Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 162. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1383  —  162. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar eftir að því hafði verið vísað til 3. umræðu. Eins og fram kom í nefndaráliti nefndarinnar um málið barst fjöldi athugasemda við málið og lagði nefndin mikla vinnu í að fara yfir þær. Nefndin taldi rétt að taka afstöðu á ný til nokkurra atriða og hefur að því loknu ákveðið að leggja til frekari breytingar á málinu.
    Nefndin lagði til þá breytingu á 16. gr. í þskj. 1076 að felld yrði brott tillaga frumvarpsins um að í stað ábyrgðartryggingar verði þeim sem undir ákvæðið falla heimilt að leggja fram aðrar tryggingar sem Umhverfisstofnun metur fullnægjandi. Við fyrri umfjöllun nefndarinnar leitaði hún upplýsinga um hvaða aðrar tryggingar gætu fallið þarna undir en fékk ekki nægilega skýr svör. Nú hafa nefndinni borist þær upplýsingar að í sambærilegri atvinnustarfsemi erlendis hefur tíðkast að fyrirtæki hafi sameinast um að koma á fót svokölluðum bótasjóðum sem er ætlað það hlutverk að greiða tjón sem verða vegna starfsemi einstakra fyrirtækja eða atvinnugreina. Nefndin telur rétt að aðilum hér á landi sé gert kleift að velja aðra leið en að taka ábyrgðartryggingu telji þeir það henta betur. Leggur nefndin til að það verði hlutverk Umhverfisstofnunar að meta hvort sú trygging sem viðkomandi aðili leggur fram sé fullnægjandi auk þess sem sett verði frekari ákvæði um það í reglugerð hvaða aðrar tryggingar verði metnar gildar.
    Þá kom til umfjöllunar 3. mgr. 7. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um móttöku á olíublandaðri kjölfestu og öðrum úrgangi sem er eftir í skipinu þegar það kemur til hleðslustöðva fyrir olíuflutningaskip eða skipaviðgerðarstöðva. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi lögum. Hins vegar er lögð til skilgreining á hleðslustöð í 3. gr. frumvarpsins. Það er mat nefndarinnar að óþarfi sé að skilgreina hana sérstaklega og er lagt til að skilgreiningin verði felld brott. Við umfjöllun málsins komu fram ítrekaðar ábendingar um að skilgreiningin væri það víðtæk að hægt væri að skilja hana þannig að gera þyrfti breytingar á aðstöðu í öllum hleðslustöðvum á landinu þótt ekki væri ætlunin að losa þar olíublandaða kjölfestu eða annan olíuúrgang. Í gildandi reglugerð, nr. 715/1995, hefur verið kveðið nánar á um kröfur til móttökustöðva í höfnum og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sami háttur verði hafður á. Leggur nefndin áherslu á að ákvæða alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, þar á meðal MARPOL, verði gætt við framkvæmd laganna.
    Einnig var rætt um hvernig bregðast ætti við því þegar stór skip stranda hér við land og hvort ástæða væri til að setja ákvæði í frumvarpið sem heimili að gripið verði til aðgerða eins og að dæla úr þeim olíu eða öðrum farmi ef það mætti verða til þess að þau losni af strandstað. Miklir hagsmunir geta verið í húfi og telur nefndin að slíkar aðstæður geti verið fyrir hendi að heimila megi losun í sjó. Það skal þó aðeins gert að vel athuguðu máli og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og ef við á viðkomandi heilbrigðisnefndar. Leggur nefndin því til að heimilt verði að veita undanþágu frá ákvæði 8. gr. um losun í sjó en leggur jafnframt mikla áherslu á að þessu ákvæði verði beitt með ýtrustu varúð og aðeins í algerum neyðartilvikum. Jafnframt leggur nefndin til að ráðherra geti bundið heimildina skilyrðum, t.d. um að olía sem heimilað er að losa í sjóinn sé hreinsuð eða að gripið verði til annarra nauðsynlegra aðgerða til mótvægis.
    Að síðustu leggur nefndin til að fylgiskjölum I og II verði breytt í viðauka I og II.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 6. apríl 2004.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Bryndís Hlöðversdóttir.



Kolbrún Halldórsdóttir.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Gunnar Birgisson.



Mörður Árnason.


Kjartan Ólafsson.