Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 816. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1475  —  816. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, með síðari breytingum.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og farið yfir skriflegar umsagnir sem henni bárust.
    Efni frumvarpsins einskorðast við hækkun hámarksbóta atvinnuleysistrygginga sem kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997. Lagt er til að fjárhæð hámarksbóta í lagaákvæðinu verði hækkuð úr 2.752 kr. í 4.096 kr. á dag. Hámarksbótum atvinnuleysistrygginga hefur nokkrum sinnum verið breytt frá því sem segir í núgildandi ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna með auglýsingu félagsmálaráðherra og hafa frá 1. janúar 2004 verið 3.681 kr. Hækkun hámarksbóta er því 11,3%.
    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við kjarasamning Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins við Samtök atvinnulífsins, sem undirritaður var 7. mars sl., en þá lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún mundi beita sér fyrir þeirri hækkun atvinnuleysisbóta sem frumvarpið kveður á um.
    Í 2. málsl. 2. gr. frumvarpsins segir að atvinnuleysisbætur skuli greiddar í samræmi við efni frumvarpsins frá og með 1. mars 2004 þó svo að frumvarpið hafi ekki verið lagt fram fyrr en eftir þann dag. Hækkunin nær því til hvers atvinnuleysisdags frá og með 1. mars 2004 en bætur vegna atvinnuleysisdaga fyrir 1. mars 2004 standa óbreyttar. Nefndin felst á þessa afturvirku hækkun bótanna þar sem hún ívilnar bótaþegum og er í samræmi við fyrrgreinda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í frumvarpinu er ekki mælt fyrir um greiðslu vaxta eða verðbóta á þá hækkun atvinnuleysisbóta sem greidd verður út eftir á vegna atvinnuleysisdaga frá 1. mars 2004 og til gildistöku laganna verði frumvarpið samþykkt sem lög og kemur hækkunin því til útborgunar án slíkra greiðslna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Helgi Hjörvar og Gunnar Örlygsson undirrita álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.
    Auk hækkunar hámarksbóta sem kveðið er á um í frumvarpinu leggja þau ásamt Ögmundi Jónassyni og Valdimar L. Friðrikssyni til að greidd verði desemberuppbót á atvinnuleysisbætur.
    Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara um framangreinda breytingartillögu.
    Valdimar L. Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. apríl 2004.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


varaform., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.



Pétur H. Blöndal.


Birkir J. Jónsson.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.



Helgi Hjörvar,


með fyrirvara.


Gunnar Örlygsson,


með fyrirvara.