Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 435. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1152  —  435. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um erfðafjárskatt.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  Af öllum fjárverðmætum er við skipti á dánarbúi manns hverfa til erfingja hans skal greiða skatt í ríkissjóð eftir lögum þessum, sbr. þó 18. gr.
                  Greiða skal skatt samkvæmt lögum þessum af gjafaarfi, dánargjöfum, fyrirframgreiddum arfi og gjöfum þar sem gefandi hefur áskilið sér afnot eða tekjur af hinu gefna til dauðadags eða um tiltekinn tíma sem ekki er liðinn við fráfall hans.
                  Ekki skal greiða erfðafjárskatt af lífeyrissparnaði sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda fari um skattlagningu samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                  Erfðafjárskattur er 5%.
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal engan erfðafjárskatt greiða af fyrstu 1.000.000 kr. í skattstofni dánarbús, sbr. 4. og 5. gr., og skulu erfingjar njóta skattfrelsis í hlutfalli við arf sinn. Ákvæði þetta gildir ekki um fyrirframgreiðslu arfs.
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. greiða engan erfðafjárskatt maki, einstaklingur í staðfestri samvist með arfleifanda samkvæmt lögum um staðfesta samvist og sambýlismaður sem stofnað hefur til óvígðrar sambúðar við einstakling af gagnstæðu kyni og tekur arf eftir hann samkvæmt erfðaskrá þar sem stöðu hans sem sambýlismanns arfleifanda er ótvírætt getið.
                  Nú byrja búskipti eftir lát beggja hjóna og skal þá leggja erfðafjárskatt á arf erfingjanna eins og um eitt bú sé að ræða án tillits til þess hvort erfingjar beggja hjónanna eru hinir sömu eða ekki.
     3.      3.–7. gr. falli brott.
     4.      Við 9. gr. er verði 4. gr. Greinin orðist svo:
                  Skattstofn erfðafjárskatts er heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði skv. 5. gr.
                  Með heildarverðmæti skv. 1. mgr. er átt við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna. Gildir þetta um öll verðmæti sem metin verða til fjár, þ.m.t. innbú, húsbréf, fasteignaveðbréf, verðtryggð spariskírteini ríkissjóðs, skuldabréf, hugverkaréttindi, líftryggingar, bifreiðar, aflaheimildir o.fl. Séu verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skal telja þau til eignar á kaupgengi eins og það er skráð við síðustu lokun markaðar fyrir andlát arfleifanda. Ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði


Prentað upp.

        skal miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags. Inneignir hjá bönkum, sparisjóðum eða öðrum innlánsdeildum og óskráð skuldabréf, sem og aðrar inneignir og útistandandi kröfur, skulu taldar að meðtöldum áföllnum vöxtum og/eða verðbótum.
                  Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal skattstofn eigna samkvæmt þessari málsgrein vera eftirfarandi:
                  a.      Þegar verðmæti annað en fasteign hefur verið selt nauðungarsölu skal miða við uppboðsandvirði þess.
                  b.      Fasteignir skulu taldar á fasteignamatsverði eins og það er skráð hjá Fasteignamati ríkisins á dánardegi arfleifanda. Af leigulóðarréttindum skal einnig greiða erfðafjárskatt með sama hætti. Nú er eignarréttur að fasteign háður kvöð um innlausnarrétt tiltekins aðila og skal þá leggja erfðafjárskatt á innlausnarverð sé það lægra en fasteignamatsverðið.
                     Sé almennt markaðsverðmæti fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð eignarinnar er erfingjum heimilt að óska eftir mati skv. 17.–23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Er þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið, enda fylgi matsgjörð, ekki eldri en fjögurra vikna gömul, erfðafjárskýrslu. Að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla laga nr. 20/1991 um mat samkvæmt þessum staflið.
                  c.      Búpeningur skal talinn á því verði sem lagt er til grundvallar síðustu álagningu opinberra gjalda fyrir dánardag arfleifanda.
