Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 736. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1458  —  736. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins.
    Frumvarpið er lagt fram vegna fyrirhugaðrar stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins 1. maí 2004. Hin nýju ríki sem bætast við hópinn samkvæmt aðildarsamningi EES, sbr. lög nr. 8/2004, um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum, eru: Eistland, Lettland, Litháen, Kýpur, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland. Samkvæmt samningnum gerast þessi tíu ríki aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til viðbótar þeim sem fyrir eru.
    Í frumvarpinu er lagt til að beitt verði aðlögunarheimildum aðildarsamnings EES þannig að ákvæði 1.–6. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1612/68, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, ásamt síðari breytingum, taki ekki gildi um atvinnu- og búseturétt ríkisborgara hinna nýju ríkja að undanskildum Möltu og Kýpur, fyrr en 1. maí 2006. Það leiðir af frestun á gildistöku framangreindra reglugerðarákvæða að ákvæði a-liðar 14. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, taka ekki gildi fyrr en 1. maí 2006 að því er varðar ríkisborgara ríkjanna átta.
    Frumvarpið tengist náið 749. máli, frumvarpi til laga um breyting á lögum um útlendinga, sem verið hefur til meðferðar hjá allsherjarnefnd á þessu löggjafarþingi og mælir m.a. fyrir um að sett verði samsvarandi frestunarákvæði í lög nr. 96/2002, um útlendinga, hvað varðar dvalarleyfi. Nefndin telur æskilegt að þessi tvö mál fylgist að í umræðum á þinginu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Valdimar L. Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 19. apríl 2004.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


varaform., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Pétur H. Blöndal.



Birkir J. Jónsson.


Gunnar Örlygsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.



Helgi Hjörvar.


Jóhanna Sigurðardóttir.