Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 402. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1288  —  402. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um aðild starfsmanna að Evrópufélögum.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason frá félagsmálaráðuneyti.
    Við yfirferð nefndarinnar á frumvarpinu kom fram að við gerð þess hefði verið haft samráð við félög á vinnumarkaði og að sátt hefði náðst um efni þess á milli aðila. Þessa sátt telur nefndin endurspeglast í umsögnum sem bárust henni um frumvarpið.
    Frumvarpið tengist náið 203. máli, um Evrópufélög, sem verið hefur til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd á þessu löggjafarþingi og mælir fyrir um heimild félaga til að vera rekin í formi Evrópufélaga. Því telur nefndin mikilvægt að þessi tvö mál fylgist að í umræðum á þinginu enda marklítið að það samþykki annað þeirra en ekki hitt.
    Megintilgangur frumvarpsins er að tryggja rétt starfsmanna félaga, sem kunna að verða rekin í Evrópufélagsforminu, til þátttöku í stjórn slíkra félaga.
    Frumvarpið er lagt fram til innleiðingar á tilskipun ráðsins 2001/86/EB frá 8. október 2001, um viðbætur við stofnsamþykktir fyrir Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, sem vísað er til í lið 32e XVII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 89/2002. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að við gerð þess hefur í öllum meginatriðum verið fylgt ákvæðum tilskipunarinnar en einmitt vegna þess hvers eðlis málið er þarf að vera samræmi milli innleiðingar tilskipunarinnar í íslenskan rétt og þess hvernig tilskipunin er innleidd í rétt annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin á að taka gildi 8. október 2004 og skulu öll aðildarríkin hafa innleitt hana á þeim degi.
    Nefndin leggur til breytingar á frumvarpinu sem allar snúa að því að samræma orðalag frumvarpsins að frátalinni tillögu um breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins í 26. gr. Nefndin leggur til að því ákvæði verði skipt þannig að mælt verði fyrir um innleiðingu tilskipunarinnar í sérákvæði og gildistöku frumvarpsins seinkað til 8. október 2004 til samræmis við gildistökuákvæði í frumvarpi til laga um Evrópufélög.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.     Steingrímur J. Sigfússon sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 30. mars 2004.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Ásta Möller.


Guðjón Hjörleifsson.



Birkir J. Jónsson.


Pétur H. Blöndal.


Valdimar L. Friðriksson.



Jóhanna Sigurðardóttir.


Helgi Hjörvar.


Gunnar Örlygsson.