Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 451. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1260  —  451. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um rannsókn flugslysa.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór S. Kristjánsson og Unni Gunnarsdóttur frá samgönguráðuneyti og í fylgd þeirra var Andri Árnason hrl. Að auki komu á fund nefndarinnar Bogi Nilsson ríkissaksóknari, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri og Ástríður S. Thorsteinsson frá Flugmálastjórn, Þormóður Þormóðsson, Páll Valdimarsson og Kristján Guðjónsson frá rannsóknarnefnd flugslysa, Kjartan Norðdahl, Leifur Árnason og Ólafur Árnason frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og Hlín Hólm, Ottó Eiríksson og Loftur Jóhannsson frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra.
    Eins og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu þá felur það í sér heildarendurskoðun á löggjöf um rannsóknir flugslysa. Frumvarp sama efnis var lagt fram á 128. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga enda varð samgöngunefnd þá vör við mikla andstöðu við ýmis ákvæði þess frumvarps. Samgönguráðherra skipaði starfshóp 2. maí 2003 sem í voru Andri Árnason hrl., formaður, Hilmar B. Baldursson, f.h. Flugráðs, Loftur Jóhannsson, f.h. Félags íslenskra flugumferðarstjóra, Þormóður Þormóðsson, f.h. rannsóknarnefndar flugslysa, og Kjartan Norðdahl, f.h. Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Starfshópurinn yfirfór eldra frumvarpið og lagði fyrir ráðherra tillgögur til breytinga sem virðast hafa tekið nokkurt mið af þeim athugasemdum sem bárust samgöngunefnd vegna eldra frumvarpsins auk þess sem hópurinn leit til þróunar alþjóðareglna á þessu sviði. Það er mat nefndarinnar að vel hafi tekist til við breytingar á frumvarpinu og í athugasemdum sem nefndinni bárust vegna málsins kemur skýrlega fram að mun meiri sátt er um þetta frumvarp en það sem lagt var fram á 128. löggjafarþingi.
     Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að orðalagi 1. mgr. 2. gr. verði breytt til að auka skýrleika ákvæðisins sem mælir fyrir um hvert skuli vera markmið flugslysarannsóknar.
     2.      Lagt er til að fyrri málsliður 4. mgr. 3. gr. falli brott enda telur nefndin rétt að aðsetur rannsóknarnefndar flugslysa geti ráðist af aðstæðum og að ekki þurfi að ákveða það í lögum.
     3.      Lagt er til að orðalagi 2. mgr. 6. gr. verði breytt þannig að skýrt sé að forstöðumaður og aðstoðarforstöðumaður flugslysarannsóknarnefndar skuli hafa sérmenntun auk starfsreynslu á sviði flugmála og/eða flugslysarannsókna. Nefndin telur að orðið „flugmála“ geti haft nokkuð víðtæka merkingu og þannig náð til hinna ýmsu þátta í flugi, svo sem flugstjórnar, flugumferðarstjórnar, verkfræði, flugréttar o.fl.
     4.      Lagt er til breytt orðalag í 8. gr.
     5.      Lagt er til að í stað orðsins „tafarlaust“ í fyrri málslið 1. mgr. 11. gr. komi „án ástæðulausrar tafar“ þar sem nefndin telur það orðalag ná betur yfir þá skyldu sem verið er að leggja á fólk. Þá er lagt til að vaktstöð samkvæmt lögum nr. 25/1995, um samræmda neyðarsímsvörun, verði bætt við þá aðila sem hafa sérstakar skyldur samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 11. gr. þar sem ljóst er að einstaklingar sem ekki tengjast flugi náið muni ekki hringja beint í rannsóknarnefnd flugslysa heldur miklu fremur í neyðarnúmerið 112 og tilkynna flugslys sem þeir verða vitni að og uppfylla þannig skyldu sína skv. 1. mgr.
     6.      Lagt er til að í stað orðsins „slyssins“ í síðari málslið 1. mgr. 17. gr. komi „flugslyssins“ sem er það yfirhugtak sem notað er annars staðar í frumvarpinu.
     7.      Smávægileg orðalagsbreyting er lögð til við fyrri málslið 2. mgr. 19. gr.
     8.      Lagt er til að gildistöku verði frestað til 1. september 2004.
     9.      Loks er lagt til að 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins falli brott.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ásta R. Jóhannesdóttir, Jóhann Ársælsson, Einar Már Sigurðarson og Guðjón A. Kristjánsson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.
    Þuríður Backman sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu en þó með fyrirvara hvað varðar skipan rannsóknarnefndar flugslysa.

Alþingi, 25. mars 2004.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Guðjón Hjörleifsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Birkir J. Jónsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.



Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Einar Már Sigurðarson,


með fyrirvara.


Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.