Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 576. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1264  —  576. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um vatnsveitur sveitarfélaga.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason frá félagsmálaráðuneyti, Halldór Hróar Sigurðsson endurskoðanda, Þórð Skúlason og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Jens Antonsson og Pál H. Hannesson frá BSRB auk fulltrúa Samorku sem voru þeir Eiríkur Bogason framkvæmdastjóri, Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri Vatnsveitu Hafnarfjarðar, og Hjörleifur B. Kvaran hrl. frá Orkuveitu Reykjavíkur. Þá barst nefndinni nokkur fjöldi umsagna sem hún studdist við í athugun sinni á málinu.
    Frumvarpið byggist á frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Megintilgangur þess er að auka sveigjanleika í stjórn og rekstri vatnsveitna.
    Eins og frumvarpið er nú lagt fyrir Alþingi hefur verið tekið tillit til ýmissa athugasemda sem komu fram við meðferð málsins hjá félagsmálanefnd á 128. löggjafarþingi, m.a. er það nú lagt fram sem frumvarp til nýrra heildarlaga um vatnsveitur sveitarfélaga og ákvæði gerð skýrari. Það kemur fram í mati á áhrifum frumvarpsins að ekki verði séð að frumvarpið feli í sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélög en skapi frekar möguleika á að hagræða í rekstri vatnsveitna. Verður þetta að teljast kostur fyrir sveitarstjórnir og íbúa sveitarfélaga. Þá er stofn til útreiknings vatnsgjalds tengdur fasteignamati eignar í stað álagningarstofns sem ætti að gera alla framkvæmd einfaldari og skýrari gagnvart vatnsnotendum.
    Í nefndinni voru ákvæði 4. gr., sem mæla fyrir um heimild sveitarfélags til ráðstöfunar á einkarétti sveitarfélags, og 10. gr., um gjaldskrá vatnsveitu, mikið rædd. Nefndin telur að í 4. gr. sé réttur sveitarfélaga, sem leggja stofnveitur inn í stofnun eða félag með öðrum aðilum, nægilega tryggður með skýru ákvæði um innlausnarrétt þeirra sem ganga út úr slíku samstarfi. Hvað varðar 10. gr. var m.a. ræddur sá möguleiki að við greinina bættist ákvæði sem heimilaði sveitarfélögum að áskilja sér sérstaklega ákveðinn arð af rekstri vatnsveitna. Niðurstaða nefndarinnar var aftur sú að mæla með að ákvæði 10. gr. stæði óbreytt. Þannig munu sveitarstjórnir geta krafist arðs af vatnsveitum sem eru í þeirra eigu á grundvelli almennrar heimildar í 5. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, þar sem segir að sveitarfélög skuli setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og þeim sé heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið sé í rekstri þeirra.     Jóhanna Sigurðardóttir, Valdimar L. Friðriksson og Helgi Hjörvar, auk Guðjóns Hjörleifssonar, skrifa undir álitið með fyrirvara hvað varðar efni 4. gr. frumvarpsins. Gunnar Örlygsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 25. mars 2004.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Hjörleifsson,


með fyrirvara.

Birkir J. Jónsson.



Ásta Möller.


Pétur H. Blöndal.


Helgi Hjörvar,


með fyrirvara.



Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Valdimar L. Friðriksson,


með fyrirvara.