Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 819. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1457  —  819. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 53/2002, um Tækniháskóla Íslands.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason og Hellen M. Gunnarsdóttur frá menntamálaráðuneyti, Stefaníu Katrínu Karlsdóttur frá Tækniháskóla Íslands, Pál Skúlason og Þórð Kristinsson frá Háskóla Íslands, Ólaf Proppé frá Kennaraháskóla Íslands og Ólaf Búa Gunnlaugsson frá Háskólanum á Akureyri. Umsögn barst um málið frá Tækniháskóla Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að háskólanum verði heimilað að ráða fólk til tiltekinna starfa án auglýsingar og að heimilt verði að ráða kennara til háskólans tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára. Hér er um að ræða undantekningu frá ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um að tímabundin ráðning megi ekki vera til lengri tíma en tveggja ára. Nefndin leggur áherslu á að þessari heimild verði beitt þröngt, en undir hana getur m.a. fallið starf háskólakennara eða sérfræðings sem byggist á rannsóknarstyrkjum, störf nemenda sem eru í rannsóknartengdu framhaldsnámi, starf vísindamanns sem byggist á sérstökum tímabundnum styrk til rannsókna hans sjálfs sem styrkþega, samvinnuverkefni háskólamanns og annars aðila um sérstakar tímabundnar rannsóknir og sérstök tímabundin kennarastörf sem eru kostuð af utanaðkomandi aðilum.
    Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að ráða megi kennara við háskólann í hlutastarf og tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólans, en slíkar heimildir er nú að finna í lögum um Háskóla Íslands og eðlilegt þykir að ríkisháskólarnir hafi allir sömu stöðu hvað þetta varðar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Hjálmar Árnason, Mörður Árnason og Sigurður Kári Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. apríl 2004.



Gunnar Birgisson,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Björgvin G. Sigurðsson.



Dagný Jónsdóttir.


Valdimar L. Friðriksson.


Kolbrún Halldórsdóttir.