Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 204. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1286  —  204. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um vátryggingarsamninga.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Kjartan Gunnarsson og Þóru Margréti Hjaltested frá viðskiptaráðuneyti og Sigmar Ármannsson og Gunnar Felixson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga.
    Með frumvarpinu er gerð tillaga um ný lög um vátryggingarsamninga sem felur í sér allnokkrar breytingar frá núgildandi lögum um vátryggingasamninga, nr. 20/1954, hvað varðar uppbyggingu og áherslur. Framlagning frumvarpsins á sér nokkurn aðdraganda og telur nefndin ljóst að reynt hafi verið að vanda til allrar vinnu bæði við einstakar greinar þess og eins athugasemdir sem eru mjög ítarlegar. Ráðherra skipaði nefnd sérfræðinga til að vinna að frumvarpinu og samráð var haft við fjölda aðila á ýmsum stigum málsins auk þess sem drög að frumvarpinu voru gerð aðgengileg almenningi á heimasíðu ráðuneytisins. Frumvarpið var lagt fram á 128. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu þá.
    Segja má að aðaleinkenni frumvarpsins sé aukin neytendavernd sem kemur m.a. fram í aukinni upplýsingaskyldu vátryggingafélaga. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að samningsfrelsi vátryggingafélaga og vátryggingartaka verði skert þar sem ákvæði frumvarpsins eru að meginreglu til ófrávíkjanleg.
    Ákvæðum frumvarpsins er skipt í tvo meginkafla. Sá fyrri fjallar um skaðatryggingar og sá síðari um persónutryggingar en kaflarnir samsvara hvor öðrum. Að auki eru tveir smærri kaflar í lokin þar sem finna má almenn ákvæði og ákvæði sem mæla fyrir um gildistöku og breytingar á öðrum lögum. Nefndin telur þessa uppbyggingu góða og líklega til að gera lög um vátryggingarsamninga aðgengilegri almenningi en núgildandi lög. Að teknu tilliti til þess hve mikilvægt það er að lög á þessu sviði séu skýr styður nefndin að sú leið hafi verið valin að semja frumvarp til nýrra heildarlaga fremur en að leggja fram tillögu um verulega viðbót og breytingu á núgildandi lögum. Uppbygging frumvarpsins er að norskri fyrirmynd og getur þarlend réttarframkvæmd síðustu ára ef til vill nýst að einhverju marki við lögskýringu á meðan ákvæði frumvarpsins festast í framkvæmd hér á landi verði það að lögum.
    Við meðferð málsins reyndi nefndin að afla upplýsinga um hvaða áhrif samþykkt fyrirmyndarinnar í Noregi hafi haft á tryggingarkostnað þar. Staðfestar upplýsingar um þetta liggja ekki fyrir en svo virðist sem lagabreytingarnar í Noregi hafi haft mjög takmörkuð áhrif á verð trygginga þar, í það minnsta gátu þarlend neytendasamtök ekki staðfest verulega hækkun vegna þeirra. Það verður því að teljast ólíklegt að ákvæði frumvarpsins, verði það að lögum, muni hækka tryggingaverð svo að nokkru nemi til langs tíma litið. Tryggingafélög munu hafa einhvern kostnað af endurgerð skilmála og aðlögun að nýjum reglum. Á móti kemur að tryggingafélög sinna nú flestum skyldum sem lagðar eru á þau með frumvarpinu auk þess sem þar er reynt að gera allar reglur skýrari en nú og ætti það að fækka dómsmálum.
    Nefndin ræddi nokkuð notkun orðsins „afhenda“ í frumvarpinu og hvort með því væru lagðar of miklar skyldur á tryggingafélög varðandi afhendingu upplýsinga til viðskiptavina og möguleg þróun rafrænna viðskipta á þessu sviði jafnvel takmörkuð. Í þessu tilliti ræddi nefndin m.a. þann möguleika að leggja til breytingar þannig að notað yrði annað orð eða hugtak sem mætti telja opnara, t.d. „að láta í té“. Niðurstaða nefndarinnar var þó sú að leggja ekki til breytingar á þessu. Nefndin telur koma skýrt fram í athugasemdum með frumvarpinu að alls ekki sé ætlast til þess að orðið sé skilið bókstaflega þannig að afhending skilmála, skírteinis, breytinga á þessu tvennu o.fl. þurfi að fara fram hönd í hönd heldur geti tryggingafélög í flestum tilvikum uppfyllt skyldur sínar um afhendingu á rafrænan eða annan sannanlegan en hagkvæman hátt.
    Við meðferð frumvarpsins bárust nefndinni ítarlegar umsagnir fjölda aðila sem nefndin hefur tekið tillit til að nokkru leyti.
    Helstu breytingar sem nefndin leggur til eru eftirfarandi:
     1.      Í a-lið 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins er heimiluð undantekning frá ófrávíkjanleika ákvæða fyrsta hluta frumvarpsins þegar vátrygging er tekin vegna atvinnurekstrar og rekstraraðilinn hefur fleiri en tíu ársverk auk hærri heildarveltu en 500.000.000 kr. samkvæmt ársreikningi eða ef niðurstöðutala efnahagsreiknings nær 200.000.000 kr. samkvæmt ársreikningi. Mælir nefndin með að þessu verði breytt þannig að aðeins verði miðað við að rekstraraðili hafi fleiri en fimm ársverk og undanþága verði óháð niðurstöðum á ársreikningi.
