003/2004 að veiða allt að 10.000 lestir af loðnu innan lögsögu Íslands úr veiðiheimildum sem fengnar eru með samningum færeyskra og grænlenskra stjórnvalda. Þá er kveðið á um gagnkvæmar heimildir skipa hvors aðila til kolmunnaveiða innan lögsögu hins á árinu 2003 og að íslenskum skipum verði heimilt að veiða allt að 1.300 lestir af makríl og 2.000 lestir af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á árinu 2003. Loks geymir samningurinn ákvæði um gagnkvæma heimild til tilraunaveiða á túnfiski innan lögsögu hvors aðila en hér er um nýmæli að ræða.
    Nefndin vekur athygli á því að áður en samningur þessi var gerður var á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2003, þ.m.t. lúðu, en ákvörðun um heildarafla var tekin af sjávarútvegsráðherra á grundvelli samningsins. Í því sambandi bendir nefndin á að samkvæmt upplýsingum sem fram komu í skriflegu svari sjávarútvegsráðherra í þskj. 897 (533. mál) er lúðustofninn í mjög slæmu ástandi og hefur lúðuafli minnkað ár frá ári og mun nú vera í sögulegu lágmarki. Þá var einnig bent á að í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar „Nytjastofnar sjávar 2002/2003 og aflahorfur fiskveiðiárið 2003/2004“ var lýst mjög slæmu ástandi stofnsins og stjórnvöldum ráðið frá því að heimila beinar veiðar á lúðu.
    Samningurinn tók gildi til bráðabirgða í apríl 2003 og telur nefndin að rétt hefði verið að leggja hann fyrir Alþingi í upphafi haustþings.
    Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 16. mars 2004.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Jónína Bjartmarz.



Drífa Hjartardóttir.


Össur Skarphéðinsson.


Steingrímur J. Sigfússon.



Einar K. Guðfinnsson.


Magnús Stefánsson.