     5.      Við 10. gr. er verði 5. gr. Í stað „9. gr.“ komi: 4. gr.
     6.      Við 12. gr. er verði 7. gr.
                  a.      3. mgr. orðist svo:
                     Þegar sýslumaður hefur yfirfarið erfðafjárskýrslu og telur hana fullnægjandi skal hann ákvarða erfðafjárskatt hvers erfingja, árita skýrsluna og tilkynna það hverjum erfingja fyrir sig.
                  b.      Í stað orðsins „gjaldstofn“ í 1. málsl. 4. mgr. komi: skattstofn.
     7.      Við 15. gr. er verði 10. gr. 1. málsl. 1. mgr. orðist svo: Telji skattstjóri að eignir séu ekki réttilega taldar fram í erfðafjárskýrslu, skattstofn ekki réttur, erfðafjárskattur ekki lagður á rétta erfingja, erfðafjárskýrsla eða fylgigögn að öðru leyti ófullnægjandi eða skattstjóri telur frekari skýringa þörf á einhverju atriði skal hann skriflega skora á erfingja eða eftir atvikum skiptastjóra að bæta úr því innan ákveðins frests og láta í té skriflegar skýringar og þau gögn, þ.m.t. bókhald og bókhaldsgögn, sem skattstjóri telur þörf á að fá.
     8.      Við 16. gr. er verði 11. gr. Greinin orðist svo:
                  Erfingi, sem telur erfðafjárskatt eða skattstofn samkvæmt ákvæðum laga þessara eigi rétt ákveðinn, getur sent skriflega rökstudda kæru, studda nauðsynlegum gögnum, til yfirskattanefndar og fer meðferð kærunnar þá eftir ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
     9.      Við 17. gr. er verði 12. gr. Greinin orðist svo:
                  Erfingjum er skylt að láta sýslumönnum og/eða skattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra í té ókeypis og í því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þeir beiðast og unnt er að láta þeim í té.
                  Nú verður ágreiningur um skyldu erfingja skv. 1. mgr. og getur sýslumaður, ríkisskattstjóri eða skattrannsóknarstjóri ríkisins þá leitað um hann úrskurðar héraðsdóms. Gegni einhver ekki upplýsingaskyldu sinni má vísa máli til opinberrar rannsóknar.
     10.      Við 19. gr er verði 14. gr.
                  a.      3. mgr. orðist svo:
                       Erfðafjárskattur hvers erfingja skal reiknaður út miðað við verðmæti arfs á dánardegi arfleifanda en miðað við þann dag sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu ef um fyrirframgreiddan arf er að ræða eða óskipt bú sem skipt er fyrir andlát eftirlifandi maka.
                  b.      Í stað „3. og 5. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 13. gr.“ í 4. mgr. komi: 3. og 5. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 8. gr.
                  c.      Í stað „15. gr.“ í 5. mgr. komi: 10. gr.
                  d.      7. mgr. orðist svo:
                      Dráttarvextir samkvæmt lögum þessum skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
     11.      Við 21. gr. er verði 16. gr.
                  a.      Í stað „18. gr.“ í 1. mgr. komi: 13. gr.
           b.      Í stað „17. gr.“ í 4. mgr. komi: 12. gr.
     12.      Við 24. gr. er verði 19. gr. Greinin orðist svo:
                  Ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og reglugerðir settar samkvæmt þeim skulu gilda eftir því sem við á við beitingu laga þessara, þar á meðal ef vafi leikur á hvernig meta skuli verðmæti eigna.
     13.      Við 26. gr. er verði 21. gr. Greinin orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2004 og taka til skipta á dánarbúum þeirra sem andast þann dag eða síðar. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum. Lögin taka einnig til búskipta þeirra er hafa heimild til setu í óskiptu búi fari þau fram eftir gildistöku laganna.