     2.      Lagt er til að upplýsingaskylda vátryggingafélaga skv. 6. gr. verði takmörkuð þannig að upplýsingaskylda skv. 1. mgr. vakni aðeins ef samningur á að grundvallast á annarri löggjöf en þeirri íslensku.
     3.      Lagðar eru til breytingar á 2. mgr. 10. gr. sem miða að því að tryggja að vátryggingarskírteini verði stutt og skýrt og þar komi fyrst og fremst fram grundvallaratriði, árétting á ákveðnum þáttum skilmála auk ákvæða vátryggingarsamnings sem ekki koma fram í skilmálum. Samsvarandi breyting er lögð til á 70. gr. frumvarpsins. Þá er lagt til að 3. mgr. greinarinnar falli brott.
     4.      Lagt er til að 2. mgr. 11. gr. falli brott og tengist það breytingum sem lagðar eru til á 10. gr.
     5.      Lagðar eru til breytingar á 19. gr. sem fyrst og fremst miða að því að tryggja að gætt sé góðra viðskiptahátta og ekki gengið lengra en nauðsynlegt er við öflun upplýsinga um líf og heilsu vátryggingartaka og vátryggðs. Samsvarandi breyting er lögð til á 82. gr.
     6.      Lagt er til að síðari málsliður 1. mgr. 27. gr. falli brott þar sem ekki er hægt að fallast á efni hans og honum ofaukið þar sem hann stendur nú.
     7.      Lagt er til að „skipum“ verði bætt við upptalningu í a-lið 2. mgr. 29. gr. til að takmarka vafa sem upp gæti komið við lestur greinarinnar.
     8.      Lagt er til að nýrri málsgrein verði bætt við 32. gr. sem tekur sérstaklega á hver greiðslufrestur skuli vera ef vátrygging er tekin með einhliða yfirlýsingu sem t.d. er velþekkt við ökutækjatryggingar.
     9.      Lagt er til að orðalagi 3. mgr. 44. gr. verði breytt og þar lögfest sérregla um samlagsaðild í dómsmálum á þessu sviði þannig að það varði frávísun ef tjónþoli virðir að vettugi kröfu vátryggingafélags um að hann beini máli einnig að vátryggðum.
     10.      Lagt er til að á eftir orðinu „vátryggingarskírteini“ í 1. mgr. 56. gr. komi „eða staðfest afrit þess“ og þannig gert skýrt að þegar um hópvátryggingu er að ræða þurfi ekki allir í hinum tryggða hópi að fá eiginlegt skírteini í hendur heldur dugi að gefa út eitt skírteini sem aðilar hópsins fá svo afrit af. Að teknu tilliti til hvaða rétt afrit getur veitt þeim sem það hefur í höndum telur nefndin þó rétt að áskilið sé að afrit skuli vera staðfest og geta þá samningsaðilar samið um hvernig það skuli gert og hver geti staðfest afrit.
     11.      Lögð er til orðalagsbreyting á 3. mgr. 61. gr. svo að skýrt sé um hvers konar vátryggingu sé að ræða.
     12.      Breytingar sem lagðar eru til á 70. gr. samsvara þeim sem lagðar eru til á 10. gr. eins og áður segir.
     13.      Lagt er til að sá frestur sem mælt er fyrir um í síðari málslið 2. mgr. 80. gr. verði styttur úr sex mánuðum í fjóra mánuði enda verður sá tími að teljast nægilegur fyrir vátryggingartaka og fá rök fyrir því að halda félagi í óvissu í lengri tíma.
     14.      Lagðar eru til breytingar á 82. gr. sem samsvara þeim breytingum sem lagðar eru til á 19. gr. og miða að því að skerpa reglur greinarinnar.
     15.      Lagt er til að nýr stafliður bætist við 86. gr. sem heimilar félagi að gera fyrirvara við tjónsatvik sem rekja mætti til ástands sem vátryggingartaki mátti vita um þegar samningur var gerður.
     16.      Lagt er til að orðalagi 97. gr. verði breytt þannig að skýrt verði að ákvæðið taki aðeins til hreinna áhættulíftrygginga en ekki til sjúkdómatrygginga.
     17.      Lagt er til að orðinu „vátryggðs“ verði bætt inn í upptalningu 3. málsl. 2. mgr. 112. gr. og félagi þannig gert að tilkynna honum auk vátryggingartaka og eiganda réttinda um skráningu líftryggingar. Telur nefndin þetta geta takmarkað möguleika á misnotkun og svindli við kaup á líftryggingum.
     18.      Lögð er til ítarlegri upptalning trygginga í 1. mgr. 124. gr. til að gera greinina skýrari.
     19.      Lagt er til að orðalagi lokamálsliðar 1. mgr. 125. gr. verði breytt til samræmis við breytingartillögur við 124. gr.
     20.      Lagt er til breytt orðalag 129. gr. sem samsvarar breytingum sem lagðar eru til á 1. mgr. 56. gr.
     21.      Loks er lagt til að breytt verði gildistökuákvæði frumvarpsins og gildistöku frestað til 1. janúar 2006.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið. Fyrirvari þeirra lýtur að takmörkunum á upplýsingagjöf og þá fyrst og fremst 82. gr. frumvarpsins.
    Gunnar Örlygsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu að öðru leyti en því að hann tekur undir þann fyrirvara sem Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson gera.
    Gunnar Birgisson, Dagný Jónsdóttir og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. mars 2004.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Birgir Ármannsson.



Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


með fyrirvara.